Nýlokið er þingi Samiðnar sem nú var haldið á Akureyri. Um 120 þingfulltrúar sóttu þingið frá öllum félögum og deildum innan Samiðnar að einu félagi undanskildu. Mikil samstaða var á þinginu um öll þau málefni sem þar voru rædd. Ég læt nægja að benda á heimasíðu Samiðnar og umfjöllun hér í blaðinu til að kynna sér þingmálin og þær ályktanir sem samþykktar voru á þinginu. Eina tillögu vil ég þó gera að umtalsefni. Þingið samþykkti að skoða áfram hvernig við ættum að haga starfi Samiðnar og aðildarfélaganna til að þjóna félagsmanninum sem best. Það kom augljóslega fram í umræðum um starfshætti okkar að verkefni stéttarfélaga hafa verið að breytast á undanförnum árum. Þau mál sem helst brenna á félagsmanninum eru þess eðlis að einstök félög ráða ekki við þau. Þar má nefna uppbyggingu náms iðnaðarmanna, fagréttindi og stöðu okkar á vinnumarkaðnum í gjörbreyttu umhverfi. Vörn fyrir félagsleg réttindi og ýmis þjónusta við félagsmenn eru einnig orðin það sérhæfð að einstök félög eiga erfitt með að fylgja eftir þeim kröfum sem félagsmenn gera til stéttarsamtaka sinna. Hér tel ég að okkur forystumönnum aðildarfélaga Samiðnar beri að setjast niður og skoða þjónustuna sem við erum að bjóða, hvað hún kostar og hvernig við sinnum henni best. Við getum ekki látið ímynduð landamæri félagsaðildar, vinnusvæðis eða starfsgreinar skorða þá skoðun á nokkurn hátt. Við eigum líka að athuga samvinnu við önnur iðnaðarmannasamtök innan ASÍ. Markmið okkar á að vera að hafa skipulag vinnunnar þannig að við framkvæmum sem mest á sem minnstum tíma. Þannig komumst við yfir þau verk sem okkur er ætlað að vinna fyrir félagsmanninn.