Mannfyrirlitning, skipulagsleysi í vinnu, ólestur í öryggismálum, slæmur aðbúnaður starfsmanna, lágt kaup, langur vinnudagur og litlir möguleikar
á hvíld.
Þetta er reynsla Árna Eðvaldssonar smiðs af ítalska verktakafyrirtækinu Impregilo eftir sjö mánaða vinnu á virkjunarsvæðinu við Kárahnjúka. Eitt af því sem hann varð áskynja er að raunverulega eru það eftirlitsmenn frá Landsvirkjun sem stjórna framkvæmdum, vegna þess skipulagsleysisins sem ríkir hjá Impregilo.
Árni byrjaði að vinna hjá ítalska fyrirtækinu í febrúar og hætti í byrjun september, að læknisráði.
– Ég hafði áhuga á þessum framkvæmdum og langaði til að vinna við þetta stórkostlega mannvirki, ætlaði alltaf að fara þangað og vonaði að eitthvert íslenskt verktakafyrirtæki fengi þetta. Núna ber ég blendnar tilfinningar til þessarar stærstu framkvæmdar Íslandssögunnar, segir Árni í samtali við Samiðnarblaðið.
Árni byrjaði á að kynna sér Impregilo á netinu og sú athugun sýndi aðeins að þetta væri fyrirtæki með mikil umsvif og hefði aðallega starfað í þriðja heiminum, meðal annars í Mongólíu, Kína, Lesótó og Suður-Afríku.
Þriðjaheimsbragur
– Það má eiginlega segja að reynslan þarna uppfrá beri merki um þetta, einnig hvað það hefur gengið illa að fá Íslendinga til starfa þar. Ég hafði heyrt að menn hefðu sótt þarna um en ekki verið svarað, og kannski er það skýringin. Samt sótti ég um og þurfti að ganga eftir svari, hringdi oft og spurði hvað menn væru eiginlega að pæla! Svo var skyndilega hringt í mig og ég boðaður til vinnu.
Þegar Árni kom austur að Kárahnjúkum var honum sagt að að einn taxti væri í boði, 970 krónur á tímann, en hægt að fá yfirborgun – hundrað krónur á tímalaunin! Við þessi tímalaun átti að bætast 30 prósenta yfirvinnuálag, en unnið er á tvískiptum vöktum allan sólarhringinn. Með vaktaálaginu fór tímakaupið því upp í um 1400 krónur. Seinna var gerður nýr samningur og samþykktur taxti fyrir iðnaðarmenn með sérstaklega mikla reynslu, þannig að tímakaupið fór í 1040 krónur. En yfirborgunin hækkaði ekki. Áður en Árni fór austur hafði hann verið í uppmælingu og tímalaunin verið á bilinu tvö til þrjú þúsund krónur.
Árni var samferða austur tveimur pólskum smiðum sem höfðu unnið um skeið hér á landi. Þegar þeir komu á staðinn vantaði ekki að þeir kæmust strax á launaskrá. En samt sem áður gátu þeir ekki byrjað að vinna.
– Það er einhver lenska þarna að þegar menn mæta þarf að bíða í marga daga inni á kontór áður en einhver kemur til að setja mann inn í verkefni. Skilvirknin er ekki meiri en þetta! Loksins kom ungur ítalskur verkfræðingur og ég fór með honum niður á lager. Mér hafði verið sagt að ég þyrfti ekki að hafa með mér verkfæri en það eina sem ég fékk var hamar, lélegur hamar af ódýrustu gerð. En ég hafði verið svo forsjáll að taka með mér eitthvað af verkfærum, svuntuna mína, málband, blýant, dúkahníf og slíkt, og spurði hvort ég mætti ekki nota það. En hann sagði nei. Ef ég slasaði mig á verkfærum sem fyrirækið ætti ekki fengi ég engar bætur!
Árni og Pólverjarnir voru settir í hóp Portúgala sem vann við að slá upp steypumótum fyrir lokumannvirki í hjáveitugöngunum. Þetta var um 20 manna hópur og starfið tiltölulega einfalt. En þeir sáu brátt að þrátt fyrir allan þennan mannskap hafði verkið gengið heldur brösulega í marga mánuði og áttuðu sig fljótt á því hvers vegna.
Einn vondur hamar
– Vinnuaðferðirnar voru allt öðruvísi en maður hafði búist við og var vanur. Þeir voru nánast verkfæralausir; enginn var með málband, nema kannski einn maður, enginn með blýant, enginn með dúkahníf, þarna var engin hjólsög, bara ein ónýt handsög sem vantaði í flestar tennurnar. Það var enginn með neitt nema hamarinn.
Samt reis eitthvað þarna, en með óskaplegum æfingum. Ég hugsa að ef þetta hefði verið íslenskur verktaki hefðu verið þarna svona fimm smiðir og kannski þrír handlangarar. Maður rak sig fljótlega á að í fljótu bragði virtust allir vera að gera eitthvað, en í rauninni var enginn að gera neitt. En þegar yfirmaður kom á svæðið þóttust menn vera að vinna, negla í spýtu, draga út nagla. Viðkvæðið var „pretend to be working“ – þykjast vera að vinna! Sannleikurinn er sá að það ríkir slík óstjórn þarna að oft var raunverulega ekkert að gera, segir Árni.
Sami ólesturinn er á öryggismálunum og Árni nefnir sem dæmi að ekkert var gert fyrr en tveir menn höfðu dottið ofan af skálum sem þeir voru að vinna við, en slösuðust sem betur fór ekki mikið. Þá var farið að rekast í að sett yrði upp fallvörn á þakbrúnirnar. En portúgalskir starfsmenn sem slasast við vinnu á Kárahnjúkasvæðinu eru umsvifalaust sendir heim eftir að hafa fengið aðhlynningu enda eru þeir ekki starfsmenn Impregilo heldur vinna hjá starfsmannaleigu í Portúgal. Þeir eru tryggðir þar og læknisþjónusta er sögð vera ódýrari í Portúgal en á Íslandi. En þessir menn koma sjaldast aftur, segir Árni.
Tólf tíma vinna
án hvíldar
– Þegar verið var að steypa gólf eða veggi inni í göngunum var ætlast til að menn ynnu í tólf klukkustundir án matar- eða kaffitíma. Þeir þurftu að matast undir berum himni, oft í kalsaveðri, og gerðu sér frumstæð skýli til að geta skriðið í skjól meðan þeir gleyptu í sig matinn. Enn verra var að engin hjálpartæki voru þarna til að lyfta 150 kílóa stálbótum, og fylgihlutum sem eru 40 til 90 kíló, upp í allt að fjögurra metra hæð. Þetta varð allt að gerast með handafli. Flekamótin í sjálfa stífluna eru léttari en þurfa að fara enn hærra. Þau voru hífð með bílkrana á daginn en kranamaðurinn vann ekki á nóttunni svo þá þurftu þeir að bera mótin upp stigana.
– Þá fór maður að átta sig á því að í Mongólíu eða Afríku þar sem mannskapnum er borgað miklu lægra kaup, 200 dollarar á mánuði í mesta lagi, þar hafa þeir kannski efni á að hafa fjóra, fimm menn á hvern fleka, og þá er gott að spara kranann, þá fá fleiri vinnu. En hér eru launin miklu hærri og grundvöllurinn orðinn allt annar. Ef þeir borguðu eðlileg laun væri rekstrargrundvellinum kippt undan þessu.
450 krónur á tímann
Þegar Árni fór að kanna það hjá portúgölsku vinnufélögunum hver laun þeirra væru kom í ljós að þeir voru allir á mun lægri launum en hann, þótt þeir væru kallaðir smiðir. Hann fékk að sjá launaseðla nokkurra þeirra og komst að því að flokksstjórinn, sem var þó yfirmaður og ætti að vera með hærra kaup en þeir sem hann var settur yfir, hafði 2500 evrur á mánuði, um 210 þúsund íslenskar krónur, eða um 450 krónur á tímann. Enginn hinna hafði meira en 2300 evrur.
Eftir þetta fór verkalýðshreyfingin að gera athugasemdir við að þarna væru menn sem alls ekki voru smiðir þótt þeir væru ráðnir sem slíkir, þeir hefðu enga pappíra né skilríki sem sýndu það. Eftir það var breytt um heiti á þeim og þeir kallaðir „sutter hands“, sem mönnum skildist að merkti aðstoðarsmiðir eða eitthvað í þá áttina.
– Þeir virðast skilgreina smiði einhvern veginn öðruvísi en gert er hér hjá okkur. Þessir menn kunna ekki neitt, geta ekki neitt nema undir handleiðslu. Þetta eru kallaðir smiðir en eru bara sérhæfðir byggingarverkamenn. Það er náttúrlega í góðu lagi, ef þeir eru bara kallaðir það.
Árni var eini íslenski iðnaðarmaðurinn sem vann við sjálfa framkvæmdina á Kárahnjúkasvæðinu meðan hann var þar. Tveir smiðir aðrir unnu hjá Impregilo, annar við vinnubúðirnar, hinn á verkstæðinu, og nokkrir Íslendingar unnu á vélum. Vinnuaðstæður eru heldur ekki eins og Íslendingar eiga að venjast. Vinnutíminn er frá sjö á morgnana til hálf-eitt, þrjú korter í mat, og vinnu lauk klukkan sjö framan af, en síðan var vinnutíminn styttur um klukkustund og hætt klukkan sex á kvöldin. Ekki er ætlast til að menn geri hlé á vinnu nema í matartímanum, það eru engir kaffitímar. Enda voru engir vinnuskúrar á vinnusvæðinu fyrst eftir að Árni kom þangað, ekki einu sinni aðstaða til að geyma yfirhafnir nema í einföldum skýlum, timburgrindum sem plast var neglt á og höfðu líklega verið settar upp til að steypa þar mátklossa.
Kaffiskúr og klósett í 50 metra hæð
– Mannfyrirlitningin þarna er alger. Ég mátti sem Íslendingur taka svokallað „standandi kaffi“, skjótast og fá mér tíu dropa. En Portúgalarnir máttu það ekki. Það var sagt berum orðum að þeir ætluðu ekki að koma upp kaffiskúrum því þá héngu Portúgalarnir þar inni. Þegar fór að líða á varð ég öryggistrúnaðarmaður þarna niðri í gili og fór berjast fyrir þessum aðbúnaðarmálum. Þá var komið fyrir kaffiskúr með klósetti og kaffivél uppi á bráðabirgðastíflunni sem var þarna, 50 metrum yfir botninum, og það var gerður bráðabirgðastigi úr timbri þangað upp. En engum manni datt í hug að fara þangað til að komast á klósettið! Þetta var hreinlega gert af ásettu ráði, að staðsetja þetta nógu andskoti langt í burtu og hafa það svo erfitt fyrir mannskapinn að fara þangað að enginn nennti því. Og þetta var orðið þannig að öll göng þarna voru orðin full af mannaskít, það var hvergi hægt að drepa niður fæti, segir Árni.
Í haust þegar flóð kom í ána varð að hækka stífluna, og þá var kaffiskúrinn vitanlega tekinn. Árni beitti sér fyrir því að málinu yrði kippt í liðinn og loks ætluðu Ítalirnir að setja skúrinn upp á stífluna aftur – eftir að hún hafði verið hækkuð í 70 metra! Árni sagði að það kæmi ekki til greina og lét Vinnueftirlitið og aðra sem málið varðar vita af þessu.
– Það endaði með því að ég var bara settur í að gera þetta sjálfur, sem ég gerði, lét setja upp kaffiskúr, kaffivél og tvö útiklósett, sem var allt til, og þetta tók bara hálfan dag. Svo bað ég um hita í klósettin, en það var sagt nei við því, þá færu Portúgalarnir bara að hanga þar inni og yrðu klukkutíma á klósettinu!
Ein af orsökum þess skipulagsleysis og ringulreiðar sem Árni Eðvaldsson segir að ríki á virkjunarsvæðinu við Kárahnjúka er að hans mati að Portúgalarnir sem vinna þar hafa fæstir komið nálægt vinnu sem þessari áður og yfirleitt endast þeir ekki lengur en hálft ár. Þeir sem hafi lengri starfsaldur en það séu taldir meðal „gömlu kallanna“!
Inngróin mannfyrirlitning
– Mannfyrirlitningin sem ég nefndi beinist ekki aðeins að verkafólkinu. Hún er inngróin í þetta fyrirtæki og beinist ekki síður gegn verkstjórunum, niður alla goggunar röðina. Það voru mikil skipti á yfirmönnum, þeir eru miskunnarlaust reknir, segir Árni.
Hann hafði fengið nóg eftir sjö mánuði á fjöllum og segist hafa hætt af mörgum ástæðum, ekki síst heilsufarsástæðum. Hann var farið að verkja í öll liðamót af þessum löngu stöðum, svo slæmur í bakinu að hann varð að velta sér fram úr rúminu á morgnana, og slæmur í maganum vegna þess hvað maturinn var vondur og langt á milli máltíða.
– Það var kannski ekkert að matnum annað en það hann var vondur, og öðruvísi en maður á að venjast, rétt eins og maður fær vondan mat í Englandi. Ég fór til læknis og hann sagði að ég ætti að fara að hlusta á líkamann.
Árni Eðvaldsson dreif sig því í bæinn og fékk vinnu hjá Ístaki við að byggja við flugstöð Leifs Eiríkssonar, og líkar það talsvert betur en virkjunarvinnan hjá Ítölunum þótt hann þurfi að fara daglega milli flugvallarins og Hafnarfjarðar með starfsmannarútu.
– Hérna höfum við allt til alls. Hér eru menn sem hafa unnið við þetta í áratugi og búa yfir mikilli faglegri þekkingu og reynslu. Og hér er vel búið að mannskapnum, góð kaffistofa og þrjár máltíðir á dag, í staðinn fyrir þrjár máltíðir á sólarhring eins og við Kárahnjúka, segir Árni Eðvaldsson smiður að lokum.