Samnorræn námskrá í undirbúningi í háriðn

Lilja Sæmundsdóttir varaformaður Félags hársnyrtisveina segir brýnt að taka á endurmenntunarmálum í háriðn

„Ég held að miðað við aðstæður geti hársnyrtisveinar vel við nýjan kjarasamning unað. Í fyrri samningi okkar voru tveir kauptaxtar. Okkur tókst að fella niður lægri taxtann og hækka hinn. Nú var einnig samið fyrir hársnyrtinema sem nýlega gengu til liðs við félagið,“ segir Lilja Sæmundsdóttir varaformaður Félags hársnyrtisveina í samtali við blaðið. Hún bendir einnig á að bætt hafi verið við nýju ákvæði í samninginn og snýr það að launum sveina sem þiggja laun samkvæmt prósentukerfi. Nú er búið að geirnegla hvernig launakjör þessa hóps eiga að vera,“ segir Lilja.
Lilja tók við nýlega við hlutverki varaformanns og segir ýmislegt á döfinni hjá félaginu.
„Við erum þessa dagana að vinna að því að samræma nám íslenskra hársnyrtisveina við námið í öðrum norrænum ríkjum. Hugmyndin er að í þessum löndum verði sambærileg námskrá sem gerir nemum mögulegt að stunda hluta af sínu námi hvar sem er á Norðurlöndum. Þannig geti menn jafnvel stundað nám hér og starfsþjálfun en tekið sveinspróf annars staðar, henti það þeim. Þetta kallar á vissar breytingar á okkar námskrá og í þeim erum við að vinna þessa dagana. Þessi samræming er árangur af ágætu samstarfi okkar við systurfélögin á Norðurlöndum,“ segir Lilja sem vonast til að sú samvinna eigi eftir að eflast. Lilja segir að fleiri nýmæla sé að vænta af menntamálum stéttarinnar.
„Við bindum vonir við að bókunin sem gerð var við gerð síðustu kjarasamninga um endurmenntunarmál verði til þess að koma hreyfingu á þau mál. Eins og staðan er núna er fátt um fína drætti í þeim efnum,“ segir Lilja og vísar til bókunar sem fylgir síðustu kjarasamningum Samiðnar. Þar segir að koma skuli á fót starfshópi til að meta þörfina fyrir endurmenntun starfsfólks í háriðn.
„Við vonum að þessu endurmenntunargjaldi verði komið á svo hægt verði að bjóða félagsmönnum okkar alvöru-endurmenntun. Fram að þessu höfum við þurft að búa við það ástand að eina endurmenntunin í háriðn hefur verið námskeið og sýningar sem heildsalar hafa boðið upp á. Það gefur auga leið að þetta er ekki ásættanlegt,“ segir Lilja og hefur mörg dæmi um námskeið sem brýnt væri að koma á fyrir hársnyrtisveina.
„Það hefur komið á daginn að margar kynsystur mínar eiga erfitt með að koma aftur til starfa eftir hlé, til dæmis eftir fæðingarorlof. Hársnyrtifagið tekur örum breytingum og tískusveiflur setja mark sitt á það. Því tel ég brýnt að koma verði á upprifjunarnámskeiðum þar sem sveinum gefst kostur á að endurnýja kunnáttu sína, læra notkun nýrra efna og setja sig inn í þá tískustrauma sem ráða hverju sinni,“ segir Lilja. „Þeim fjölgar stöðugt, íbúum þessa lands, sem koma frá öðrum heimshlutum. Hár fólks af asískum ættum og þeirra sem ættir eiga að rekja til Afríku er annars konar en algengast er á Vesturlöndum. Allt nám okkar miðast við venjulega vestræna hárgerð. Íslenskir hársnyrtisveinar hafa komist ágætlega frá þessu hingað til en ég tel samt enga vanþörf á því að efna til námskeiðs þar sem farið er yfir þetta,“ segir Lilja.

Nýtt orlofshús

Félag hársnyrtisveina er núna að taka í notkun nýtt orlofshús sem félagið keypti á Flúðum.
„Þetta er fullvaxið hús með potti og öllu tilheyrandi. Við erum ákaflega stoltar af því að það stendur við braut númer sjö á golfvelli staðarins, sem mér skilst að sé einn besti golfvöllur landsins,“ segir Lilja sem þessa dagana er ásamt öðrum stjórnarmönnum að undirbúa nýja húsið fyrir útleigu. Hún segir félagið eiga annað hús í Svignaskarði í Borgarfirði.
„Húsið á Flúðum er kærkomin viðbót. Það hefur verið mikil ásókn í húsið í Svignaskarði og komin veruleg þörf fyrir nýtt hús, ekki síst eftir að iðnnemarnir gengu í félagið,“ segir Lilja.

Lífsbaráttan

Lilja er ung að árum og tveggja barna móðir. Hún segir lífsbaráttu ungs fólks nú á tímum ekkert frábrugðna því sem lengi hefur loðað við íslenskt samfélag.
„Ef ungt fólk ætlar að komast sæmilega af verða báðir aðilar að vinna úti. Ungbarnaforeldrar þurfa nú eins áður að spyrja sig hvort það borgi sig að báðir vinni úti því dagvistarpláss liggja ekki á lausu. Ég hef valið þann kost að framlengja mínu fæðingarorlofi, því ef við værum með bæði börnin okkar í gæslu, annars vegar á leikskóla og hins vegar hjá dagmömmu, kostaði það ekki undir 60 þúsund krónur á mánuði,“ segir Lilja sem bersýnilega verður reið þegar hún minnist kosingaloforðanna þar sem því var lofað að öll börn frá 18 mánaða aldri fái inni á leikskólum.
Aðspurð um húsnæðiskostnað ungs fólks segir hún að hann sé hár.
„Satt best að segja skil ég ekkert í því hvernig ungt fólk getur keypt sér íbúð. Ég var svo lánsöm að hafa gert það áður en íbúðarverðið rauk upp. En eins og staðan er núna þá hlýtur ungu fólki að vaxa í augum að festa sér íbúðarhúsnæði. Enda verð ég var við að margir af minni kynslóð eru farnir að horfa til jaðarsvæðanna hér í kringum Stór-Reykjavíkursvæðið eftir húsnæði. Þannig veit ég af fólki sem hefur flúið höfuðborgarsvæðið og sest að í Grindavík og í Vogum á Vatnsleysuströnd, en á þessum stöðum er hægt að fá gott húsnæði á sanngjörnu verði,“ segir Lilja.
Hún segist hafa gaman af því að starfa í stéttarfélagi. „Háriðnin er að mörgu leyti sérstök iðngrein. Sveinar stoppa yfirleitt stutt í faginu. Það er mikil ásókn í námið en brottfallið er gríðarlegt. Ég er til dæmis ein af tíu manna hópi sem útskrifaðist um miðjan síðasta áratug. Núna starfa aðeins fjórar við fagið,“ segir Lilja og kennir fyrst og fremst um lélegum launum en einnig því að þetta er líkamlega erfið vinna.
Lilja segir að hún skilji vel ungar stúlkur sem vilja læra þessa iðn. „Háriðn er skapandi fag sem gaman er að vinna við. Það sem þarf að breyta eru launakjörin og vinnuálagið til þess að tryggja að fólk endist í þessu fagi,“ segir Lilja Sæmundsdóttir sem einnig hefur numið förðun og stundar nú nám við Fjölbrautaskólann í Breiðholti þar sem hún hyggst ljúka stúdentsprófi með tíð og tíma.