Hvers vegna öll þessi verkföll?

Geta stjórnmálaflokkarnir haft einhver áhrif á tíðni verkfalla – sem er há hér á landi og virðist fyrst og fremst eiga sér pólitískar ástæður?

Á þingi Starfsgreinasambandsins sem haldið var í haust flutti Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varaformaður Samfylkingarinnar ræðu sem vakti nokkra athygli. Þar ræddi hún meðal annars um áhrif hnattvæðingarinnar á íslenskt atvinnulíf og nauðsyn þess að efla verkalýðshreyfinguna til að byggja upp og viðhalda því velferðar- og jöfnunarkerfi sem komið hefur verið upp í hinum iðnvæddu ríkjum. Það þyrfti að breiða út til þriðja heimsins. Hún fjallaði einnig um nauðsyn á samstilltu átaki verkalýðshreyfingar, stjórnvalda og samtaka atvinnulífsins til að auka félagslega ábyrgð fyrirtækja og vísaði í því sambandi til þeirra tilrauna sem gerðar hafa verið til að svipta sjómenn, flugfreyjur og fleiri hópa félagafrelsi sínu. En hún hóf mál sitt á að ræða um samskipti stjórnmálaflokka og verkalýðshreyfingar og rifjaði upp að einu sinni hefði Alþýðusambandið og Alþýðuflokkurinn – einn af forverum Samfylkingarinnar – verið eitt og hið sama. Svo kom til skilnaðar en enn eru þó tilfinningaleg bönd til staðar og þess vegna leið henni eins og hún væri komin á langþráð niðjamót þegar henni var boðið að ávarpa þing Starfsgreinasambandsins.

Aðgangur að stjórnkerfinu

Þessar hugleiðingar varaformanns Samfylkingarinnar kölluðust á við rannsóknir sem Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, lektor í viðskiptafræði við Háskóla Íslands, hefur gert á verkföllum og ástæðu þess að Íslendingar virðast vera iðnari við þau en flestar nágrannaþjóðir okkar. Hann hefur birt grein þar sem hann spyr hvort hægt sé að nota kenningar fræðimanna um ástæður fyrir verkföllum til að skýra umfang þeirra á íslenskum vinnumarkaði. Ein kenningin sem Gylfi skoðar er á þá leið að þegar búið er að setja sérstakan lagaramma utan um ferli kjarasamninga þá dragi úr líkum á því að til verkfalls komi. Þar er Ísland ekki á ósvipuðu róli og nágrannaþjóðirnar, einkum á Norðurlöndum, því hér á landi er vinnulöggjöfin og starfsemi sáttasemjara í föstum skorðum. Sú kenning nægir því ekki til að útskýra hina séríslensku verkfallsgleði. Önnur kenning sem sett var fram fyrir aldarfjórðungi er á þá leið að þar sem ríkisstjórnir jafnaðarmannaflokka hafa verið lengi við völd og verkalýðshreyfingin er miðstýrð og sameinuð sé yfirleitt mjög friðsamlegt á vinnumarkaði. Gleggsta dæmið um þetta er Svíþjóð: „Með stjórnarþátttöku sænskra jafnaðarmanna gafst verkalýðshreyfingunni tækifæri eða öllu heldur fékk hún aðgang að stjórnmálasviðinu og löggjafarvaldinu. Þannig gat sænsk verkalýðshreyfing haft áhrif á stefnu stjórnvalda og þær aðferðir sem var beitt þegar skipta átti þjóðarkökunni. Þetta leiddi til þess að minni þörf var fyrir verkalýðshreyfinguna að ná fram baráttumálum sínum með hefðbundinni kjarabaráttu, verkföllum,“ segir Gylfi í grein sinni. Í spjalli við blaðamann sagðist Gylfi ekki sjá að aðrar kenningar en sú pólitíska ætti við um íslenskan vinnumarkað. Samiðnarblaðið bar þessar niðurstöður fræðimannsins undir Ingibjörgu Sólrúnu og spurði hvort hún gæti fallist á hana.

Þrjár stoðir hagstjórnarinnar

„Já, ég get tekið undir þá niðurstöðu að skýringin á tíðari verkföllum og meiri ólgu á vinnumarkaði hér á landi sé pólitísk. Ástæðan er fyrst og fremst sú að mönnum hefur ekki tekist að þróa sem skyldi náið samráð stjórnvalda, verkalýðshreyfingar og atvinnurekenda eins og komist hefur á í nágrannalöndum okkar, til dæmis á Norðurlöndum og í Þýskalandi. Þetta samráð hefur átt erfiðara uppdráttar þar sem verkalýðshreyfingin er ekki eins miðstýrð og á Norðurlöndum því þá er hún ekki eins öflug sem viðsemjandi við stjórnvöld og atvinnurekendur. Þetta blasir við ef maður lítur til baka til áttunda og níunda áratugar síðustu aldar. Á áttunda áratugnum versnaði efnahagsástandið í Evrópu, atvinnuleysi jókst, ríkið var rekið með umtalsverðum halla og verðbólgan fór úr böndunum. Á þeim níunda náðu menn tökum á þessu víðast hvar með samstilltu átaki stjórnvalda, verkalýðshreyfingar og atvinnurekenda. Hér á landi gerðist það þó ekki fyrr en 1990 með þjóðarsáttinni. Undantekning frá þessari reglu er Bretland þar sem Margaret Thatcher réð ríkjum. Hún ákvað að ganga milli bols og höfuðs á verkalýðshreyfingunni. Hún byggðist á sjálfstæðum félögum sem sum hver voru mjög sterk en hreyfingin sem heild var ekki nógu öflug og alltof tvístruð. Þar náðu menn miklu síðar tökum á efnahagslífinu. Í þessu ljósi er þjóðarsáttin sem gerð var hér mjög merkileg. Þá varð mönnum ljóst að til þess að halda uppi góðri hagstjórn eru þrjú atriði mikilvægust: stjórn peningamála, fjármál hins opinbera og samningar á vinnumarkaði. Ætli menn sér að þróa samfélagið áfram í sæmilegum friði þarf þetta þrennt að vera í lagi. Til þess að svo megi verða þurfa menn að umgangast verkalýðshreyfinguna sem öflugan samstarfsaðila. Mikil átök á vinnumarkaði trufla allt gangverk samfélagsins.“

Sambúðin verður aldrei sú sama

Eins og áður er vitnað til benti Ingibjörg Sólrún á í ræðu sinni að það hefði komið til skilnaðar milli flokks og hreyfingar. Því liggur beint við að spyrja hana hvort hún telji líkur á að hægt verði að tjasla þessu hjónabandi saman aftur? „Það verður aldrei aftur eins og það var í fyrndinni. Tímarnir eru aðrir og allt aðrar aðstæður uppi. En það skiptir máli að efla samstarfið því ef maður hugsar til baka þá er hugmyndin að baki því að hafa flokk og hreyfingu í einni skipulagslegri heild sú að verkalýðshreyfingin hafi ákveðna hagsmuni og hugmyndir og til þess að koma þeim inn í stjórnkerfið þurfi pólitískt afl til að bera þær fram. Verkalýðshreyfingin sinnir gríðarlega merkilegu starfi á mörgum sviðum, í atvinnumálum, verlferðarmálum, menntamálum, og hún hefur komið sér upp mikilli þekkingu og reynslu á þessum sviðum. Þessi vinna má ekki rykfalla uppi í hillu og þess vegna á flokkur eins og Samfylkingin að nýta sér þessa vinnu og bera hana fram. Samræðan á milli flokks og hreyfingar þarf að vera virk þótt þessi öfl verði aldrei sameinuð í einni skipulagslegri heild. Við þurfum að hafa fólk sem starfar í verkalýðshreyfingunni og hún þarf að eiga fólk sem starfar innan vébanda Samfylkingarinnar. Þá samræðu þarf að efla því við sem störfum í flokknum þurfum að geta fylgst vel með því sem er að gerast í verkalýðshreyfingunni og öfugt.“ – En getur flokkurinn ávallt tekið undir þegar hreyfingin er að fylgja eftir hagsmunum félagsmanna sinna? „Nei, þessar hreyfingar geta aldrei samsamað sig algerlega hver annarri. Til þess er heldur engin ástæða því menn geta átt samleið í mörgum málum án þess að í því felist skilyrðislaus stuðningur. Leiðir getur skilið, til dæmis þegar flokkurinn telur að verkalýðshreyfingin sé að gæta einhverra sérhagsmuna og eins ef verkalýðshreyfingin telur að flokkurinn sé að bera eitthvað fram sem sé henni andstætt. Þá getur menn greint á, en það er bara allt í lagi. Það þurfa ekki verða vinslit þótt menn greini á. Þetta eru tvær sjálfstæðar hreyfingar.“

Úrelt tvískipting á vinnumarkaði

En svo aftur sé vikið að verkföllunum þá benti Gylfi á þróunina sem orðið hefur frá gerð þjóðarsáttarinnar um 1990. Eftir það hefur dregið verulega úr verkföllum á almennum vinnumarkaði en verkfallstíðnin helst uppi vegna deilna sjómanna og útgerðarmanna og svo hjá hinu opinbera. Um sjómenn gilda dálítið sérstök lögmál sem tengjast þeirri þróun sem orðið hefur á sviði fiskveiðistjórnunar. En hvað segir Ingibjörg Sólrún um hlut opinberra starfsmanna? Geta stjórnmálaflokkarnir lagt eitthvað af mörkum til að draga úr verkfallstíðninni hjá þessum hópi? Hún vísar aftur til ummæla sinna um stoðirnar þrjár sem farsæl stjórn efnahagsmála hvílir á – stjórnun peningamála og ríkisfjármála og samningar á vinnumarkaði – og að það gildi líka á vinnumarkaði hins opinbera. „Þegar verkalýðshreyfingin tekur þátt í samráði verður hún að geta treyst því að allir haldi sitt, að ríkið fari ekki að safna skuldum eða verðbólgan fari úr böndunum. Geri ríkið samninga við sína starfsmenn sem ganga í berhögg við samninga verkafólks hlýtur það að valda óánægju vegna þess að verkafólk hefur með samningunum sett sér ákveðnar hömlur til þess að gera hagstjórnina auðveldari og bæta hag allra þegar til lengri tíma er litið. Á hinn bóginn eru ákveðnir hópar opinberra starfsmanna, til dæmis kennarar, sem telja að þeir hafi setið eftir í virðisstiganum. Þá er spurningin hvernig hægt er að lyfta slíkum hópum. Það getur reynst mjög erfitt nema með því að auka hagræðingu eða ef sátt skapast um að lyfta ákveðnum hópum vegna þess að það væri til hagsbóta fyrir samfélagið allt. Slíkar aðgerðir yrðu hins vegar auðveldari viðfangs ef allt launafólk væri í sömu hreyfingunni og tvískipting vinnumarkaðarins væri afnumin. Þessi sérstöku félög opinberra starfsmanna áttu sér sína réttlætingu þegar þeir voru fyrst og fremst embættismenn og umsýslunarmenn ríkisins. En núna eru þeir launamenn eins og allir aðrir og það á ekki að skipta neinu máli hvort þeir starfa hjá einkaaðilum eða hinu opinbera.“ – Krefst þetta ekki endurnýjunar á þjóðarsáttinni? „Jú, en það getur reynst erfitt við ríkjandi skipulag. Það væri verðugt pólitískt verkefni að breyta því. Ég held að verkalýðshreyfingin yrði miklu sterkari og forysta hennar ætti miklu auðveldara með að endurnýja sig ef hreyfingin sameinast,“ sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varaformaður Samfylkingarinnar.