„Markmiðið með þessum félagsmannavef er að gera félögunum kleift að fá á milliliðalausan hátt og hvenær sem er upplýsingar um stöðu margvíslegra mála, og jafnframt að gera hverjum félagsmanni auðveldara fyrir að nýta réttindi sem hann hefur aflað sér hjá félaginu,“ segir Örn Friðriksson formaður Félags járniðnaðarmanna en 11. mars opnaði félagið formlega nýjan upplýsingavef fyrir félagsmenn sína, fyrst allra stéttarfélaga hér á landi. Vefsetrið var opnað á vinnustaðafundi hjá Marel í Garðabænum.
Félagsmenn þurfa að verða sér úti um lykilorð en eftir það eru þeim allir vegir færir þegar kemur að því að skoða ýmislegt sem varðar þá persónulega. Á vefnum geta menn skoðað hvort atvinnurekandinn stendur við skil á félagsgjöldum og jafnframt hvaða önnur fyrirtæki hafa skilað félagsgjöldum fyrir viðkomandi félagsmann. Þessi skrá nær aftur til ársins 1992.
Þá má nálgast upplýsingar um stigaeign til að leigja orlofsaðstöðu. Réttur til leigu ávinnst með stigum fyrir hvern greiddan félagsgjaldamánuð. Á vefnum má sjá uppsöfnuð stig að frádregnum stigum vegna fyrri úthlutunar. Þá geta menn skoðað yfirlit um fyrri leigu á orlofsaðstöðu. Hægt er að sækja um orlofsaðstöðu á vefnum og þegar það er gert skráist hún beint inn í umsóknarkerfið. Félagsmaður getur svo breytt umsókninni fram á síðasta dag umsóknartímabils.
Félagsmenn geta jafnframt skoða greiðslur sem þeir hafa fengið úr sjúkrasjóði, bæði upphæðirnar og tegund bóta. Þá er þarna að finna yfirlit yfir styrki sem greiddir hafa verið úr Fræðslusjóði félagsins.
Örn Friðriksson er stoltur af þessu framtaki félagsins. Hann segir að reyndar sé ekki komin mikil reynsla á þetta ennþá en er ekki í vafa um að félagsmenn nýti sér þessa auknu þjónustu.
Vefsetrið er unnið í samstarfi við fyrirtækið Landsteina/ Streng sem einnig hýsir vefinn.