Ein heild, aukið afl

Á síðustu árum hefur skipulag íslenskrar verkalýðshreyfingar þróast í átt að því sem þekkist annars staðar á Norðurlöndum. Félögin hafa í vaxandi mæli falið landssamböndunum aðalsamningagerð og samskipti við stjórnvöld, en einbeitt sér í stað þess að því að bæta og efla daglega þjónustu við félagsmenn og að gerð vinnustaðasamninga. Góð sátt hefur verið innan Samiðnar um þessa verkaskiptingu og hefur sambandið frá stofnun 1993 verið með fullt hús umboða til að endurnýja aðalkjarasamninginn. Samiðn hefur nú lokið við að gera aðalsamning við SA og hefur hann verið samþykktur í öllum aðildarfélögum sambandsins.

Í byrjun maí hélt Samiðn fjórða þing sitt á Akureyri. Þing er tími uppgjörs og stefnumótunar til framtíðar. Það ríkti því eftirvænting hjá forystu sambandsins um hver yrðu viðbrögð aðildarfélaganna gagnvart samningagerðinni, starfsháttum og áherslum sambandsins síðustu ár. Stemmningin á þinginu var góð, þar ríkti einhugur og nýkjörin forysta fékk ótvírætt umboð til að halda áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið síðustu árin. Samþykkt var tillaga frá formanni sambandsins um að kjósa nefnd sem á að skila tillögum til sambandsstjórnar um verkaskiptingu milli sambandsins og aðildarfélaganna. Í greinargerð kemur fram að tillögurnar eiga að innihalda skýra verkaskiptingu milli sambandsins og aðildarfélaganna þannig að fjármagn og starfskraftar skili sér sem best í góðri þjónustu við félagsmenn og félögin séu áhugaverður kostur fyrir þá.

Verkalýðshreyfingin lagði mikla áherslu á velferðarmál í kjölfar síðustu kosninga og fékk víða góðar undirtektir meðal stjórnmálamanna. Það eru því mikil vonbrigði í lok löggjafarþingsins að núverandi ríkisstjórn hefur hvergi horft til brýnna mála, svo sem að takast á við fátækt. Í skýrslu sem nýlega kom út á vegum forsætisráðherra er viðurkennt að hópur fólks býr við sára fátækt og á litla möguleika á að bæta hag sinn. Þetta er ekki stór hópur en brýnt að tekið sé á málefnum hans. Sá málaflokkur sem hefur mest áhrif á fjárhagsstöðu þeirra sem búa við fátækt eru húsnæðismálin. Núverandi ríkisstjórn hefur unnið markvisst að því að veikja félagslega íbúðarkerfið sem aukið hefur vanda efnalítils fólks og gert því nánast ómögulegt að leysa sín mál.

Engin einhlít lausn er til fyrir fátækt fólk. Brýnast er að taka á húsnæðismálunum en einnig þarf að taka til endurskoðunar bætur öryrkja og ellilífeyrisþega og tryggja fólki viðunandi afkomutryggingu.

Það voru Samiðn mikil vonbrigði að verkalýðshreyfingin skyldi ekki hafa nægan innri styrk til að gera velferðarmálin að forgangsverkefni við gerð síðustu kjarasamninga. Almenningur treystir á að verkalýðshreyfingin standi vörð um þá sem minnst mega sín í samfélaginu og það er mikilvægt að hún bregðist ekki því trausti. Því er brýnt að læra af mistökum síðustu vikna og ná saman um að knýja á stjórnvöld um markvissar úrbætur á stöðu þeirra sem veikast standa fjárhags- og félagslega í samfélaginu. Núverandi ástand þar sem ójöfnuður fer vaxandi stríðir gegn grundvallarhugsjónum verkalýðshreyfingarinnar um jöfnuð og frelsi. Verkalýðshreyfingin má aldrei sætta sig við vaxandi ójöfnuð.