Alþjóðavæðingin hefur skapað mörg ný vandamál

Göran Johnsson formaður sænska málmiðnaðarsambandsins óttast að opnun Kína hafi alvarlegar afleiðingar fyrir iðnað á Vesturlöndum

Göran Johnsson formaður málmiðnaðarsambandsins í Svíþjóð var gestur á nýafstöðnu Samiðnarþingi. Göran hefur verið lengi í forystu málmiðnaðarmanna í Svíþjóð og er jafnframt virkur í stjórnmálum þar í landi, en hann á sæti í stjórn sænska jafnaðarflokksins sem er stærsti flokkur Svíþjóðar og nátengdur sænskri verkalýðshreyfingu. Göran sagði í samtali við blaðið að eitt helsta mál verkalýðshreyfingarinnar í Svíþjóð væri að halda uppi atvinnu. Taka þátt í að skapa ný störf og ekki síst að koma í veg fyrir að störf flytjist úr landi.
„Alþjóðavæðingin sem hefur verið í gangi síðustu áratugina og hefur vaxið fiskur um hrygg á síðustu árum hefur leitt af sér að störfum í iðnaði í Svíþjóð hefur fækkað verulega. Fyrirtæki sem hafa það eitt að markmiði að hlúa að hagnaði sínum og skapa þar með arð fyrir hluthafa sína hafa flutt framleiðsluna til annarra landa þar sem launakostnaður er aðeins brot af því sem tíðkast í Svíþjóð. Í upphafi áttunda áratugar síðustu aldar fluttu mörg iðnfyrirtæki framleiðslu sína til Suður-Evrópu og Asíu. Eftir fall Sovétríkjanna opnaðist láglaunasvæði í Eystrasaltslöndunum. Þar komu mörg sænsk iðnfyrirtæki sér fyrir og nýttu sér illa launað vinnuafl. Við megum alveg eins eiga vona á því að fyrirtæki horfi nú vonaraugum til hinna nýju aðildaríkja ESB í Austur-Evrópu þar sem fátækin ríkir og launakjör og aðbúnaður verkfólks er slæmur,“ segir Göran, og bætir við að líklega verði Austur-Evrópa aðeins stoppistöð fyrir fyrirtækin.

Kína mesta ógnin

„Að mínu mati er Kína nú mesta ógnin við iðnað á Vesturlöndum. Kínverjar hafa verið að opna land sitt fyrir erlendri fjárfestingu og það hefur sýnt sig að fjárfestar sjá þar gullið tækifæri til að skera niður kostnað og fá meiri hagnað út úr sinni fjárfestingu. Hvergi í heiminum er nú fjárfest eins gríðarlega og í Kína. Ástæður þess að Kína er efst á óskalista fjárfesta eru þrjár að mínu mati. Í fyrsta lagi stöðugleikinn sem einræðisstjórn kommúnista heldur upp með kúgun sinni. Í öðru lagi bjóða þeir uppá gallharðan kapítalisma þegar kemur að fyrirtækjarekstri og í þriðja lagi er verkalýðshreyfingin í Kína algerlega bitlaus.
Ég tel brýnt að verkalýðshreyfingin á Vesturlöndum styðji við bakið á verkalýðshreyfingunni í Kína og hjálpi henni að eflast til að hún geti beitt sér, bæði gegn stjórnvöldum og þeim erlendu fyrirtækjum sem flykkjast til landsins,“ segir Göran og vísar til þess að verkalýðshreyfingin í Evrópu hafi víða stutt við bakið á stéttarsamtökum í þriðja heiminum með góðum árangri. Sérstaklega verður honum tíðrætt um þann árangur sem suðurafríska verkalýðshreyfingin hefur náð með dyggum stuðningi norrænu verkalýðshreyfingarinnar.

Alþjóðavæðingin

„Alþjóðavæðingin hefur að mestu snúist um hagsmuni fjármagnseigenda og alþjóðlegra stórfyrirtækja. Minna hefur farið fyrir alþjóðavæðingu verkalýðshreyfingarinnar þótt vissulega sé hún til staðar. Það er kominn tími til að hreyfingin beiti sér í auknum mæli í baráttunni gegn þeirri vægðarlausu auðhyggju sem nú um stundir einkennir alþjóðaviðskipti,“ segir Göran.
„Ein af meginforsendum fyrir því að þessi barátta skili árangri er að verkalýðshreyfingin eigi bæði heimafyrir og á alþjóðavettvangi gott samstarf við lýðræðissinnaðar ríkisstjórnir og lýðræðisleg samtök um allan heim til að koma í veg fyrir að alþjóðlegir auðhringar eyðileggi þann ávinning sem af þessum frjálsu viðskiptum getur leitt. Koma verður í veg fyrir að gróði fjölþjóðafyrirtækja verði einn hafður að leiðarljósi í þessari alþjóðavæðingu. Gróðinn sem verður til við að þessi fyrirtæki nýta sér bága stöðu íbúa í fátæku löndunum,“ segir Göran og leggur áherslu á að verkalýðshreyfingin á Vesturlöndum búi yfir mikilli reynslu sem hún á að deila með þeim sem nú þurfa á henni að halda, hvar sem þeir eru niðurkomnir í veröldinni.

Baráttan heimafyrir

Göran segir brýnt að auka hagvöxt í Svíþjóð til að viðhalda því félagslega öryggi sem Svíar búa við, og auka það. Hann segir að ef takast eigi að skapa ný störf í landinu verði að auka þar fjárfestingu.
„Það er ekki nóg að fjárfesta í hefðbundnum atvinnugreinum. Það þarf að auka nýsköpun í atvinnulífinu. Ég tel það eitt brýnasta verkefni stjórnvalda á hverjum tíma að vera í fararbroddi þeirra sem hvetja til nýsköpunar og framfara í atvinnulífinu,“ segir Göran.
Göran segir atvinnuleysi í Svíþjóð vera um 5,8% en meira hjá málmiðnaðarmönnum eða um 6,8%. Hann segir að bjartsýni ríki í Svíþjóð þrátt fyrir að ekki hafi tekist að vinna bug á atvinnuleysinu. Verðbólga sé lítil og tekist hafi að auka kaupmátt launa nokkuð í síðustu kjarasamningum.
Göran segir að helsta baráttumál málmiðnaðarmanna í Svíþjóð sé stytting vinnutímans.
„Við höfum náð þar vissum árangri. Nýlega var tekið upp nýtt fyrirkomulag sem gefur mönnum færi á að safna tímum sem þeir vinna umfram umsaminn vinnutíma í svokallaðan tímabanka. Innistæðunni er síðan hægt að safna saman og taka sér samfellt frí. Þetta hefur reynst afar vinsælt meðal okkar félaga. Fjölmargir hafa nýtt sér þennan möguleika og sumir náð allt að tveggja vikna viðbótarfríi á ári,“ segir Göran. Hann leggur þó áherslu á að launakjörin séu alltaf efst á baugi hjá málmiðnaðarmönnum þegar kemur að því að forgangsraða baráttumálunum.
Göran segir mikilvægt að heimsækja norræna starfsbræður sína og er hann afar ánægður með þessa heimsókn til Íslands. Hann telur mikilsvert að persónuleg tengsl séu náin milli forystumanna verkalýðshreyfingarinnar á Norðurlöndum og að þau auki getu þeirra til að sinna sínu hlutverki.
„Okkar hlutverk er fyrst og fremst að gæta hagsmuna félagsmanna okkar. Ein leið til þess að gera það starf öflugra er að kynnast því hvernig aðrir starfa. Það er alltaf hægt að bæta sig og ein leið til þess er að nýta sér reynslu annarra,“ segir Göran Johnsson formaður sænskra málmiðnaðarsambandsins.