Mat á kjarasamningum

Stefán Úlfarsson hagfræðingur hjá ASÍ skrifar

Nú eru stéttarfélög innan Alþýðusambands Íslands farin að undirbúa gerð kjarasamninga sem flestir eru lausir frá næstu áramótum. Við þá vinnu er eðlilegt að lagt sé mat á árangur síðustu samninga, þ.e. samninganna frá árinu 2000. Hér verður gerð tilraun til slíks mats.

Samningarnir 2000: Almennt

Árið 2000 sömdu landssambönd innan ASÍ hvert út af fyrir sig. Samt áttu flestir samningarnir nokkur atriði sameiginleg. Á almennum markaði var þannig samið til langs tíma (u.þ.b. fjögurra ára) – en með því var dregið úr óvissu í efnahagslífinu og skapað svigrúm til að semja um talsverðar almennar launahækkanir (u.þ.b. 13%) og verulega hækkun allra lægstu launa (u.þ.b. 30%). Í sumum samningum voru ákvæði um tekjutryggingu (93.000 kr. á mánuði) í lok samningstímans). Þá sömdu nokkur stór landssambönd um að komið yrði á fót starfsmenntasjóði fyrir félagsmenn. Flestum samningunum fylgdi tryggingaákvæði sem fól í sér að samningarnir yrðu endurskoðaðir reglulega og að þeim mætti segja upp ef verðbólga færi úr böndunum, eða ef það kæmi í ljós í samningum við aðra hópa að svigrúm til launahækkana hefði verið vanmetið. Í tengslum við kjarasamningana (og síðar einnig í tengslum við endurskoðun þeirra) gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingar með loforðum um ýmsar úrbætur í skatta- og almannatryggingamálum – meðal annars um að skattleysismörk skyldu hækka í samræmi við umsamdar almennar launahækkanir, um að fæðingarorlof skyldi lengt, um að tekjuskattkerfið skyldi tekið til endurskoðunar, um að greiðslur almannatrygginga hækkuðu í samræmi við umsamdar almennar launahækkanir, um að efla skyldi starfsfræðslu í atvinnulífinu, um að stuðla skyldi að auknum jöfnuði í lyfjakostnaði milli fólks sem byggi á landsbyggðinni og þess sem byggi á höfuðborgarsvæðinu, um að stuðla skyldi að lækkun á grænmetisverði og um að halda skyldi áfram viðræðum um hugsanlega jöfnun réttinda milli ríkisstarfsmanna sem eru í stéttarfélögum tengdum ASÍ og þeirra sem eru í félögum opinberra starfsmanna.
Á opinberum markaði sömdu landssambönd innan ASÍ um að tekið yrði upp nýtt launakerfi svipað því sem félög innan BSRB og félög háskólamanna tóku upp eftir kjarasamninga árið 1997. Í þessu launakerfi ákvarðast laun starfsmanns fyrst og fremst af eðli starfs – forstöðumanni stofnunar er þó heimilt að raða honum í hærri launaflokk á grundvelli starfsaldurs, menntunar, frammistöðu eða álags í starfi.

Samningarnir 2000: Samiðn

Samiðn kynnti kröfur sínar í byrjun desember 1999. Viðræður hófust almennt ekki af alvöru fyrr en eftir áramót. Hinn 15. apríl voru svo undirritaðir samningar á milli Samiðnar og Samtaka atvinnulífsins. Síðar var einnig gerður samningur við ríkið.
Samningur Samiðnar við SA er í grundvallaratriðum áþekkur þeim samningum sem Flóabandalagið og Verkamannasambandið höfðu gert við SA. Hann gildir til 31. janúar 2004 en var uppsegjanlegur ári fyrr. Með samningnum áttu öll laun Samiðnarfélaga að hækka um að lágmarki 13,53% á samningstímanum. Til viðbótar var samið um færslu taxta nær greiddu kaupi með taxtahækkun um 14 til 16,6% við undirskrift. Þetta átti að hækka sérstaklega þá sem voru á lægstu laununum. Lágmarkslaun iðnnema áttu að hækka um 20 til 30% á samningstímanum. Fyrir utan beinar launahækkanir var m.a. samið um sérstakar greiðslur vegna skerðingar á hvíldartíma, lengra orlof, bættan veikindarétt og rétt vegna veikinda barna og hærra mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð.
Hvað varðar veikindaréttinn samdi Samiðn um heildstæðan veikindarétt (þ.e. í stað sjálfstæðs réttar vegna hvers sjúkdóms endurnýjast hann á hverjum tólf mánuðum). Einnig lagði Samiðn áherslu á að ná veikindaréttinum fyrr á starfsaldrinum í stað þess að lengja hann. Starfsmaður sem hættir störfum en endurræður sig innan 12 mánaða heldur rétti til fullra launa í einn mánuð. Starfsmaður fær aftur þann rétt sem hann hafði áunnið sér hjá fyrri atvinnurekanda eftir eitt ár í sömu starfsgrein. Iðnnemi sem heldur áfram vinnu hjá sama atvinnurekanda eftir sveinspróf heldur þar áunnum veikindarétti.
Samningur Samiðnar við ríkið var svipaður og samningar annarra landssambanda innan ASÍ við ríkið. Hann gildir til 31. mars 2004 en segja mátti honum upp í desember 2002. Almennt væntu iðnaðarmannafélögin þess að nýtt launakerfi tryggði að laun iðnaðarmanna á opinbera markaðnum yrðu samkeppnisfær við laun iðnaðarmanna á almennum markaði.

Hvernig hafa ákvæðin gengið eftir?

Kjararannsóknanefnd og Kjararannsóknanefnd opinberra starfsmanna veita upplýsingar um launaþróun í landinu. Í grófum dráttum má segja að hin fyrrnefnda veiti upplýsingar um launaþróun á almennum markaði og hin síðarnefnda upplýsingar um launaþróun á opinberum markaði. Í raun er verkaskiptingin samt ekki alveg svo skýr – hvorug nefndin veitir til dæmis upplýsingar um launaþróun þeirra sem vinna á opinberum markaði og eru í stéttarfélögum tengdum ASÍ fremur en stéttarfélögum opinberra starfsmanna. Nauðsynlegt er að hafa þetta í huga í umfjölluninni hér að neðan um launaþróun á almennum og opinberum markaði.
Launakannanir Kjararannsóknanefndar gefa til kynna að á tímabilinu frá fyrsta ársfjórðungi 2000 til fyrsta ársfjórðungs 2003 (en á því tímabili áttu allar umsamdar launahækkanir að vera komnar fram) hafi regluleg laun (laun fyrir umsaminn vinnutíma skv. kjarasamningum) starfsstétta á almennum markaði að meðaltali hækkað um 28%, þ.e. verulega umfram umsamdar almennar launahækkanir (sjá töflu 1). Heildarlaun (öll laun fullvinnandi launamanna) hafa að vísu ekki hækkað alveg eins mikið og reglulegu launin enda vinnutími heldur styttri nú en áður. Þar sem neysluverðsvísitala hækkaði aðeins um u.þ.b. 15% á tímabilinu er ljóst að kaupmáttur launa flestra starfsstétta hefur hækkað verulega (sjá mynd 1).
Þrátt fyrir þessar jákvæðu vísbendingar verður að hafa í huga að launakannanir Kjararannsóknanefndar gefa einnig til kynna að launaþróunin hafi verið all-misjöfn milli starfsstétta. Sem dæmi má nefna að kaupmáttur reglulegra launa sérfræðinga virðist vera nánast sá sami og í upphafi tímabilsins.
Kannanir Kjararannsóknanefndar gefa til kynna að á samningstímabilinu sem nú er að líða hafi regluleg laun iðnaðarmanna á almennum markaði að meðaltali hækkað um 26%, þ.e. verulega umfram umsamdar almennar launahækkanir. Heildarlaun hafa þó ekki hækkað nærri eins mikið og reglulegu launin (að meðaltali aðeins um 14%) enda vinnuvikan mun styttri nú en áður (að meðaltali u.þ.b. þremur klukkustundum styttri). Ljóst er að kaupmáttur reglulegra launa iðnaðarmanna hefur hækkað verulega en kaupmáttur heildarlauna nánast ekkert. Nauðsynlegt er að taka fram að sá hængur er á könnun Kjararannsóknanefndar að hún tekur ekki til verklokagreiðslna. Þetta þýðir að talsverðar líkur eru á að heildarlaun iðnaðarmanna (sem margir fá greitt eftir uppmælingu) séu vanmetin.
Hvað með efndir annarra ákvæða síðustu kjarasamninga? Með ákvæðunum um starfsmenntasjóðina var lokið við að koma skipulagi á samstarf samtaka launafólks og atvinnurekenda um starfsmenntun í þorra þeirra starfs- og atvinnugreina sem aðildarfélög ASÍ taka til. Í krafti þessara sjóða má byggja upp mannauð og skapa sóknarfæri í kjarasamningum á komandi árum. Tvisvar á samningstímabilinu reyndi á tryggingaákvæði samninganna. Í upphafi árs 2001 var talið að félög á opinbera markaðnum hefðu samið um meiri launahækkanir en félög á almenna markaðnum höfðu gert. Þetta leiddi til þess að samið var um leiðréttingar á kjarasamningum á almenna markaðnum (orlofs- og desemberuppbætur hækkaðar). Í lok árs 2001 stóðu menn frammi fyrir vaxandi verðbólgu. Þetta leiddi til þess að samið var um rautt strik, þ.e. að ef vísitala neysluverðs færi yfir 222,5 stig í maí 2002 mætti segja kjarasamningum upp. Eins og kunnugt er tókst að ná verðbólgu niður, samningunum var ekki sagt upp en laun hins vegar hækkuð meira en upphaflega var gert ráð fyrir (0,4% aukahækkun í upphafi árs 2003). Hvað varðar loforð ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamningana þá virðist sem þau hafi flest verið efnd. Sérstaklega skal minnt á umtalsverðar umbætur með setningu nýrra fæðingarorlofslaga. Aftur á móti er ljóst að þrátt fyrir að sett hafi verið á laggirnar nefnd til að endurskoða tekjuskattkerfið þá leiddi sú vinna ekki til neinna breytinga á skattkerfinu. Ennfremur er ljóst að viðræður um jöfnun réttinda milli ríkisstarfsmanna sem eru í stéttarfélögum tengdum ASÍ og þeirra sem eru í félögum opinberra starfsmanna hafa engu skilað.

Almenni og opinberi geirinn: Samanburður

Þegar borin eru saman laun á almennum markaði og opinberum kemur í ljós að á 1. ársfjórðungi 2003 fengu ASÍ launamenn að meðaltali greiddar 192.100 kr. á mánuði í regluleg laun (sjá mynd 2a). Meðaltal heildarlauna var 245.600 kr. á mánuði og heildarfjöldi greiddra stunda 44,9 á viku. Á 4. ársfjórðungi 2002 fengu opinberir starfsmenn hins vegar að meðaltali greiddar 203.827 kr. á mánuði í dagvinnulaun (sjá mynd 2b). Meðaltal heildarlauna var 293.774 kr. á mánuði.
Á 12 mánaða tímabilinu til fyrsta ársfjórðungs 2003 hækkuðu heildarlaun ASÍ launafólks að meðaltali um 5,36% (sjá mynd 2c). Á 12 mánaða tímabilinu til fjórða ársfjórðungs 2002 hækkuðu heildarlaun opinberra starfsmanna að meðaltali um 7,17% (sjá mynd 2d).
Ljóst er að á samningstímabilinu 2000–2003 hafa heildarlaun á almennum markaði aukist mikið eða að meðaltali um 25% – þótt ákveðnir hópar hafi setið eftir (sjá mynd 2e). Ennfremur er ljóst að nokkurn veginn á sama tímabili hafa heildarlaun á opinberum markaði aukist enn meira eða að meðaltali um 33% (sjá mynd 2f).

Samantekt

Á heildina litið má segja að síðustu kjarasamningar hafi verið „raunsæir“ í anda samninga tíunda áratugarins: Þrátt fyrir tímabundna þenslu í hagkerfinu 2000–2001 tókst að tryggja kaupmáttaraukningu hjá flestum starfsstéttum á samningstímabilinu. Það er samt ljóst að huga þarf betur að nokkrum atriðum: Til dæmis þarf að greina betur hvaða einstakir hópar hafa setið eftir í kaupmáttaraukningu síðustu ára.