– Fjórir forystumenn iðnaðarmanna segja álit sitt á kjarasamningunum og stinga út kúrsinn fyrir þá næstu
Kjarasamningarnir sem gerðir voru fyrir þremur árum eða svo renna út um næstu áramót. Það er því ágætur tími til að gera upp samningstímabilið, hvað náðist og hvað náðist ekki, hvernig framkvæmd samninganna var og hvað mætti betur fara. Einnig fer að verða tímabært fyrir verkalýðshreyfinguna að koma sér saman um markmiðin í næstu samningum. Samiðnarblaðið leitaði til fjögurra frammámanna úr samtökum iðnaðarmanna og lagði fyrir þá tvær spurningar:
1. Hvernig finnst þér að til hafi tekist með þá kjarasamninga sem renna út nú um áramótin?
2. Á hvaða atriði á verkalýðshreyfingin að leggja áherslu í komandi samningsgerð?
Fyrstur til að svara þessum spurningum var Hjálmþór Bjarnason, formaður Iðnaðarmannadeildar Starfsgreinafélagsins Afls á Austurlandi.
1. Það hefur tekist nokkuð vel til. Reyndar hefðu áfangahækkanirnar mátt vera meiri en við höfum lagt áherslu á það í síðustu tvennum samningum að færa taxtalaunin nær greiddum launum. Okkur hefur ekki gengið eins vel og félögunum á höfuðborgarsvæðinu að fylgja launaskriðinu eftir en það gæti átt eftir að breytast á næstunni. Ég vil líka nefna átak ASÍ og félaganna til verndar rauðu strikunum því það er reynsla okkar að betra er að halda verðhækkunum niðri en að hækka kaupið.
2. Laun iðnaðarmanna hafa dregist aftur úr öðrum í launaskriði undanfarinna ára og við þurfum að halda áfram að færa taxtana nær greiddu kaupi. Hér fyrir austan getum við átt von á talsverðu launaskriði næstu árin en þegar framkvæmdunum við Kárahnjúka og í Reyðarfirði lýkur vitum við ekki hvað tekur við. Það þurfum við að búa okkur undir með því að tosa taxtana upp eins og við getum.
Næst heyrðum við í Súsönnu Björgu Vilhjálmsdóttur, formanni Félags hársnyrtisveina.
1. Við erum mjög ánægð með síðustu samninga. Við náðum að einfalda samningsgerðina til muna með því að gera einn samning fyrir hársnyrta í stað tveggja áður sem þá voru fyrir hárskera og hárgreiðslufólk. Við fengum hækkun á kauptöxtum og aukinn veikindarétt sem var til mikilla bóta.
2. Núorðið er mjög útbreitt innan stéttarinnar að hársnyrtum sé greitt eftir afköstum, þ.e. þeir halda eftir hluta af innkomunni. Hins vegar er mjög misjafnt hvað menn bera úr býtum, einkum er mikið misræmi í því hvort réttindi á borð við veikindarétt, orlof og fleira eru reiknuð inn í launin. Þetta þarf að skilgreina í samningum og þar höfum við ágæta fyrirmynd frá Danmörku þar sem búið er að semja um svona prósentugreiðslur. Einnig blasir við að samið verði fyrir hársnyrtinema í fyrsta sinn síðan 1997 en launin þeirra eru fyrir neðan allar hellur. Byrjunarlaunin eru einungis 49 þúsund krónur á mánuði á sama tíma og lágmarkslaun eru 68 þúsund og nemar í flestum öðrum greinum fá vel yfir 70 þúsund. Flestar stofurnar halda sig við taxtann þó alltaf sé einn og einn meistari sem blöskrar þessi laun og greiðir nemunum meira.
Þá er röðin komin að Sigfúsi Eysteinssyni, formanni Iðnsveinafélags Suðurnesja.
1. Samningarnir voru í heild góðir, einkum vegna þess að þeir tryggðu stöðugleika í efnahagslífinu og það er mjög mikilvægt fyrir launafólk.
2. Mikilvægast er að færa taxtana nær greiddu kaupi. Einnig þarf að bæta ýmis réttindi, svo sem veikindarétt, lífeyrisrétt og orlof. Það þarf að samræma reglur um þessi réttindi þannig að þau verði eins hjá okkur og starfsmönnum hins opinbera. Að sjálfsögðu þarf að hækka kaupið en samræming réttindanna er mikið réttlætismál.
Loks heyrðum við í Erni Friðrikssyni, formanni Félags járniðnaðarmanna.
1. Það tókst mjög vel til með þá samninga sem ASÍ, Samiðn og önnur félög gerðu árið 2000. Þeir hafa stuðlað að stöðugleika þótt sumir hafi farið aðrar leiðir og reynt að rugga bátnum. Baráttan um rauðu strikin bjargaði því og það hefur allt gengið upp af hálfu okkar og atvinnurekenda. Hið opinbera hefur hins vegar ekki staðið við sitt.
2. Um það vil ég ekkert segja fyrr en við höfum heyrt frá baklandinu. Ég vil ekki koma með neinn boðskap um áhersluatriði næstu samninga, það er hlutverk trúnaðarmanna og fólksins á vinnustöðunum að segja okkur til um það sem rétt er að leggja áherslu á í samningsgerðinni.