Uppgangur í Skagafirði

Páll Sighvatsson formaður Iðnsveinafélags Skagafjarðar segir að Skagafjörður eigi framtíðina fyrir sér

– Ég held að hér á Sauðárkróki séu menn tiltölulega sáttir. Hér er ekkert atvinnuleysi og hér hefur verið uppgangur. Ríkisvaldið hefur flutt hingað tvær stofnanir, sem hefur mikið að segja fyrir mannlífið á þessum slóðum. Iðnaðarmenn sem hér starfa hafa haft nóg að gera, segir Páll Sighvatsson formaður Iðnsveinafélags Skagafjarðar.

Félagið er blandað iðnaðarmannafélag með trésmiði, málmiðnaðarmenn, múrara, málara og bifvélavirkja innanborðs, og eru félagsmenn um eitt hundrað. – Við getum ekki kvartað undan slælegri þátttöku okkar manna í starfi félagsins. Á síðasta aðalfund mætti um fjórðungur félagsmanna og það telst víst gott, segir Páll, greinilegt sé að félagsmenn vilja halda úti sterku félagi sem geti annast þeirra mál á heimavelli. – Við höfum aðstoðað okkar menn hér heima í héraði við gerð vinnustaðasamninga og við teljum okkur hafa náð nokkuð góðum árangri í þeim efnum. Iðnaðarmenn hér eiga samt nokkuð í land við að ná þeim kjörum sem eru í boði fyrir sunnan, en þetta er á réttri leið. Við höfum reyndar orðið varir við að menn sem koma hingað til starfa að sunnan segja að munurinn sé ekki eins mikill og af er látið, segir Páll sem hefur gegnt formennsku í félaginu í sex ár. Hann starfar á Vélaverkstæði Kaupfélags Skagfirðinga.

Villinganesvirkjun

Páll segir Skagfirðinga spennta að sjá hvað verður úr áformum iðnaðarráðherra sem hefur sagt að söluandvirði hlutar ríkisins í Steinullarverksmiðjunni eigi að að nota til uppbyggingar á svæðinu. – Hér eru ýmis tækifæri. Við erum að gera okkur vonir um að hér verði ráðist í virkjunarframkvæmdir. Hugmyndir hafa verið uppi um að virkja við Villinganes. Þann virkjunarkost hefur fyrirtækið Héraðsvötn með höndum, en það er í eigu RARIKs að 75% og að 25% í eigu heimamanna. Útreikningar sýna að þetta er hagkvæmur kostur, segir Páll sem telur að Skagafjörður eigi framtíðina fyrir sér. – Okkar möguleikar á að byggja upp fjölbreytt atvinnulíf liggja víða. Ef það verður virkjað er næg orka til staðar, hér höfum við góða höfn og síðast en ekki síst er unnið markvisst að því hér í Skagafirði að byggja upp margvíslegar menntastofnanir. Fjarskóli Norðurlands vestra er að koma á auknu fjarnámi í samvinnu við menntastofnanir annars staðar á landinu, stefnt er að því að bjóða fjölbreytt nám sem nýtist meðal annars iðnmenntuðu fólki. Námsframboðið við Fjölbrautaskólann hér á Sauðárkróki hefur aukist og á Hólum í Hjaltadal hefur undanfarin ár verið unnið að uppbyggingu öflugs menntaseturs, segir Páll sem vonast til að hið aukna framboð framhaldsnáms sem hægt hefur verið að stunda í heimabyggð hafi jákvæð áhrif á atvinnu- og mannlíf á svæðinu.

Sáttur við mannlífið

Páll segist vera sáttur við mannlífið í Skagafirði. – Hér hefur alltaf verið gott mannlíf. Skagfirðingar eru léttlynt fólk sem kann að njóta lífsins. Hér er öflugt menningarlíf og ber þar hæst hina frægu sæluviku sem nú hefur gengið í endurnýjun lífdaga.

Hann er líka þokkalega ánægður með starf verkalýðshreyfingarinnar.

– Mér finnst hreyfingunni hafa tekist vel upp í baráttunni við verðbólguna og við höfum tekið þátt í því starfi hér í Skagafirði, bæði í ræðu og riti, segir Páll Sighvatsson, formaður Iðnsveinafélags Skagafjarðar.

Steinullin

– Hér hafa verið hræringar að undanförnu. Ríkið og sveitarfélagið hafa selt sinn hlut og hafa Bykó og Húsasmiðjan keypt meirihlutann. Við vitum svo ekki hvað síðar verður – hvort fleiri kaupa sig inn í fyrirtækið, segir Guðmundur B. Ólafsson verkstjóri í vélaviðhaldsdeild Steinullarverksmiðjunar á Sauðárkróki um breytingarnar þar.

– Reksturinn hefur gengið vel, hagnaður á síðasta ári var verulegur og mér skilst að þrátt fyrir eigendaskiptin séu engar stórbreytingar á rekstrinum framundan.

Guðmundur segir að verksmiðjan sé keyrð allan sólarhringinn fimm daga vikunnar og að um fjörutíu manns starfi að jafnaði við verksmiðjuna. – Starfsmenn hér eru nokkuð sáttir við sinn hlut. Hin góða rekstrarafkoma fyrirtækisins hefur skilað sér til okkar. Þegar hinn almenni starfsmaður nýtur þess að vel gengur þá held ég að allir hljóti að vera sáttir, segir Guðmundur.

Framleiðsla á steinull hófst á Sauðárkróki árið 1985. Hráefnið sem notað er til framleiðslunnar er að stofni til svartur fjörusandur sem síðan er blandaður hvítum skeljasandi sem sóttur er í Faxaflóann. Einnig er í ullinni súrál og ólivín-sandur og ýmis bindiefni. Sandurinn er bræddur í rafbræðsluofni við um 1550°C. Fljótandi sandurinn rennur síðan á hjól spunavélar sem þeytir honum af sér og myndar steinullarþræðina sem safnað er saman og mynda að lokum einangrunina. Bindi- og rakavarnarefnum er úðað á þræðina og ullin síðan hert í sérstökum hersluofni. Til að bræða hráefnið og herða bindiefnin er eingöngu notuð raforka. Steinullarverksmiðjan á Sauðárkróki er eitt örfárra íslenskra iðnfyrirtækja sem getur státað af því að nota nánast eingöngu innlent hráefni, orku og vinnuafl til framleiðslu sinnar.

Orlofshúsakippa í byggingu

Við erum hér að reisa sumarhús sem eiga að fara út í Varmahlíð en þar er ætlunin að reisa nýja orlofshúsabyggð, segir Hinrik Jóhannesson trésmiður þar sem hann var ásamt félögum sínum á fullu við að innrétta eitt af mörgum sumarhúsum sem nú standa í röð við trésmíðaverkstæðið Krókshús á Sauðárkróki, en það eiga nokkrir verktakar á staðnum.

– Ætli við séum ekki átta til tíu hér að störfum núna, segir Hinrik sem kann ágætlega við þessa vinnu. – Þetta er góð tilbreyting frá til dæmis mótauppslættinum.

Alls er ætlunin að reisa sex hús í þessum áfanga og segir Hinrik að húsin séu af tveimur gerðum, annars vegar 58 fermetrar og hins vegar 68 fermetrar. Ætlunin mun vera að selja einstaklingum og félagasamtökum húsin þegar búið er að koma þeim fyrir í Varmahlíð. Hinrik segir að næg verkefni séu framundan hjá smiðum í Skagafirðinum og að vinnutíminn sé tíu tímar á dag.

Við lifum á gæðunum

Trésmiðjan Borg á Sauðárkróki hefur getið sér gott orð fyrir gæðaframleiðslu, segir Björgvin Sveinsson trésmiður, einn í 15 manna verkstæðisteymi fyrirtækisins

– Af okkur fer gott orð sem framleiðendum gæðainnréttinga. Þetta orðspor hefur fleytt okkur langt. Þannig erum við alltaf hafðir með þegar boðnar eru út á vegum opinberra aðila innréttingar sem á að vanda til, segir Björgvin Sveinsson trésmiður hjá Trésmiðjunni Borg á Sauðárkróki og stjórnarmaður í Iðnsveinafélagi Skagafjarðar.

Björgvin segir að 35–40 starfsmenn starfi hjá Trésmiðjunni Borg, sem einnig stundar almenna verktakavinnu í Skagafirði. Á verkstæðinu séu að jafnaði um 15 menn en hjá fyrirtækinu starfi 26 félagar í Iðnsveinafélaginu.

– Við framleiðum hér allar gerðir af innréttingum. Það færist í vöxt að við smíðum allan innréttingapakkann fyrir einstök hús. Okkar helsti markaður er á höfuðborgarsvæðinu en þar rekum við söluskrifstofu, segir Björgvin.

Á söluskrifstofunni starfa tveir innanhússarkitektar sem eru viðskiptavinum innan handar við val á innréttingum. Björgvin segir að þeir séu ekki í samkeppni við innfluttar innréttingar.

– Okkar innréttingar eru af meiri gæðum en þær innfluttu. Einnig er það kostur að hér er boðinn allur innréttingapakkinn, segir hann, og bætir við að viðskiptavinurinn geti fylgst vel með allri framleiðslunni.

– Ef við erum að smíða innréttingu sem ekki á að mála getur viðskiptavinurinn tekið þátt í að velja rétta viðinn og þar með haft áhrif á útkomuna. Við leggjum metnað okkar í vönduð vinnubrögð, allt frá því að velja smíðaviðinn til þess að afhenda vöruna á réttum tíma. Þetta líkar fólki og það skilar sér. Til að tryggja þessi gæði alla leið höfum við tekið upp það kerfi að einn smiður er ábyrgur fyrir hverri innréttingu sem framleidd er hér, allt frá því að valið er efni í hana og þar til henni er skilað, segir Björgvin og kveðst ekki sjá neina sérstaka vankanta á því að reka svona innréttingaverkstæði á landsbyggðinni.

– Það eina sem íþyngir svona rekstri á landsbyggðinni er flutningskostnaðurinn, en á móti kemur margt annað jákvætt. Ódýrara húsnæði og minni launakostnaður, einnig meiri stöðugleiki í vinnuafli. – Menn sem á annað borð finna sig í þessari vinnu halda hér áfram, segir hann og segir að sjálfum finnist honum verkstæðisvinnan eiga vel við sig. Björgvin segir að fyrirtækið sé einnig umfangsmikið á verktakamarkaðnum í Skagafirði og hafi unnið að margvíslegum framkvæmdum á því sviði. Nefnir hann í því sambandi viðbyggingar við Fjölbrautaskólann á Sauðárkróki og við Steinullarverksmiðjuna, en að auki hafi fyrirtækið haslað sér völl við að gera upp gömul hús á svæðinu, meðal annars á Hólum í Hjaltadal og í Glaumbæ, svo fátt eitt sé talið. Björgvin er bjartsýnn á frekari velgengni fyrirtækisins og segir ekkert benda til annars en að blómleg innréttingasmíði eigi eftir að þrífast á Sauðárkróki í framtíðinni.

Meðalaldur járnkarlanna hækkar stöðugt
Elvar Elefsen formaður iðnsveinadeildar Vöku á Siglufirði hefur áhyggjur af fækkun málmiðnaðarnema

Við þjónum öllum loðnubræðslum SR-mjöls, en eins og menn vita á fyrirtækið bræðslur hér á Siglufirði, á Raufarhöfn, Seyðisfirði og Reyðarfirði auk nýrrar verksmiðju í Helguvík, segir Elvar Elefsen rennismiður og starfsmaður Vélaverkstæðis SR-mjöls á Siglufirði.

– Við erum hér tólf karlar sem sinnum þessu, og verkefnin hafa verið næg. Við sinnum verksmiðjunum auðvitað en fáumst líka við ýmislegt annað, svo sem að þjónusta loðnubátana sem hér leggja upp, og öðru hverju detta inn önnur verkefni. Þessa dagana eru til dæmis menn frá okkur að vinna að endurnýjun rafstöðvar í Grímsey. Við höfum líka unnið fyrir Orkuveitu Reykjavíkur á Nesjavöllum. Okkar sérgrein er smíði úr ryðfríu stáli og við höfum getið okkur gott orð í þeim efnum, segir Elvar og er stoltur af vinnustaðnum og samstarfsmönnum sínum.

Gott orðspor

– Okkar góða orðspor hefur leitt til þess að þetta vélaverkstæði er oft haft með þegar fyrirtækjum er boðin þátttaka í forvali um vandasama smíði, segir Elvar, en hefur áhyggjur af að meðalaldur karlanna á verkstæðinu fari hækkandi. – Hér er nú enginn nemi, við útskrifuðum okkar síðasta nema fyrir nokkru og þetta veldur okkur áhyggjum. Það er alvarlegt ef ekki verður endurnýjun í stétt málmiðnaðarmanna. Það áhugaleysi sem ungt fólk sýnir málmiðnaðargreinum er vandamál sem verður að taka á. Hvernig það verður gert er ekki gott að segja – en eitt af því sem gera þarf er að bæta launakjörin, segir Elvar. Hann segist þó nokkuð sáttur með þau kjör sem menn hafa hjá SR-mjöli. – Við höfum sérkjarasamning hér í smiðjunni sem menn eru tiltölulega sáttir við. Launin á Siglufirði eru samt ekki eins góð og fyrir sunnan og það er okkur kappsmál að rétta þann mun.

Hann segir vinnutímann vera frá því klukkan sjö á morgana og fram til klukkan sex, nema á föstudögum þegar menn hætta á hádegi. – Okkur vantar hér fjölbreytni í atvinnulífið á Siglufirði, segir Elvar þegar hann er spurður um atvinnuástandið. – Við höfum tvær stórar rækjuverksmiðjur og fátt annað. Að vísu er hér verið að byggja upp líftæknifyrirtæki sem vinnur heilsuefni úr rækjuskel og þar starfa nú á milli 20 og 30 manns. Einnig hefur Kaupþing sett hér niður starfsstöð sem veitir nokkrum atvinnu, en að öðru leyti er fátt nýtt að gerast hér og óhætt að segja að fá tækifæri séu fyrir ungt fólk hér á staðnum, segir Elvar.

Hann er formaður iðnsveinadeildar Verkalýðsfélagsins Vöku og situr í stjórn þess. Hann segir að deildarfyrirkomulagið hafi reynst mjög vel og að mikið hagræði sé að því að reka eitt sameiginlegt stéttarfélag. Verkefni félagsins eru hefðbundin. – Kjaramál skipa öndvegi hjá okkur eins og í öllum stéttarfélögum. Okkar markmið er að ná upp launum okkar fólks þannig að þau séu svipuð því sem gerist fyrir sunnan. Það hefur lengi brunnið við að okkur væru ætluð lægri laun til að lifa af hér á landsbyggðinni en íbúum suðvesturhornsins, segir Elvar og telur mikið réttlætismál að jafna þann mun. – Landsbyggðin á alltaf eftir að eiga undir högg að sækja á meðan þessi munur er til staðar. Hann er að flestu leyti öðru sáttur við lífið á Siglufirði.

Síldarbærinn

– Hér er gott mannlíf, þótt margir flytjist héðan – sérstaklega unga fólkið. Og reyndar finnur maður að staðurinn er fólki kær, því að þeir sem flytjast burt nýta hvert tækifæri til að koma aftur á heimaslóðirnar. Yfir sumartímann fjölgar verulega hér í plássinu. Okkur hefur tekist að laða til okkar ferðamenn sem vilja skoða þennan sögufræga síldarbæ. Við höfum byggt hér upp frábært safn í kringum þetta mikla ævintýri og hér er sett á svið á sumrin síldarsöltun eins og hún var stunduð í „den tid“. Ég hef tekið þátt í þessu og þeirri skemmtun verður vart lýst með orðum, segir Elvar og bætir við að Siglfirðingar standi í þakkarskuld við brautryðjanda þessa merka átaks, Örlyg Kristinsson safnstjóra.

Elvar telur eins og aðrir Siglfirðingar að væntanleg jarðgöng til Ólafsfjarðar eigi eftir að breyta miklu fyrir Siglufjörð.

– Þegar þessi göng verða tilbúin tengist Siglufjörður Eyjafjarðarsvæðinu sem verður mikil lyftistöng, bæði fyrir okkur og byggðirnar í Eyjafirðinum. Þetta verður eitt atvinnusvæði. Heilsugæslan á svæðinu tekur breytingum. Unga fólkið getur búið hér áfram en sótt skóla inn til Akureyrar, og margt annað á eftir að breytast, segir Elvar og er bjartsýnn á að með þessum göngum gangi bæði atvinnulíf og mannlíf á Siglufirði í endurnýjun lífdaga.

Meistari, sveinn og nemi í þakvinnu

Þetta þak var orðið lélegt – það hafði ekki verið hugað nógu vel að loftræstingunni þegar það var byggt, sagði Birgir Guðlaugsson trésmíðameistari þar sem hann var ásamt trésmiðnum Sveini Jónssyni og nemanum Brynjari Harðarsyni að endurnýja þakið á pökkunarstöð Þormóðs ramma á Siglufirði.

– Hér er nóg að gera, sagði Sveinn, – yfirleitt vinnum við tíu tíma á dag. Helstu verkefnin núna eru vinna hér fyrir Þormóð ramma en einnig eru í gangi umfangsmiklar lagfæringar á sjúkrahúsinu. Sveinn bætir við að alltaf sé líka eitthvað um að eldri hús í bænum séu tekin í gegn.

– Það örlaði á verkefnaskorti hér aðeins í vetur en þá fór mannskapurinn í uppstand, það er að segja að sinna ýmsum smáverkefnum sem höfðu setið á hakanum lengi, segir Sveinn og fannst heldur lítið til þeirrar vinnu koma.

Brynjar er að ljúka trésmíðanáminu og á aðeins eftir sjálft sveinsprófið. – Ég kann vel við smíðarnar og það er frábært vinna hér með þessum strákum, sagði þessi glaðbeitti piltur sem er miðvallarleikmaður með KS, Knattspyrnufélagi Siglufjarðar. – Við unnum Tindastól á Sauðárkróki í fyrsta leiknum og það var guðdómlegt að leggja þennan erkióvin okkar að velli. Móttökurnar sem við fengum þegar við komum heim voru stórkostlegar, segir Brynjar sem ætlar áfram í nám. – Ætli maður klári ekki stúdentinn.

– Hér er mikill áhugi á menntun, segir Sveinn, – ætli við Siglfirðingar eigum ekki met meðal landsbyggðartrésmiða í að sækja námskeið hjá Menntafélagi byggingariðnaðarins. Því gæti ég best trúað, enda er alveg bráðnauðsynlegt fyrir smiði að sinna vel endurmenntuninni.

Enginn barlómur var í þeim félögum yfir ástandinu á Siglufirði. Þeir neituðu því þó ekki að atvinnulífið væri helst til einhæft og að ástandið laðaði fólk ekki til að setjast að í plássinu.

Framtíðin er fyrir sunnan

Þeir sátu þrír inni á Pizza-67 við Aðalgötuna á Siglufirði þegar tíðindamaður blaðsins leit inn á staðinn til að ná sér niður eftir að hafa þrætt malbikið frá Reykjavík til Siglufjarðar í einni striklotu.

– Eruð þið heimamenn?

– Já, – ert þú á sjónum?

– Nei, ég þarf að sinna djobbi hérna í fyrramálið. Eruð þið nokkuð í iðnnámi?

– Já, ég er í Iðnskólanum í Reykjavík.

Þannig hófst samtal okkar Fabios Guðna Passaros sem er búinn með fyrsta árið í tölvunarfræði við Iðnskólann í Reykjavík.

– Það er gott að vera í Iðnskólanum fyrir sunnan, og mér finnst ég vera frjáls þar. Námið leggst vel í mig – það er að vísu nokkuð erfitt en skólinn hefur góða kennara og mér gekk bara nokkuð vel í vetur. Félagslífið mætti vera betra, en það er á uppleið. Ég hef tekið að mér að vera varaformaður nemendafélagsins – við erum ákveðin í að gera þetta að alvöru-nemendafélagi. Meðalaldurinn í skólanum er kannski svolítið of hár til þess að hægt sé að halda úti sams konar félagslífi og í öðrum framhaldsskólum. Við gáfum þó út veglegt skólablað í vor og erum montin af því.

– Dvölin í Reykjavík er fín og ég var enga stund að venjast „stórborginni“. Við Siglfirðingarnir höldum hópinn, leigðum til dæmis saman fjórir. Það eru fleiri Siglfirðingar í skólanum og án þeirra væri þetta vafalaust ekki eins gaman.

– Það er feikna dýrt að búa í bænum. Hér kostar stór bjór til dæmis 400 krónur en í bænum þurfum við að reiða fram 700 krónur á Gauknum. Svo er það maturinn – það er dýrt að borða alltaf á skyndibitastöðunum en það var okkar hlutskipti í vetur. Án bíls getur maður ekki verið, en bensínið sem endist hér á Siglufirði í fimm til sex daga dugar tæpast í tvo í bænum. Svo er húsaleigumarkaðurinn – hann er alveg út úr korti. Öll þessi miklu útgjöld kalla á að maður vinni, og nánast allir Siglfirðingarnir sem eru í námi í bænum vinna með, án þess væri þetta vonlaust. Ég vann í Metró inni í Skeifu á kvöldin og um helgar. Það var ágætlega borgað en þetta er þrældómur að stunda nám og vinnu samtímis – ekki mikill tími fyrir annað. Við strákarnir gerðum okkur yfirleitt dagamun um helgar, hittumst einhvers staðar og skelltum okkur út á lífið, oftast á Gaukinn.

– Nei, það eru ekki miklar líkur á að ég flytji aftur til Siglufjarðar þegar ég klára. Hér er ekkert fyrir ungt fólk að gera. Mannlífið er líka heldur einhæft hér fyrir minn smekk. En það er gott að koma hingað. Ég vona að ég fái vinnu fyrir sunnan í því sem ég er að læra þótt útlitið sé ekki bjart núna. Það var ágætt þegar ég ákvað að fara í þetta nám. Það er engin ástæða til þess að örvænta strax í þeim efnum.

– Ég hef alist upp við þá skoðun að maður eigi að vera í stéttarfélagi og það ætla ég mér þegar ég fer út á vinnumarkaðinn. Ég held að verkalýðshreyfingin eigi fullan rétt á sér, – án hennar væri margt öðruvísi hér á landi. Að vísu höfðar hún ekki mikið til okkar unga fólksins en það er gott að vita af henni að störfum.

– Ég er á lausu eins og allir mínir vinir. Mér sýnist að strákar og stelpur dragi það lengur núna en var að hefja alvöru-samband. Fyrir nokkrum árum voru krakkar á mínum aldri flestir komnir með kærustu eða kærasta. Nú vilja menn draga þetta lengur og njóta þess frjálsræðis sem felst í því að vera einn og engum háður. Auðvitað erum við að eltast við stelpur en það er engin alvara hlaupin í þau mál ennþá. Nægur tími til að spá í það. Framtíðin er björt frá mínum bæjardyrum. Ég kvíði því ekkert að takast á við hana. Það að maður á eftir að koma sér upp fjölskyldu með tilheyrandi húsnæðisbrölti og vinnuþrældómi – það hrellir mig ekki, segir Fabio, en hafði nú fengið SMS-boð í símann sinn og þurfti að sinna þeim. Það hafði fjölgað á staðnum og fleiri kunningjar Fabios voru mættir – kominn tími fyrir tíðindamann að þakka fyrir sig og tygja sig í beddann.

Húnvetningar þurfa að bretta upp ermarnar
Atvinnuástandið getur varla talist nógu gott hér á þessum slóðum. Héðan flytur fólk, og því miður er fátt í kortunum sem bendir til að þeirri þróun verði snúið við, segir Svavar Jóhannsson, formaður Iðnsveinafélags Húnvetninga, þegar blaðið heimsótti hann heimavið á bænum Litladal í Svínavatnshreppi í miðjum sauðburðinum.

– Við hjónin stundum hér búskap, hann er reyndar mest á ábyrgð konunnar því ég er í fullu starfi í vélsmiðju niður á Blönduósi. Við erum með nokkur hross og milli 300 og 400 rollur. Þetta er nú bara þrældómur, segir Svavar og áréttar að sauðfjárbændur eigi ekki sjö dagana sæla nú um stundir. Afurðaverð er einfaldlega of lágt, það hefur ekki hækkað í samræmi við annan kostnað sem er samfara rekstri á svona búi, segir hann og bendir á að þetta sé ein af ástæðum þess hvað árar illa í Húnavatnssýslum.

– Ef við lítum til dæmis á Blönduós þá byggðist atvinnulífið þar mest á þjónustu við landbúnaðinn. Þegar hann var í blóma höfðu bændur efni á að kaupa sér margvíslega þjónustu. Létu gera við vélar sínar, byggja fyrir sig og svo framvegis. Nú reyna bændur eftir fremsta megni að gera þetta allt sjálfir. Þeir hafa einfaldlega ekki efni á öðru, segir Svavar. Þessi samdráttur bitnar hart á iðnaðarmönnum sem hafa í gegnum tíðina unnið fyrir bændur.

– Vélsmiðjan sem ég starfa hjá fór nýlega á hausinn, og komst í eigu Byggðastofnunar. Nú er það rækjuverksmiðjan Særún sem rekur hana. Þangað koma núorðið varla inn verkefni sem tengjast landbúnaði. Við þessir fjórir járnkarlar sem störfum þar erum mest í að þjónusta rækjuvinnslurnar og báta sem landa á Blönduósi. Auðvitað detta inn önnur verkefni, aðallega frá kjötvinnslunni og mjólkurbúinu, og frá fyrirtæki sem nýlega var sett á laggirnar og ætlar að nýta betur þann fisk sem berst á land hér á svæðinu, segir Svavar, og er óánægður með framtaksleysi sveitarstjórnarmanna í atvinnumálum.

– Mér finnst menn ekki nægilega framsýnir hér, menn áttu að vera ákveðnari í því að krefjast þess eftir að við fórnuðum hér stórum landsvæðum undir Blönduvirkjun að fá eitthvað í staðinn. Ríkisvaldið átti ýmsa möguleika á að styrkja hér atvinnulíf hefði vilji verið fyrir hendi. Það var ekki gert og nú er öll sú orka sem framleidd er í Blönduvirkjun flutt annað. Menn hafa hér verið of hógværir í kröfum sínum, segir Svavar og vandar sveitarstjórnarmönnum ekki kveðjurnar.

Mannlífið fínt

– Það er núna fyrst sem menn eru að taka við sér. Nokkuð sem hefði átt að vera búið að gera fyrir svona 15 árum. Ég veit ekki hvort það er orðið of seint að snúa við þróuninni. Hér finnst varla nokkur iðnaðarmaður á miðjum aldri lengur. Hér eru engin tækifæri fyrir ungt fólk. Þau þurfa öll að leita annað til að mennta sig. Þetta verður til þess að fjölskyldur slitna í sundur og að lokum flytja foreldranir líka, segir Svavar – en sér ekki bara tómt svartnætti framundan, Hann er ánægður með mannlífið í Húnavatnssýslum og segir þar á ýmsan hátt gott að búa. Svavar er kominn af miklu söngfólki og söngurinn hefur lengi átt huga hans allan eins og fleiri nákominna ættingja. – Ég syng í kirkjukór og svo kem ég öðru hverju fram með dóttur minni, Jónu Fanneyju. Við sungum meðal annars á ágætri 1. maí-samkomu á Blönduósi í vor.

Svavar er óánægður með þau áform að flytja þjóðveg eitt framhjá Blönduósi. – Ég skil það alveg þegar menn halda því fram að þessi vegarlagning sé sú hagkvæmasta sem völ er á hér á landi. En þótt leiðin milli Reykjavíkur og Akureyrar styttist um 12 kílómetra kostar þessi flutningur ýmsar fórnir sem verður að taka með í reikninginn. Ef af þessu verður slíta menn Blönduós og Skagaströnd úr sambandi við þjóðveg eitt. Við það dregst umferð ferðamanna verulega saman á þessum stöðum og við því mega þeir ekki. Nýlega var til dæmis stofnað fyrirtæki á Blönduósi, þar sem handverkskonur ætla að hefja sölu á gæðahandverki. Þessi rekstur gengur ekki ef þjóðvegur eitt verður fluttur, segir Svavar en vonast til að betri tíðar sé að vænta í Húnaþingi.