Þjónustan eykst og starfsemin styrkist

Formenn sex stéttarfélaga ræða um sameiningu þeirra sem kosið verður um í nóvembermánuði

Að undanförnu hafa forystumenn sex stéttarfélaga iðnaðarmanna tekið þátt í viðræðum um sameiningu félaganna í eitt. Þeir hafa komist að samkomulagi um tillögu sem lögð verður undir atkvæði félagsmanna í nóvembermánuði. Félögin sem hér um ræðir eru Bíliðnafélagið/Félag blikksmiða, Félag byggingariðnaðarmanna í Hafnarfirði, Félag garðyrkjumanna, Málarafélag Reykjavíkur, SUNNIÐN, félag iðnaðarmanna á Suðurlandi, og Trésmiðafélag Reykjavíkur.

Samiðnarblaðið fékk formenn þessara félaga til hringborðsumræðna um sameiningarferlið og fer hún hér á eftir. Þeir sem þátt tóku í umræðunum voru Finnbjörn Hermannsson formaður TR, Hilmar Harðarson formaður Bíliðnafélagsins/Félags blikksmiða, Hjörtur L. Harðarson formaður FBH, Ármann Ægir Magnússon formaður SUNNIÐN, Tryggvi Arnarson formaður Félags garðyrkjumanna og Georg Ólafsson formaður Málarafélags Reykjavíkur.

Fyrsta spurningin sem lögð var fyrir formennina var um það hvaða kosti þeir sæju helsta við sameiningu félaganna.

Hilmar: Hún er í samræmi við hagsmuni félaganna og gerir okkur kleift að styrkja starfsemina og efla sjúkrasjóðina. Henni fylgir ekki endilega sparnaður en við nýtum peningana betur.

Ármann Ægir: Sameiningunni fylgir stóraukin þjónusta. Með sameiningunni verður til liðlega 3.000 manna félag og vegna þess að við erum iðnaðarmenn með hærri tekjur en ófaglærðir verður velta félagsins meiri en annarra félaga, þótt stærri séu. Eftir sameininguna þurfum við að ná því marki að sjúkrasjóðurinn greiði að minnsta kosti 80% af launum í veikindum. Einnig liggur ljóst fyrir að með sameiningu náum við betur til ungs fólks, við getum sett aukinn kraft og fjármagn í það. Það gerum við með því að efla iðnmenntunina en á því sviði eru verulegar breytingar í sjónmáli. Í framtíðinni sé ég fyrir mér að við getum sameinað menntunarfélögin og boðið upp á menntun á miklu breiðara sviði en núna.

Tryggvi: Ég sé í sameiningunni hærra þjónustustig og betri nýtingu fjármuna. Við garðyrkjumenn erum fámennir og sameining eykur möguleikana fyrir félagsmenn í framtíðinni.

Hjörtur: Félagsmönnum fer sífellt fækkandi í okkar félagi. Það er því lífsspursmál að félagið geri eitthvað róttækt til þess að halda velli. Það þarf að treysta rekstur félagsins og eina leiðin til þess er að sameinast öðrum félögum.

Georg: Kostirnir sem ég sé við sameininguna eru fyrst og fremst styrkari staða sjúkrasjóðsins ásamt því að reksturinn verður ódýrari og hægt að veita meiri þjónustu. Svo finnst mér gott að fagfélögin fái meira olnbogarými en áður til að sinna faglegum málum þegar þau losna undan kjarasamningavinnunni.

Vonandi horfamenn á heildina

Finnbjörn: Þegar verkalýðshreyfingin var sett á laggirnar á sínum tíma byggðist hún upp út frá aðstæðum þess tíma. Félögin skiptust landfræðilega vegna samgangna og tækni, auk þess sem menn voru bundnir af starfi sínu. Þjóðfélagsbreytingarnar hafa orðið verulega miklar og félögin hafa verið að breyta sér í takt við þær. Við höfum setið eftir og verið dálítið staðir. Nú standa félögin frammi fyrir því að gegna þríþættu hlutverki: Í fyrsta lagi eru félögin baráttutæki fyrir félagsmenn, í öðru lagi eru þau þjónustustofnanir og í þriðja lagi tryggingafélög. Við sitjum hér í þjónustuskrifstofu sem fjögur af félögunum eiga aðild að og hún hefur skilað okkur ákveðinni hagræðingu í rekstri en það sem vantar er að huga að þeirri hlið sem snýr að félagsmönnum. Bakvinnslan sem félagsmenn sjá ekki er orðin vel virk en við þurfum að styrkja okkur til þess að geta sinnt hlutverkum þjónustustofnunar og tryggingafélags. Þetta var ástæðan fyrir því að við hófum viðræður um sameiningu.

Þegar við fórum að fara yfir verkefnin sáum við að fyrirtækin hafa verið að sameinast og eru orðin nokkuð stór. Sum þeirra eru með fólk úr öllum þessum hópum sem hér um ræðir í vinnu. Þau virða engin landamæri og þótt við höfum verið að búa okkur til landamæri hoppa fyrirtækin yfir þau eins og þeim sýnist. Við vorum að semja við sömu fyrirtækin og þá lá í hlutarins eðli að ræðast við um að sameinast og styrkja okkur í öllum þremur hlutverkunum. Við teljum okkur vera með góða niðurstöðu í höndunum sem félagsmenn taka afstöðu til. Þar geta verið ýmis ljón í veginum. Í fyrsta lagi vita menn hvað þeir hafa en ekki hvað þeir fá. Í öðru lagi þykir mönnum vænt um sitt félag og sitt byggðarlag. Vissulega eru uppi mismunandi sjónarmið en við vonumst til að menn sjái heildina en horfi ekki á hlutina frá þröngu sjónarhorni. Verkefni okkar núna er að kynna sameininguna með þeim hætti að fá menn til að horfa á heildina.

– Hvað eigið þið sameiginlegt, málari, garðyrkjumaður, byggingarmaður í Hafnarfirði, reykvískur bifvélavirki og trésmiður á Rangárvöllum?

Finnbjörn: Það er nú ýmislegt, til dæmis eru menn farnir að ganga hver í annars störf. Garðyrkjumenn eru farnir að smíða sólpalla og smiðir sinna verkefnum fyrir bílaverkstæði og garðyrkjumenn. Þetta skarast allt.

Hilmar: Við gerum nú þegar kjarasamninga saman og gefum út einn kjarasamning fyrir allar þessar greinar þótt einstaka ákvæði séu mismunandi eftir hópum.

Ármann Ægir: Samiðn ákvað fyrir nokkrum árum að landið allt væri eitt atvinnusvæði. Við það féllu margir múrar og til dæmis stunda margir félagsmenn mínir af Suðurlandi vinnu í Reykjavík. Einhverjir hafa líka flutt til Reykjavíkur en vilja vera áfram í sínu félagi. Þetta gerir sameiningu nauðsynlega. Tilfinningarnar eru kannski sterkastar í þeim félögum sem eru stærst og elst. SUNNIÐN var stofnað 1985 en svo er hér félag sem telst vera 102 ára og allt þar á milli.

Við sjáum líka sem mikilvægan kost að með sameiningu gætum við náð því að gera vinnustaðasamninga eins og opnað var fyrir í síðustu kjarasamningum. Það höfum við á Suðurlandi ekki getað vegna þess hversu litlir vinnustaðirnir eru yfirleitt. Fæstir ná því að vera með 10 félagsmenn í vinnu. Ef við verðum hluti af stærri einingu sem kann að gera vinnustaðasamninga reiknum við með því að geta gert miklu fleiri slíka samninga.

Af hverju ekki eitt allsherjarfélag?

– Helmingur þessara félaga á að baki eina ef ekki fleiri sameiningar. Er þessi sameining ekki bara biðleikur? Hvenær verður stóra sameiningin þar sem öll iðnaðarmannafélög landsins sameinast?

Finnbjörn: Það er svo stórt mál að það er ekki í sjónmáli enn, menn eru ekki tilbúnir í þá umræðu þótt við vitum ekki hvað framtíðin ber í skauti sér. Trésmiðafélagið er fornfrægt félag, stofnað 1899, og nýtur virðingar í samfélaginu. Því fylgir mikil ábyrgð að leggja slíkt félag niður. Þegar við létum skrá 100 ára sögu félagsins kom í ljós að saga Reykjavíkur er samofin sögu félagsins og félagsmenn miklir gerendur í Íslandssögunni. En við erum ekki að leggja niður söguna, hún verður til áfram og TR verður til þótt það verði undir nýju nafni því ég lít fyrst og fremst svo á að félagið sé félagsmaðurinn og það verkefni sem við höfum hverju sinni. Við erum því bara að breyta formi baráttunnar sem menn hafa verið að heyja gegnum tíðina. Við vorum til dæmis með meistara í félaginu til 1954 en með breyttu þjóðfélagi þótti réttara að skipta því upp. Við höfum verið að sameinast húsgagnasmiðum og fleiri hópum sem leitað hafa skjóls hjá okkur eða viljað tengjast okkur. Það er kall tímans sem ræður því hvernig við rækjum baráttuna og mín skoðun er sú að nú henti þetta form okkur best.

Ármann Ægir: Öll iðnaðarmannafélögin eiga sér mikla sögu. Samtök garðyrkjumanna urðu til með Alþingisgarðinum og flest þau mannvirki sem við byggjum standa í meira en hundrað ár. Við eigum líka yfirleitt meira sameiginlegt með atvinnurekendum okkar en aðrir hópar, til dæmis ófaglært verkafólk og skrifstofufólk. Það þarf því að vera góð samvinna þarna á milli og hún hefur alltaf verið það þar sem ég þekki til.

Hilmar: Menntamálin eru grunnur félaganna og eftir því sem framboð á endurmenntun og símenntun eykst gerum við einstaklingana hæfari úti á vinnumarkaði til að ná sér í betri laun. Við erum allir að reka einhvers konar fræðslustarfsemi. Í minni grein verða gífurlega örar tækniframfarir svo menn úreldast mjög hratt ef þeir viðhalda ekki menntun sinni. Þá verða þeir einfaldlega ekki hæfir í starfi. Þannig er þetta að verða í öllum stéttum og þær þurfa að halda vöku sinni til þess að verða ekki undir, samanber þá útreið sem prentarar fengu.

Allir sitji við sama borð

– Sjá félagsmenn mikla breytingu? Hvar verður skrifstofan? Þurfa sunnlenskir iðnaðarmenn að sækja þjónustu til Reykjavíkur?

Ármann Ægir: Tækni- og samskiptamöguleikarnir eru að gerbreytast. En við sjáum fyrir okkur að starfsmenn félagsins verði á ferðinni og heimsæki vinnustaði með markvissari hætti en áður. Með sameiningu aukast möguleikar öryggistrúnaðarmanna og það skapast grundvöllur fyrir sérhæfingu á því sviði. Slíkir menn geta farið á milli fyrirtækja. Auðvitað hafa menn spurt um þjónustuna á Selfossi þar sem við erum í samstarfi við fleiri verkalýðsfélög. Tíminn verður að leiða í ljós hvernig þau mál skipast. Við erum tæplega 200 talsins og nú bætast við bíliðnamenn og garðyrkjumenn sem búsettir eru á Suðurlandi. Ef við teljum það hagkvæmt og skynsamlegt verðum við væntanlega með þjónustu á Suðurlandi.

Hjörtur: Hjá okkur í Hafnarfirði borga um 100 manns félagsgjöld og það segir sig sjálft að slíkt skapar ekki góðan rekstrargrundvöll. Það eru einungis tvö fyrirtæki í bænum með fleiri en 5–7 manns úr félaginu í vinnu, hinir eru flestir einn og tveir á hverjum stað. Það er ekki mikið að gerast í svona félagi enda er skrifstofan okkar bara opin hálfan daginn. Þar er ekki hægt að veita mikla þjónustu, það verður að segjast eins og er.

Georg: Málarafélagið stendur þokkalega. Okkur tókst að snúa tapi upp í hagnað á síðasta ári og það fjölgar heldur í félaginu. Við erum með einn starfsmann, reynda konu sem þekkir alla starfsemina mjög vel og starf félagsins flýtur vel. En það sem háir félaginu er fyrst og fremst áhugaleysi félagsmanna, það er illa mætt á fundi og erfitt að kynna fyrir félagsmönnum hvað er á döfinni. Við reynum þó hvað við getum og höfum sett upp heimasíðu sem mælist vel fyrir. En með sama áframhaldi er hætta á að starfið koðni niður smátt og smátt.

Finnbjörn: Markmiðið er að allir sitji við sama borð hvað varðar þjónustu. Við erum með skrifstofu sem er opin átta tíma á dag og starfslið sem hægt væri að sérhæfa betur með sameiningu. Við erum með sérfræðinga sem geta svarað fyrir alla kjarasamninga og fólk sem fer út á alla vinnustaði. Þegar sameiningin verður um garð gengin og hlutirnir hafa fengið að slípast á ég von á því að ásýndin verði með þeim hætti að við náum að starfa betur og meira með okkar félagsmönnum. Við ætlum að byggja upp trúnaðarmannakerfi á vinnustöðunum til að tryggja að þar eigi sér stað ákveðið starf. Það er markmið okkar að ávallt verði hægt að ná í starfsmann sem getur svarað til um kjarasamninga. Núna er þetta þannig að við formennirnir þurfum að sitja fundi, heimsækja vinnustaði og gera hitt og þetta utan skrifstofunnar og á meðan er ekki hægt að ná í okkur. Þessu markmiði náum við ekki með öðrum hætti en að sameinast. Ég ætla ekki að lofa neinum sparnaði í rekstri en við getum náð miklu meira út úr þeim peningum sem við erum að sýsla með fyrir hinn almenna félagsmann. Þjónustan verður betri, sjúkrasjóðurinn eflist því umsýslukostnaður er töluvert mikill hjá svona mörgum og litlum sjóðum. Stærra félag þýðir að við verðum komin með tryggingastærðfræðilega hagkvæmari einingu og getum því lofað meiru vegna þess að í litlu sjóðunum þurfum við alltaf að hafa borð fyrir báru.

Fleiri orlofshús í boði

Ármann Ægir: Trúnaðarmannakerfið virkar ekki vel þar sem vinnustaðirnir eru litlir og dreifðir. Menn eru gjarnan að vinna hjá pabba eða tengdapabba. Í viðbót við trúnaðarmennina ætlum við að koma upp tenglaneti og halda upp sambandi við ákveðna lykilmenn. Einnig er ljóst að í stjórnum félaganna er mikil þekking til og henni ætlum við ekki að glata frekar en þeim hefðum og menningartengdu málum sem félögin hafa verið að sinna sem eru töluvert mismunandi. Höfuðmarkmið okkar er meiri og persónulegri þjónusta.

Hilmar: Því má ekki gleyma að við erum með öfluga orlofssjóði sem eiga bæði jarðir og marga bústaði. Þeim málum munum við sinna af kostgæfni eftir sem áður. Þessir bústaðir eru mikið sóttir og við erum staðráðnir í að halda uppi góðu þjónustustigi og bjóða upp á enn betri kosti en nú eru í boði. Með samruna eignumst við jarðir og hús á öðrum stöðum.

Tryggvi: Félag garðyrkjumanna er landsfélag þannig að félagsmenn verða ekki varir við neina breytingu aðra en þá að nú verður opin skrifstofa með starfsmönnum átta tíma á dag. Nú er enginn starfsmaður hjá félaginu. Ég er með síma þar sem hægt er að ná í mig en það er enginn fastur skrifstofutími. Það lengir afgreiðslutímann því ég þarf að kanna málið og hringja aftur í stað þess að afgreiða málið strax á staðnum.

– Þjónustan batnar þá fyrir þína félagsmenn, hvort sem þeir eru í Hveragerði eða Lystigarðinum á Akureyri.

Tryggvi: Já, þeir eru svo sem vanir að sækja alla þjónustu til Reykjavíkur svo það verður engin breyting á því. Við eigum íbúð á Akureyri sem við getum lítið notað vegna þess að sumrin eru helsti annatími okkar og á veturna er hún leigð út til skólafólks. Með sameiningu fengjum við aðgang að 23 húsum allan ársins hring.

Fagmálunum betur sinnt

– Eigið þið von á að menn taki þessu vel?

Hilmar: Já, annars hefðum við ekki tekið þátt í þessu. Það er ljóst að við erum að þessu af því að við höfum trú á því og teljum þetta félagsmönnum fyrir bestu.

Georg: Um það er erfitt að segja vegna þess hve erfiðlega hefur gengið að ná sambandi við félagsmenn. Það hlýtur þó að breytast þegar menn fá kynningarefnið og síðan kjörgögnin í pósti. Það er alltaf erfitt að eiga við rómantíkina í svona málum. Hjá okkur heyrast raddir þeirra sem óttast um jörðina og sumarhúsið sem félagið á og halda að það hverfi allt. Við höfum reynt að benda þeim á að á því sé engin hætta, þvert á móti fái málarar aðgang að mörgum öðrum húsum til viðbótar sínu eigin. En þetta verður bara að ráðast í kosningunni sem vonandi fer vel.

– En er ekki hætta á að garðyrkjumanni sem hringir á kontórinn hnykki við að þurfa að tala við einhvern trésmið um sín mál?

Tryggvi: Sá möguleiki er fyrir hendi, en við göngum út frá því að trésmiðurinn viti hvað hann er að tala um. Það er verið að ræða um sameiginleg mál á borð við kjarasamninga og þá skiptir ekki máli hvort það er bifvélavirki, trésmiður eða garðyrkjumaður sem svarar fyrir þá.

Finnbjörn: Verkaskiptingin er að hluta til komin á nú þegar. Til dæmis erum við með sameiginlega samninga við Reykjavíkurborg og eins og stendur er það bíliðnamaður sem veit mest um þá samninga. Sá sem fór í gegnum samningana þegar þeir voru gerðir er best inni í þeim. Sá sem oftast svarar fyrir kjarasamningana í augnablikinu er reyndar stjórnmálafræðingur að mennt og honum tekst það ágætlega. Það kemur ekki fyrir að hringt sé hingað á skrifstofuna og spurt um fagmál, þau eru hjá menntafélögunum eða hjá Garðyrkjuskólanum. Auk þess liggur fyrir að það verða starfandi faghópar þannig að hver starfsstétt getur sinnt sínum faglegu málum betur en áður.

Hilmar: Með aukinni tækni hefur krafan aukist um skjót og góð svör og við ætlum að notfæra okkur tæknina til þess að vera í sambandi við félagsmenn. Ef það kemur fyrirspurn um fagmál til skrifstofunnar sem okkur skortir þekkingu til að svara getum við einfaldlega sent hana áfram til viðkomandi menntafélags og stytt upplýsingaleiðirnar með því.

Tryggvi: Fagdeildirnar munu ekki þurfa að sinna kjaramálum nema að litlu leyti, skrifstofan sér um þau. Félögin geta því einbeitt sér að faglegum málum enda er það svo að þegar félögin boða fundi um kjaramál mæta stjórnarmenn og örfáar hræður til viðbótar en við fyllum auðveldlega sal ef við auglýsum fyrirlestur sérfræðings um fagleg málefni. Þau verða áfram hjá fagdeildunum.

Ármann Ægir: Við höfum náð samkomulagi um að tryggja fagdeildunum peninga til slíkrar starfsemi. Menntafélögin verða eftir sem áður sjálfstæðar stofnanir.

Foringinn á að vera áberandi

– Nú eruð þið sex formenn en bráðum verður bara einn eftir. Hvernig sjáið þið þróunina fyrir ykkur á næstunni?

Hjörtur: Félagslega held ég hún verði miklu betri því einn formaður er ekki síðri til að svara fyrir öll þessi félög en margir í smærri einingum. Það verður því léttara í vöfum að hitta á þann sem getur svarað fyrir allt.

Ármann Ægir: Foringi í svona félagi sinnir aðallega stóru málunum. Auk hans verða sérfræðingar í starfi sem eru inni í öllum málum þannig að menn þurfi ekki alltaf að leita til formannsins. Við gerum þá kröfu til formannsins að hann verði áberandi persóna í þjóðfélaginu.

Hilmar: Það er líka ljóst að við sækjumst ekki allir eftir formennskunni og það hefur raunar verið ljóst frá upphafi, að öðrum kosti hefðum við ekki farið í þessar viðræður.

Finnbjörn: Við erum forystumenn í félögum okkar og hlutverk okkar er að hafa forystu fyrir starfinu. Ef við sjáum það í hendi okkar að starfinu er betur komið í sameinuðu félagi þá göngum við í þá vinnu því félagið gengur ekki út á að viðhalda einhverjum formannstitli. Við höfum rætt þetta mjög hreinskilnislega og ekki verið nein vandamál með það.

Það verður samt sem áður eftirsjá að félögunum. Það er styrkur í þeim, þau eiga sér langa sögu og hafa komið sér upp ákveðnu vinnuferli og menningu. Það ætlum við að færa yfir í nýja félagið með fagdeildunum. Þá geta menn sinnt sínum faglegu hugðarefnum áfram. Það verður jafnvel hægt að breikka grunninn að slíku starfi. En á því er engin launung að það verður erfitt að yfirfæra þá þekkingu og menningu sem liggur í félögunum yfir á nýja félagið. Það mun reyna töluvert á okkur að halda í þá menn sem nú eru í stjórnunum því eins og Ármann nefndi áðan þá býr í höfðum þeirra gríðarleg þekking og slagkraftur sem við verðum að virkja áfram.

Sameining næsta vor, ef …

– Hversu fjölmenn verður stjórnin og hvernig verður uppbygging nýja félagsins?

Finnbjörn: Það verður níu manna stjórn og við erum búnir að ákveða hvernig hún skiptist á milli félaganna fyrsta árið. Síðan tekur uppstillingarnefnd við því verkefni á næsta aðalfundi að stilla upp stjórn sem endurspeglar starfshópa, búsetu og annað sem þarf til að halda þokkalegri sátt í félaginu. Þá er enginn öruggur um sitt sæti og allir hafa jafna möguleika.

Hilmar: Þannig er það raunar í félögunum núna að það er enginn öruggur um sitt sæti. Það er enginn æviráðinn í forystu stéttarfélags heldur erum við dæmdir reglulega af verkum okkar.

Ármann Ægir: Það er líka ljóst að í þessu félagi verða að vera póstkosningar.

Hilmar: Það verður engum sem hefur áhuga á að starfa fyrir félagið gert ókleift að koma sér á framfæri.

– Hver verða næstu skref í sameiningarferlinu?

Finnbjörn: Við erum búnir að vera alltof lengi að ræða málin en það tekur bara mikinn tíma þegar sex mismunandi félög eiga í hlut að koma þessu saman. Við erum með samþykktir frá trúnaðarmannaráðum félaganna um að kosning skuli fara fram eigi síðar en 15. nóvember. Fram að þeim tíma þurfum við að standa vel að kynningu, félagsmenn fá sendan til sín bækling þar sem kynnt verður hverra kosta er völ. Þannig vonumst við eftir því að menn verði færir um að taka afstöðu til sameiningarinnar út frá heildarmyndinni.

Ármann Ægir: Við vonumst til að geta lagt fram það gott efni að menn geti tekið afstöðu út frá hagrænum sjónarmiðum en ekki á grunni tilfinninga, en auðvitað spila þær inn í.

Finnbjörn: Nýtt félag verður svo til á aðalfundum félaganna í vor. Við gerum ráð fyrir að félögin ljúki sínu starfsári með aðalfundi þar sem samræmd reglugerð verður lögð fyrir og svo verður stofnfundurinn haldinn eftir þá.