Brýn þörf að bæta ímynd Iðnaðarmannsins

Samiðn lætur kanna stöðu iðnaðarmanna og iðnnáms í hugum þjóðarinnar

Hver er ímynd iðnaðarmannsins meðal Íslendinga? Hvert er viðhorf fólks til iðnmenntunar? Þykir það ennþá ófínt að stunda iðnnám eða er það að breytast? Þessum spurningum hafa iðnaðarmenn eflaust lengi velt fyrir sér og þar kom að Samiðn ákvað að freista þess að fá svar við þeim. Nú eru svörin tekin að berast .
Samtökin ákváðu að setja á laggirnar verkefni sem nefnist Ímynd starfsgreina og fengu Hallgrím Óskarsson verkfræðing til að stjórna því. Hann hefur sérhæft sig í markaðsmálum og lagt sig eftir að rannsaka ímynd í hugum neytenda. Verkefnið snýst um að grafast fyrir um þá ímynd sem almenningur hefur af iðnaðarmönnum og iðnmenntun en einnig og ekki síður að kanna þá ímynd sem iðnaðarmenn hafa af sjálfum sér.
Í þessu skyni gerði Hallgrímur tvær skoðanakannanir, aðra meðal trúnaðarmanna Samiðnar, hina meðal iðnnema við Iðnskólann í Reykjavík og Borgarholtsskóla. Alls tók hátt á annað hundrað trúnaðarmanna og á sjöunda hundrað iðnnema þátt í könnuninni en til viðbótar henni tók Hallgrímur persónuleg viðtöl við tæplega eitt hundrað manns sem skiptust í þrjá nokkuð jafnstóra hópa: kjarnafólk, gjarnan starfandi iðnaðarmenn; ungt fólk sem ekki valdi sér iðnnám; almenning, eldra fólk utan iðngeirans. Hallgrímur hefur lokið við að gera grein fyrir niðurstöðum úttektarinnar í skýrslu sem hann kynnti á sambandsstjórnarfundi Samiðnar nú í október.

Trúnaðarmenn

Þegar niðurstöður Hallgríms eru skoðaðar vekur það athygli að iðnaðarmenn sjálfir virðast vera frekar óvissir um það hvort ímynd þeirra er jákvæð eða neikvæð. Í könnun meðal trúnaðarmanna sögðu 37% að hún væri jákvæð, 28% að hún væri neikvæð en 36% voru hlutlausir. Hins vegar leikur enginn vafi á því í hugum trúnaðarmanna að full þörf sé á að vinna að bættri ímynd iðnaðarmanna en 93% þeirra töldu það mikilvægt. Ámóta fjöldi taldi líklegt að hægt væri að breyta ímyndinni og bæta.
Þegar trúnaðarmennirnir voru spurðir hvað það væri sem gerði það að verkum að almenningur liti iðnaðarmenn jákvæðum augum nefndu flestir að iðnaðarmenn væru álitnir traustir, duglegir og verklagnir menn sem almenn þörf væri fyrir í samfélaginu. Það sem dregur úr áliti fólks á iðnaðarmönnum er að mati trúnaðarmanna einkum það að laun þeirra eru ekki nógu há, og að fólk tengi þá við fúsk, óhreinindi og svarta vinnu.
Þegar spurt var hverju þyrfti sérstaklega að breyta til að bæta ímynd iðnaðarmanna nefndu flestir trúnaðarmenn menntunar- og launamálin. Einnig töldu margir brýnt að breyta viðhorfum almennings og gera úrbætur í hreinlætismálum og vinnuaðstöðu, ásamt því að tryggja að einungis iðnlærðir menn fáist við iðnaðarstörf. Í samræmi við þetta kom fram að ríflega helmingur trúnaðarmanna taldi að ímynd iðnmenntunar væri neikvæð í íslensku þjóðfélagi. Sama hlutfall svarenda var á því að þeim sem sæktu í iðnnám mundi fækka á næstu árum en innan við fjórðungur taldi að iðnnemum mundi fjölga.
Hallgrímur leitaði einnig svara við því hvernig fólki líkaði við orðið iðnaðarmaður og hvernig hljóm það hefði í hugum almennings. Tæp 38% trúnaðarmanna töldu orðið ágætt og mjög lýsandi, 18% töldu það hafa of sterka skírskotun til karlmanna, 17% töldu orðið ekki nógu lýsandi, 12% töldu orðið gamaldags og svipaður fjöldi taldi orðið of gamalgróið til þess að hægt væri að breyta því. Þá voru trúnaðarmenn einnig spurðir hvert viðhorf þeirra til Samiðnar væri og sögðu 77% að það væri jákvætt eða mjög jákvætt en einungis tæp 6% voru neikvæð. Enginn sagðist vera „mjög neikvæður“ í garð samtakanna.

Iðnnemar

Í könnuninni sem gerð var meðal iðnnema kom í ljós að 45% þeirra töldu ímynd iðnnámsins vera jákvæða í íslensku samfélagi en 38% voru óákveðnir og 17% töldu hana neikvæða. Tveir af hverjum þremur kváðust hins vegar ánægðir með iðnnámið sem þeir stunda og hvernig staðið er að því. Tæplega 15% kváðust óánægðir með námið en fimmtungur var hlutlaus. Þess ber að geta að hlutfall ánægðra var mun hærra hjá nemendum Borgarholtsskóla en þeim sem sækja Iðnskólann.
Þegar iðnnemar voru spurðir hvers vegna þeir hefðu lagt fyrir sig iðnnám svöruðu langflestir – 42% – því til að þar lægi áhugi þeirra en fjórðungur gaf þá skýringu að bóklegt nám og háskólanám ætti ekki við þá. 12% svöruðu því til að iðnnámið gæfi þeim möguleika á að verða sjálfstæðir atvinnurekendur og 7% nefndu launakjörin sem ástæðu fyrir námsvalinu.
Iðnnemar voru spurðir að því hvort þeir teldu að það viðhorf að iðnnám væri ekki eins fínt og háskólanám væri á undanhaldi eða ekki. 58% svöruðu því að þetta viðhorf væri enn mjög algengt en 42% töldu að þetta væri að breytast. Tæplega tveir af hverjum þremur töldu brýnt að breyta áliti almennings á iðnnámi. Þegar spurt var hvað þyrfti að gera til að breyta því svöruðu 23% að fræða þyrfti almenning um iðnnám, 17% töldu brýnt að auka nýjungar í iðnnámi, 14% að bæta þyrfti aðstöðu í iðnnámi, 13% vildu minnka áróður fyrir stúdentsprófi og 12% töldu brýnt að breyta viðhorfum hjá yfirvöldum menntamála. Svarendur voru mjög óvissir um framtíðarhorfur iðnnáms, um 30% töldu líklegt að iðnnemum mundi fjölga á næstu árum en 60% voru óákveðnir.
Meiri óvissu gætir meðal iðnnema um orðið iðnaðarmaður en meðal þeirra sem hafa opinbert leyfi til að bera þá nafnbót. Fjórðungur iðnnema taldi orðið ekki nógu lýsandi en jafnstór hópur lýsti sig ánægðan með það. Rúmlega þriðjungur taldi ímynd iðnaðarmanna í íslensku samfélagi jákvæða eða mjög jákvæða, 17% töldu hana neikvæða en tæplega helmingur lýsti sig óákveðinn.

Ósanngjörn ímynd

Í persónulegu viðtölunum kom fram að það sem helst stuðlar að jákvæðri ímynd iðnaðarmanna eru sjálfstæði og sveigjanleiki, fagmennska og heiðarleiki. Á hinn bóginn stuðla fúsk, óheiðarleiki, almenn viðhorf og undanskot frá skatti að því að gera ímyndina neikvæða. Að því stuðlar einnig almennt neikvætt viðhorf til þess að stunda iðnnám og almenn aðdáun á bóklegu námi sem ríkjandi hefur verið í samfélaginu um langt skeið.
Það kom Hallgrími hins vegar gleðilega á óvart hversu mikla áherslu almenningur og fólk sem ekki valdi iðnnám lagði á nauðsyn þess að bæta ímynd iðnnáms og iðngreina. Af því dregur hann þá ályktun að flestir telji núverandi ímynd ósanngjarna og að leiðréttingar sé þörf. Brýnast þótti viðmælendum hans að bæta ímynd starfsmanna í málm-, byggingar- og bílgreinum.
Varðandi viðhorf til orðsins iðnaðarmaður er það niðurstaða Hallgríms að eldra fólk telji síður ástæðu til að breyta því enda sé það óraunhæft. Yngra fólk hefur hins vegar meiri áhyggjur af því að ímyndin sem orðið vekur í huga fólks falli ekki að greinum á borð við hársnyrtingu, garðyrkju, fatasaumi, hönnun, ljósmyndun eða grafík. Það eigi mun frekar við hinar hefðbundnu iðngreinar á borð við trésmíði, múrverk, járnsmíði eða bílgreinar.
Hallgrímur segir í skýrslunni að nú sé það á valdi Samiðnar og forystumanna samtakanna hvernig unnið verður úr niðurstöðunum og hvernig þeim verður fylgt eftir. –ÞH