Úr skilaboðaskjóðu formannsins

Nú er ólga í efnahagsmálum þjóðarinnar. Eftir tiltölulega lygnt tímabil er farið að gára. Síðustu þrjá mánuði hefur verðbólguhraðinn farið í 12,8% á ársgrundvelli. Í lok ársins gætum við verið komin út á haugasjó í verðbólgu. Þótt ýmsir kalli þetta „verðbólguskot“ og fullyrði að það hjaðni fljótt spáir Seðlabankinn 5,7% verðbólgu árið 2001. Þá eru forsendur kjarasamninganna brostnar.
Laun ýmissa hópa starfsmanna hjá hinu opinbera hafa hækkað um tveggja stafa tölu og kjaradómur hefur dæmt „háembættismönnum“ 6,5% kauphækkun. Í ljósi þess að ASÍ-félögin sömdu um 3% launahækkun á þessu ári er verið að gefa okkur langt nef. Allir virðast treysta á að hægt sé að höfða til ábyrgðar ASÍ-félaganna. Við munum ekki skjóta okkur undan ábyrgð en við búum við sama vöruverð, greiðum sömu vexti og lútum sömu gjaldskrám og annað launafólk. Eigum við að bera byrðarnar ein?
Fákeppni er í matvöruverslun og bensínsölu og á innlendum fjármagnsmarkaði sem gerir kröfu um gríðarlega vexti. Hagfræðingur Alþýðusambandsins hefur minnt á að gengishækkun skilaði sér ekki að fullu í lægra vöruverði. Hvers vegna á þá að velta gengislækkun tafarlaust út í verðlagið? spyr hann. Verði það gert er það skammgóður vermir. Samningar verða þá lausir snemma á næsta ári. Ábyrgðin á verðbólgunni hvílir að mestu á herðum þeirra sem ráða vöruverði. Ef ekki verður verulegur viðsnúningur í verðlagi og vöxtum skulum við búa okkur undir kalt sumar og harðan vetur.
Ríkisstjórnin ætlar að fara í gegnum þrengingarnar á bjartsýninni einni. Það er gott að vera bjartsýnn en það má ekki hlaupa frá veruleikanum. Veruleiki okkar ASÍ-fólks er að við gerðum kjarasamninga til að viðhalda stöðugleika en töpum kaupmætti í verðbólgu sem fer yfir 3%. Eignir okkar rýrna þar sem langtímalán eru verðtryggð en launin ekki. Engin önnur þjóð á norðurhveli jarðar býr við þann undarlega hátt að hækka lán en ekki laun þegar matvara hækkar í verði! Verðbólgan er komin á skrið og það getum við ekki þolað.

Velferðarkerfið

Á næsta ársfundi Alþýðusambandsins, nú 28.–29. maí, verður meðal annars rætt um stöðu velferðarkerfisins og framtíð þess. Umræðan á ársfundinum tekur að sjálfsögðu mið af síðasta Alþýðusambandsþingi þar sem samþykkt var að helstu verkefni í velferðarmálum skyldu vera að –

– Beita sér fyrir að byggt verði upp öflugt velferðarkerfi til framtíðar, nú þegar vel árar.
– Einbeita sér að því að skoða íslenska velferðarkerfið og leitast við að greina hvað vel er gert, hvað má betur fara og hvað hægt er að gera á annan hátt.
– Byrja á því að skoða samspil almannatryggingakerfisins og lífeyriskerfisins.
– Stuðla að velferð og tryggri afkomu félaga sinna eftir starfslok.
– Vinna að því að frítekjumark hækki verulega og að opinber elli- og örorkulífeyrir fylgi launaþróun og verði ekki lægri en almennur launataxti verkafólks. Einnig njóti lífeyrisþegar desember- og orlofsuppbótar til samræmis við almenna samninga.
– Halda uppi opinberri umræðu um og vinna því pólitískt fylgi að hér verði öflugt velferðarkerfi sem tryggir öllum öryggi.
– Berjast gegn því að komið verði á fót tvöföldu velferðarkerfi.
– Vinna í samráði við stjórnvöld upplýsingar um viðmiðunarneyslu fyrir mismunandi fjölskyldugerðir sem nota má m.a. við útreikning á greiðslubyrði, félagslegum bótum og mat á breytingum á skatt- og bótakerfi.
– Skoða kosti og galla fjölþrepa skattkerfis í samráði við stjórnvöld.
– Leggja áherslu á að draga úr tekjutengingum og jaðaráhrifum í skatta- og bótakerfinu.

Íslenska velferðarkerfið hefur því miður verið þróað frá því að vera almannatryggingar til þess að líkjast fátækraframfærslu. Reynsla annarra þjóða hefur sýnt að slík kerfi veikjast hratt og njóta lítils almenns stuðnings. Til þeirra rennur sífellt minna fjármagn og afleiðingin er aukið misrétti og önnur félagsleg vandamál. Víðtæk velferðarkerfi, þar sem þorri fólk á rétt til bóta, njóta á hinn bóginn almenns stuðnings, standa sterkar og reynast best til að draga úr fátækt og félagslegu misrétti. Alþýðusambandið þarf að taka forystu í umræðunni um velferðarmálin og koma henni til framkvæmda í gegnum stjórnkerfi alþingis. Stjórnvöld eru á rangri braut og af henni verður að snúa.