Kristinn Tómasson, yfirlæknir
Vinnueftirlits ríkisins, skrifar í tilefni af evrópskri vinnuverndarviku –Varnir gegn vinnuslysum –
sem stendur yfir dagana
14. til 20. október
Vinnuslys eru algeng. Vegna eðlis þeirra má alltaf með nokkrum rétti segja að mögulegt sé að koma í veg fyrir þau. Árlega eru tilkynnt um og yfir 1200 vinnuslys til Vinnueftirlitsins.
Tilkynningarskyld vinnuslys eru þau slys sem valda meira en eins dags fjarveru til viðbótar við slysadaga. Þar sem nærri 12 þúsund menn komu vegna vinnuslysa á slysamóttöku Landspítala-Háskólasjúkrahúss í fyrra er ljóst að tilkynnt vinnuslys eru einvörðungu kúfurinn af þeim vinnuslysum sem í raun verða hérlendis.
Hugtakið vinnuslys er notað með nokkuð mismunandi hætti eftir því hvort litið er til kjarasamninga, laga um almannatryggingar eða laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Um skilgreiningu á vinnuslysum má líta á tvo möguleika:
1. Skyndilegur utanaðkomandi atburður sem veldur meiðslum á líkama starfsmanns og gerist án hans vilja við vinnu.
2. Slys sem starfsmenn verða fyrir í tengslum við vinnu sína og rakin eru til starfsins og aðstæðna eða aðbúnaðar á vinnustað.
Í lögum um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum (nr. 46/1980) kemur fram að ef slys eða eitrun kemur fyrir á vinnustað skal atvinnurekandi tilkynna það lögreglustjóra og Vinnueftirlitinu. Vinnustaðurinn er skilgreindur sem umhverfi innan húss og utan, þar sem starfsmaður hefst við eða þarf að fara um vegna starfa sinna. Það er á þessum grunni sem tilkynnt slys koma inn til skoðunar hjá Vinnueftirlitinu. Markmið með því að kalla eftir þessum tilkynningum er að safna upplýsingum um vinnuslys, eðli þeirra og umfang þannig að unnt sé að vinna að skipulegum slysavörnum á vinnustöðum.
Vinnuslys verða fyrst og fremst á ungum körlum eins og sést glögglega á myndinni að neðan.
Þessi mynd er byggð á tilkynntum vinnuslysum til Vinnueftirlits ríkisins. Myndin bendir óneitanlega til þess að reynsluleysi og þar með þekkingarskortur sé ákveðinn og mikilvægur þáttur í þessum slysum. Frekari rök fyrir þessu eru að tæplega helmingur vinnuslysa meðal ófaglærðra verður á fyrsta starfsári þeirra en meðal faglærðra iðnaðarmanna verður um fimmtungur vinnuslysa á fyrsta starfsári samkvæmt Vinnuslysaskránni. Þannig er viðbúið að það séu aðrir þættir sem spila inn í slys sem verða hjá faglærðum mönnum með þekkingu á vinnunni og hættum hennar en meðal þeirra sem eru ófaglærðir og eru að byrja sinn starfsferil.
Í þessu samhengi er rétt að minna á að þegar litið er til bygginga og viðgerðar mannvirkja þá eru atriði á vinnusvæði og umhverfi þess orsakavaldur tæps helmings vinnuslysa í þessum atvinnugeira. Þetta eru fyrst og fremst lausir stigar, verkpallar og ýmsir byggingarhlutar. Handverkfæri orsaka um 15% vinnuslysa , aðallega borvélar, slípirokkar og hnífar. Farandvinnuvélar, fyrst og fremst kranar, gröfur og lyftarar, eru orsök um 12% vinnuslysa í þessum atvinnugeira. Aðrir orsakavaldar eru fátíðari og er þar helst að nefna ýmsar iðnaðarvélar, svo sem trésagir og viðlíka búnað, sem orsaka rúmlega 6% vinnuslysa.
Þessi upptalning gefur ákveðna mynd af því hvað veldur slysum, en hvernig eru slysin? Langalgengasta orsökin er fall af hærri stað, svo sem úr tröppu, stiga, verkpalli eða byggingarhluta eða í um þriðjungi tilfella. Höggáverkar frá vélum, tækjum og búnaði ýmiss konar mynda um 25% tilfella, skurðir frá oddhvössum áhöldum í um 12% tilfella, að klemmast á milli 10% og fall á jafnsléttu í um 10% tilvika. Aðrar orsakir eru mun sjaldgæfari.
Hvað fer þá úrskeiðis? Svörin við því eru oft augljós en þeim má annars vegar skipta í það sem lýtur almennt að vinnustaðnum, þ.e.a.s. að vettvangi og búnaði, og hins vegar atriði sem lúta að hverjum og einum starfsmanni. Ef litið er fyrst á þessa almennu þætti þarf að spyrja ýmissa spurninga.
l Er heildarhönnun vinnusvæðisins til þess fallin að vinnuöryggi sé sem allra best?
l Er umgengni um vinnusvæði góð?
l Eru samskipti á vinnusvæðinu í góðu horfi þannig að auðvelt er að koma á framfæri mikilvægum leiðbeiningum?
l Er gengið tryggilega frá því að takmarka umferð um hættuleg svæði?
l Eru hættuleg svæði tryggilega merkt?
l Ef starfsmenn eða gestir þurfa að fara um slík svæði – er þá tryggt að allur viðeigandi öryggisbúnaður sé tiltækur, svo og viðbúnður ef slys verður?
l Er búnaður sem notaður er við verk í góðu lagi, sem og allur öryggisbúnaður og persónuhlífar sem eiga að fylgja honum?
l Er viðhald búnaðarins í samræmi við viðurkenndar leiðbeiningar?
Ef litið er til hvers einstaks starfsmanns þá þarf að spyrja hvort menntun hans og viðhaldsþjálfun sé í samræmi við þær kröfur sem starfið gerir. Fær starfsmaðurinn góða verkstjórn og leiðbeiningar um hvernig á að vinna verkið ásamt öðrum stuðningi sem nauðsynlegur er til þess að ljúka verkinu með öruggum hætti? Eru ákvæði um vinnutíma og hvíld virt? Syfja og þreyta auka verulega líkur á vinnuslysum, sem og öðrum slysum. Síðan þarf að spyrja hvor starfsmaður sé heilbrigður. Hefur hann líkamlegt atgervi til að sinna verkinu, – er sjón hans t.d. nægilega góð til að geta stjórnað vélbúnaði eða tækjum? Eru einhver veikindi sem tímabundið eða til lengri tíma litið gera starfsmanninn illfæran um að sinna verkinu?
Í þessu sambandi er rétt að minna á nauðsyn þess að atvinnurekandi lagi verkefni að getu starfsmanna sinna eftir föngum. Það verður ekki svo skilist við umræðuna um þátt starfsmanna í vinnuslysum að ekki sé vikið að lífsstíl og ósiðum sem starfsmenn hafa tamið sér. Í því sambandi er rétt að nefna tvö dæmi, annars vegar áfengisnotkun um helgar sem veldur þreytu eða sleni á mánudegi, og hins vegar truflun eða skerðingu á svefni vegna þess að menn eru að rækta sín áhugamál.
Heildarsýn á áhættuþætti á vinnustað þarf að vera til staðar og slíkt verður ekki nema með því að sett séu öryggismarkmið og gert áhættumat fyrir vinnustaðinn og vinnuumhverfið sem tekur til allra þátta, þ.m.t. vinnuumhverfis, tækja, búnaðar, verkefna og starfsmanna.
Verjumst vinnuslysum, gerum áhættumat, sýnum árvekni, eflum starfsmenntun og gætum að óreyndum starfsmönnum.
Vinnuslys eru dýr fyrir alla
Erlingur Snær Erlingsson gæðastjóri hjá Límtré hf. segir gott skráningarkerfi vinnuslysa nýtast vel í forvörnum
Það er hverju fyrirtæki nauðsynlegt að geta fylgst vel með því vinnuumhverfi sem það býður starfsmönnum sínum. Vinnuslys geta valdið miklum skaða og fyrirtækin bera mikla ábyrgð í þeim efnum, segir Erlingur Snær Erlingsson gæðastjóri hjá Límtré hf. Þeir Límtrésmenn hafa að undanförnu unnið að þróun skráningarkerfis fyrir vinnuslys.
Þetta skráningarkerfi er viðbót við svokallað Lotus Notes-hópvinnutölvukerfi sem mörg fyrirtæki hér á landi nota.
– Hugmyndin að þessu skráningarkerfi fæddist hjá mér og framleiðslustjóra okkar í Reykholti þar sem við eigum og rekum einingarverksmiðju. Þar ræddum við nauðsyn þess að hafa á einum stað upplýsingar um öll vinnuslys sem verða í okkar fyrirtæki. Við vildum geta fært okkur þessar upplýsingar í nyt og því var ráðist í þetta verkefni. Nú getum við á mun auðveldari hátt sett slysin í samhengi og skoðað þau út frá mismunandi forsendum, segir Erlingur sem telur þessar upplýsingar mikils virði. – Það er ekki nóg með að við skráum öll slys og óhöpp heldur einnig aðdraganda og afleiðingar. Þannig viljum við meina að við vinnum okkar heimavinnu betur hvað varðar allar forvarnir.
Auk þessara upplýsinga eru skráð í kerfið það sem þeir Límtrésmenn kalla næstum-því-slys.
– Það hlýtur að vera hverjum atvinnurekenda kappsmál að engin slys eigi sér stað á hans vinnustað. Ég er sannfærður um að með betri skráningu tekst okkur að afstýra að minnsta kosti hluta þeirra slysa sem eiga sér stað í verksmiðjum okkar, segir Erlingur sem leggur áherslu á að vinnuslys séu frekar fátíð innan fyrirtækisins.
Límtréssamsteypan hefur vaxið umtalsvert frá því að heimamenn í uppsveitum Árnessýslu settu á stofn fyrirtæki til að framleiða límtrésburðavirki fyrir innlendan markað árið 1982. Þá festi Límtré hf. kaup á Yleiningu hf. sem starfrækti einingaverksmiðju í Reykholti í Biskupstungum og á síðasta ári eignaðist það að fullu Vírnet hf. í Borgarnesi. Jafnframt keypti Vírnet Garðastál sem hefur framleitt húsaklæðningar í mörg ár í Garðabæ.
– Við höfum verið í samstarfi við Vinnueftirlitið um þessa skráningu og þeir hafa tekið þessu frumkvæði okkar vel. Við vonumst til að í framtíðinni verði hægt að senda til VER slysatilkynningar í rafrænu formi. Þetta sparar bæði peninga og fyrirhöfn þar sem við verðum þegar búnir að færa þetta inn hjá okkur áður en við sendum VER okkar tilkynningu.
Fyrir tilstuðlan tölvufyrirtækisins Hópvinnukerfa hf., sem tók að sér að útfæra hina tæknilegu hlið málsins, var í framhaldi tekið upp samstarf við Samskip og Rafmagnsveitur ríkisins um áframhaldandi þróun þessa skráningarkerfis. Ekki er ólíklegt að fleiri fyrirtæki bætist í hópinn, því öll fyrirtæki sem notast við Lotus-hugbúnað geta bætt þessu við. – Ég vona að þetta framtak okkar eigi eftir að auka öryggi starfsmannanna, segir Erlingur, því að það er bæði sárt fyrir starfsmenn að lenda í vinnuslysi og einnig getur það verið dýrkeypt fyrir fyrirtækið að sjá á eftir starfsmönnum sínum hverfa frá störfum í lengri eða skemmri tíma vegna vinnuslyss.
Til baka