Samiðnarfólkið sættir sig bara við það besta

Í lok apríl var haldið 3. þing Samiðnar og sóttu þingið 115 fulltrúar af öllu landinu. Helstu verkefni þingsins voru atvinnumál, heilsuefling og málefni ungs fólks. Þingið einkenndist af öflugum umræðum og sterkum vilja til aukins samstarfs.
Í samþykktum um atvinnumál er bent á að blikur kunni að vera á lofti. Aukin verðbólga, mikill fjármagnskostnaður og lækkandi gengi krónunnar hafa gert fjárfestingar í atvinnulífinu of dýrar. Eftir mikið uppbyggingartímabil sem nú sér fyrir endann á er hætta á atvinnuleysi vegna þess að skort hefur á að undirstöðurnar, sem eru stöðugleiki og jöfn samkeppnisstaða, hafi verið treystar. Við þessari þróun verður að bregðast og bendir þingið meðal annars á að styrkja verði nýsköpun og markaðssetningu fyrirtækja. Það verður að treysta samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja með öflugum stuðningi við fyrstu skrefin þegar verið er að koma fyrirtækjum á fót eða kaupa til landsins ný fyrirtæki, jafnframt því að treysta stöðu þeirra sem fyrir eru. Á það er bent í samþykkt þingsins að vaxtarbroddar í landbúnaði og sjávarútvegi séu takmarkaðir en hins vegar séu margir vaxtarbroddar í iðnaði sem geti skapað fjölmörg atvinnufæri í framtíðinni.
Í samþykkt þingsins um vinnuumhverfismál er bent á að í starfsgreinum sem tilheyra Samiðn er slysatíðni með því hæsta sem þekkist hér á landi. Lögð er áhersla á að allir aðilar verði að taka saman höndum og efla innra eftirlit í fyrirtækjunum. Fara eigi í skipulagt átak þar sem markmiðið sé að ná verulega niður slysatíðni og gera starfsumhverfið í iðnaði aðlaðandi svo að ungu fólki finnist fýsilegt að koma þar til starfa.
Sá málaflokkur sem fékk hvað mesta athygli á þinginu voru málefni ungs fólks. Það er verkalýðshreyfingunni mikið áhyggjuefni hvað það reynist erfitt að fá ungt fólk til starfa. Flestir sem eru virkir í hreyfingunni eru komnir á miðjan aldur og það telst til undantekninga að sjá ungt fólk í forystu verkalýðsfélaga. Þingið lagði áherslu á að til að virkja ungt fólk verði að skapa áhugavert umhverfi þar sem það getur nálgast málefnin út frá sínum forsendum og starfsháttum. Auka þurfi kynningar- og upplýsingastarf og fá ungt fólk til að koma að því. Huga þarf betur að málefnum ungs fólks við stefnumótun og kröfugerð í kjarasamningum og tryggja aðkomu þess til dæmis í samninganefndum.
Með samþykktum þingsins er lagður grunnur að öflugu starfi næstu árin og það er ljóst að Samiðnarfólk ætlar sér að vera virkir þátttakendur en ekki eingöngu áhorfendur. Þetta er mikilvægt því verkalýðshreyfingin þarf að vera mótandi og hafa frumkvæði. Það er ekki nóg að vera gagnrýninn, það þarf að sjá til þess að tekið sé á þeim málum sem horfa til framfara og skipta launamenn máli.
Það er einnig mikilvægt fyrir forystu sambandsins að hafa fengið skýrar ábendingar um hvert félagsmenn vilja stefna og hvað þeir ætlast til að samtökin geri.
Þingið sendi frá sér skýr skilaboð um að menn ættu að vinna saman til að tryggja sem bestan árangur. Sambandið og aðildarfélögin eiga að vera sem ein heild og það er hlutverk forystunnar að tryggja það. Samiðnarfólk sættir sig ekki við neitt nema það besta, eina leiðin til að ná þeim árangri er að við vinnum öll saman.