Finnbjörn Hermannsson formaður Samiðnar segir að Íslendingar verði að tileinka sér
langtímamarkmið í atvinnu- og efnahagsmálum
Undanfarin ár hefur efnahagslífið hér á landi einkennst af djúpum lægðum og miklum hæðum. Þannig þekkjum við atvinnumarkaðinn okkar, ýmist atvinnuleysi, stöðuga vinnu smá-tíma og síðan þenslu. Nú bíðum við öll með öndina í hálsinum, þegar þarf að lenda því sem kallað er góðæri: Verður mjúk eða hörð lending? – segir Finnbjörn Hermannsson sem var endurkjörinn formaður Samiðnar til næstu þriggja ára á síðasta þingi sambandsins.
Finnbjörn segir að ýmis merki séu á lofti um að lendingin ætli að verða nokkuð hörð. Hann bendir á að verðbólgan er komin á fullt skrið og síðustu mælingar á vísitölu neysluverðs um 1,4% aukningu milli mánaða eru aldeilis ekki gæfulegar. Neysluverðsvísitalan síðustu 3 mánuði hefur hækkað um 3,2% og ef þetta er framreiknað er verðbólgan 12,8% á ársgrundvelli
– Þetta er grafalvarlegt mál og ef heimilin væru skráð á verðbréfaþingi bæri að gefa út afkomuaðvörun. Verðbólgan rýrir kaupmátt launanna og um leið hækkar hún skuldirnar. 90% af samanlögðum skuldum heimilanna eru verðtryggðar og þegar verðbólgan eykst hækka bæði afborganirnar og höfuðstóllinn. Um síðustu áramót var áætlað að heimilin skulduðu sem nemur 168% af ráðstöfunartekjum sínum. Og hér er bara verið að tala um skuldir við lánastofnanir, hér eru raðgreiðslurnar og vísareikningarnir ekki taldir með. Hvert prósentustig í verðbólgu hækkar skuldir heimilanna um 5 milljarða króna á ári. Það eru um 14 milljónir á dag, segir Finnbjörn. Seðlabankinn hefur gefið út að eðlileg verðbólga sé 2,5% og eru kjarasamningar miðaðir við þá stefnu.
Að sögn Finnboga hefur skuldaaukning heimilana aukist verulega undanfarin ár. Þannig námu skuldir árið 1995 40,5% af eignum að undanskildum eignum í lífeyrissjóði, en hafa nú aukist í 54,5% af eignum. – Við göngum á höfuðstólinn og það all-hressilega, segir Finnbjörn sem áréttar að stöðugleikanum verði að viðhalda.
– Rekstrarafkoma heimilanna veltur á því að áfram ríki hér stöðugleiki. Aðildarfélög ASÍ gerðu kjarasamninga til langs tíma til að treysta stöðugleikann og tryggja traust rekstrarumhverfi heimila og fyrirtækja. Þessir kjarasamningar, bæði árið 1997 og nú á síðasta ári, voru hófsamir og ekki hægt að segja að þeir hafi ruggað þjóðarskútunni. Við viljum líka njóta ávaxtanna. Það að horfa upp á eignaupptöku og rýrnandi kaupmátt í vaxandi verðbólgu er nokkuð sem við getum ekki setið aðgerðarlaus undir.
– Þessi mjúka lending sem allir tala um virðist vera blindlending. Það vonast allir eftir hinu besta en enginn veit hvernig lendingin verður. Eitt er víst: Við erum farin að lækka flugið. Launafólk er farið að óttast um sinn hag. Maður verður var við mikla umræðu manna á meðal um ástandið. Þrátt fyrir orð forsætisráðherra um að allt sé hér í himnalagi sér fólk hvernig afborganir hækka á greiðsluseðlum lána og höfuðstólinn hækkar.
– Við erum einnig farin að fá töluvert af kvörtunum vegna þess að atvinnurekendur eru of seinir með launin. Þetta er hefðbundinn fylgifiskur versnandi ástands. Við erum líka að reikna út fyrir félagsmenn okkar launakröfur vegna gjaldþrota.
Langtímaáætlun
– Ég geri ekki ráð fyrir að Smáraævintýri gerist á hverju ári. Hagkerfi okkar er lítið. Slíkar byggingar og virkjanirnar hafa mikil áhrif á atvinnumálin. Við verðum að hafa virka atvinnustefnu til langs tíma, sem eilíflega verður að vera í endurskoðun. Þar þarf að gera kröfur til opinberra aðila um að þeir haldi að sér höndum þegar þensla er á vinnumarkaðnum og spili út þegar atvinna dregst saman. Við þurfum líka að skoða þær leiðir sem við höfum verið að fara að undanförnu og læra af reynslunni, segir Finnbjörn og bendir til dæmis á útboðsmarkaðinn.
– Í því háflugi sem byggingarmarkaðurinn var í virðist þó eitthvað vera að á útboðsmarkaði okkar, fyrirtækin hafa verið að gera tilboð sem skila engu. Ég mæli ekki með samræmingarverðlagningagönguferðum í Öskjuhlíð en fyrirtæki verða að vera ábyrgari í útboðsmálum. Við höfum verið að sjá fyrirtæki bjóða langt undir kostnaðaráætlun í þessari þenslu. Og við erum að sjá fyrirtæki fara á hausinn. Með tilheyrandi afleiðingum fyrir starfsmenn og viðskiptavini þeirra. Mér finnst þetta ekki einkamál fyrirtækja hvað verið er að bjóða í. Það verður að koma á einhvers konar reglum, því það er ekki verið að gera neinum greiða með því að taka tilboði sem allir sjá að ekki er hægt að standa við. Það er heldur ekki sparnaður í því fyrir verkkaupa að þurfa að skipta um verktaka í miðri verkframkvæmd. Ég tel að við höfum horft upp á alltof mörg dæmi þess að lægstu tilboðin eru ekki lægst þegar dæmið er gert upp í lokin. Svo ekki sé minnst á þær þrengingar sem fólk þarf að fara í gegnum við gjaldþrot.
Framtíðin
– Sem betur fer hefur fjármagnsmarkaðurinn verið að taka við sér að setja fé í sprotafyrirtæki að undanförnu. Þar fór ríkið í fararbroddi með stofnun Nýsköpunarsjóðs. Í kringum þetta fjármagn hafa sprottið upp ný fyrirtæki og störf og það á eftir að halda áfram. En við þurfum ekki í öllum tilfellum að finna upp hjólið. Við getum líka reynt að laða til okkar erlend fyrirtæki og erlenda þekkingu. Jafnvel með því að kaupa okkur inn í viðkomandi fyrirtæki.
Byggðastefnan
– Sú stefna að bjarga landsbyggðinni með því að flytja þangað stofnanir er orðin ansi þreytt og mun ekki skila árangri. Við verðum að skoða þau mál öll frá grunni. Landsbyggðin og höfuðborgarsvæðið eiga ekki að vera andstæðir pólar.
– Við erum það lítil að við getum ekki leyft okkur að hugsa þannig, segir Finnbjörn og leggur áherslu á að án sterks höfuðborgarsvæðis og þeirrar stærðarhagkvæmni sem skapast á því svæði verði lítil framþróun í landinu. – Pólarnir eiga að vera Ísland á móti rest. Við eigum að fara að skoða höfuðborgarsvæðið sem miklu stærra svæði. Að lágmarki að Holtavörðuheiði og austur að Hellu. Með bættu vegakerfi má stækka höfuðborgarsvæðið að þessum mörkum. Við eigum líka að viðurkenna að við gerum þetta land ekkert byggilegra með því að auka á óhagkvæmnina með því að flytja störf sem væntanlega eru á sínum stað vegna hagkvæmni. Við verðum að beina nýjum störfum á landsbyggðina. Við höfum gott dæmi í því sem verið er að gera við Kísilgúrverksmiðjuna við Mývatn. Þar er verið að nota þær forsendur sem sá staður hefur upp á að bjóða, segir Finnbjörn.
– Við hefðum svo sem getað sett enn eitt símsvörunarfyrirtækið þangað en þá er ekki verið að nota þær forsendur sem sá staður hefur umfram aðra. Finnbjörn segir að í þeirri þenslu sem hefur verið undanfarið höfum við verið að tapa störfum til útlanda, og þeim eigi eftir að fjölga. – Það eru fleiri þjóðir en við Íslendingar að byggja upp sína atvinnustarfsemi. Þá eru íslensku fyrirtækin gott skotmark.
– Við eigum að nýta okkur allar leiðir til nýsköpunar og atvinnuuppbyggingar. Nú fá menn skattaafslátt vegna hlutabréfakaupa. Í mörgum tilfellum er aðeins um hvatningu til sparnaðar að ræða. Er eitthvað sem mælir á móti því að slíkur skattaafsláttur yrði bundinn því að um ný hlutafjárútboð sé að ræða? – þannig að þá sé verið að fá nýtt fjármagn inn í atvinnulífið og helst ný fyrirtæki í stað þess að skipt sé um nafn á gömlum bréfum? Spyr Finnbjörn og leggur áherslu á að ef hér á að byggja upp stöðugt atvinnulíf verði að auka fjölbreytni atvinnulífsins. – Við verðum að laða fyrirtæki og þar með tækni til landsins. Í stað ómarkvissrar byggðastefnu mætti hugsa sér að veita stofnstyrki og vöruþróunarstyrki vegna nýrra hugmynda. Forsendan er að áhættufjármagn fáist á móti og að fyrirtækin hafi burði til að standa sig á markaði í framhaldinu. Í því skiptir mestu að fyrirtækin fái aðstoð við að kljúfa þróunar- og menntakostnaðinn í upphafi og verði þar með strax samkeppnishæf. Þá er einnig mjög mikilvægt að tryggja hér áframhaldandi stöðugleika svo fyrirtæki geti gert áætlanir til lengri tíma. En við verðum líka að vera raunsæ. Til lengri tíma litið getum við ekki keppt við láglaunasvæði heimsins á þeirra forsendum.
Finnbjörn hvetur til þess að menn leggi áherslu á þekkingar- og tæknisvið og nýtingu þeirra auðlinda sem við eigum. – Markmiðið á að vera að skapa verðmæt störf með miklum virðisauka. Við verðum að hugsa í víðara samhengi en hingað til. Öflug höfuðborg með fjölbreyttri atvinnu og iðandi mannlífi er okkar helsta tromp í alþjóðlegri samkeppni um fjármagn og fyrirtæki. Landið allt er hluti af atvinnusvæði höfuðborgarinnar í þessu samhengi, fullyrðir hann og leggur jafnframt áherslu á að staðreyndirnar liggja á borðinu.
– Skýrslurnar um árangur eða afleiðingar mismunandi aðferða við atvinnuuppbyggingu eru aðgengilegar. Lærum af þessu og tryggjum umfram allt að menntað fólk sinni störfunum.
– Við þurfum að gera átak í að mennta fólk í iðnaði. Forsenda þess er að fólk búi við atvinnuöryggi í greininni til lengri tíma. Það er enginn tilbúinn til að taka persónulega á sig sveiflur þar sem fólk gerir ýmist, að flytja sængina með sér á vinnustaðinn til að vera þar dag og nótt og ganga svo atvinnulaust mánuðum saman þess á milli.