Pollrólegir járnkallar

Magnús Óttarsson vélvirki hjá Stáltaki segir það ábyrgðarhluta ef kunnáttu til að smíða ný stálskip verður kastað fyrir róða

Litið inn hjá Stáltaki, einum stærsta vinnustað norðan heiða

Flotkvíin marar í hálfu kafi. Togarinn Sigluvík er er enn á floti inni í miðri kvínni. Skipanir ganga manna á milli. Tveir eldri menn ganga sinn eftir hvorum kvíarvæng með slakan bandspotta sem lóð er bundið í. Með þessu bandi mæla þeir staðsetningu togarans innan kvíarinnar. Þegar þeir úrskurða að hann sé kominn á sinn stað fyrir miðju er skipsskrokkurinn skorðaður með vélbúnaði að neðan. Bundinn kyrfilega að ofanverðu og þá var byrjað að lyfta flotkvínni upp að nýju. Eftir um það bil hálfa klukkustund var togarinn kominn á þurrt.
Menn voru pollrólegir við þessa vinnu og auðséð að hér gengu til verks vanir menn sem höfðu gert þetta áður.
– Við erum nú kannski óþarflega margir við þetta núna en verkefnastaðan er svona í dag, segir einn karlinn. Hefur vafalaust haldið að blaðamaður væri hissa á hvað margir menn voru staddir í kvínni.
Flotkvíin kom frá Eistlandi fyrir allmörgum árum og hefur staðið fyrir sínu. Akureyrarhöfn á kvína en Stáltak sér um reksturinn. Stáltak varð til þegar Slippstöðin á Akureyri og Stálsmiðjan í Reykjavík voru sameinuð í eitt fyrirtæki fyrir skömmu en þótt fáni Stáltaks blakti í stefni flotkvíarinnar er ljóst að í hugum margra starfsmanna og annarra norðanmanna ber þessi fjölmenni vinnustaður ennþá nafn Slippstöðvarinnar.
Hundrað manna
vinnustaður

Starfsmenn Stáltaks fyrir norðan eru nú um 115 talsins og verkefnin tengjast flest viðgerðum á skipaflota landsmanna. Hægt er að taka upp fjögur til sex skip og stunda allar helstu skipaviðgerðir. Slippstöðin á Akureyri á sér merka sögu. Hún var stofnuð árið 1952 og hefur í gegnum árin verið einn af stærstu vinnustöðum norðan heiða. Um tíma voru ríkið, Akureyrabær og KEA meðal helstu eigenda en nú er félagið í dreifðri eignaraðild og því stjórnað að sunnan, eins og karlarnir segja.
Það er augljóst af spjalli við starfsmenn að þetta fyrirtæki má muna sinn fífil fegri, og mikil óvissa hefur einkennt rekstur þess undanfarna áratugi. Þegar mest var að gera í nýsmíði og viðhaldi störfuðu hátt í fjögur hundruð manns hjá fyrirtækinu.
Þótt gömlu mennirnir sakni blómaskeiðsins er enginn uppgjafartónn í mannskapnum. Menn leyna samt ekki vonbrigðum sínum með hvernig komið er fyrir íslenskri skipasmíði. Eða eins og gamall starfsmaður sagði: „Auðvitað viljum við smíða alvöru skip. Það er synd að horfa upp á að þessi kunnátta hverfi úr landi. Þessi viðhaldsvinna er skítavinna,“ bætti hann hlæjandi við.

Ef atvinnulífið blómstrar þá blómstrar mannlífið

Magnús Óttarsson vélvirki hjá Stáltaki segir það ábyrgðarhluta ef kunnáttu til að smíða ný stálskip verður kastað fyrir róða

– Þau eru hartnær þrjátíu, árin sem maður hefur verið hér. Ætli það sé ekki óhætt að segja að á þeim tíma hafi gengið ýmislegt á hér á þessum vinnustað. Þegar ég hóf störf voru menn í nýsmíði en nú er orðið langt síðan nokkurri alvörufleytu hefur verið hleypt af stokkum hér út í Eyjafjörðinn.
Það er Magnús Óttarsson vélvirki hjá Stáltaki sem sem hefur orðið. Hann er stjórnarmaður í Félagi málmiðnaðarmanna á Akureyri og hefur ýmislegt við stefnu stjórnvalda í atvinnumálum að athuga.
– Ég veit ekki hvað menn eru að hugsa. Það er ábyrgðarhluti að kasta fyrir róða þeirri kunnáttu sem hér var fyrir í smíði skipa. Með þessu áframhaldi kæmi mér ekki á óvart að menn verði að sigla með skipin til útlanda til að láta gera við þau. Það er ekki sjálfgefið að hér finnist mannskapur um alla eilífð til að gera við skip ef ekkert verður að gert. Mér þætti gaman að sjá upplitið á mönnum ef til dæmis varðskipið Ægir sem hér liggur nú vegna leka með skrúfunni – ef það þyrfti að sigla því til Póllands til viðgerða. Það er ekki víst að þeir sem alltaf falla fyrir lægstu boðunum yrðu þá til, segir Magnús og glottir, og bætir við að stjórnvöld verði að taka þátt í að bæta samkeppnisstöðu íslenskra skipasmíðastöva.
– Eitt verða menn einnig að hafa í huga þegar þeir eru að velta fyrir sér að láta gera við skip, hvort sem það eru opinberir aðilar eða bara venjulegir útgerðarmenn. Vinnubrögðin eru yfirleitt betri hér heima en víðast hvar erlendis. Við sjáum það best á því að ekki ósjaldan koma skip sem hafa verið í viðgerðum erlendis beint upp í slipp þegar þau koma heim. Það þarf að laga ýmislegt sem ekki hefur verið gert nógu vel. Stundum hefur maður það á tilfinningunni að milliliðir taki svo mikla peninga inn á þessari nýsmíði og viðhaldi erlendis að þeir beiti öllum tiltækum ráðum til að knýja útgerðarmenn til þess að fara með verkefnin úr landi, segir Magnús og saknar þeirra daga þegar menn voru á kafi í nýsmíðinni.

Nýsmíðin skemmileg

– Hér var byggð mörg happafleytan. Það er mun skemmtilegra að fást við nýsmíðar. Manni finnst maður eiga eitthvað í þessum skipum sem maður hefur tekið þátt í að smíða og ég segi fyrir mína parta að ég fylgist grannt með þeim, segir Magnús, sem lengi vann við að smíða módel af vélarrúmum skipanna.
– Það þótti hagkvæmt að byggja fyrst nákvæmt módel af vélarrúmi skipanna áður en farið var í sjálfa smíðina. Módel voru höfð svo nákvæm að hægt var að bera tommustokk að þeim og smíða síðan hlutinn í réttu hlutfalli. Þetta var skemmtileg vinna. Það gat tekið allt að hálfu ári að smíða eitt módel, segir Magnús, sem í tómstundum hefur einnig fengist við módelsmíði.
– Ég var stundum að leika mér að því að smíða flugvélarmódel hér áður fyrr, ekki til að fljúga þeim heldur meira til að setja saman fallega hluti.
Magnús er borinn og barnfæddur Akureyringur, býr á Eyrinni og kann vel við sig í höfuðstað Norðurlands.
– Ég er fullur bjartsýni fyrir hönd okkar norðanmanna. Hér er gott mannlíf og það hefur orðið viðsnúningur í atvinnumálum. Nú er næg atvinna hér, og meðan atvinnulífið blómstrar þá blómstrar mannlífið líka,“ segir Magnús, en saknar þess hvað fáir ungir menn leggja nú fyrir sig málmiðnaðagreinar.
– Ég skil svo sem vel unga menn sem leita annarra starfa. Vinna í málmiðnaði er ekki vel launuð og það getur verið ansi kalsasamt á veturna að vinna við skipaviðgerðir. Þessu þurfum við nú samt að breyta, Við verðum að sjálfsögðu sem fiskveiði- og siglingaþjóð að vera reiðubúin til að annast viðhald á okkar skipaflota. Annað væri mikil skömm, segir Magnús Óttarsson sem bíður eftir því að togarinn Sigluvík komist á þurrt til þess að hann og vinnufélagar hans geti skrúfudregið hann.

Hér klæjar menn í lófana að fá að smíða ný skip

Hákon Hákonarson formaður Félags málmiðnaðarmanna á Akureyri segir að íslenskir iðnaðarmenn fái tækifæri til að smíða nýja varðskipið yrði það gríðarleg lyftistöng fyrir
íslenskan iðnað

– Ég er bjartsýnn á framtíð málmiðnaðargreina hér við Eyjafjörðinn. Það blés ekki byrlega hér um tíma fyrir nokkrum árum en nú hefur ræst úr, segir Hákon Hákonarson, formaður Félags málmiðnaðarmanna á Akureyri. Hann segir félagsmenn vera um þrjú hundruð, bæði málmiðnaðarmenn og bíliðnamenn, og óhætt að segja að félagsmenn séu virkir því yfirleitt séu félagsfundir vel sóttir og menn taki þátt í að móta stefnu félagsins í margvíslegum málum.

– Við höfum hér fimm félagsfundi að jafnaði á ári þar sem farið er yfir þau mál sem eru á dagskrá, þau rædd og afgreidd. Ég tel það mikilvægt að menn hafi gott tækifæri til að fylgjast með starfi félagsins, segir Hákon sem einnig gegnir starfi framkvæmdastjóra.
Aðspurður um helstu verkefni framkvæmdastjóra segir hann að þau séu æði fjölbreytt.
– Á borðinu núna liggur til dæmis mál vegna þess að eftirvinnusamningi málmiðnaðarmanna hér var sagt upp fyrirvarlaust. Að okkar mati er hér um samningsbrot að ræða. Atvinnurekandinn beitir fyrir sig ákvæði um ófyrirséðan verkefnaskort í kjölfar sjómannaverkfallsins, og um þetta er tekist á núna. Það gengur ekki að menn komist upp með að segja upp svona samningum að morgni og ætlast til að þeirra ákvörðun gangi í gildi síðdegis, segir Hákon.
Auk ýmissa svona atriða í samskiptum atvinnurekenda og félagsmanna segir Hákon að á borði sínu séu ýmis mál sem tengjast rekstri félagsins, svo sem fræðslumál og greiðslur úr sjúkra- og styrktarsjóðum og innheimta og orlofsmál.
– Við hjá félaginu höfum haft þann hátt á að greiða mönnum orlofsstyrki. Í stað þess að byggja fleiri orlofshús var ákveðið að fara þessa leið. Með því sköpum við möguleika fyrir okkar félagsmenn til að njóta sumarleyfisins innanlands í þeim eftirsótta orlofsmánuði júlí, sem og á öðrum tímum. Við eigum eitt og hálft orlofshús á Illugastöðum í Fnjóskadal auk íbúða í Reykjavík, segir Hákon. Mikil aðsókn hefur verið í þessi hús og ekki verið hægt að anna eftirspurn. Því hafi verið ákveðið að fara þessa leið í stað þess að byggja fleiri hús.

Atvinnumálin

– Hér standa menn grimma vakt við að þjónusta skipaflotann og hafa gert lengi. Áður fyrr var stunduð nýsmíði á fiskveiðiskipum og vissulega klæjar menn í lófana hér að hefja slíka smíði að nýju. Menn horfa mjög til þess ef ráðist verður í smíði nýs varðskips að það verði gert hér innanlands. Félagið hefur átt í viðræðum við Valgerði Sverrisdóttur iðnaðarráðherra um þetta mál og hvatt hana til að leggjast á árar með okkur í þessu máli.
– Þetta er gríðarlegt verkefni sem áætlað er að kosti þrjá milljarða króna. Og mundi verða gríðarleg lyftistöng fyrir iðnaðinn í landinu. Ekki bara okkur málmiðnaðarmenn heldur einnig alla trésmiði, rafvirkja og málara auk verkamanna og tæknimanna, segir Hákon og leggur áherslu á að stjórnvöld verði að huga að margfeldisáhrifum svona verkefnis þegar ákvörðun verður tekin um smíði skipsins.
Hann efast ekki um getu íslensks iðnaðar til að takast á við verkefnið.
– Okkur vantar svona verkefni til að efla þekkingu og viðhalda þeirri kunnáttu sem þarf til að smíða svona skip. Ef ekkert verður að gert í þeim málum er hætta á að við glötum þeirri reynslu sem þjóðin býr nú yfir á sviði skipasmíða.
– Það er víða óplægður akur þegar kemur að avinnutækifærum hér fyrir norðan. Ef ráðist verður í stórframkvæmdir á borð við virkjanir og stóriðju verðum við virkir þátttakendur í því, segir Hákon og bætir við að málmiðnaðarmenn af Norðurlandi fari nú í störf víða, ekki bara innanlands heldur einnig til útlanda. Þannig hafa félagsmenn af Eyjafjarðarsvæðinu unnið við uppsetningu kælikerfa í Noregi, Kína og Síle.

Menntamálin

– Eitt af því sem skiptir máli þegar við horfum til framtíðar er að menn geri sér grein fyrir að málmiðnaðarmenn og aðrir verða að viðhalda sinni þekkingu. Það eru stöðugar framfarir sem menn verða að tileinka sér. Við hér hjá Félagi málmiðnaðarmanna á Akureyri reynum að leggja okkar af mörkum til að viðhalda kunnáttu okkar manna og auka hana. Við höfum fest kaup á húsnæði hér í bænum þar sem við erum að byggja upp aðstöðu til námskeiðahalds. Þar verður hægt að bjóða öflugt fræðslustarf fyrir okkar félagsmenn. Við ætlum okkur að vera í nánu samstarfi við Fræðsluráð málmiðnaðarins, og Fræðslumiðstöð bílgreina, segir Hákon og leggur áherslu á að menn þurfi að viðhalda sinni verkþekkingu, því sífellt meiri kröfur séu gerðar til verkkunnáttu og nefndir hann að í mörgum tilfellum sé krafist vottunar um að hæfir starfsmenn séu til staðar þegar boðið er í verk.
– Það ætti ekki að dyljast neinum að þeim mun betur sem maður kann til verka, því verðmætari er hann og þau verðmæti skila sér fyrr en seinna í launaumslögin.

Verkalýðshreyfingin

Hákon hefur verðið virkur í verkalýðshreyfingunni allt frá því hann hóf nám árið 1962, þá 17 ára gamall.
Það má segja að ég hafi verið virkur frá fyrsta degi því þá gekk ég til liðs við iðnnemafélagið hér á Akureyri og og hef starfað að verkalýðsmálunum óslitið síðan.
Auk formennsku í félaginu fyrir norðan á Hákon sæti í miðstjórn Samiðnar og er stjórnarformaður Orlofsbyggðarinnar á Illugastöðum, Hann hefur einnig setið í ýmsum ráðum og nefndum fyrir verkalýðshreyfinguna í gegnum tíðina.
– Ég er bjartsýnn á framtíð verkalýðshreyfingarinnar. Við megum ekki gleyma því að við eigum henni ýmislegt að þakka, sem of langt mál yrði að telja upp hér. En margvísleg réttindi sem launafólk hefur nú væru ekki til staðar ef ekki hefði verið öflug verkalýðshreyfing í landinu. Mér detta til dæmis í hug hin nýju lög um fæðingarorlof. Það var mál sem verkalýðshreyfingin lagði þunga áherslu á og nú hefur sá réttur verið stórbættur.
Þótt væringar séu með ýmsum mönnum innan hreyfingarinnar held ég að hún eigi eftir að standa af sér þann ólgusjó og verða áfram sterkt þjóðfélagsafl, segir hann.
Hákon er sáttur við lífið í sínum heimabæ.
– Hér er gott mannlíf og mannvinsamlegt umhverfi. Samfélagið hér hefur verið að styrkjast á undanförnum árum, ekki síst með tilkomu Háskólans og uppbyggingu annarra menntastofnana á svæðinu, segir Hákon Hákonarson.

Ólafur er búinn að standa vaktina lengi

– Ég er með lengstan starfsaldur hér í Stáltaki. Byrjaði að læra árið 1963 og hef verið hér allar götur síðan, sagði Ólafur Eggertson þar sem hann stóð með járngrindur í höndunum og var að rétta þær af.
– Þessar grindur á að nota í Leifsstöð, það koma öðru hverju hingað verkefni sem ekki tengjast skipaviðgerðum, segir hann, en gaf sér ekki mikinn tíma til að líta upp frá verki.
– Auðvitað saknar maður þeirra daga þegar hér var stunduð nýsmíði. Þessi viðhaldsvinna er bæði óþrifaleg og lítið gefandi svona til lengdar, segir Ólafur um leið og hann nær í nýja grind og setur hana í réttingarvélina.
– Það þýðir svo sem ekkert að kvarta, svona er nú bara komið fyrir þessum iðnaði hér á landi.

Bjartsýnn ungur vélvirkjanemi

– Ég kann vel við þetta starf. Hér í stöðinni fær maður að takast á við ólík verkefni, sagði Símon Þór Símonarson vélvirkjanemi þar sem hann stóð við vörubíl í eigu stöðvarinnar.
– Ég var að lagfæra dælubúnað í bílunum, sagði hann.
Símon á eftir eina önn í Verkmenntaskólanum á Akureyri: – Ætli maður klári þetta ekki um áramótin.
– Svona starf á ágætlega við mig. Ég er ekkert hræddur um að fá ekki nóg að gera í framtíðinni. Ekki var á honum annað að skilja en hann ætli sér að búa áfram á Akureyri „Fínn staður“ – eins og hann orðaði það.

Með bíladellu frá unga aldri

– Það má segja að ég hafi fengið bíladellu þegar í æsku og strax á unglingsárum í Kelduhverfi lá fyrir hvert stefndi. Ég lauk námi í bílvélavirkjun hér við Verkmenntaskólann á Akureyri 1992 og hef verið hér síðan. Fann konu hér á Akureyri og eftir það var þetta ekki spurning, segir Ari Þór Jónsson og brosir út í annað. Hann starfar á bílaverkstæði sem Höldur rekur.
Við erum aðallega í viðgerðum á bílum fyrir Heklu og einnig Honda- og Peugeot-bíla. Hér er jöfn og góð vinna. Vinnutíminn frá átta til fimm en til þrjú á föstudögum. Fyrir mig er þetta nóg. Það er helst á sumrin þegar ferðamannastraumurinn er að við neyðumst til að vinna meira, segir Ari sem hefur verið trúnaðarmaður fyrir sitt félag um nokkra hríð.
– Við erum 15 sem störfum hér, bílvélavirkjar, réttingamenn og bílamálarar.
Aðspurður um laun segir hann að ekki sé gott að ræða þau þar sem menn væru allir yfirborgaðir og það mismikið.
– Ég held mér sé óhætt að segja að allir fá meira en kjarasamningar kveða á um, segir Ari sem er sáttur við vinnuumhverfið á verkstæðinu.
– Hér eru menn settir í allt, á svona verkstæði gengur ekki að menn sérhæfi sig í einhverju sérstöku, menn ganga í þau verk sem þarf að vinna, segir Ari sem ekki neitar því þegar gengið er á hann að hann er kannski bestur í gírkössunum.

Guðmundur Ómar Guðmundsson formaður
Félags byggingarmanna í Eyjafirði segir að sumir atvinnurekendur líti á Akureyri sem láglaunasvæði

Uppmælingaraðallinn útdauður fyrir norðan

– Ég er búinn að vera í forsvari fyrir þetta félag í tuttugu ár. Í félaginu eru trésmiðir, pípulagningarmenn og málarar. Í þeim uppgangi sem er hér á Akureyri núna hefur félagsmönnum fjölgað nokkuð, segir Guðmundur Ómar Guðmundsson, formaður Félags byggingarmanna í Eyjafirði, en nú eru um 300 manns skráðir í félagið.
– Við getum ekki annað en verið bjartsýnir á áframhaldandi uppgang hér á Akureyri. Á döfinni eru nokkrar stórar byggingar. Má þar nefna að þegar er hafin vinna við stækkun Giljaskóla, viðbygging við Amtsbókasafnið, viðbygging við Verkmenntaskólann fer senn í útboð, bygging heimavistarhúss fyrir framhaldsskólana. Einnig eru uppi áform um að reisa rannsóknarhús við Háskólann og nú er rætt um að reisa nýbyggingu við Fjórðungssjúkrahúsið sem á að hýsa hluta af starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar, segir Guðmundur og bætir við að mikið sé um byggingu íbúðarhúsnæðis á Akureyri.
– Það sama er ekki hægt að segja um aðra staði á okkar félagssvæði. Þar hefur ríkt nokkur ládeyða að undanförnu. Við lítum á Eyjafjörðinn sem eitt atvinnusvæði og menn hafa brugðið á það ráð að koma inn til Akureyrar til vinnu vegna verkefnaskorts heimafyrir. Það er helst á Grenivík að eitthvað er byggt, segir Guðmundur og nefnir þessu til áréttingar að tveir verktakar á Dalvík séu með nánast allan sinn mannskap í vinnu á Akureyri.

Láglaunasvæði

– Því miður er það svo að atvinnurekendur á þessum slóðum hafa litið á svæðið sem láglaunasvæði. Það má segja að við liggjum að meðaltali um 20% undir þeim launum sem greidd eru fyrir sunnan. Ein af skýringunum kann að vera að hér viðgengst ekki að menn vinni í uppmælingu og það hefur ekki verið gert á annan áratug. Ég vil meina að atvinnurekendur standi í vegi fyrir því, segir Guðmundur og er ekki sáttur við það ástand. Auk þess að vera formaður Félags byggingarmanna í Eyjafirði sér Guðmundur um daglegan rekstur félagsins.
– Það er að ýmsu að hyggja hjá svona félagi, þjónusta við félagsmenn er snar þáttur í starfinu. Það koma alltaf upp öðru hverju mál þar sem starfsmenn greinir á við atvinnurekandann. Nú, svo sé ég einnig um orlofshúsin og íbúðina í Reykjavík. Þessu starfi fylgja margvísleg nefndastörf, segir Guðmundur sem auk þess að vera í forsvari fyrir sitt félag í héraði situr í miðstjórn Samiðnar og á sæti í stjórn Menntafélags byggingarmanna.
– Menntamálin eru núna eitt mesta hagsmunamál byggingarmanna. Þær öru breytingar sem eiga sér stað í greininni verða til þess að ef menn sinna ekki sinni endurmenntun úreldast þeir fljótt. Því er það mjög brýnt að mínu mati að stéttarfélögin séu öflug á því sviði. Við þurfum að sjá til þess að félagsmenn hafi næg tækifæri til að bæta við sína kunnáttu. Þetta höfum við reynt að gera með því að standa fyrir fjölbreyttum námskeiðum um margvísleg svið byggingargeirans.
Það hefur hins vegar valdið okkur nokkrum vonbrigðum hvað menn hafa verið lélegir við að sækja þessi námskeið upp á síðkastið, segir Guðmundur en hefur engar sérstakar skýringar á því.
– Kannski hafa menn of mikið að gera, eða þá að við bjóðum ekki upp á réttu námskeiðin. Þetta þarf að skoða, því eins og fyrr segir er það brýnt fyrir menn sem ætla að bæta kjör sín að kunna skil á öllu því nýjasta sem fyrirfinnst hverju sinni í sínu fagi.
Guðmundur segir að breytingar standi fyrir dyrum við rekstur félagsskrifstofunnar.
– Við höfum verið hér með eigin skrifstofu lengi. Nú stendur til að flytja hana á milli hæða hér á Skipagötunni og ganga til samstarfs við Einingu-Iðju sem hefur sínar skrifstofur neðar í húsinu. Með þessu vonast ég til að þjónustan við félagsmennina verði betri og einnig er þetta hagkvæmari kostur fyrir félagið þar sem við getum nú leigt út það húsnæði sem við höfðum áður. Það má segja að nú verði alltaf einhver við til að taka á móti erindum til félagsins eða afhenda lykla að orlofshúsunum svo dæmi sé tekið, segir Guðmundur. Þetta samstarf við Einingu er vísir að þjónustuskrifstofu hér fyrir norðan, segir Guðmundur Ómar Guðmundsson.

Kaffiskúraspjall við Giljaskóla

Þegar kemur að því að hafa uppi á byggingarmönnum þá líta menn gjarna upp og leita að byggingarkrönum sem ber við himin. Þannig fór tíðindamaður blaðsins að á Akureyri fyrir skemmstu. Leitin leiddi hann að Giljaskóla þar sem nú er nýhafin bygging seinni áfanga skólans.
Þegar tíðindamanninn bar að stóð yfir kaffitími og þeir sem ekki sátu í bílum sínum á svæðinu drukku kaffi í vinnuskúrnum.
– Viltu kaffi? spyr Ingvi, einn nokkurra smiða sem sitja þar í skúrnum.
– Já takk, áttu mjólk?
– Hvað segirðu, Samiðnarblaðið? spyr einn og lætur eins og hann kannist ekki við það.
Hinir voru með á hreinu hvaða blað það væri og voru fúsir til að tjá sig.
– Það er SS-byggir sem er að reisa þetta hús. Þetta verður um 24 þúsund fermetra bygging sem á að vera tilbúin í ágúst á næsta ári, segja þeir.
Nokkrir höfðu tekið þátt í smíði fyrri áfanga og voru stoltir yfir því.
– Hér á Akureyri hefur verið nóg að gera, segja þeir og minna á að þeir hafi flestir tekið þátt í uppbyggingu Glerártorgsins en þar er stór verslunarmiðstöð sem tekin var í notkun á Akureyri fyrir nokkrum mánuðum.
– Þetta var brjáluð vinna, mest var ég í 26 tíma í strekk, segir Hilmar, og segir að menn hafi unnið þetta 12 til 14 tíma á dag þegar mest gekk á. Undir þetta taka aðrir viðstaddir. Ekki var annað að skilja á mönnum en að þeir hefðu bara verið sáttir við þessa törn, hún gaf mikinn pening í aðra hönd og þeir voru fljótir að jafna sig eftir átökin.
Nú segjast þeir vinna frá hálf-átta til korter í sex, með 45 mínútna matarhléi.
– Já, það fara flestir heim í mat. Það eru svo stuttar vegalendir hér, segir Magnús.
Þeir voru sammála um að laun væru verri fyrir norðan en á suðvesturhorninu, Sumir tala um 400 til 800 króna mun á tímakaupi.
Uppmæling þekkist ekki lengur fyrir norðan og svo er að heyra að menn sætti sig bara við það.
– Hér ganga menn í öll verk. Menn verða að vera jafnvígir að setja í hurðir og slá upp steypumótum. Þótt stundaður sé uppsláttur hér allt árið er á mörkunum stundum á veturna að hægt sé að standa í slíku, segir Ingvar sem kallar greinilega ekki allt ömmu sína í þeim efnum.
Þegar talið berst að mannlífinu í bænum kemur í ljós að þeir eru sáttir. Og voru sammála um að gott væri að búa fyrir norðan.
Þegar talið berst að íþróttum og þeim tveimur félögum sem starfa í bænum eru menn ekki lengur eins sammála. Meirihlutinn taldi sig KA-menn en þó lét rödd Þórsarans hæst og greinilegt að tal um íþróttafélögin hleypti fjöri samræðurnar. Allir voru þeir þó sammála um að ekki væri lengur stætt á því að Akureyringar ættu ekki lið í efstu deild karla í knattspyrnu.
– Þór kemst upp í haust, segir Magnús Þórsari og bætir við að það væri sama hvort liðið kæmist upp, menn mundu standa með því.
Nú voru farnir að tínast inn menn sem ekki höfðu verðið í skúrnum í kaffitímanum og það var ljóst að hann var á enda. Einn af öðrum klæddu menn sig í kuldagallann. Úti beið áframhaldandi vinna við grunn Giljaskóla.