Helstu mál 3. þings Samiðnar

Ungt fólk og heilsuefling

Þriðja þing Samiðnar var haldið á Grand Hóteli dagana 19.–21. apríl og þótti takast hið besta í alla staði.
Börn úr strengjasveit Suzuki-skólans léku tónlist á meðan gestir komu sér fyrir í sætum sínum en áður en sjálft þingið hófst var haldið málþing þar sem lýðræði og framtíðin voru til umfjöllunar. Þar komu fram afar áhugaverð sjónarmið sem urðu mörgum umhugsunarefni.
Einkunnarorð þriðja þings Samiðnar voru Ungt fólk – Heilsuefling.
Á annað hundrað fulltrúa mætti á þingið frá aðildarfélögum Samiðnar og fór þingið hið besta fram.
Góðir gestir frá Sænska málmiðnaðarsambandinu komu á þingið og sögðu frá stöðu mála hjá iðnaðarmönnum í Svíþjóð.
Finnbjörn Hermannsson var einróma endurkjörinn formaður Samiðnar og Vignir Eyþórsson. varaformaður.
Finnbjörn Hermannsson setti þingið og í máli hans kom fram að efnahagsástandið væri ekki gæfulegt. Verðbólgan væri á fullu skriði, rýrði kaupmátt launþega og setti rekstrarafkomu heimilanna í hættu. Bara hækkun um eitt stig táknaði hækkun á skuldum okkar um fimm milljarða. Það samsvarar til dæmis allri Smáralindinni. Finnbjörn talaði um að við ættum að reyna að laða til okkar erlend fyrirtæki. Það væri orðið þreytt að flytja stofnanir út á landsbyggðina og það veikti höfuðborgina okkar. Það þurfi að finna ný störf í stað þess að flytja þau frá einum stað til annars. Nú þegar hafi tapast mörg störf til útlanda. Við eigum að nýta allar leiðir til nýsköpunar og atvinnuuppbyggingar og halda áframhaldandi stöðugleika til að fyrirtæki geti tryggt stöðu sína. Gera þurfi átak í því að mennta fólk í iðnaði og tryggja að fagmenntað fólk vinni störfin. Einnig minntist Finnbjörn á húsnæðiskerfið og sagði að það kerfi þyrfti að hugsa upp á nýtt og tryggja fólki öryggi í húsnæðismálum.

Góð samskipti Samiðnar og iðnaðarráðuneytis

Í máli Valgerðar Sverrisdóttur iðnaðar- og viðskiptaráðherra kom fram að breytingar í íslensku samfélagi, framfarir í vísindum og tækni, hefðu ógnað hefðbundum gildum og venjum en einnig breytt hlutum til batnaðar. Atvinnulífið sé í fararbroddi og þekking sé lykillinn að öflugri atvinnustarfsemi. Valgerður bætti því við að samkeppnisstaða okkar Íslendinga hefði aukist á undanförnum árum. Hún benti á þá athyglisverðu staðreynd að fyrirtæki þar sem konur stjórna fari síður í þrot en þó séu konur aðeins við stjórnvölinn í 18% fyrirtækja. Það þykir lágt hlutfall miðað við önnur lönd. Í lokin sagði Valgerður að öll samskipti ráðuneytis og Samiðnar hafi verið góð og unnið hafi verið í sameiningu að stefnumótun.

Úr öryggi í örvilnan

Ör þróun og gífurlegar breytingar sem hafa átt sér stað í heiminum voru umtalsefni Kjells Johanssons frá norræna byggingarmannasambandinu.
Hann sagðist oft sjá fyrirtæki í blómlegum byggðarlögum vera lögð niður eða flutt í burtu. Öryggi starfsmannanna breyttist í örvilnan og þá væri þörf fyrir sterk verkalýðssamtök. Slík samtök væru ekki óþörf eins og sumir hafa haldið fram. Þeirra er ekki síst þörf á þessum tímum breytinga og verða að vera skoðanamótandi afl á tímum hnattvæðingar og örra umskipta. Lýðræðið þurfi það eldsneyti sem verkalýðshreyfingin stendur fyrir.

Sameinuð
stöndum vér!

Í máli Halldórs Björnssonar varaforseta ASÍ kom meðal annars fram að nú væru miklar breytingar hjá verkalýðsfélögum. Þau væru að sameinast og við það yrðu þau sterkari og samtakamátturinn meiri. Öll sundrung kætti andstæðinga verkalýðshreyfingarinnar.

Uggvekjandi niðurstöður í Svíþjóð

Göran Johnsson frá Sænska málmiðnaðarsambandinu sagði frá könnun sem var gerð meðal sænskra málmiðnaðarmanna um vinnuöryggi. Hringt var í 1800 menn og einnig var talað við 1200 öryggistrúnaðarmenn. Niðurstaða könnunarinnar var ekki ánægjuleg því fram kom að 40% viðmælenda óttast um heilsu sína á vinnustað og 39% telja vinnuna valda sér streitu að jafnaði eða alltaf. Í kjölfarið var ákveðið að gera átak í þessum málum. Fimm ára áætlun, frá 2000 til 2004, var hrundið af stað til að fækka vinnuslysum um helming og jafnvirði 250 milljóna íslenskra króna notað til þess. Göran sagði að ýmsu væri ábótavant hjá sænskum vinnuveitendum og í kjarasamningum þessa árs væri áherslan lögð á vinnuumhverfið. Mikil aukning hefur orðið á langtímaveikindum hjá fólki, eða meira en tvöföldun frá 1997–2001. Málmiðnaðarmenn í Svíþjóð fara að meðaltali 58 ára gamlir á eftirlaun, sjö árum á undan öðrum starfsstéttum. Þetta gefur ekki til kynna að við búum í velferðarþjóðfélagi, sagði Göran, og það á ekki bara við um Svíþjóð heldur víða í Evrópu. Enginn ætti að þurfa að borga fyrir vinnu sína með heilsunni.

Heilsuefling

Kolbeinn Kolbeinsson, verkfræðingur hjá Ístak

Vinnum markvisst að fækkun vinnuslysa

Kolbeinn sagði að tíu milljónir króna hefðu verið notaðar í öryggisbúnað hjá starfsmönnum Ístaks. Lögð væri mikil áhersla á örugga vinnupalla, brunavarnir, hjálma og öryggisföt. Stefna Ístaks væri að vinna markvisst að því að fækka vinnuslysum á öllum vinnustöðum þeirra, halda áfram að bæta vinnuaðstöðuna og vera leiðandi á sviði öryggismála. Allur stöðugleiki skipti miklu máli í þessari grein. Kolbeinn sagði að reyndar væri munur á stórum og litlum vinnustöðum. Hjá þeim stærri fengju öryggismál meiri athygli. Yfirlit yfir fjarvistir vegna slysa hefðu ekki legið á lausu en í Smáranum hafa þau mál verið tekin föstum tökum og öll óhöpp skráð niður. Þrátt fyrir mikinn fjölda starfsmanna þar er slysatíðni lág.

Þórunn Sveinsdóttir, deildarstjóri hjá Vinnueftirlitinu

Ný eftirlitsaðferð að danskri fyrirmynd

Þórunn byrjaði erindi sitt á óvenjulegan hátt. Hún bað ráðstefnugesti að standa á fætur og lét þá gera hressandi teygjuæfingar. Síðan sagði hún frá nýrri eftirlitsaðferð sem Vinnueftirlitið væri að þróa. Það byggðist á danskri aðferð og tæki gildi frá og með janúar á næsta ári. Innra starf og forvarnir í fyrirtækjum er metið, gerðar tillögur um úrbætur og fylgst er með því hvernig fyrirtækið fylgir þeim. Reynsla Dana væri góð af þessari nýju aðferð við vinnueftirlit og fyrirmælum eða áætlunum um úrbætur væri fylgt í 95% tilvika.
Þórunn sagði að hraustir og ánægðir starfsmenn táknuðu bættan hag fyrirtækja.
Hún fékk fyrirspurn frá Atla Hraunfjörð, Málarafélagi Reykjavíkur, um hvort til væri gátlisti um meðferð leysiefnamálningar. Þórunn sagði að sérstakur gátlisti væri ekki til á íslensku en hægt væri að fá hann frá nágrannalöndum okkar.
Án árangurs hafi verið reynt að láta banna notkun leysiefnamálningar og starfsleyfi ætti að minnsta kosti að þurfa til að fá að nota hana.

Kristinn Tómasson, yfirlæknir Vinnueftirlitsins

Menntun er algjört grunnatriði

Kristinn ræddi um hugtakið vinnuslys í erindi sínu. Hann sagði að karlar slasist mun oftar við vinnu sína en konur og þá aðallega karlar á aldrinum 21–30 ára, menn sem eru að hefja starfsferil sinn. Mikill munur sé á því hvort um er að ræða faglærðan einstakling eða ekki. Á fyrsta starfsári eru hlutföllin þau að ófaglærðir sem slasast eru 48% á móti 20% hjá þeim faglærðu. Slys gerast flest um miðbik dags og mest hætta stafar af trésögum. Lausir stigar eru algeng orsök vinnuslysa, einnig verkpallar og byggingarhlutar. Rafmagnsslys eru merkilega fá en algengust eru slys vegna falls.
Starfsmenn ættu að fá að vita niðurstöður af áhættumati á vinnustað sínum, segir Kristinn. Áhættumat og árvekni skipta mestu í baráttunni við vinnuslys og góð menntun er algjört grunnatriði að hans mati.

Viljum að ímyndin breytist og yngist
Harpa Rut og Vigdís, umsjónarmenn unglingaþáttarins Oks, töluðu um ímyndarkreppu verkalýðshreyfingarinnar á þinginu og bentu á ýmsar úrlausnir. Góður rómur var gerður að máli þeirra.

– Við vissum í fyrstu ekkert um hvað við áttum að ræða þegar við vorum beðnar um að koma fram á þingi Samiðnar, segir Vigdís. – Í fyrstu ætluðum við eingöngu að tala á léttu nótunum en síðan þróaðist þetta út í meiri alvöru hjá okkur eftir því sem við kynntum okkur málin betur.
– Við vorum hálfhræddar að koma og tala á þinginu og skildum ekki hvers vegna við vorum beðnar um það, segir Harpa Rut. – Þetta var reyndar mjög skemmtilegt og ekki síður lærdómsríkt.

Iðnskólar í ímyndarkreppu

– Ég hef sama og ekkert leitt hugann að verkalýðsmálum, segir Vigdís. – Fólk er bara sett í stéttarfélag, borgar sín félagsgjöld og pælir svo ekkert í þessu. Ungt fólk býr við svo miklu betri kjör núna en fyrr á tímum. Ég var í Iðnskólanum og hefði, eftir á að hyggja, viljað fá einhverja kynningu á verkalýðsfélaginu mínu. Mér finnst iðnskólar vera í ímyndarkreppu. Það þykir ekki flott að vera nemandi í þeim og er heldur lágt skrifað miðað við aðra menntun. Iðnskólinn ætti að geta gert eitthvað til að bæta ímynd sína. Því ætti að koma mun betur á framfæri við fjölmiðla þegar eitthvað markvert gerist, eins og til dæmis hvað íslenska stráknum gekk rosalega vel á Norðurlandamótinu í pípulögnum. Það er til fullt af góðu iðnaðarfólki með metnað.
Svo þarf að kynna í iðnskólum hvað verkalýðsfélög gera fyrir fólk, aðstoð við að fá vinnu erlendis, ódýr ferðalög, niðurgreidd leikfimi og fleira og fleira. Unga fólkið hefur áhuga á þessu en sér félagið sitt oft bara sem alvarlega karla sem tala um leiðinleg málefni Þegar iðnskólanemar hafa útskrifast verður erfiðara að ná til þeirra af því að iðnaðarmenn eru oft svo einir við vinnu sína.

Hver vill vera „lýður“?

– Hvern langar að vera „lýður“? spyr Harpa Rut. – Bara þetta orð, verkalýður, finnst mér vera neikvætt. Þessu þyrfti að breyta í starfsmannasamband, eða eitthvað slíkt. Verzlunarmannafélag Reykjavíkur fór í ímyndarherferð með góðum árangri fyrir ekki svo löngu. Eftir hana leið mér eins og VR væri loksins orðið félagið mitt. Forsprakkar verkalýðsfélaga virðast allt vera karlar sem eru komnir af léttasta skeiði. Við Dísa sáum fyrir okkur að virkt fólk í verkalýðshreyfingunni samanstæði af körlum á miðjum aldri. Svo þegar við mættum á þingið var svo fyndið að sjá að þetta hafði verið rétt hjá okkur. Meirihlutinn virtist vera miðaldra karlar. Við höfðum mjög gaman af því að þegar þeir komu síðan upp í púlt eftir að við vorum búnar að tala höfðu þeir ekkert tekið gagnrýni okkar nærri sér heldur gerðu grín að sjálfum sér og töluðu um að yngja sig upp með því til dæmis að láta lita á sér hárið.
– Ég vil að forystan samanstandi af breiðari hópi og að yngra fólk sé þarna líka til að berjast fyrir réttindum okkar. Þessir leiðtogar hafa reyndar gert margt gott en þeir mættu tjá sig meira um það sem er að gerast í þjóðfélaginu. Þeir sjást bara þegar eitthvað neikvætt, bág kjör, verkföll eða þess háttar, er í umræðunni. Það þyrfti að auglýsa verkalýðsfélögin á annan hátt, líkja þeim meira við tryggingafélög og leggja áherslu á það sem fólk græðir á því að vera í stéttarfélaginu sínu. Ungt fólk núna er svo hagfræðilega þenkjandi og sperrir eyrun þegar hlutirnir eru settir svona upp. Enginn ætti að standa utan verkalýðsfélags, það er fáránlegt og ég veit það núna. Verktakar eru afar réttlausir og ég stend í smástappi sjálf um þessar mundir. Verkalýðsfélagið mitt er að hjálpa mér að ná réttindum mínum.

Tólf tíma Vinnudagur

Nú þegar varðskipið Týr er farið til Póllands til viðgerðar er ekki úr vegi að birta hér frásögn af um líf og starf pólsks járniðnaðarmanns sem vinnur í skipasmíðastöð í Gdansk. Frásögnin birtist í blaði danskra málmiðnaðarmanna, Metal. Þegar við kynnumst Marek Danowski er meðal annars betra að skilja hvers vegna Pólverjarnir ná að undirbjóða stöðvar hér heima sem vilja vinna íslensk verk og borga mönnum fyrir það mannsæmandi laun.

Klukkan er korter yfir fimm þegar hinn þrjátíu og þriggja ára Marek Danowski yfirgefur tveggja herbergja íbúð sína og fjölskyldunnar. Hann er á leiðinni í vinnuna við Remontowa-skipasmíðastöðina í Gdansk. Klukkan sex hefst vinnudagurinn. Að forminu til á hann að vinna til klukkan tvö eftir hádegi en venjulega er vinnudagurinn mun lengri eða 12 tímar, sumir enn lengri. Marek vinnur sex daga vikunnar, og einnig kemur fyrir að hann vinnur á sunnudögum.
Hvorki stjórn fyrirtækisins né trúnaðarmennirnir vilja meina að þessi langi vinnudagur hafi alvarlegar afleiðingar fyrir heilsu starfsmanna þrátt fyrir að stór hluti vinnunnar fari fram djúpt niðri í skipsskrokkum langt frá dagsbirtu og hreinu lofti.
Slæm vinnuaðstaða

Marek kallar ekki allt ömmu sína þegar kemur að vinnuumhverfismálum en varð þó að láta sig hafa það að vera heima nýverið í tvo daga þar sem hann hafði andað að sér eitruðu loft í tanki eins skipsins sem hann vann við. Hann segir að það sé ekki óalgengt að starfsmenn þurfi að vera heima vegna slappleika sem rekja má til þeirra starfa. Hann segir að ekki sé óalgengt að menn slasist við vinnu sína í stöðinni, því auðvitað missa menn einbeitingu þegar vinnuvikan er komin upp í 80 tíma. Svona vinnustaður er hættulegur, segir hann, sérstaklega þegar unnið er í olíutönkum skipanna. Þar vilja oft verða slys, því þar er bæði hált og yfirleitt slæm lýsing.

Þessi langi vinnudagur skapar ekki bara hættu á vinnuslysum heldur kemur hann í veg fyrir að Marek geti umgengist fjölskyldu sína eins og hann vill. Að láta sér detta í hug eitthvað sem heitir tómstundir er fráleitt í hans huga. Hjá honum er aðeins tvennt sem kemst að, vinnan og fjölskyldan.

Legókubbar og tölva

Minna herbergið í íbúð Mareks hefur sonurinn Marcin til afnota. Það gæti allt eins verið danskt barnaherbergi. Á veggjunum er fjöldinn allur af myndum af alþjóðlegum knattspyrnuhetjum. Mikið af lególeikföngum og tölva. Marcin kann nöfnin á öllum helstu hetjum knattspyrnunnar og hann segist stunda fótbolta af miklu kappi með félögum sínum, og stundum spilar hann við pabba sinn þegar hann er heima. Draumurinn er að verða atvinnumaður í knattspyrnu. En pabbinn vonar að strákurinn eigi eftir að leggja fyrir sig verkfræði, og hefur kannski þess vegna verið örlátur á Lególeikföngin.
Hitt herbergið í íbúð Marek-hjónanna er allt í senn, svefnherbergi, borðstofa og stofa. Við einn vegginn stendur sjónvarpið, lítil hljómflutningstæki og myndbandstæki. Tveir hægindastólar eru í herberginu, sófi sem hægt er að breyta í rúm, pláss fyrir lítið sófaborð, og borð til að borða við, vagga og skiptiborð þar sem yngsta fjölskyldumeðlim Marek-fjölskyldunnar er sinnt. Aðrir hlutar íbúðarinnar eru álíka litlir og ekki einum einasta fermetra ofaukið. Allt virðist þó nýtt og fínt í þessari litlu íbúð. Marek og vinir hans unnu hörðum höndum við gera hana upp eftir að fjölskyldan keypti búseturéttinn.
Þau þurfa að greiða rúmar 12 þúsund íslenskar krónur í leigu á mánuði auk afborgana af lánum vegna kaupa á búseturéttinum, sem eru rúmlega 16 þúsund krónur á mánuði í fimm ár. Auk afborgana og leigu þurfa þau að borga rúmlega átta þúsund krónur í hita og rafmagn á mánuði.
Marek þénar um 54 þúsund krónur á mánuði með eftirvinnu, Kona hans, Elzbieta, ber úr býtum 28 þúsund krónur fyrir sitt starf á skrifstofu glerverksmiðju í bænum. Þegar hún er ekki í barnsburðarleyfi. Af þessum launum þurfa hjónin að borga 19 prósent í skatt.

Launin

Þegar þau voru spurð um framtíðardrauma sína sögðust þau bæði eiga sér þá ósk heitasta að geta verið meira saman. Þau voru sammála um að vinnutími heimilisföðurins væri óhóflegur og erfitt væri að rækta heilbrigt fjölskyldulíf þegar eiginmaðurinn og faðirinn væri stöðugt í vinnunni. Marek sagðist vel geta hugsað sér að læra ensku og einnig þráði hann að komast oftar í kirkju. Fram að þessu hefði verið lítill tími til þess. Ekki hefur fjölskyldan heldur getað notið sumarleyfisins saman undanfarin ár, því þann hálfa mánuð sem menn fá í sumarleyfi frá skipasmíðastöðinni hefur Marek notað til að drýgja tekjurnar með því að fara til vinnu bæði í Singapore og Angóla.