Aðgerðaleysi stjórnvalda í efnahagsmálum ógnar stöðugleikanum

Gylfi Arnbjörnsson nýráðinn framkvæmdastjóri ASÍ segir hættu á
viðsnúningi í efnahagsmálum þráist menn við að lækka vexti

Það hefur vafalaust margt breyst hér þau fjögur ár sem ég hef verið í burtu. Alþýðusambandið er ekki stöðnuð samtök. Ég reikna því með að þurfa að setja mig inn í mörg ný mál á fyrstu dögum starfsins og veit að veturinn getur orðið annasamur. Ég hef áhyggjur af þróun efnahagsmála og einnig af afskiptaleysi gagnvart þjóðmálunum almennt, segir Gylfi Arnbjörnsson, nýráðinn framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands, í samtali við blaðið.
Gylfi er þessa dagana að koma sér fyrir á skrifstofu ASÍ en hefur þó verið ötull að tjá sig um gang efnahagsmála frá því hann var ráðinn framkvæmdastjóri. Að sjálfsögðu berst talið fljótt að þeim og þeirri umræðu sem staðið hefur um vexti að undanförnu.
– Í þessari deilu við Seðlabankann um hvort það ber að lækka vexti er ekkert sérstaklega deilt um það sem liðið er. Það hefur verið hér þensluástand og Alþýðusambandið hefur á undanförnum árum gert athugasemdir við það og bent á nauðsyn þess að dregið verði úr spennu á vinnumarkaði og í hagkerfinu. Nú er ástandið aftur á móti þannig að vextir eru gríðarlega háir og eru sýnilega farnir að há bæði fyrirtækjum og öllum almenningi. Greiðslubyrðin er víða farin að þrengja að svigrúminu. Það sem okkur sýnist að gæti gerst hér á næsta hálfa ári er nokkuð brattur viðsnúningur í hagkerfinu með verulega auknu atvinnuleysi. Menn mega ekki gleyma því að þenslu undanfarinna ára má fyrst og fremst rekja til þjónustu- og verslunargeira, með tilheyrandi byggingarframkvæmdum, fremur en til aukningar útflutnings og samkeppnisgreinanna. Af þeim sökum gæti samdráttur orðið mun meiri en ella. Þess vegna teljum við mikilvægt að Seðlabankinn slaki á, byrji að undirbúa það að hér gæti orðið viðsnúningur í hagkerfinu, meðal annars með því að lækka vexti, segir Gylfi.

Ómyrkur í máli

Hann er ómyrkur í máli í garð stjórnvalda sem hann meinar að hafi sofnað á verðinum í efnahagsmálum þrátt fyrir að fjölmargir, meðal annars Alþýðusambandið, hafi bent á nauðsyn þess að dregið yrði úr ríkisútgjöldum og þar með úr þeirri spennu sem ríkt hefur í hagkerfinu.
– Ef hér hefði ríkt virk efnahagsstjórn væri ríkið ekki að standa í umfangsmiklum verklegum framkvæmdum eins og raun ber vitni. Þar á ég við framkvæmdir eins og byggingu nýrra samgöngumannvirkja og endurnýjun á öðrum. Þessar framkvæmdir kalla á mikið vinnuafl og þar með eru opinberir aðilar að keppa við atvinnulífið um starfsfólk. Stórframkvæmdir á vegum opinberra aðila eiga að bíða þar til samdráttur verður. Þess í stað eiga ríkið og sveitarfélögin að safna í sjóði og greiða niður skuldir, enn meira en raun ber vitni, þegar þenslan er til staðar en hefjast síðan handa þegar dregur úr þenslunni á almenna markaðnum. Það vita það allir sem það vilja vita að svona þensla getur ekki staðist um alla framtíð. Ekkert hagkerfi getur staðið undir svona miklum hagvexti til lengdar án þess að undan láti, segir Gylfi sem leggur áherslu á að hag launafólks sé best borgið til langs tíma með því að hagsveiflurnar séu sem minnstar, og það þurfi stjórnvöld að taka með í reikninginn þegar þau ákveða að ráðast í stórframkvæmdir.
– Alþýðusambandið hefur undanfarinn áratug lagt ríka áherslu á að sem mestur stöðugleiki ríki í efnahagsmálum. Launafólk hefur fært fórnir til þess að ná þessu markmiði og okkur finnst sem komið sé aftan að fólki verði ekki brugðist við því ástandi sem nú er að skapast hér í efnahagsmálum. Okkar hlutverk er að tryggja að kaupmáttur geti vaxið í öruggum takti og jafnframt verja þá stöðu sem áunnist hefur, segir Gylfi og lýsir vanþóknun sinni á því tali sem til dæmis Seðlabankamenn hafa uppi, að óróinn í efnahagsmálunum sé launahækkunum að kenna.
– Vissulega hafa launahækkanir hér á landi verið meiri en til dæmis í nágrannalöndunum undanfarin fjögur ár. Árin þar á undan voru launabreytingar hér hins vegar nokkuð lægri en í nágrannalöndunum. Aðalatriðið er að þegar við gerðum kjarasamningana í ársbyrjun 1997 var innistæða fyrir þeim hjá atvinnurekendum, innistæða sem orðið hafði til árin þar á undan. Mikil þensla, meðal annars vegna slaka í stjórn ríkisfjármála, hás gengis íslensku krónunnar og vaxtastefnu Seðlabankans breytti þessu hins vegar verulega á tímabilinu.

Önnur launastefna

– Jafnframt hafa ríki og sveitarfélög framfylgt allt annari launastefnu gagnvart sínum starfsmönnum þannig að ljóst er að ábyrgðinni á stöðu mála verður ekki skellt á almennt launafólk.
– Við verðum að koma í veg fyrir að það verðbólgustig sem hér er nú festi sig í sessi. Það háa vaxtastig sem Seðlabankinn viðheldur á sinn þátt í þessari verðbólgu, því mörg fyrirtæki neyðast til að velta þessum mikla fjármagnskostnaði út í verðlagið. Þannig er vaxtastigið farið að vinna gegn markmiðum sínum, sem er að halda verðbólgunni í skefjum, segir Gylfi og vonar að menn nái áttum í þessum efnum.
– Það er ljóst að launaliður kjarasamninganna kemur til endurskoðunar í febrúar-mars með hliðsjón af þeim verðbólgumarkmiðum sem samningsaðilar settu sér. Hvort launaliðnum verður sagt upp er ómögulegt að segja á þessari stundu. Framvindan í efnahagsmálunum næstu mánuði sker úr um það, áréttar Gylfi sem vonar að stöðugleikinn sem ríkti í efnahagslífinu mestallan síðasta áratug verði endurheimtur.

Álversframkvæmdir

Gylfi hefur undanfarin fjögur ár starfað sem framkvæmdastjóri Eignarhaldsfélags Alþýðubankans og sem slíkur byggt upp það félag og gert það að öflugu fjárfestingarfélagi.
Meðal annars á félagið hlut í Hæfi, félagi fjárfesta sem eru að kanna möguleika á byggingu álversins í Reyðarfirði. Okkur lék forvitni á að vita skoðanir Gylfa á þeirri framkvæmd sem nú hefur fengið grænt ljós hjá Skipulagsstofnun.
– Í fyrsta lagi hefur miðstjórn ASÍ ekki mótað afstöðu sína til þessa máls, þótt ýmis félög og sambönd innan raða ASÍ hafi gert það. Það er engin launung á því að ég hef persónulega komið að undirbúningi þessa máls sem framkvæmdastjóri EFA og hafði og hef fulla trúa á þessari fjárfestingu. Allir útreikningar gefa það til kynna að um arðsamt verkefni sé að ræða með tiltölulega lítilli áhættu samanborið við flesta aðra fjárfestingarkosti í hlutabréfum. Þetta er hins vegar gríðalega mikil framkvæmd og ljóst að ef af verður þá hefur hún veruleg áhrif á þjóðarbúið. Það mun reyna mikið á stjórnvöld, þau verða að haga seglum þannig í efnhagsstjórnuninni að sú þensla sem skapast, sérstaklega á byggingartíma álversins, verði ekki til þess að verðbólgan fari hér úr böndunum. Ef svo illa fer gætum við glatað jafnmörgum atvinnutækifærum og verða til fyrir austan. Þetta er visst áhyggjuefni sem ég held að menn verði að horfast í augu við og það strax svo mótvægisaðgerðir sem grípa verður til virki. Hvað umhverfismálin varðar þá er ljóst að það mál er gríðarlega flókið og úr því verða stjórnvöld og Alþingi að greiða. Mér hefur hins vegar þótt skorta á í þessari umræðu að Kárahnjúkavirkjun er valkostur sem menn fóru í til þess að hlífa Eyjabökkum. Á þeim tíma þótti mönnum þetta minni fórn en að sökkva Eyjabökkum.
– Mér finnst mikilvægt að þetta sé tekið inn í matið á umhverfisáhrifunum, því ef hvert verkefni er metið algjörlega sjálfstætt án þess að taka tillit til þess að það er til komið vegna ákveðinna „sátta“, þá verða þau öll afgreidd í mikilli deilu, segir Gylfi sem nú er farinn að ókyrrast þar sem hann er ásamt öðrum forystumönnum ASÍ á leið með fulltrúum Samtaka atvinnulífsins niður í stjórnarráð að ræða við Davíð og Halldór um horfurnar í efnahagsmálunum.
Gylfi gaf sér þó smátíma til að tjá sig um stöðu mála innan Alþýðusambandsins. Hann segist finna vel fyrir vilja manna til að breyta því sem betur megi fara innan hreyfingarinnar. Fólk sé greinilega farið að horfa raunsærri augum á starf ASÍ og framtíð þess.

Hreyfingin hefur veikst

Hann segist hafa haft gott af því að hverfa úr hringiðu hreyfingarinnar um stund og virða hana fyrir sér úr fjarska. Með því hafi hann öðlast aðra sýn á lífið og tilveruna og ekki síst á stöðu hreyfingarinnar.
– Mér sýnast áhrif hennar hafa veikst, sem má rekja til deilna innan hennar. Með því að menn snúi bökum saman getur verkalýðshreyfingin haft gríðarleg áhrif og á að hafa slík áhrif. Hugsjónir samstöðu og félagslegra gilda hafa ekki verið nægjanlega áberandi á síðustu árum, það má sjá á ýmsum lagasetningum svo og almennum viðhorfum í samfélaginu.
– Almannatryggingakerfið hefur til dæmis verið að veikjast rétt eins og ýmis önnur félagsleg réttindi vegna niðurskurðar og formbreytinga. Mikilvægt er að hreyfingin beiti sér gegn þeirri þróun. Áhrifa hennar varð ágætlega vart í deilunum um kjör öryrkja síðasta vetur en hún þarf líka að beita sér í eftirleiknum sem er mjög mikilvægur, segir Gylfi, sem er bjartsýnn á að það takist að auka áhrif verkalýðshreyfingarinnar þar sem menn hafi nú stillt saman strengi sína að nýju. Og þar með er hann rokinn á fund þeirra sem ráða ríkjum í stjórnarráðinu.