Eru mennirnir vitlausir? Að vera að skrifa upp á samninga með 3,9% upphafslaunahækkun í 5% verðbólgu! Þetta eru sjálfsagt fyrstu viðbrögð margra við þeirri fregn að samninganefnd Samiðnar samdi á sömu nótum og aðrir hópar innan ASÍ.
Á síðasta hausti var haldinn kjaramálaráðstefna á vegum ASÍ. Þar var stefnan sett á að ráðast gegn verðbólgunni. Eftir tiltölulega stöðugt tímabil í efnahagsmálum, sem kom öllum til góða, var verðbólgan farin aftur af stað.
Kjaramálaráðstefnan lagði einnig þær línur að lægstlaunuðu hóparnir fengju sérstakar launahækkanir. Stefnan var sett á að samið yrði á þeim nótum að atvinnuvegirnir í landinu gætu bætt á sig kostnaðarauka án þess að velta kauphækkunum út í verðlagið. Samiðn gekkst undir þessa launastefnu með nýgerðum samningum. Sú aðferð er alþekkt að semja um hækkanir sem fyrirtækin gátu ekki tekið á sig og veltu þessvegna út í verðlagið. Launafólk man þá tíð að við sömdum um tveggja stafa tölur í hækkunum, en kaupmáttur jókst ekkert. Nú er það yfirlýst markmið samningsaðila að stuðla að áframhaldandi stöðugleika í efnahagslífinu. En eiga ASÍ-félögin ein að halda við stöðugleikanum? er næsta spurning. Þessi samningur hvílir á þeirri forsendu að sú launastefna og kostnaðarhækkun sem í honum felst verði almennt stefnumarkandi.
Samningurinn er einnig byggður á því að verðbólga fari minnkandi og verði ekki hærri en í nágrannalöndunum. Hann byggist einnig á því að verðlag og annar kostnaður til heimilishalds minnki. Hann byggist einnig á að aðrir launahópar í samfélaginu taki þátt í þeirri viðleitni ASÍ-félaganna að halda stöðugu efnahagslífi í landinu. Það er ekki endalaust hægt að líða fólki að haga sér eins og það sé eitt í heiminum, að sumir beri byrðarnar og aðrir fleyti rjómann ofan af. Samfélagið er ein heild og þar getur enginn skorast undan við að byggja upp réttlátt þjóðfélag. Því eru ákvæði inni í samningsforsendum sem segja til um að ef forsendur ganga ekki eftir geti tvennt gerst. Launanefnd skipuð tveimur aðilum frá hvorum samtökum, ASÍ og SA, getur úrskurðað almenna launahækkun á kauptaxta samningsins. Ef ekki næst samkomulag er samningurinn uppsegjanlegur með þriggja mánaða fyrirvara. Þá er hverju félagi heimilt að segja samningnum upp.
Sjálfsagt telja margir að við forystumenn í verkalýðshreyfingunni séum orðnir ansi samhljóma forystumönnum Samtaka atvinnulífsins þegar talað er um verðbólguhættuna. Ef til vill er það rétt. Þegar dæmið er reiknað til enda og allir þættir teknir inn í, svo sem verðlag, lán og afborganir þeirra og annað sem við ráðstöfum laununum okkar í, er það staðreynd að verðbólguhraðinn er mesti áhrifavaldurinn í kaupmættinum. Efnahagslífið er með þeim hætti nú um stundir, og ytri aðstæður, að við verðum einfaldlega að hlusta á þær aðvaranir sem berast alls staðar frá. Því er það mín skoðun að til lengri tíma litið sé þetta samningur sem hægt er að una við.
Samningurinn felur einnig í sér töluverða réttarbót í veikindarétti Samiðnarmanna. Sérstaklega er verið að bæta rétt iðnnema innan Samiðnar. Margir fleiri ávinningar eru í samningnum, sem fjallað er sérstaklega um hér í blaðinu
Samhliða samningnum var að frumkvæði Samiðnar farið með sameiginlegar kröfur á hendur ríkisstjórninni um lagfæringar á tekjutengingu barnabóta, á skattleysismörkunum og fæðingar- og foreldraorlofi. Þótt áform á þessu sviði séu ekki komin til framkvæmda eru málin komin í farveg til úrlausnar og vega þungt fyrir þá sem njóta.
Þegar á heildina er litið tel ég að við séum að ná ásættanlegum samningi fyrir félagsmenn Samiðnar.
Finnbjörn A. Hermannsson
formaður Samiðnar