Það hefur ekki farið framhjá neinum í þeirri samningalotu sem nú stendur yfir að breyting hefur orðið á liðsskipan atvinnurekenda. Nýir menn eru komnir þar til forystu og starfa ekki lengur undir nafni Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambandsins, heldur Samtaka atvinnulífsins, skammstafað SA. En hvað leynist að baki þessum nýju andlitum?
Í fyrrahaust voru Samtök atvinnulífsins stofnuð um leið og VSÍ og VMS voru lögð niður. Samiðnarblaðið fór á fund Ara Edwald framkvæmdastjóra SA og spurði fyrst hvað þessar breytingar hefðu í för með sér.
„Þessi breyting felur í sér þá niðurstöðu að hólfaskipting atvinnulífsins sem verið hefur við lýði um langt árabil eigi sér ekki forsendur lengur. Þetta undirstrikar að hagsmunir atvinnulífsins eru sameiginlegir, sem sé þeir að njóta starfsumhverfis sem geri því kleift að keppa við atvinnulíf annarra landa, vaxa og dafna og skila hagnaði. Samtökin leggja áherslu á hagsmuni atvinnulífsins óháð félagsformum, hvað þá stjórnmálaskoðunum stjórnenda.
Allt félagakerfi atvinnulífsins hefur verið stokkað upp og endurskoðað og komið á einsleitri aðild fyrirtækja að því. Nú er aðildin tvíþætt, annars vegar að einhverri hinna sjö stoða samtakanna sem sinna málefnum atvinnugreinanna og hins vegar bein aðild að SA sem sinnir sameiginlegum verkefnum, svo sem kjaramálunum, efnahagsmálum, skattamálum og ýmsum öðrum málum.“
– Það kann að koma ýmsum á óvart að innan vébanda SA eru fyrirtæki þar sem starfa tæplega 60% launamanna á hinum almenna vinnumarkaði. Af hverju eru ekki fleiri fyrirtæki í samtökunum?
„Það eru ekki mörg stærri fyrirtæki utan samtakanna. Þessi fjölmenni hópur er fyrst og fremst í smáfyrirtækjum með einn eða fáa starfsmenn. Slík fyrirtæki eru stærri hluti af okkar efnahagslífi en margur myndi ætla. Það eru um 3000 fyrirtæki innan SA og á þeirra vegum eru unnin um 50 þúsund ársverk.“
Miðstýring og markaðslaun
– Nú hefur oft verið talað um að þróunin hjá atvinnurekendum sé þveröfug við það sem gerist hjá verkalýðsfélögunum, hjá ykkur sé miðstýringin að aukast meðan miðflóttaaflið ráði ríkjum hjá ASÍ. Ertu sammála því?
„Nei, en ég ætla ekki að tjá mig um skipulagsmálin hjá ASÍ að öðru leyti en því að mér sýnist sú þróun sem þar er að verða ekki gerast á grundvelli einhverrar meðvitaðrar stefnumörkunar. Ég tel að vinnumarkaðurinn og samningagerð sé almennt að þróast í átt að minni miðstýringu. Það er þó ljóst að sumir þættir sem mynda rammann utan um kjarasamninga eru og hljóta að verða miðlægir en það er ekki í andstöðu við útbreiðslu fyrirtækjasamninga og annarrar fjölbreytni í þessum málum.
Sú er til dæmis reynslan í Danmörku þar sem svokölluð markaðslaun eru orðin mjög útbreidd. Þar eru samt gerðir miðlægir samningar um ýmislegt sem snertir starfsumhverfið, lífeyrismál, orlof, veikinda- og slysarétt og svo að sjálfsögðu lágmarkslaun. Ástæðan er sú að þótt menn telji æskilegt að samið sé um laun eftir því hvað hver starfsgrein þolir þá hljóta alltaf að vera í hverju þjóðfélagi ákveðin lágmarksstarfskjör og lágmarkslaun sem greidd eru byrjendum á vinnumarkaði.“
Aukin þekking á efnahagsmálum
– Nú eruð þið í fyrstu samningalotu sem þið takið þátt í. Komið þið til leiks með breyttar áherslur eða nýjungar?
„Varðandi stefnumörkun um þróun efnahags- og kjaramála næstu árin þá stöndum við á traustum hugmyndafræðilegum grunni sem við höfum tekið í arf frá forverum okkar. Þar er því ekki um að ræða neina stefnubreytingu. Hins vegar verður alltaf einhver þróun í áherslum og vinnubrögðum. Þar erum við ekki einir um að stjórna framvindunni heldur leggja viðsemjendur okkar sitt til málanna, auk þess sem umhverfið og þau tæki sem standa okkur til boða eru breytileg.
Það er til dæmis ljóst að þekking á gangverki þjóðfélagsins, efnahagsmálum og áhrifum þeirra ákvarðana sem eru teknar er útbreiddari en áður var og þjóðfélagið orðið opnara og frjálsara. Það er því ekki hægt að horfa til stjórnvalda eftir fínstillingu eða handstýringu ýmissa þátta efnahagsmála eins og gert var. Umræðan um áhrif kjarasamninga á kjör fólks fer fram á upplýstari grundvelli. Það sá ég alveg skýrt í samningunum við Flóabandalagið. Þar komu viðsemjendur okkar vel nestaðir af gögnum um stöðu efnahagsmála. Fyrir vikið þurftu menn ekki að deila um hagfræðilegar staðreyndir.“
Með bein í nefinu
– Þið eruð nýir í forystu fyrir atvinnurekendum, þú og Finnur Geirsson formaður SA. Einhverjar breytingar hlýtur það að boða. Þórarinn V. Þórarinsson forveri þinn hjá VSÍ þótti nokkuð harður í horn að taka. Hvað um þig? Leynist stálhnefi undir silkihanskanum?
„Þetta eru ný samtök en það er þó ekkert nýtt að tiltölulega ungir menn séu í forystu samtaka atvinnurekenda. Til dæmis var Þórarinn yngri en ég þegar hann var ráðinn framkvæmdastjóri VSÍ. En hvað okkur Finn varðar þá hefur hann mikla reynslu af stjórnunar- og félagsstörfum og ég hefði varla verið ráðinn í þetta starf nema ég hefði eitthvert bein í nefinu. Hins vegar er það ekki minn háttur að reyna að ná fram niðurstöðum í samningum með því að skipta skapi. En það þarf ekki að vera merki um skapleysi.“
– En þú kemur í þetta starf af nokkuð ólíkum vettvangi. Þú varst ritstjóri Viðskiptablaðsins og þar áður aðstoðarmaður ráðherra. Hvernig líst þér á starfið?
„Ég hef gjarnan valið mér störf sem tengjast félagsmálum og hef mikinn áhuga á þjóðmálum. Mér finnst því mjög spennandi að fá að leggja lið vexti og viðgangi íslensks atvinnulífs sem ég held að flestir átti sig á að eru mál allrar þjóðarinnar og lykill að bættum lífskjörum. Nú beinist starfsorka mín og áhugi í þennan farveg og á meðan hef ég sagt mig frá ýmsu öðru. Ég hef verið virkur í pólitísku félagsstarfi sem væri ósamrýmanlegt þessari vinnu. En þó á þetta það sameiginlegt að veita mér útrás fyrir þjóðmálaáhugann og tækifæri til að eiga samskipti við fjöldann allan af fólki. Mér finnst ég því hafa tækifæri til að leggja mitt af mörkum til betri framtíðar fyrir Ísland,“ sagði Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Sjö stoðir Samtaka atvinnulífsins
Aðildarfélög Samtaka atvinnulífsins eru sjö starfsgreinasambönd. Í þeim eru alls um
2.800 fyrirtæki þar sem unnin eru tæplega 50.000 ársverk. Þessi sambönd eru:
Landssamband íslenskra útvegsmanna (LÍÚ):
230 útgerðir með um 4.500 ársverk.
Samtök ferðaþjónustunnar (SAF):
270 fyrirtæki með um 5.500 ársverk.
Samtök atvinnurekenda í raf- og tölvuiðnaði (SART): 8 aðildarfélög, 250 fyrirtæki með um 1.000 ársverk.
Samtök fiskvinnslustöðva (SF):
100 fyrirtæki með um 5.200 ársverk.
Samtök fjármálafyrirtækja:
50 fyrirtæki með um 4.100 ársverk.
Samtök iðnaðarins (SI):
28 aðildarfélög, um 1.500 fyrirtæki með um 16.000 ársverk.
Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ):
400 fyrirtæki með um 10.000 ársverk.