– Spurningin er hvort lendingin verður mjúk eða hörð, segir Már Guðmundsson
aðalhagfræðingur Seðlabankans
Eins og alltaf gerist þegar kjarasamningar fara í hönd hófst mikil umræða um efnahagsmál á síðastliðnu hausti. Ástæðan var sú að verðbólgan var farin að láta á sér kræla eftir langt frí og menn leituðu skýringa, smeykir um að nú væri stöðugleikinn rokinn út í veður og vind. Auk einstakra þátta á borð við miklar hækkanir á olíu- og fasteignaverði beindu menn einkum sjónum sínum að þenslunni í efnahagslífinu. Hún væri að setja allt úr skorðum og stefndi stöðugleikanum í hættu.
Það þarf ekki að líta lengi í kringum sig til að sjá merki um þensluna. Hvarvetna er verið að byggja og bæta hús, vegi, virkjanir og flugvelli. Og það er ekki að sjá að neitt lát verði á þessari framkvæmdagleði á næstunni. Það er verið að byggja risastóra verslunarmiðstöð í Kópavogi, stækka flugstöðina á Keflavíkurflugvelli, endurbæta Reykjavíkurflugvöll og reisa virkjanir sem kenndar eru við Vatnsfell og Nesjavelli. Á næstu mánuðum hefjast framkvæmdir við stækkun álvers Norðuráls á Grundartanga. Fyrir skemmstu var ákveðið að hefja undirbúning tveggja nýrra jarðganga og ef sú framtíðarsýn sem nú er haldið á lofti í virkjunar- og stóriðjuframkvæmdum á Austurlandi verður að veruleika eru þar í uppsiglingu mestu fjárfestingar sem um getur hér á landi, alls munu álver og virkjun kosta hátt á annað hundra milljarða en þær framkvæmdir hefjast að vísu ekki strax og dreifast á nokkur ár.
Það er því engin furða þótt margir spyrji sig þeirrar spurningar hvort nú sé ekki að hefjast gamalkunnugt ferli: Íslendingar á offjárfestingarfylleríi sleppa af sér öllum hömlum og bjóða verðbólgudraugnum til stofu. Samiðnarblaðið leitaði til Más Guðmundssonar aðalhagfræðings Seðlabankans og bað hann fyrst að svara þeirri spurningu hvort þenslan í þjóðfélaginu væri ekki farin að nálgast hættumörk og hvort nokkuð sæi fyrir endann á henni.
Þenslan hvorki eykst né hjaðnar
„Við sjáum ekki fyrir endann á henni en það virðist ekki vera að bætast mikið í hana. Það myndaðist umframeftirspurn í hagkerfinu um mitt ár 1998 og hún var töluvert mikil allt síðasta ár. Mér sýnist þetta vera á svipuðu róli núna.
Það stefnir þó sem betur fer ekki í meiri ofþenslu. Þjóðhagsstofnun spáði minnkandi hagvexti á þessu ári og það mun draga úr honum þótt það verði eitthvað minna en spáð var. Þótt fréttir séu sagðar af miklum framkvæmdum, einkanlega í byggingu verslunar- og skrifstofuhúsnæðis, þá kemur á móti að aðrir þættir eru að dragast saman, svo sem í virkjunum og stóriðju því þær framkvæmdir sem boðaðar hafa verið á því sviði hafa ekki teljandi áhrif fyrr en á næsta ári. Einnig hefur hið opinbera ákveðið að draga úr fjárfestingum þótt ekki sé víst að það verði mikið á heildina litið. Í heild má búast við að fjárfesting aukist nokkuð í ár eftir samdrátt í fyrra.
Því er ekki að neita að það er feikimikill kraftur í fjárfestingum í verslun og þjónustu og það veldur því að hér ríkir ofþensluástand. Eftirspurnin er meiri en hagkerfið fær risið undir og hún finnur sér farveg í miklum viðskiptahalla, minnkandi atvinnuleysi og aukinni verðbólgu. Launaskriðið hefur hins vegar ekki farið úr böndunum enn og það er fyrst og fremst vegna þess að við höfum getað mætt eftirspurninni með því að flytja inn vinnuafl. Það eru engin merki um að þetta ástand sé að breytast svo neinu nemi, þenslan er hvorki að aukast né hjaðna, þótt það kunni að breytast þegar líður á árið.“
Ríkið á ýmis stýritæki
– Hvaða möguleika hefur ríkið til þess að stýra þessari þróun?
„Ríkið getur ekki gert mjög mikið til þess að hafa áhrif á framkvæmdir í einkageiranum. Það getur hins vegar búið til aukið svigrúm fyrir þær með því að herða að á öðrum sviðum og láta slakann koma fram annars staðar. Ríkið getur líka dregið úr sínum fjárfestingum og það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt að það sé gert þegar miklar fjárfestingar eru í gangi. Ríkið getur haft áhrif á eftirspurnina með útgjaldastefnu sinni og það getur haft áhrif með skattastefnu sinni. Ef ríkið hækkar skatta á einstaklinga dregur það úr eftirspurn sem bitnar á versluninni sem þá verður að draga úr fjárfestingum.
Síðast en ekki síst getur ríkið haft áhrif með stefnunni í peningamálum. Seðlabankinn getur breytt skammtímavöxtum sem hafa einkum áhrif á þá sem háðir eru innlendri bankaþjónustu og þurfa á skammtímalánum að halda til fjárfestinga. Það á til dæmis við um stóran hluta byggingargeirans og aðrar greinar þar sem smærri fyrirtæki leika stórt hlutverk. Slíkar vaxtabreytingar hafa hins vegar lítil áhrif á fjárfestingar stærri fyrirtækja sem geta tekið lán erlendis í stórum stíl.
Vaxtahækkanir hafa líka áhrif á gengisþróunina. Gengið hækkar sem herðir að fyrirtækjum í útflutnings- og samkeppnisgreinum, þau verða því ekki eins viljug til að fjárfesta, halda í við sig í mannaráðningum og hafa ekki eins mikið svigrúm til launaskriðs.
Sumir hafa haldið því fram að með þessum aðgerðum sé verið að refsa röngum aðilum því þær hafa ekki bein og milliliðalaus áhrif á þau fyrirtæki sem standa í fjárfestingunum sem kynda undir þenslunni. En í þessu kerfi ráðum við ekki við slíkt nema óbeint og á löngum tíma.“
Tímafrekt ferli
– Hefur aukið frjálsræði í fjármálalífinu ekki svipt ríkið ýmsum stýritækjum? Getur það haft einhverja stjórn á fjárfestingunum?
„Það er ekki hægt að stjórna með sömu tækjum og var. Nú er reynt að stjórna þróuninni með óbeinum hætti í gegnum ríkisfjármálin og vaxtastefnuna. En ríkið getur haft mikil áhrif á kaupmátt ráðstöfunartekna og þar með einkaneysluna sem er rúm 60% af allri eftirspurn á vöru- og þjónustumörkuðum. Ef kaupmátturinn minnkar hefur það strax veruleg áhrif á fjárfestingar í íbúðarhúsnæði, verslun og svo framvegis. Og með vaxtabreytingum getur Seðlabankinn haft áhrif á gengið sem aftur virkar á innflutningsverðið og þær atvinnugreinar sem eru háðastar genginu, eru að keppa við innflutning eða flytja út.
Aðgerðir af þessu tagi ná á endanum út um allt atvinnulífið en þetta er ferli sem tekur tíma. Það eykur hins vegar mikilvægi þess að stjórnvöld fylgist vel með þróun efnahagslífsins og gerir aukna kröfu um að þau séu framsýn.“
Sterkara hagkerfi – og viðkvæmara
Nú hefur ríkt töluverður stöðugleiki í íslensku efnahagslífi í hartnær áratug og almenningur er farinn að venjast honum. En hefur þessi stöðugleiki ekki styrkt efnahagslífið og gert það ónæmara fyrir sveiflum? Þolir efnahagskerfið ekki töluvert þensluskeið? Már segir að málið sé ekki alveg svona einfalt.
„Að vissu leyti er þetta rétt. Efnahagslífið er orðið sterkara og getur tekið vissum áföllum sem áður hefðu að öllum líkindum leitt til gengisfalls. Hagnaðarstigið í atvinnulífinu hefur hækkað og eiginfjárstaðan batnað sem gerir fyrirtækjunum betur kleift að mæta sveiflum í raungenginu. Einnig hafa verið gerðar miklar umbætur á öllu skipulagi atvinnulífsins og fjármálamarkaðarins.
En á sama tíma er hagkerfið viðkvæmara en áður. Ástæðan fyrir því er einkum sú að fjármagnshreyfingar til og frá landinu eru óheftar og þær stjórnast meðal annars af því trausti sem menn hafa á framtíðarhorfum og hagstjórninni í landinu. Ef það traust bilar – með réttu eða röngu – þá getur mikið fjármagn streymt út úr landinu og valdið kollsteypu. Önnur ástæða er sú að þegar á heildina er litið eru heimilin og fyrirtækin skuldsettari en þau voru í byrjun þessa áratugar. Þess vegna gætu áhrifin af tekjubresti orðið alvarlegri, svo sem að vanskil í bankakerfinu ykjust. Þá myndu bankarnir í landinu lenda í erfiðleikum við allt aðrar aðstæður en áður hafa ríkt. Nú eru bankarnir ekki lengur í eigu ríkisins heldur einkabankar sem verða að standa á eigin fótum á frjálsum markaði.
Það má líkja ástandinu við það að við séum á betri bíl en áður en vegna þess að hann er kraftmeiri þá geta afleiðingarnar af árekstri orðið verri og viðgerðirnar dýrari.“
Gólfið í Kringlunni
– Nú hefur góðærið staðið í fjögur ár. Er það ekki lengra en menn áttu von á?
„Jú, ég held að þetta sé orðið lengra en flestir áttu von á.“
– En fer þá ekki að sjá fyrir endann á því?
„Það má segja að það velti á því hversu mikinn hagvöxt við þolum. Eftir á að hyggja held ég að Seðlabankinn, Þjóðhagsstofnun og aðrir þeir sem voru að spá um horfurnar í efnahagslífinu hafi haft tilhneigingu til að vanmeta slakann sem var í atvinnulífinu og svigrúmið sem hafði skapast fyrir aukinn hagvöxt.
Önnur ástæða er sú að hagkerfið er orðið opnara og það á sérstaklega við um vinnumarkaðinn. Dæmi um það er saga sem ég heyrði um það þegar leggja átti gólfið í nýju Kringluna og það fundust engir iðnaðarmenn hér á landi til verksins. Þá var einfaldlega fluttur inn vinnuflokkur frá útlöndum til að klára gólfið. Fyrr á árum hefði svona ástand endað í botnlausu launaskriði hjá innlendum iðnaðarmönnum.
En þar með er ekki sagt að við þolum þetta endalaust og viðskiptahallinn og vaxandi verðbólga segir okkur að við séum komin yfir þanmörkin. Þeir eru til sem segja að við getum þolað þetta áfram því framleiðniaukningin sé svo mikil. En mér sýnist að atburðir síðustu mánaða séu að afsanna þá kenningu. Hér ríkir ofþensla og meiri vöxtur en við ráðum við.“
Mjúk lending eða hörð?
– Sérðu þá fyrir þér að við séum á leið inn í tímabil sem einkennist af meiri verðbólgu og minni stöðugleika eða heldurðu að við náum tökum á þróuninni?
„Ég held að við getum alveg náð tökum á málunum ef við viljum. Ég held að það sé erfiðara að gera þetta kerfi óstöðugra en var hér áður fyrr og það er hættulegra. Við tökum síður þá áhættu að láta fína bílinn okkar rása á veginum.
Hættan er sú að ef ekki næst að vinda ofan af ójafnvæginu gæti það haft alvarlegar afleiðingar, ekki bara með því að kynda undir verðbólgunni heldur fyrir stöðugleikann á fjármálamarkaðnum. Það gæti grafið undan trausti manna á hagstjórninni og þar með gengi krónunnar. Fyrir þessu eru engar forsendur eins og er en ef núverandi ofþensluástand heldur áfram lengi gæti þessi staða komið upp. Þess vegna er mikilvægt að ná tökum á þróuninni.
Ég held að með einhverju móti verðum við þvinguð til að ná verðbólgunni niður. Spurningin er bara hvort það gerist mjúklega í gegnum hagstjórn sem bregst rétt við aðstæðunum og kjarasamningum sem taka mið af því. Eða hvort það gerist harkalega með samdrætti í hagkerfinu sem vinnur smám saman á verðbólgunni,“ sagði Már Guðmundsson, aðalhagfræðingur Seðlabankans.