Nýr kjarasamningur

Ýmis merk framfaraskref í samningnum sem nú liggur á borði Samiðnarfélaga

Með nýja samningnum hækka öll laun Samiðnarfélaga um að lágmarki 13,53% á samningstímanum. Samingurinn gildir til janúarloka ársins 2004. Heimilt er að segja samningnum upp fyrir 1. desember 2002 og fellur hann þá úr gildi 31. janúar 2003. Frá og með undirskriftardegi hækka launin um 3,9%, síðan um 3% 1. jan. 2001, um 3% 1. jan. 2002 og um 3% 1. jan. 2003.
Auk þessara launahækkana var samið um 14–16% hækkun á lágmarktaxta en það hefur lengi verið krafa Samiðnar að færa taxta nær greiddu kaupi. Þeir sem hafa unnið eftir lágmarkstöxtum hækka mest en hinir sem búið hafa við yfirborganir hækka misjafnt því heildarlaun viðkomandi eru skoðuð og launamenn gætu þurft að leggja yfirborganir á móti í kauphækkunina. Öllum er þó tryggð 3,9% launahækkun strax.
Auk þeirra launabóta sem samningurinn hefur í för með sér er ýmsum öðrum atriðum fyrri samnings breytt. Á næstu blaðsíðum er farið yfir þau helstu.
Meginforsenda samningsins er að stuðla að áframhaldandi stöðugleika í efnahagsmálum. Samningurinn byggist á því að sú launastefna og kostnaðarhækkun sem í honum felst verði almennt stefnumarkandi og að verðbólga fari minnkandi. Gangi þessi stefna eftir munu undirstöður kaupmáttar launa treystast.
Fari hins vegar svo að á samningstímanum verði um verulegar kostnaðarhækkanir að ræða og aðrir hópar semja um umtalsvert meiri launahækkanir geta félögin sem að samningnum standa skotið máli sínu til sérstakrar nefndar sem samningsaðilar setja á fót til þess að treysta markmið samningsins. Hægt verður að skjóta málum til nefndarinnar í febrúar ár hvert meðan samningurinn er í gildi.
Ef nefndin kemst að því að aðrir hópar hafa fengið umtalsvert meiri hækkanir en Samiðnarfélagar eða að forsendur verðlagsþróunar hafa verið aðrar en gert var ráð fyrir í samningum þá getur nefndin úrskurðað almenna hækkun á launataxta. Ef ekki næst samkomulag innan nefndarinnar er hægt að segja upp launalið samningsins með þriggja mánaða fyrirvara.

Desemberuppbót

Árið 2000 verður desemberuppbót 28.200 kr., árið 2001 29.000 kr., árið 2002 30.000 kr., árið 2003 31.000 kr. Sé desemberuppbót byggingamanna greidd út jafnharðan er hún 13,54 kr. á klst. árið 2000, 13,94 kr. árið 2001, 14,36 árið 2002 og 14,79 kr. árið 2003.

Orlofsuppbót

Orlofsuppbót greiðist sem hér segir: Frá 1. maí 2000 9.400 kr., frá 1. maí 2001 9.600 kr., frá 1. maí 2002 9.900 kr., og frá 1. maí 2003 10.000 kr. Sé orlofsuppbót byggingamanna greidd út jafnharðan er hún 4,50 kr. á klst. árið 2000, 4,63 kr. árið 2001, 4,77 árið 2002 og 4,92 kr. árið 2003.

Lengra orlof

Orlofsprósenta allra félagsmanna Samiðnar sem unnið hafa samfellt í tíu ár hjá sama fyrirtækinu á að hækka í 12,07% 1. maí nk. Það þýðir að á orlofsárinu 2001 lengist orlof þeirra um einn dag og verður 28 virkir dagar. Starfsmenn sem hafa öðlast þennan rétt hjá einum atvinnurekanda fá hann að nýju eftir þriggja ára starf hjá nýjum atvinnurekanda.

Veikindi í orlofi

Til viðbótar þeim rétti sem starfsmenn hafa þegar þeir veikjast í orlofi innanlands var nú samið um hliðstæðan rétt innan EES-svæðisins ef veikindi eru svo alvarleg að þau leiða til sjúkrahúsvistar.

Launaflokkur 1 Sveinar sem sinna fjölþættum verkefnum
                       2000        2001       2002        2003
Byrjunarlaun 109.000 112.270 115.638 119.107
Eftir 1 ár        113.360 116.761 120.264 123.872
Eftir 3 ár        116.761 120.264 123.872 127.588
Eftir 5 ár        120.264 123.872 127.588 131.415
Eftir 7 ár        122.545 126.221 130.008 133.908

Launaflokkur 2 Sveinar – almenn störf
                           2000       2001      2002      2003
Byrjunarlaun 100.000 103.000 106.090 109.273
Eftir 1 ár       104.000 107.120 110.334 113.644
Eftir 3 ár       107.120 110.334 113.644 117.053
Eftir 5 ár       110.334 113.644 117.053 120.565
Eftir 7 ár       112.430 115.803 119.277 122.855

Launaflokkur 3 Starfsmenn sem lokið hafa skemmra
starfsnámi í viðkomandi iðngrein
                         2000    2001     2002      2003
Byrjunarlaun 90.000 92.925 96.427 100.181
Eftir 1 ár       92.700 95.481 98.469 101.800
Eftir 3 ár       95.481 98.345 101.296 104.335
Eftir 5 ár       98.345 101.296 104.335 107.465

Launaflokkur 4 Sérhæfðir aðstoðarmenn í iðnaðarstörfum
með mikla faglega reynslu í iðngreininni
                         2000     2001    2002    2003
Byrjunarlaun 83.000 87.150 91.693 96.348
Eftir 1 ár       85.075 88.887 93.135 97.527
Eftir 3 ár       87.202 90.646 94.579 98.698
Eftir 5 ár       89.382 92.425 96.024 99.859

Bókun
Það er sameiginlegur skilningur samningsaðila að launaflokkur 3 og 4 nái ekki til starfa sem teljast hefðbundin störf verkamanna.

Réttur til Hvíldartíma

Eitt af helstu áherslumálum samninganefndar Samiðnar við gerð þessa samnings var réttur félagsmanna til lágmarkshvíldar og frítöku. Til þess að tryggja þetta voru sett skýrari ákvæði um ýmis atriði sem varða vinnutíma og hvíldartíma. Kveðið er á um að vinnu skuli haga þannig að starfsmaður fái að minnsta kosti 11 klukkustunda samfellda hvíld á hverjum sólarhring. Þá er óheimilt að skipuleggja vinnu þannig að vinnulota sé lengri en 13 stundir, en við sérstakar aðstæður má þó lengja hana í 16 stundir. Verði því við komið skal starfsmaður fá 11 klukkustunda hvíld í beinu framhaldi af vinnunni án skerðingar á rétti til fastra launa. Sé starfsmaður beðinn að koma til vinnu áður en 11 stunda hvíld er lokið á hann rétt á uppbótarhvíld (frítökuréttur) sem nemur einni og hálfri klukkustund fyrir hverja stund sem hvíldin skerðist. Heimilt er að greiða út þriðjung af frítökuréttinum óski starfsmaður þess, þá á dagvinnutaxta. Ef starfsmaður vinnur það lengi á undan hvíldardegi að ekki næst 11 stunda hvíld miðað við venjubundið upphaf vinnudags reiknast frítökuréttur á sama hátt og að framan greinir. Heildarréttur til frítöku vegna vinnu á sama sólarhring getur þó aldrei orðið meiri en sem nemur tíu dagvinnutímum. Uppsafnaður frítökuréttur á að koma fram á launaseðli og skal veittur í heilum og hálfum dögum utan annatíma í starfsemi fyrirtækisins. Þegar starfsmaður hættir störfum hjá fyrirtæki skal ónýttur frítökuréttur hans greiddur upp og teljast hluti ráðningartímans. Njóti starfsmenn ekki 8 stunda hvíldar á vinnusólarhringnum vegna ytri aðstæðna, svo sem veðurs eða annarra náttúruaðstæðna fá þeir greidda 1 klukkustund í yfirvinnu fyrir hverja stund sem hvíldin fer niður fyrir 8 klukkustundir.

Útkall

Ef starfsmaður er kallaður til vinnu (útkall) eftir að venjulegum vinnudegi er lokið á hann ekki frítökurétt ef útkallinu lýkur fyrir miðnætti og starfsmaðurinn nær samanlagt 11 stunda hvíld frá upphafi reglulegs vinnudags til upphafs þess næsta. Fari samfelld hvíld hins vegar niður fyrir 8 stundir skal hann auk frítökuréttar fá greidda 1 stund í yfirvinnu fyrir hverja stund sem hvíldin fer niður fyrir 8 stundir.

Viðbótarframlög til lífeyrissparnaðar

Allir þeir sem aukið hafa lífeyrissparnað sinn um 2% (með sérstakri greiðslu í séreignarsjóð) eiga nú rétt á auknu mótframlagi frá atvinnurekanda sínum. Þeir sem ekki hafa nú þegar bætt þessum 2% við sinn sparnað þurfa einungis að tilkynna atvinnurekenda sínum hvaða lífeyrissjóð viðkomandi ætlar að eiga viðskipti við. Frá 1. maí í ár greiðir atvinnurekandi 1% mótframlag í séreignarsjóð á móti 2% framlagi starfsmanns. Frá 1. maí árið 2002 greiðir atvinnurekandi 2% á móti 2% framlagi launamanns.