Kröfugerð iðnfélaganna lögð fram – viðræður hafnar

Fulltrúar iðnaðarmannafélaganna, VM, RSÍ, MATVÍS, GRAFÍU, Samiðnar og Félags hársnyrtisveina, hafa í dag fundað með fulltrúum Samtaka atvinnulífsins. Kröfur iðnaðarmannafélaganna voru lagðar fram vegna yfirstandandi viðræðna um endurnýjun kjarasamninga sem renna úr gildi þann 31. desember næstkomandi.
Iðnaðarmannafélögin leggja upp í viðræður með skýr markmið að leiðarljósi. Tryggja verður áframhaldandi kaupmáttaraukningu launa, breyta verður taxtakerfi iðnaðarmanna og hækka taxta upp að raunverulegum markaðslaunum. Setja þarf nánari skilgreiningar í kjarasamningana til þess að tryggja að starfsfólk í iðngreinum njóti hærri launa til samræmis við aukna menntun og starfsreynslu. Tryggja skal að réttindaávinnsla fylgi starfsmönnum en ekki fyrirtækjum, svo sem ávinnsla orlofs, veikindaréttar o.s.frv.
Iðnaðarmenn vilja stytta vinnutímann með áþreifanlegum hætti án skerðingar á launum. Ljóst er að vinnutími iðnaðarmanna er lengri en almennt gerist. Yfirvinnugreiðslur tíðkast í meiri mæli hjá stéttinni en öðrum starfsstéttum og telja iðnaðarmenn tíma kominn til að gera störfin fjölskylduvænni með bættum launakjörum og styttri vinnutíma.
Iðnaðarmenn settu jafnframt fram kröfu um að viðræðunum yrði komið í fastar skorður svo dráttur verði ekki á því að samningar náist. Nýir samningar eiga að gilda frá lokum þess síðasta.
Mikil áhersla er jafnframt lögð á að útrýma félagslegum undirboðum og brotastarfsemi á vinnumarkaði. Tryggja þarf að erlendir starfsmenn njóti sömu réttinda og sömu kjara og íslenskir starfsmenn.
Jafnframt var rætt um nauðsyn þess að stjórnvöld grípi til vissra aðgerða til að bæta hag launafólks. Breyta þarf tekjuskattskerfinu á þann veg að jöfnuður aukist í samfélaginu. Það er algjörlega óásættanlegt að ríkasti hluti samfélagsins greiði minni skatta en áður var á sama tíma og skattbyrði hefur aukist hjá millitekju- og lágtekjuhópunum. Þessu þarf að breyta.
Iðnaðarmannafélögin gera kröfu um það að húsnæðisstefna verði innleidd sem tryggi öllum öruggt húsnæði. Gerð er krafa um að lögleiða skyldur sveitarfélaga til að bjóða upp á nægilegt magn af félagslegu húsnæði og að óhagnaðardrifnum leigufélögum verði tryggðar íbúðalóðir án verulegs kostnaðar. Tryggja þarf öllu launafólki aðgengi að húsnæði á hagstæðum kjörum.

Ákveðið var að formlegar viðræður hefjist strax í næstu viku.

>> Sjá kröfugerðina.