Varhugaverðar hækkanir

Varhugaverðar hækkanir á á fasteignamarkaði

Samkvæmt nýbirtri skýrslu Íslandsbanka hækkaði íbúðarverð á höfuðborgarsvæðinu um 1,6% í mars á milli mánaða. Þar kemur fram að þetta sé mesta hækkun á íbúðarverði síðan árið 2017. Tekið er fram að 12 mánaða hækkun mælist nú 8,9% en hafi verið 7,3% í febrúar. Ef horft er til raunhækkunar að þá nemur hún 4,6%. Íslandsbanki bendir á að ef hækkanir íbúðarverðs haldi áfram og verðbólga hjaðni í takt við spár bankans mun raunverð íbúðar hækka talsvert áfram á næstu misserum.

Það er deginum ljósara að þær efnahagsþrengingar sem fylgt hafa Covid 19 hafa ekki haft mikil áhrif á fasteignamarkaðinn. Þá er ljóst að lágt vaxtastig hefur mikið að segja í þessu samhengi og áhrifin þar mun meiri en búast hafi verið við.  Það er ekki til nein töfralausn á þessu ástandi en mikilvægt er þó að auka framboð húsnæðis. Til að svo geti orðið þurfa sveitafélögin, sér í lagi Reykjavík, að auka verulega framboð lóða til uppbyggingar á íbúðarhúsnæði. Nóg er komið af skýrslum, nú þurfa að koma til aðgerðir.