Fréttir

Halldór Grönvold - minningarorð

Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, lést á Landspítalanum þann 18. nóvember sl. eftir stutt veikindi, 66 ára að aldri. Halldór helgaði verkalýðshreyfingunni starfsævi sína en hann hafði gríðarleg áhrif á þróun margra mikilvægra mála enda brann hann alla tíð fyrir réttindum launafólks. Halldór nam vinnumarkaðsfræði við University of Warwick á Englandi. Eftir heimkomuna starfaði hann hjá Iðju, félagi verksmiðjufólks í Reykjavík, en frá árinu 1993 á skrifstofu Alþýðusambands Íslands þar sem hann var lengst af aðstoðarframkvæmdastjóri auk þess að leiða deild félags- og vinnumarkaðsmála hjá sambandinu. Þá var Halldór um langt árabil stundakennari við Háskóla Íslands þar sem hann kenndi vinnumarkaðsfræði.
Hann sat í stjórn Vinnumálastofnunar frá 1996 og beitti sér mjög í fræðslumálum innan verkalýðshreyfingarinnar og þá einkum starfsmenntamálum. Hann tók þátt í samningum á Evrópuvísu um fjölskylduvænni vinnustaði og breytingu á vinnutímatilskipuninni. Hann barðist fyrir breytingum á fæðingarorlofslöggjöfinni sem náðust árið 2000, þar á meðal rétti feðra til töku fæðingarorlofs. Á síðustu árum hefur Halldór sérstaklega beitt sér fyrir aðgerðum til að uppræta brotastarfsemi á vinnumarkaði. Ber þar helst að nefna baráttuna gegn undirboðum á vinnumarkaði, svartri atvinnustarfsemi, kennitöluflakki auk þess sem Halldóri var mjög í mun að koma á keðjuábyrgð í stærri verkefnum. Öflugra vinnustaðaeftirlit á vegum verkalýðshreyfingarinnar var einnig eitt af því sem Halldór brann fyrir.
Það má fullyrða að fáir hafi haft eins mikil áhrif á mótun íslenska vinnumarkaðsmódelsins og Halldór Grönvold. Hann var einlægur verkalýðssinni með yfirburða þekkingu á vinnumarkaðsmálum. Óhætt er að segja að stórt skarð sé höggvið í raðir verkalýðshreyfingarinnar, við fráfall Halldórs.
Eftirlifandi eiginkona Halldórs Grönvold er Greta Baldursdóttir fyrrverandi hæstaréttardómari. Þau eignuðust tvö börn, Evu og Arnar, og eru barnabörn þeirra nú þrjú.
Starfsfólk Samiðnar vottar þeim sína innilegustu samúð.

Kapp er best með forsjá

Nýverið gaf Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) út skýrslu sem unnin var að beiðni atvinnu- og nýsköpunarráðherra sem hefur fengið töluverða athygli. Um er að ræða yfirgripsmikla skýrslu sem felur í sér margvíslegar tillögur, en markmið skýrslunnar var að gera úttekt á samkeppnismati á regluverki íslensks byggingariðnaðar og íslenskri ferðaþjónustu. Þar komu fram margvíslegar áhugaverðar tillögur sem vert er að fara betur yfir og fela m.a. í sér að einfalda ferlið við veitingu byggingaleyfa og endurskoða ferli og reglur sem gilda um úthlutun lóða til að skýra ferlið og auka framboð lóða í samræmi við eftirspurn.
Í umræddri skýrslu var þó einnig vikið að löggiltum starfsgreinum og þar voru lagðar til nokkrar breytingar. Þar var m.a. tekið fram að yfirgripsmikil lögverndun geti haft í för með sér hærra verð til neytenda, lægri framleiðni og færri störf. Þrátt fyrir að hér séu almennar vangaveltur um hvaða afleiðingar lögvernduna starfsgreina hefur í för með sér, var ekki vikið að því hvort gæði vöru og þjónustu yrðu lakari, hvort að öryggi neytenda yrði stefnt í hættu og hver yrðu áhrifin á kjör þeirra sem eru faglærðir iðnaðarmenn? Staðan er því sú að á sama tíma og mennta- og menningarmálaráðherra er að hvetja til aukins iðn- og verknáms, þá er atvinnu- og nýsköpunarráðherra, að kynna skýrslu sem inniheldur tillögur sem fela í sér verulega gjaldfellingu á iðn- og verknámi.
Nú sem aldrei fyrr skiptir öllu máli að við séum samstíga fram á veginn og grípum þau tækifæri sem aukin áhersla á iðnám hefur á íslenska velferð. Leið okkar að aukinni hagsæld snýr að því að nýta okkur þann kraft sem býr í íslensku samfélagi og leysa úr læðingi þá færni sem býr í höndum okkar.

Desemberuppbótin 2020

Desemberuppbótin á almennum markaði, að meðtöldu orlofi, er kr. 94.000 og skal greiðast í síðasta lagi 15. desember miðað við starfshlutfall og starfstíma.

Starfsmenn sem verið hafa samfellt í starfi hjá atvinnurekanda í 12 vikur á síðustu 12 mánuðum eða eru í starfi 1.desember eiga rétt á desemberuppbót. Starfsmenn í ákvæðisvinnu fá greidda desemberuppbót líkt og aðrir.

Sá tími sem starfsmaður er í fæðingarorlofi telst sem starfstími við útreikning desemberuppbótar.

Iðnnemar í fullu starfi hjá fyrirtæki á námstíma fá fulla desemberuppbót.

Fullt starf telst vera 45 unnar vikur eða meira fyrir utan orlof.

> Ríkissjóður kr. 94.000,-
> Reykjavíkurborg kr. 102.100,-
> Faxaflóahafnir kr. 108.600,-
> Strætó kr. 102.100,-
> Orkuveitan kr. 108.600,-
> Samband íslenskra sveitafélaga kr. 118.750,-
> Landsvirkjun kr. 135.373,-
> Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæma kr. 103.100,-

>>  Sjá reiknivél fyrir útreikning desember- og orlofsuppbótar

Mikilvægi þess að velja rétt

Að undanförnu hefur mikil umræða verið um rakavandamál í byggingariðnaði, sér í lagi um myglu og áhrif hennar á líf okkar. Er það mjög þörf umræða enda eru þess mörg dæmi að upp hafi komið alvarleg heilsufarsleg vandamál í tengslum við myglu. Þá hefur komið til mikið fjárhagslegt tjón vegna myglu og annarra atriða sem tengjast henni.

Auðvitað getur margt komið til þegar leitað er ástæðna fyrir myglu en ljóst er að eitt það mikilvægasta er þó að vanda til verka og leita til þeirra sem hafa þekkingu og færni á viðkomandi sviði.

Löggiltir iðnaðarmenn eru frumforsenda fyrir fagmennsku í vinnubrögðum. Þá hefur átt sér stað mikil vitundarvakning á meðal faglærðra iðnaðarmanna um myglu og mikið framboð er af endurmenntun á þessu sviði fyrir iðnaðarmenn, m.a. hjá IÐUNNI fræðslusetri.

Tökum höndum saman og veljum rétt. Veljum fagmennsku og gefum ekki afslátt af heilsu okkar.

Betur má ef duga skal

Hagfræðideild Landsbanka Íslands var að birta upplýsingar um að verulega hefði hægt á íbúðauppbyggingu samkvæmt VSK-skýrslum fyrir uppgjörstímabilið júlí til ágúst. Landsbankinn bendir á að frá lokum síðasta árs hefur mælst samdráttur í byggingariðnaði og hefur hann aukist eftir að Covid-19 faraldurinn skall á. Að samdrátturinn sé þó minni í sérhæfðari byggingarstarfsemi en í þróun og byggingu húsnæðis. Telur bankinn að það gæti verið sökum þess að margt af því húsnæði sem er í byggingu núna, er komið á síðari byggingarstig og vinna við frágang því orðin fyrirferðarmeiri.

Þegar fyrirséð var að áhrif Cov-19 yrðu mikil á íslenskt samfélag boðaði ríkisstjórnin opinbert fjárfestingarátak. Hins vegar er staðan sú að fjárfestingar ríkissjóðs og sveitarfélaganna hafi ekki aukist í takt við þær yfirlýsingar. Samiðn ítrekar áskorun sína til stjórnvalda að standa við orð sín og auki verulega umsvif sína í opinberum framkvæmdum sem allra fyrst.

Framkvæmdastjóri Samiðnar í viðtali

Framkvæmdastjóri Samiðnar Elmar Hallgríms Hallgrímsson var í viðtali hjá Samfélaginu á Rás 1. Þar var m.a. farið yfir verkefnastöðu iðnaðarmanna um þessar mundir, mikilvægi átaksins „Allir vinna“ og hvatningu til stjórnvalda að fara í auknar framkvæmdir.

Hlusta má á viðtalið hér - Samfélagið Rás 1