„Byggingariðnaðurinn á Íslandi er alltof sveiflukenndur og svolítið eins og villta vestrið. Við sjáum mikla umræðu um að það vanti íbúðir á markaðinn á sama tíma og nýjar íbúðir standa óhreyfðar og seljast ekki. Á þessu eru þó ýmsar skýringar og ein er sú að við erum of mikið að byggja íbúðir sem ekki er ásókn í. Á vissan hátt skil ég stöðu verktaka hvað þetta varðar því þeir fá úthlutað lóðum með ákveðnu byggingarmagni en hafa hins vegar ekkert um það að segja hversu margar íbúðir þeir geta byggt á grunni þessa byggingarmagns. Þetta held ég að sé ein af stóru ástæðum þess að verið er að byggja meira af stærri íbúðum en markaðurinn kallar eftir.“
Þetta segir Jón Bjarni Jónsson, formaður Byggiðnar, í viðtali sem birtist í nýju tölublaði Sóknarfæris, sem gefið er út í tengslum við Iðnaðarsýninguna sem haldin verður í Laugardalshöll um komandi helgi, 9.-11. október.
Jón Bjarni segir að það þurfi að opna augun fyrir stöðu byggingariðnaðarins á Íslandi. Vegna mikillar eftirspurnar hafi verið sótt mikið vinnuafl erlendis, en oft skorti það fólk faglega menntun og þekkingu á íslenskum byggingareglum. Hann varar við því að hraði og magn verði sett ofar fagmennsku, því slíkt leiði til galla og vandamála í byggingum.
Jón Bjarni leggur áherslu á að aðeins fagmenntaðir iðnaðarmenn eigi að vinna byggingarverk og líkir ástandinu við það að láta ólærða menn aka rútum. Hann segir að fagmennska sé hagsmunamál allra – iðnaðarins, fyrirtækja og húsnæðiskaupenda.



