Stýrivextir lækkaðir um 0,25 prósentustig

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans um 0,25%, eða úr 9,25% í 9,0%. Þetta kemur fram í yfirlýsingu peningastefnunefndar.

Þar er rakið að verðbólga hafi hjaðnað undanfarið og hafi mælst 5,4% í september. Dregið hafi úr umfangi og tíðni verðhækkana og hægt hafi á efnahagsumsvifum.

Í kjarasamningi Samiðnar og Samtaka atvinnulífsins, sem tók gildi 1. apríl 2024 og gildir til 31. janúar 2028 er kveðið á um að samningurinn standi og falli með því að markmið um lækkun verðbólgu náist, sem aftur sé forsenda vaxtalækkunar. Nú þegar dregið hefur úr verðbólgu hafa heildarsamtök launafólks á Íslandi kallað stíft eftir að stýrivextir verði lækkaðir. Það ferli er nú hafið.

Í tilkynningu peningastefnunefndar segir enn fremur að vísbendingar séu uppi um að dregið hafi úr spennu á vinnumarkaði og svartsýni heimila og fyrirtækja hafi aukist. „Þrálát verðbólga, verðbólguvæntingar yfir markmiði og mikil innlend eftirspurn kalla þó á varkárni. Áfram þarf því að viðhalda hæfilegu aðhaldsstigi til þess að koma verðbólgu í markmið innan ásættanlegs tíma.“