Með lögum nr. 25/2020, um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, var m.a. sú tímabundna breyting gerð að virðisaukaskattur vegna vinnu manna við bílaviðgerðir, bílamálun og bílaréttingar fólksbifreiða yrði að öllu leyti endurgreiddur.
Með bréfi Samiðnar, dags. 5. og 12 júní 2020, til fjármála- og efnahagsráðuneytisins, benti Samiðn á mikilvægi þess að endurgreiðsla vegna þessarar vinnu manna yrði útvíkkuð með þeim hætti að slíkar endurgreiðslu taki til viðgerða, málningar eða réttinga á öllum skráningarskyldum ökutækjum, sbr. umferðarlög nr. 77/2019 og reglugerð nr. 751/2003, um skráningu ökutækja, með síðari breytingum. Samiðn benti á að ekki yrði séð að nein rök séu fyrir því að undanskilja önnur skráningarskyld ökutæki frá umræddri endurgreiðslu á virðisaukaskatti svo sem bifhjól, hjólhýsi, tjaldvagn eða dráttarvél. Samiðn telur afar brýnt að umræddar breytingar verði gerðar hið fyrsta.