Umfangsmikil og skipulögð svik fyrirtækja á erlendu starfsfólki um réttindi, sem bundin eru í lögum og kjarasamningum, er þjóðarskömm sem hefur viðgengist alltof lengi.
Miðstjórn Samiðnar fagnar þeirri umræðu sem átt hefur sér stað í kjölfar áhrifamikillar umfjöllunar fréttaþáttarins Kveiks um stöðu erlends vinnuafls á Íslandi. Í þættinum var það staðfest sem alþjóð hefur vitað að það er mikill misbrestur á að erlent starfsfólk njóti þeirra almennu mannréttinda sem íslensk lög og kjarasamningar eiga að tryggja því.
Íslensk stjórnvöld hafa kosið að horfa framhjá þessu þjóðfélagsmeini. Þau láta nú eins og ástandið komi þeim á óvart þrátt fyrir mikla og áralanga umfjöllun, m.a. Samiðnar, um alvarleg brot á erlendu starfsfólki.
Hjáseta stjórnvalda er ein stærsta ástæða þess að svartir sauðir úr röðum atvinnurekenda komast upp með það árum saman að brjóta lög, kjarasamninga og fela slóð sína með kennitöluflakki.
Miðstjórnin vill trúa því að það sé einlægur vilji stjórnvalda að breyta núverandi ástandi. Þann vilja þurfa stjórnvöld að sýna í verki. Grípa verður til róttækra aðgerða.
Vinnumarkaðsstofnanir sem hafa það hlutverk að tryggja framgang laga og kjarasamninga þurfa að hafa getu og vilja til að bregðast við af hörku þegar fyrirtæki brjóta á starfsfólki.
Núverandi skipulag þar sem margar vinnumarkaðsstofnanir hafa afmarkað hlutverk er úrelt fyrirkomulag. Dreifð ábyrgð skilar afleitum árangri. Breyttur vinnumarkaður kallar á að unnið sé hratt, málum sé fylgt eftir og að það hafi alvarlegar afleiðingar að gerast brotlegur.
Stjórnvöld þurfa að sameina núverandi vinnumarkaðsstofnanir í eina stofnun sem hefur eftirlit með öllum þáttum vinnustaðarins, bæði aðbúnaði og starfskjörum, í samstarfi við stéttar félögin.
Tryggja þarf ríkar og skilvirkar valdheimildir til að stöðva starfsemi fyrirtækja og beita þau sektum ef þau verða uppvís að því að stela af launafólki og svíkja það um umsamin réttindi.
Miðstjórn Samiðnar skorar á ríkisstjórnina að breyta orðum í athafnir. Miðstjórnin lýsir einnig yfir fullum samstarfsvilja við að koma á raunverulegum úrbótum.