Það er hófsemi að semja um 56% launahækkun – en það á bara við um suma

Fyrir nokkrum misserum voru gerðar þær breytingar á Kjararáði að þeim sem féllu undir úrskurð ráðsins var fækkað. Við það tækifæri beindi fjármála- og efnahagsráðuneytið því til stjórna ríkisfyrirtækja að gæta hófs við ákvörðun um laun forstjóra fyrirtækjanna. Að gæta hófs er huglægur mælikvarði og spurningin hvert er viðmiðið þegar lagt er mat á hvort ákvörðunin er hófsöm. Bankastjórn Landsbankans hækkaði laun bankastjórans um 1,2 milljónir á mánuði eða um 56%. Sambærilega hækkun hafði forstjóri Landsvirkjunar fengið.
Formaður bankaráðs Landsbankans leggur áherslu á að við ákvörðun um 56% launahækkun bankastjórans hafi verið gætt hófsemi. Af því má draga þá ályktun að formaðurinn telji ákvörðun bankaráðsins í anda tilmæla fjármála- og efnahagsráðuneytisins um að gæta hófs við ákvörðun um laun bankastjórans.
Víða í samfélaginu er tekist á um launahækkanir og eftir áramótin losnar megnið af kjarasamningum á almennum og opinberum vinnumarkaði.
Ríkisstjórnin og forsvarmenn atvinnulífsins leggja mikla áherslu á að gætt verði hófsemi og horft verði til þess að launabreytingar raski ekki efnahagslegum stöðuleika.
Við sem höfum lagt mikla áherslu á efnahagslegan stöðugleika og stigvaxandi kaupmátt erum nú komin út í horn. Þegar 56% launahækkun rúmast innan launastefnu fjármála- og efnahagsráðuneytisins og telst hófleg, getum við tæplega lagt upp með eitthvað minna. Að leggja upp með 4,5% til 3% launahækkun eins og við höfum samið um í síðustu kjarasamningum, hljómar eins og hvert annað bull og er ekki í neinum takti við raunveruleikann.
Launabreytingar forstjóra ríkisfyrirtækja eru að ganga endanlega frá efnahagslegum stöðugleika og mikilvægt að hafa það á hreinu að ábyrgðin er hjá ríkisstjórninni. Það er engin leið að verja þann mismun sem fellst í hófsemi fjármála- og efnahagsráðuneytisins því fyrir liggur að sú hófsemi á bara við suma en ekki alla.