Hvar er fagmennskan eiginlega?

Hilmar Harðarson, formaður Félags iðn- og tæknigreina og Samiðnar, ritar leiðara í nýjasta fréttabréf FIT þar sem hann kallar eftir aukinni fagmennsku á íslenskum vinnumarkaði og gagnrýnir kennitöluflakk og svarta atvinnustarfsemi:

„Stjórnmálamenn stæra sig gjarnan af háu menntunarstigi og fagmennsku á íslenskum vinnumarkaði en því miður virðist staðreyndin vera sú að alltof margir aðilar séu allt annað en faglegir. FIT hefur þannig mörg dæmi um stór verk þar sem ekki finnst einn einasti fagmenntaður iðnaðarmaður að störfum og vandasömum verkefnum úthlutað til ófaglærðra. Slíkt er óhæfa og með því stranga og viðamikla eftirliti sem til staðar er hér á landi ættu svona vinnubrögð að sjálfsögðu ekki að viðgangast. Er nema von að spurt sé hvar fagmennskan sé eiginlega? Að sjálfsögðu á að gera gangskör að því að bæta úr þessu hið snarasta og það er hægt að fullyrða að fáir kaupendur yrðu væntanlega að íbúðum í stórhýsum ef þeir yrðu upplýstir um að fagmenntaðir iðnaðarmenn hefðu hvergi komið þar nærri. FIT mun berjast fyrir því að breyta þessu og koma fagmennskunni aftur í fyrsta sæti.

Kennitöluflakkarar á ferð og félagsleg undirboð

Flest bendir til að kennitöluflakk og svört atvinnustarfsemi sem erfitt er að aðgreina frá venjulegri brotastarfsemi blómstri á íslenskum vinnumarkaði. Það á ekki síst við í byggingaiðnaði en einnig víðar, til dæmis á sumum sviðum ferðaþjónustu.
Enn fær það að viðgangast að einstaklingar, sem hafa orðið uppvísir að refsiverðri starfsemi í atvinnurekstri, setji félög í þrot, vísi launakröfum á Ábyrgðarsjóð launa, standi hvorki skil á gjöldum til verkalýðsfélaga né lífeyrissjóða, kaupi svo nýtt félag með nýrri kennitölu og byrji leikinn upp á nýtt. Nýja kennitalan er skömmu síðar komin með stórt verkefni á vegum verkkaupa, sem stundum er aðili á vegum ríkis eða sveitarfélags. Nýja kennitalan er hluti af keðju sem hefur í þjónustu sinni erlendar starfsmannaleigur en þær spretta upp eins og gorkúlur á íslenskum vinnumarkaði um þessar mundir. Leigurnar flytja inn erlenda verkamenn sem eiga að fá lágmarkslaun á íslenskum vinnumarkaði og fá sumir greidd þau laun en aðrir ekki. Þessir erlendu verkamenn vinna flest eða öll störf sem unnin eru við byggingu fjölmargra mannvirkja á Íslandi um þessar mundir, líka þau störf sem iðnaðarmenn með löggild starfsréttindi eiga að vinna samkvæmt lögum og samningum sem eiga að gilda á íslenskum vinnumarkaði.