Samþykkt miðstjórnar Samiðnar um erlent vinnuafl

„Vont er þeirra ranglæti en verra er þeirra réttlæti“ sagði Jón Hreggviðsson í Íslandsklukkunni.

Miklar breytingar eru að verða á íslenskum vinnumarkaði, hann hefur þróast frá því að vera einangraður innanlandsmarkaður í alþjóðlegan vinnumarkað þar sem fólk af erlendum uppruna kemur til starfa í lengri eða skemmri tíma.
Í þessu felast mikil tækifæri fyrir íslenskt atvinnulíf ef vel er á haldið og lög og kjarasamningar virtir. EES samningurinn kveður skýrt á um að ekki megi mismuna fóki eftir þjóðerni þ.e. það má ekki greiða erlendu vinnuafli lægri laun en íslensku fyrir sambærilegt störf.
Raunveruleikinn er sá að það viðgengst allt of víða að erlendu vinnuafli séu greidd lágmarkslaun samkvæmt kjarasamningum sem eru langt undir þeim launum sem almennt er verið að greiða á íslenskum vinnumarkaði. Einnig er þekkt að það er verið að greiða erlendum iðnaðarmönnum lágmarkslaun ófaglærðra. Mörg dæmi eru um að atvinnurekendur taki stóran hluta þessara lágu launa til baka í gegnum húsnæðiskostnað og bílapeninga.
Að svíkja starfsfólk um kjarasamningsbundin réttindi er eins og hver annar skipulagður þjófnaður. Það alvarlega er að samfélagið bregst ekki við þess konar þjófnaði með sambærilegum hætti eins og t.d. fjárdrætti eða þjófnaði úr verslunum. Þetta minnir á meðferðina á Jóni Hreggviðssyni sem var dæmdur til betrunarvistar fyrir að stela snæri á meðan aðal bófarnir gengu lausir og nutu lífsins.
Það er að grafa um sig alvarleg meinsemd í okkar góða samfélagi þar sem við lokum augunum fyrir slæmri meðferð á erlendu vinnuafli. Slíkt má aldrei gerast þegar um er að ræða grundvallarréttindi fólks.
Miðstjórn Samiðnar kallar eftir sameiginlegu átaki aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda gegn þessari óheillaþróun og tryggt verði að þeir sem ekki virða almenn réttindi erlendra starfsmanna verði látnir sæta ábyrgð.
Erlent vinnuafl er auðlind sem við eigum að umgangast af fullri virðingu.

Ísafirði 13. september 2017