Sameining Sameinaða lífeyrissjóðsins og Stafa lífeyrissjóðs?

Stjórnir Sameinaða lífeyrissjóðsins og Stafa lífeyrissjóðs hafa samþykkt að hefja könnunarviðræður með sameiningu sjóðanna í huga.  Hugmynd um slíkt hefur áður verið reifuð óformlega en það er ekki fyrr en nú að stjórnir sjóðanna samþykkja að láta reyna á sameiningu með formlegum hætti.

Sameinaði lífeyrissjóðurinn er fimmti stærsti lífeyrissjóður landsins ef miðað er við hlutfall hreinna eigna lífeyrissjóða og Stafir lífeyrissjóður sá níundi stærsti. Saman yrðu þeir fjórði stærsti lífeyrissjóðurinn með um 10% hreinna eigna lífeyrissjóðanna, alls um 310 milljarða króna.  Uppbygging sjóðanna er svipuð og bakland þeirra sömuleiðis.

Sameinaði lífeyrissjóðurinn varð til í ársbyrjun 1992 með sameiningu Lífeyris-sjóðs byggingarmanna og lífeyrissjóðs málm- og skipasmiða. Síðar bættust við lífeyrissjóðir bókagerðarmanna, garðyrkjumanna, múrara, verkstjóra og fleiri.

Stafir lífeyrissjóður varð til við samruna Samvinnulífeyrissjóðsins og Lífeyris-sjóðsins Lífiðnar í ársbyrjun 2007. Til Stafa greiða starfsmenn fyrirtækja sem áður tilheyrðu Sambandi íslenskra samvinnufélaga og félagsmenn í Rafiðnaðarsambandi Íslands og Matvæla- og veitingafélagi Íslands.