Hugvekja í byrjun jólaföstu

Síðustu vikurnar hafa einkennst af umræðum um kjarasamninga og málefni þeim tengd. Í tengslum við kjarasamningana hefur verið rætt um SALEK en það er samráðsvettvangur stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. Nokkuð hefur borið á neikvæðri umræðu um SALEK samkomulagið og eitt stéttarfélag hefur kært það til Félagsdóms á þeim forsendum að það stangist á við lögin um stéttarfélög og vinnudeilur. Hver sem niðurstaðan verður hjá Félagsdómi liggur í loftinu að mikilvægt er að kjarasamningsgerðinni verði fundinn nýr farvegur án þess að gengið verði á samningsrétt einstakra stéttarfélaga.
Baráttan fyrir bættum lífskjörum felst ekki bara í að semja um sem hæstar launahækkanir heldur að auka kaupmátt launa. Það er öllum ljóst að þær launahækkanir sem samið hefur verið um síðustu vikurnar eru hærri en samræmast markmiðum um efnahagslegan stöðugleika.
Hins vegar ber að horfa til þess að okkar ytra umhverfi er okkur hagstætt og það mun hjálpa til við að fleyta okkur yfir það versta en meira þarf að koma til ef vel á að fara.
Ef okkur tekst að komast í gegnum þetta og niðurstaðan verður hófleg verðbólga og okkur tekst að viðhalda efnahagslegum stöðugleika hefur okkur tekist að leggja grunn að verulega bættum lífskjörum sem munu standast samanburð við hin Norðurlöndin. Ef þetta tekst, sem engan vegin er augljóst, er mikilvægt að við höfum tileinkað okkur ný vinnubrögð sem tryggja árangur til framtíðar.
Það er komið að því að við þurfum að endurskoða okkar vinnubrögð og við eigum að ganga til þeirra vinnu óbundin og vera tilbúin að skoða alla fleti því það er engu að tapa en allt að vinna.