Lítið gerst í kjaraviðræðum þessa vikuna

Þessi vika hefur litlu skilað í viðræðum um nýjan kjarasamning við ríkið, sveitarfélögin og tengdar stofnanir. Það markverðasta sem hefur gerst er að SGS og Efling hafa gert kjarasamning við ríkið sem mun væntanlega skila um 30% launahækkun á samningstímanum. Einnig er rétt að geta þessa að þrjú stærstu félögin innan BSRB eru nú í verkfalli.
Ríkið hefur ekki fallist á að gera kjarasamning við iðnaðarmenn um sambærilegar breytingar og eru í nýjum kjarasamningi SGS og Eflingar. Fram hefur komið hjá ríkinu að til þess að gera kjarasamning við iðnaðarmenn í anda t.d. þess sem iðnaðarmenn sömdu um við SA, þurfi að nást samkomulag milli almenna markaðarins og hins opinbera innan SALEK hópsins. Enginn vilji er hjá ríkinu að semja við einstaka hópa um kjarabætur sem valda því að forsenduákvæði kjarasamninga á almennum markaði opnist í febrúar. Fyrir liggur að SALEK hópurinn hefur ekki náð saman og ekkert samkomulag liggur fyrir og má því segja að málið sé komið í sjálfheldu.
Ekki er líklegt að mikið gerist í okkar viðræðum fyrr en tekist hefur að semja við þau félög sem eru nú í verkfalli. Eins og staðan er nú er engin leið að segja til um hvernig og hvenær sú deila leysist.
Sama má segja um sveitarfélögin þau bíða þess að ríkið klári kjarasamning og ryðji þannig veginn.
Svona er staðan og ekki neitt frekar um það að segja að sinni. Við munum halda áfram okkar vinnu í næstu viku en gerum ekki ráð fyrir að funda fyrr en líður á vikuna, nema til einhverra tíðinda dragi hjá opinberu stéttarfélögunum sem gefur tilefni til að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið.