Hvar er nýja Ísland?!

Eftir hrunið voru háværar kröfur um að innleitt yrði nýtt og betra viðskiptasiðgæði, meginreglan yrði á gegnsæ vinnubrögð en vinaviðskipti,sem færðu fáum mikil verðmæti á silfurfati á kostnað hinna, aflögð. Maður trúði því að á bak við þessa kröfu stæðu almenningur, stjórnmálamenn og viðskiptalífið. En hver er raunveruleikinn?  Var þetta allt í plati?  Ætlaði viðskiptalífið aldrei að spila með?!
Það er ekki óeðlilegt að slíkum spurningum sé varpað fram þegar fréttist af sölu Símans en í þeim viðskiptum fengu nokkrir útvaldir að kaupa á rúmlega 30% lægra gengi en þeir sem á eftir komu. Þetta er í sjálfu sér ekki nýtt, við sáum hliðstæður fyrir bankahrun og vitum hvert það leiddi okkur. En við lifðum í voninni um að allir hefðu eitthvað lært og slíkir starfshættir tilheyrðu fortíðinni.
Nú er ástæða til að spyrja sig hvað það er sem kallar á svona vinnubrögð, fer það gegn hagsmunum seljandans að allir sitji við sama borð? Nú liggur fyrir að seljandinn hefði fengið hærra verð hefði allur hluturinn verið seldur í einu á útboðsgenginu og eigandi hlutarins sem seldur var fengið meira í sinn hlut þ.e. ríkið og eigendur þrotabús Kaupþingsbanka. Ein skýringin sem sett hefur verið fram er að með þessari aðferð hafi seljandinn verið að trygga að í eigendahópnum væri þekking á fjarskiptum. Þessi skýring stenst ekki lengur eftir að ljóst er hverjir fengu þessar gjafir. Staðreyndin er að hér var um kunningja viðskipti að ræða sem ekkert eiga skylt við góða viðskiptahætti.
Nú er mikilvægt að allir taki höndum saman og stöðvi þessa dæmalausu vitleysu og gefi viðskiptalífinu skýr fyrirmæli um að svona vinnubrögð viljum við ekki. Við sáum hvert það leiddi okkur og við viljum ekki endurtaka það. Það eru engin rök fyrir því að innleiða kunningjaviðskipti. Þau leiða til meiri misskiptingar sem er ærin fyrir og hafa farið vaxandi síðustu misseri, sem í framhaldinu skapa meiri óróa og átök í samfélaginu. Gerum kröfur um heilbrigt og framsækið viðskiptalíf sem grundvallast á siðgæði og gegnsæi. Ef ekki verður brugðist við eru miklar líkur á að við séum að fara í gamla ógæfufarið sem endar með miklum skell sem almenningur kemur til með að borga.