Ánægja með samstarfssamning iðnaðarmanna

Formannafundur Samiðnar, sem haldinn var föstudaginn 27.febrúar á Grand hóteli, lýsir yfir mikilli ánægju með samstarfssamning félaga og sambanda iðnaðarmanna í komandi kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins.
Fjöldi félagsmanna þeirra félaga sem eiga aðild að samstarfssamningnum er um 18.000 og tekur til stærsta hluta starfandi iðnaðarmanna á Íslandi.

Í komandi kjarasamningum leggja iðnaðarmenn áherslu á:
> Að samið verði um laun fyrir dagvinnu sem tryggja góða framfærslu.
> Að samið verði um kauptaxtakerfi sem endurspegli greidd laun.
> Að samið verði um hvernig aukin framleiðni sem fellur til vegna styttri vinnutíma skiptist á milli launamanna og atvinnurekenda.
> Að samið verði um með hvaða hætti verði komið í veg fyrir félagsleg undirboð.

Iðnaðarmenn bjóða atvinnurekendum til samstarfs um að ná þessum markmiðum enda er um sameiginlega hagsmuni að ræða.
Það er sannfæring iðnaðarmanna að það séu miklir möguleikar ef allir vinna saman til að ná fram betri nýtingu vinnuaflsins og auka framleiðni m.a með styttingu vinnutíma.
Aukin framleiðni og betra skipulag skapar ný sóknarfæri sem iðnaðarmenn vilja nýta til að skapa eftirsóknarvert starfsumhverfi þar sem greidd eru góð laun fyrir dagvinnu.
Starfsumhverfi íslenskra iðnaðarmanna þ.e. langur vinnudagur og kauptaxtakerfi með lágum grunnlaunum, laðar ekki ungt fólk til starfa.
Mikil þörf er á að fjölga velmenntuðu fólki í iðnaði því þar bíða tækifærin en til þess að svo geti orðið þarf starfsumhverfið að vera samkeppnishæft.
Það er óbilandi trú iðnaðarmanna að það sé öllum í hag að hér á landi sé velmenntuð iðnaðarmannastétt á góðum launum þar sem dagvinnulaunin tryggja örugga afkomu.
Sameiginlega munu iðnaðarmenn beita sér til að ná fram þessum markmiðum í komandi kjarasamningum.