Í öðru lagi hefur viðbótar skattlagning á fyrirtæki verið framlengd, en samið var um hækkunina í tengslum við stöðuleikasáttmálann og átti að vara í stuttan tíma og sérstaklega hugsuð til að vinna á gríðarlegum halla á ríkissjóði í kjölfar bankahrunsins.
Í þriðja lagi virðist sem stuðningur við sprotafyrirtæki í gegnum skattkerfið sé ómarkviss og hann sé ekki nægjanlega fyrirsjáanlegur til lengri tíma.
Í fjórða lagi virðist sem álagning á vörur sé ekki markviss og dragi úr möguleikum íslenskra verslana til að standast samkeppni erlendis frá m.a. vegna tvísköttunar á vörugjöld svo eitthvað sé nefnt.
Til að byggja upp samkeppnishæft atvinnulíf sem stenst erlenda samkeppni og getur boðið góð laun, er mikilvægt að fyrirtækin búi við umhverfi sem skapar aðstæður sem eru sambærilegar við það sem almennt þekkist í nágrannalöndunum og helst að vera hægstæðari ef eitthvað er. Eitt af því sem er mjög mikilvægt er að starfsumhverfi fyrirtækjanna þ.m.t. skattkerfið sé fyrirsjáanlegt til lengri tíma. Það er m.a. forsenda þess að fá erlenda fjárfestingu inn í landið og einnig er þetta mjög mikilvægt til að koma í veg fyrir allskonar mistök og undanskot.
Mikilvægur hluti fyrirsjáanleikans er að breytingar t.d. á skattaumhverfinu séu teknar og kynntar með löngum fyrirvara og gildistími lagabreytinga komi ekki til framkvæmda fyrr en nokkrum mánuðum eftir lagasetningu, jafnvel má hugsa sér að megin reglan verði sú að lagabreytingar sem samþykktar eru í dag komi ekki til framkvæmda fyrr en ári síðar.
Annað sem lögð var áhersla á er að breytingar á starfsumhverfi fyrirtækja séu ekki teknar án samráðs við atvinnulífið og áður en endanleg ákvörðun er tekin séu ítarlegar rannsóknir gerðar á áhrifum þeirra. Á þetta virðist hafa skort verulega síðustu misserin og í einhverjum tilfellum hafa stjórnvöld þurft að draga til baka ákvarðanir vegna þess að framkvæmdin reyndist mjög erfið eða ómöguleg og skilaði ekki tilætluðum árangri.
Nú er tækifæri að læra af reynslunni og það þurfa allir að gera og ekki síst stjórnvöld sem þurfa að tileinka sér agaðri vinnubrögð, horfa langt fram í tímann, hafa skýr markmið og bæta samstarfið við atvinnulífið. Stjórnvöld þurfa að læra að hlusta og taka ekki ákvarðanir sem til lengri tíma skaða bæði atvinnulífið sem heild og draga úr tekjum samfélagsins. Það er öllum ljóst að það er ekki hægt til lengdar að auka tekjur ríkisins nema að til komi meiri verðmæti því að ef kýrin fær ekki nægt fóður verður hún geld fyrir rest.