Miðstjórn Samiðnar skorar á Alþingi að láta af flokkspólitískum inngripum í rammaáætlun um orkunýtingu. Samþykkt Alþingis á upphaflegu áætluninni, sem byggir á faglegu mati og sjónarmiðum sátta í samfélaginu, er nauðsynleg svo rjúfa megi þá stöðnun sem skapast hefur um virkjunarkosti í landinu.
„Megin tilgangur rammaáætlunar um orkunýtingu er að leggja faglegt mat á virkjunarkosti út frá sjónarmiði fjárhagslegrar hagkvæmni, náttúruverndar og ekki síst leggja grunn að víðtækri sátt í samfélaginu.
Sú tillaga að rammaáætlun um orkunýtingu sem liggur fyrir Alþingi hefur verið lengi í vinnslu og að baki henni liggur gríðarleg vinna fagfólks. Lögð hefur verið áhersla á að hafa fagleg sjónarmið að leiðarljósi og halda flokkspólitískum sjónarmiðum frá.
Nú hafa stjórnarflokkarnir gripið inn í og gert tillögur að breytingum og lagt til að 5 virkjunarkostir verði fluttir úr nýtingarflokki yfir í biðflokk. Þar af eru 3 virkjunarkostir í Þjórsá sem eru nánast tilbúnir til uppbyggingar. Eins og tillagan að rammaáætlun lítur út eftir pólitísk inngrip stjórnarflokkanna eru nánast engir vatnsfallsvirkjunarkostir eftir í nýtingarflokki.
Samiðn mótmælir harðlega pólitískum inngripum stjórnvalda og að fagleg sjónarmið séu látin víkja fyrir þröngum flokkslegum hagsmunum. Rammaáætlun um orkunýtingu sem ríkisstjórnir á hverjum tíma höndla að eigin geðþótta er máttlaust verkfæri sem tryggir ekki faglegt mat við ákvörðunartöku, aukna sátt í samfélaginu um nýtingu auðlinda og verndun náttúru.
Samiðn skorar á Alþingi að snúa af villu vegar og hætta öllum inngripum í rammaáætlun um orkunýtingu og láta eingöngu fagleg sjónarmið ráða. Einnig hvetur Samiðn alþingismenn til að sammælast um að afgreiða upphaflega tillögu að rammaáætlun á yfirstandandi þingi svo hægt sé að rjúfa þá stöðnun sem óvissa um virkjunarkosti hefur valdið.“