Ríkisstjórnin víki takist ekki að leiða þjóðina úr efnahagsógöngum

Kjaramálaráðstefna  Samiðnar haldin á Grand hótel 15.október 2010 lýsir miklum vonbrigðum með hvað hægt hefur gengið  að finna ásættanlegar lausnir fyrir skuldsett heimili og fyrirtæki. Hvað hægt  gengur að fá  niðurstöðu varðandi gengistryggð lán og hvernig það  svigrúm til lækkunar skulda sem varð til við yfirfærslu frá eldri bönkunum til þeirra nýju hefur verði nýtt.   

Langvarandi óvissa dregur kjarkinn og kraftinn úr þjóðinni  til að takast á við þau krefjandi verkefni sem við blasa og snúa vörn í sókn og hefja  endurreisn íslensks efnahagslífs.   Hver mánuður sem fer í bið eykur á vanda þjóðarinnar og skerðir lífskjörin í landinu til langrar framtíðar. 

Samiðn varar eindregið við hugmyndum um almennar niðurfærslur skulda sem fela það í sér að lífeyrisþegar þurfa að bera  stærstan hluta kostnaðarins. Í því sambandi er rétt að benda á að flestir almennu sjóðirnir hafa neyðst til að skerða réttindi sjóðsfélaga á sama tíma og lög kveða á um að opinberu sjóðunum skuli bætt tapið.

Forsendur  þess að hér á landi verði viðsnúningur eru auknar fjárfestingar  í atvinnulífinu.  Ekki  er hægt að gera ráð fyrir að hið opinbera leggi mikið af mörkum í þeim efnum vegna mikillar skuldsetningar.  Auknar fjárfestingar eru forsenda aukins  hagvaxtar,  fjölgun  starfa og að okkur takist að vinna bug á  atvinnuleysinu.

Að vinna bug á afleiðingum bankakreppunnar  er stærra verkefni en svo að ríkisstjórnin ein og sér  valdi því.    Til  að það takist þarf að skapa samstöðu í samfélaginu  um þær sársaukafullu  aðgerðir  sem nauðsynlegt er að grípa til.

Stöðugleikasáttmálinn var tilboð aðila vinnumarkaðarins til ríkisstjórnar og sveitarfélaga um samstarf, um samræmdar aðgerðir til að snúa vörn í sókn. Samiðn lýsir yfir miklum vonbrigðum  með að ekki tókst að halda   áfram því  samstarfi  sem stöðugleikasáttmálinn byggði á  og lýsir ábyrgðinni á hendur  ríkisstjórninni  þar sem mikið skorti á að hún stæði  við gefin fyrirheit m.a um átak í atvinnumálum.

Við þessar aðstæður  ganga íslensk stéttarfélög til samninga um endurnýjun kjarasamninga. Með  hvaða hætti verður staðið að þeim mun ekki síst ráðast af stjórnmálaástandinu í landinu og hversu líklegt það er að stjórnvöld séu að ná tökum á þeim vanda sem þjóðin stendur frammi fyrir.

Ríkisstjórnin hefur einangrast vegna skorts á  samstarfsvilja  og sundurlyndi ríkisstjórnar meirihlutans. Óábyrg stjórnarandstaða hefur spilað á sundurlyndið, tafið mál  og komið í veg fyrir að mikilvæg mál nái fram að ganga.

Ísland er á barmi gjaldsþrots  og við slíkar aðstæður verða stjórnendur landsins að sýna samstarfsvilja,  ábyrgð, festu og víkja sérhagsmunum til hliðar. 
Samiðn gerir þær kröfur til ríkisstjórnarinnar og Alþingis hún sýni með ótvíræðum hætti á næstu dögum að hún hafi  styrk og vilja  til að leiða Ísland út úr efnahagsvandanum. Takist það  ekki ber ríkisstjórninni að víkja.