Stjórn Samiðnar mótmælir harðlega vilja Landsvirkjunar til að hleypa kínverskum verktökum að framkvæmdum vegna Búðarhálsvirkjunar og hefur sent stjórn Landsvirkjun ályktun þess efnis:
„Samiðn fagnar ákvörðun Landsvirkjunar um að bjóða út byggingu Búðarhálsvirkjunar enda mun framkvæmdin hafa mikil og jákvæð áhrif á atvinnuástandið í bygginga- og mannvirkjagerð verði skynsamlega að verki staðið.
Nú hafa borist fréttir af viðræðum Landsvirkjunar og kínverska fyrirtækisins CWE um aðkomu þess að framkvæmdunum og hefur Landsvirkjun lýst sérstökum áhuga á að fá tilboð frá CWE í framkvæmdina.
Samiðn lýsir áhyggjum sínum af sérstökum vilja Landsvirkjunar til að fá CWE að framkvæmdunum þar sem reynslan segir okkur að kínversk verktakafyrirtæki muni fyrst og fremst nýta sinn eigin mannskap við framkvæmdirnar sem þesssar. Verði það niðurstaðan munu þau jákvæðu áhrif sem framkvæmdin getur haft á íslenskt efnahagslíf nánast þurrkast út.
Þessum áformum Landsvirkjunar að sniðganga íslenska verktaka mótmælir Samiðn harðlega og mun beita öllum sínum áhrifum til að koma í veg fyrir að veitt verði atvinnuleyfi vegna byggingu virkjunar.
Íslensk verktakafyrirtæki búa yfir mikilli reynslu við byggingu vatnsfallsvirkjana svo ekki er hægt að skýla sér á bak við að það sé verið að ná í sérfræðiþekkingu sem ekki er til staðar hérlendis.
Samiðn skorar á Landsvirkjun að standa þannig að verki að sem mestar líkur séu á að verkefni við byggingu Búðarhálsvirkunar falli í hendur íslenskra verktaka og skapi sem flest störf fyrir Íslendinga og verði með þeim hætti kröftug innspýting í íslenskt efnahagslíf.
Tilboðsverð á íslenskum verktakamarkaði eru mjög hagkvæm og því engin ástæða til að kalla eftir tilboðum frá Kína til að þvinga verð enn frekar niður.“