Í ávarpi Finnbjörns A. Hermannssonar, formanns Samiðnar á fundi ASÍ í Hafnarhúsinu í gær, kom fram að í þeim efnahagsþrengingum sem nú ganga yfir, verði að leggja áherslurnar á langtímahagsmuni neytenda, launafólks og fyrirtækja. Stjórnvöld þurfa að ávinna sér traust almennings að nýju við endurreisn samfélagsins, tími orðagljáfurs og feluleikja er liðinn.
Ávarpið í heild sinni
Góðir fundarmenn.
Ein birtingamynd bankakreppunnar er stóraukið atvinnuleysi. Þúsundum manna og kvenna hefur verið sagt upp störfum. Hjól atvinnulífsins eru smátt og smátt að stoppa. Ef allar þær uppsagnir sem boðaðar hafa verið koma til framkvæmda má kalla það hrun í ákveðnum atvinnugreinum. Við byggingamenn höfum sjaldan séð það svartara. Fjármálakreppan hitti okkur fyrst. Við höfum byggt langt umfram þörf. Félagsmenn Alþýðusambandsins tóku ekki ákvörðun um það. Við höfum sveitastjórnir sem sjá um framboð lóða, bankar leggja fram framkvæmdafé og forsvarsmenn fyrirtækja sem meta eiga sölumöguleika og notagildi húsnæðis. Það fóru allir af stað á sama tíma og ætluðu að ná sínum skerf af gróðanum.Það mátti ekki hafa stjórn á hlutunum. Afleiðingin er atvinnuleysi..
Þegar góðærið var töluðust menn ekki við því það mátti engu miðstýra. Nú talast menn ekki við og engin stefna er í atvinnumálum. Allir ætla að bregðast við kreppunni með því að hætta verklegum framkvæmdum. Allir bregðast eins við og niðursveiflan er mögnuð. Así margbenti á að á sama tíma og stærstu framkvæmdir landsins stóðu yfir á austurlandi ættu aðrir að halda að sér höndum. Að minnsta kosti ríki og sveitarfélög. En framkvæmdagleðin var sem aldrei fyrr. Þenslan var mögnuð upp.
Hver var fyrirhyggjan í fyrirtækjum. Hvar er ágóði uppsveiflunnar? Það var búið að taka gróðann útúr flestum fyrirækjunum og væntanlegan gróða og ráðstafa honum áður en hann varð til. Þetta eru kallaðir framvirkir samningar.
Menn voru farnir að lifa svo langt fram í tímann og þegar kemur kreppa eins og þessi stöðvast hjól atvinnulífsins á fyrsta degi. Það erum við að upplifa.Við kjósum sveitastjórnir. Við kjósum alþingi og við höfum eftirlitsstofnanir. Hin gengdarlausa frjálshyggja hefur leitt það af sér engin yfirsýn er á nokkrum hlut.
Sveitastjórnir hér á höfuðborgarsvæðinu hafa verið í fegurðarsamkeppni um framkvæmdir og úthlutun lóða. Ekkert skipulag á framkvæmdum milli þeirra. Nú eru þær í grettukeppni um hver geti dregið sig mest saman. Baukurinn tómur. Eftirlitsiðnaðurinn hefur verið skammaryrði á undanförnum árum. Það hafa allir átt að geta framkvæmt það sem þeim sýndist og yfirvöld eiga ekki að skipta sér af nokkrum hlut. Það mátti ekki leggja hömlur á athafnaskáldin sem fóru í broddi fylkingar í útrás eða skuldsettum fyrirtökum fyrirtækja.
Og þannig hafa eftirlitsstofnanir verið meðhöndlaðar. Yfirmaður efnahagsbrotadeildar lögreglunnar segir í sjónvarpsviðtali við norska sjónvarpið að fjármálageiranum eða viðskiptalífinu hafi ekki staðið nokkur hætta af efnahagsbrotadeildinni þar sem hún var fjársvelt. Hvaða afsökun fjármálaeftirlitið hefur umfram svefninn langa veit ég ekki en sjálfsagt var það einnig fjársvelt.
Afleiðingin: eitt stykki þjóðargjaldþrot. Og fengum ekki að taka þátt í partíinu en eigum að þrífa upp eins og einn félagsmaður sagði á fundi okkar á Ísafirði. Gott fólk. Við ætlum ekki að hafa vit fyrir ykkur. Þið eruð verkalýðshreyfingin og við erum einungis talsmenn ykkar. Við framkvæmum það sem þið eruð að segja okkur. Þess vegna höfum við farið vítt og breitt um landið. Til að fá hug ykkar til þeirra mála sem uppi eru. Við höfum átt skoðanaskipti við hundruð manna og kvenna á þessum fundum. Við heyrum ótta ykkar og angist:
Fæ ég uppsagnarbréf fyrir mánaðarmótin?
Held ég vinnunni eða hlutastarfi?
Get ég greitt af lánunum mínum?
Get ég séð fjölskyldu minni farborða næstu mánuði? Missi ég húsið/íbúðina mína?
Verð ég ef til vill gjaldþrota?
Allt í kringum okkur eru þessar spurningar. Hjá okkur, hjá börnunum okkar, vinum og kunningjum. Þessari óvissu viljum við eyða sem fyrst. Þess vegna viljum við skýr svör. Hvað er framundan og við hverju má búast?
Alþýðusambandið hefur skýra sýn á framtíðina og þá sýn höfum við verið að bera undir okkar fólk og eiga skoðanaskipti við um landið: Við viljum fyrir það fyrsta beina aðkomu að því endurreisnar- og uppbyggingastarfi sem er framundan.Til að halda hjólum atvinnulífsins gangandi verður að tryggja aðgengi að fjármagni til þeirra fyrirtækja sem eru rekstrarhæf en eru að stoppa vegna fjarskorts. Störf okkar eru í húfi
Það verður að tryggja aðgengi að fjármagni í fjárfestingar þannig að hægt verði að þróa ný störf, tækni og sjálfbæra þróun.Búa verður til endurreisnarsjóð fyrir þau fyrirtæki sem lenda í rekstrarstöðvun og einhver glóra er að keyra áfram. Fjármagnseigendur og þar með lífeyrissjóðir þurfa að leggja fé til að koma arðbærum fyrirtækjum aftur á lappirnar.Farið verður í átak til að auka neyslu á íslenskri framleiðslu til að halda sem flestum störfum í landinu og spara verðmætan gjaldeyri.Við núverandi aðstæður kann að vera nauðsynlegt að víkja tímabundið til hliðar samkeppnisreglum til að ná fram nauðsynlegri hagræðingu í atvinnulífinu til að skapa sterkari fyrirtæki.
Það þarf einnig að sjá til þess að stór verkefni verði boðin út á íslenskum vinnumarkaði og lendi í höndum íslenskra fyrirtækja. Þetta verður þó að gera af mikilli varfærni og gæta að langtímahagsmunum neytenda, launafólks og fyrirtækja. Styrkja verður samkeppniseftirlitið auk annarra eftirlitsstofnana til að tryggja framgang laga og regla við þær erfiðu aðstæður sem eru í efnahagslífinu.
Við ætlum að verja hag heimilanna.
Við ætlum að byggja heiðarlegt samfélag.
Við viljum fjölbreytt samfélag með áherslu á nýsköpun og framþróun byggða á stöðugleika og öruggum gjaldmiðli.
Við viljum samfélag með góða menntun fyrir alla
Við viljum samfélag með góðum störfum
Við viljum samfélag með öflugu velferðarkerfi
Við viljum samfélag sem er eftirsótt að búa í
Þúsundir vinnufúsra handa eru að verða eða eru orðnar verkefnalausar.
Við viljum vinnu.
Góðir fundarmenn
Heiðarleiki og siðgæðisvitund þjóðarinnar hafa verið fótum troðin. Þar sjáum við skóför fárra umsvifa- og valdamikilla aðila.
Þetta eru skóför þeirra sem bera ábyrgð á því ástand sem við erum í. Það tekur tíma að jafna sig og tryggja að slíkt gerist ekki aftur.Við viljum heiðarleg og rétt svör. Tími orðagjálfurs og feluleikja er liðinn. Orð og athafnir verða að fara saman. Alþýðusambandið hefur margboðið fram krafta sína. Það þurfa margir að koma að þessari vinnu og því köllum við eftir verkstjórn og stefnu. Trúverðugleikinn og þar með vinnufriður ríkisstjórnar er skaddaður. Ef ríkisstjórnin ætlar að fá fólkið með sér í endurreisn samfélagsins þarf hún að vinna sér traust að nýju. Það gerist einvörðungu með athöfnum. Sýnið að þið ætlið að taka á málunum. Tíminn er núna. Að öðrum kosti gerið okkur þann greiða að fara frá. Við höfum ekki efni á að fyrirtækjum og heimilum blæði út.