Skógrækt er líf og yndi Hörpu

Harpa Dís Harðardóttir sótt heim í Björnskot og tekin tali um Suðurlandsskóga og lífið á Skeiðunum

– Ég hef verið viðloðandi Suðurlandsskóga í 11 ár. Þetta verkefni á vel við mig og ég er hæstánægð í vinnunni, segir Harpa Dís Harðardóttir garðyrkjufræðingur þegar tíðindamaður Samiðnarblaðsins sótti hana heim þar sem hún býr ásamt manni sínum og þremur börnum í Björnskoti á Skeiðum.
 Suðurlandsskógar eru 40 ára skógræktar-verkefni á Suðurlandi og er takmarkið að rækta upp skóg á um 5% af láglendi á Suðurlandi. Verkefnið byggist á lögum sem samþykkt voru á Alþingi árið 1997 en fyrsta gróðursetningin undir merkjum Suðurlandsskóga fór fram vorið árið 1998. Að sögn Hörpu er athafnasvæði Suðurlandsskóga allt Suðurkjördæmið. Svæðinu er síðan skipt eftir sýslum.
 
– Ég er svæðisstjóri í Árnessýslu. Hún er minn heimavöllur. Öll lögbýli sem það vilja geta sótt um að gerast aðilar að þessu verkefni og eftir að bændur hafa lagt fram umsókn er athugað hvort raunhæft sé að hefja skógrækt á jörð þeirra. Fari svo er jörðin metin og gerð áætlun um tegundaval og valdir heppilegir svæði í samráði við ábúendur, þá er skrifað undir skógræktarsamning um viðkomandi svæði og samningnum er svo þinglýst sem kvöð á jörðina
 
Þegar tíðindamaður Samiðnarblaðsins leit við hjá Hörpu var hún að afgreiða skógarbónda sem var kominn úr Laugadalnum til að sækja plöntur, áburð og verkfæri til gróðursetningar. – Hér í Björnskoti er ég með dreifingarstöð fyrir bændur sem eru þátttakendur í Suðurlandsskógum. Hingað sækja menn plöntur og áburð og annað sem til þarf, þessu sinni ég fyrir hádegi. Eftir hádegið hefst svo þeytingur, ég heimsæki skógarbændurna, veiti þeim ráðgjöf, sinni eftirlitsstörfum og tek út ný svæði, segir Harpa.
 
Aðspurð um hvort sátt sé í sveitum Suðurlands um þetta verkefni segir hún að svo sé.
 
– Auðvitað eru ekki allir sammála um réttmæti þess að taka lönd undir skógrækt. Enn eimir eftir af því viðhorfi að land eigi annaðhvort að nýta til beitar eða heyja. Vandinn er sá að það vantar að sveitarfélögin skilgreini sitt landsvæði. Til hvers á að nota landið? Aðeins eitt sveitarfélag hér í minni sýslu hefur gert það, og það er Hrunamannahreppur. Þar hafa þeir samþykkt landnýtingaráætlun fyrir landsvæði sitt og það er af hinu góða, segir Harpa sem þó telur að mikið af landi sem nú er nýtt undir skógrækt á Suðurlandi væri ella vannýtt.
 
– Skógurinn á vafalaust eftir að nema land víða á Suðurlandi þegar fram líða stundir og menn átta sig enn betur á að hann á eftir að skila arði. Og ekki bara fjárhagslegum arði heldur skapar hann ef vel tekst til betri lífsskilyrði fyrir þá sem búa á svæðinu, segir Harpa og bætir við að eitt af hlutverkum Suðurlandsskóga sé að aðstoða bændur við að rækta upp skjólbelti á jörðum sínum.
 
– Ég held að fleiri og fleiri séu að gera sér grein fyrir því að með því að koma sér upp góðum skjólbeltum meðfram ræktunarlandinu má auka nytjar þess verulega. Gott skjól skapar möguleika á að stunda til dæmis kornrækt með betri árangri en nú er, segir Harpa sem undanfarin ár hefur helgað líf sitt skógrækt. Til að geta betur tekist á við það verkefni hefur hún lagt stund á framhaldsnám við Landbúnaðarháskólann og útskrifast sem skógfræðingur nú í vor.
 
– Skógrækt hefur alla tíð heillað mig og ég er svo lánsöm að geta starfað við þetta. Þetta er gefandi og fjölbreytt. Starf okkar svæðisstjóranna er margþætt, í gegnum starfið kynnist maður allslags fólki sem er að vinna hér brautryðjendastarf við að koma upp fyrstu kynslóð nytjaskóga á Íslandi, segir Harpa og bætir við að hún þrífist hvergi eins vel og í sveitinni.
 
– Það er gott að búa á Skeiðunum. Héðan er stutt í allar áttir og hér eru góðir skólar, bæði leik- og grunnskólar, og heilsugæsla og önnur þjónusta er í góðu lagi hér hjá okkur. Börnunum líður vel hér og mannlíf á Skeiðunum er með ágætum, segir Harpa Dís Harðardóttir garðyrkjufræðingur sem senn mun skreyta sig með nafnbótinni skógfræðingur og yfirgefur þar með gömlu félagana í FIT.