SKILABOÐASKJÓÐAN: Mér þykir einnig einsýnt að ef ekki næst saman um leiðréttingar á kauplið samninganna innan launanefndarinnar liggi ekkert annað fyrir okkur Samiðnarmönnum en að segja upp samningum
Kjarasamningum verður ekki sagt upp vegna leikaraskapar né mannvonsku
Í haust ber launanefnd ASÍ og SA að endurskoða forsendur kjarasamninga. Því er rétt að rifja upp það sem lagt var til grundvallar við gerð núgildandi samnings:
„Markmið aðila með samningi þessum er að stuðla að efnahagslegum stöðugleika og jafnvægi á vinnumarkaði, sem hvort tveggja er grundvöllur uppbyggingar og fjölgunar starfa. Í samræmi við þessi markmið hvílir samningur þessi á eftirfarandi forsendum:
1. Að verðbólga þróist í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands
2. Að sú launastefna og þær kostnaðarhækkanir sem í samningnum felast verði almennt stefnumarkandi fyrir aðra samningagerð á vinnumarkaði.
Fari svo á samningstímanum að ofangreindar forsendur bregðist geta aðilar að samningum skotið málinu til sérstakrar forsendunefndar sem sett verður á fót til að stuðla að framgangi markmiða samningsins og festa forsendur hans í sessi.
Nefndin skal taka samningsforsendur til sérstakrar skoðunar fyrir 15. nóvember árin 2005 og 2006. Komist nefndin að þeirri niðurstöðu að marktækt frávik hafi orðið frá annarri eða báðum ofangreindra forsendna getur annað tveggja gerst: Ef samkomulag næst í nefndinni um viðbrögð getur hún úrskurðað að samningurinn haldi gildi sínu, að teknu tilliti til niðurstöðu nefndarinnar. Ef ekki næst samkomulag um viðbrögð er samningurinn uppsegjanlegur af hálfu samningsaðila. Uppsögn skal ákveða fyrir 10. desember og telst samningurinn þá vera laus frá næstkomandi áramótum að telja.“
Samkvæmt mælingu Hagstofunnar hefur launavísitalan hækkað síðustu tólf mánuði um 6,7%. Á sama tíma hækkaði verðlag um 4,5%. Samkvæmt mælingunni hefur kaupmáttur launa því vaxið um 2,1%.
Þessar tölur gefa þó ekki fyllilega rétta mynd af launaþróuninni. Þegar haft er í huga að laun á almennum vinnumarkaði hækkuðu almennt um 3% um síðustu áramót mætti ætla að tölurnar gæfu til kynna mikið launaskrið en svo er ekki. Það sem skýrir þessar miklu hækkanir nú er að á undanförnum árum hafa almennar launahækkanir verið í janúar ár hvert. Í upphafi síðasta árs voru flestir samningar lausir og voru engar launahækkanir í janúar það ár. Samningagerðin dróst nokkuð og voru okkar samningar ekki undirritaðir fyrr en í apríl við SA og aðra á almennum markaði í maí. Upphafshækkun samninganna 2004 var 3,25% og er hún inni í mælingu Hagstofunnar nú, ásamt 3% hækkuninni sem varð nú um áramótin.
Það eru því 24 mánaða launabreytingar á almennum vinnumarkaði inni í 12 mánaða mælingunni núna. Ef við tökum 24 mánaða verðlagshækkun kemur í ljós að við búum nú við kjararýrnun upp á um 2,1%.
Mælingar Hagstofunnar sýna að nær ekkert launaskrið hefur átt sér stað síðastliðna 12 mánuði ef horft er til almennu launahækkananna í apríl 2004 og 1. janúar 2005.
Einnig ber að skoða hækkanir annarra hópa í þjóðfélaginu, hvað þeir hafa lagt af mörkum til viðhalds stöðugleika. Margt bendir til að einstakir hópar sem komið hafa í kjörfar ASÍ-SA samninganna hafi verið að fá heldur meiri hækkanir. Mér þykir einsýnt að forsendur séu til uppsagnar á hausti komanda.
Mælir vísitalan rétt?
Nú þegar er byrjaður söngur um að vísitalan mæli ekki rétt þar sem húsnæði hefur hækkað gífurlega að undanförnu og því beri að taka húsnæðisliðinn út úr mælingunni. Það er allsendis rétt að húsnæði hefur hækkað. Þegar samningsaðilar sammælast um mælingu til viðmiðunar á samningsforsendum ber okkur halda okkur við hana þar til við semjum um aðra viðmiðun. Núverandi mælieiningar eru meðaltal miðað við neyslukönnun Hagstofunnar og þannig er hún rétt í eðli sínu þrátt fyrir að hún mæli ef til vill ekki rétt fyrir þá sem nákvæmlega núna hafa ekki skipt um húsnæði. Hún mælir ekki heldur rétt fyrir þá sem eiga ekki bíl eða þá sem keyra meira en viðmiðunin í vísitölunni. Eða fara oftar eða sjaldnar í bíó en neyslukönnunin segir til um. Ég vara við að farið verði að fikta við mælitækin á miðjum samningstímanum til að komast hjá því að standa við endurskoðunarákvæði samninganna og þjóna þannig fyrst og fremst hagsmunum atvinnurekenda.
Hvorki leikaraskap né mannvonsku
Mér þykir einnig einsýnt að ef ekki næst saman um leiðréttingar á kauplið samninganna innan launanefndarinnar liggi ekkert annað fyrir okkur Samiðnarmönnum en að segja upp samningum. Það gerum við ekki af leikaraskap eða mannvonsku.
Við verðum að leiðrétta kjör okkar svo við fáum það sem samþykkt var sem forsenda síðustu kjarasamninga.
Einnig að bregðast við aðgerðarleysi stjórnvalda vegna hins gífurlega innflutnings vinnuafls inn á okkar starfssvið. Við verðum að knýja á um verulega hækkun launataxta okkar svo ekki sé hægt að vera með þessi gegndarlausu undirboð gegn okkar fólki og þeim fyrirtækjum sem eru með okkar fólk í vinnu. Hvorki stjórnvöld né SA hreyfa sig í að verja fyrirtækin í landinu gagnvart þessum atvinnurekendum sem eru að svína á erlendu launafólki.
Við forustumenn Samiðnar ætlum að fara um landið í haust þegar nær dregur skoðun launanefndarinnar til að ræða við okkar fólk. Þá verðið þið félagar að vera tilbúnir í umræðu um það með hvaða hætti við tökum slaginn því það má fastlega reikna með að breytingar á kauptöxtum sem einhverju nemur náist ekki átakalaust.
Finnbjörn A. Hermannsson, formaður Samiðnar