Ræður og ávörp

Ræða Finnbjörns A. Hermannssonar, formanns Samiðnar, á 4. þingi Samiðnar 07.05.2004

 

Fyrir þinginu liggja mörg og mikilvæg mál. Þó kjarasamningar séu ekki sérstakur málaflokkur hér er ekki ólíklegt að við eigum eftir að ræða þá út frá ýmsum hliðum. Við þurfum að ræða innviði verkalýðshreyfingarinnar og þau markmið sem við setjum okkur og hvernig við náum þeim.

Við þurfum líka að ræða hina breyttu heimsmynd sem að okkur snýr. Við höfum orðið óþyrmilega vör við að við lifum ekki lengur við einangrun þar sem við gátum verið viss að vakna til nýs dags sem liti út nákvæmlega eins og gærdagurinn. Við þurfum að takast á við ný og breytt vandamál uppá hvern dag. Kárahnjúkar eru eitt dæmi, hnignun velferðarkerfisins annað og breyttir stjórnarhættir í fyrirtækjum með tilkomu breytts eignarhalds það þriðja. Þetta eru bara smá dæmi þess sem við þurfum að ræða og hafa skoðun á hvernig við ætlum að bregðast við sagði Finnbjörn Hermannsson formaður Samiðnar við setningu 4. Samiðnarþing sem sett var í dag á Akureyri.

Finnbjörn lagði áherslu á að í nýgerðum kjarasamningum fælist öryggisnet fyrir félagsmenn Samiðnar, þar sem þeir tryggðu að ekki sé hægt að flytja inn erlenda starfsmenn á launum sem ekki eru almennt greidd hér. Nýju samningarnir eru líka öryggisnet fyrir þá fáu félaga sem liggja nærri kauptöxtum, sagði Finnbjörn og bætti að ákveðið skref hefði náðst í baráttu við að bætta lífeyrisréttindi félaga Samiðnar.

Finnbjörn lagði áherslu á að með gerð síðasta kjarasamnings hefði verkalýðshreyfingin lagt sitt að mörkum til að tryggja stöðugleika í þjóðfélaginu. Það mikilvægasta í afkomu launafólks í dag er stöðugleikinn. Þegar staðan er sú að launafólk skuldar tvöföld árslaun sín má það ljóst vera að launafólk mun leggja megin áherslu á að verðbólgunni verði haldið í skefjum, sagði Finnbjörn og hvatti til þess að verkalýðshreyfingin kæmi á verðbólguvakt eins og gert var árið 2001 þegar útlit var fyrir að verðbólgudraugur væri kominn á kreik.

Finnbirni var tíðrætt um þær miklu kröfur sem gerð eru til arðsemi fyrirtækja á Íslandi í dag.

„Arðsemiskröfur eru orðnar óraunhæfar þegar fjárfestar krefjast þess að fjárfestingar þeirra tvöfaldi sig á fimm árum. Þó er ljóst að launafólk er að keppa við fjárfesta um skiptingu arðsins sem fyrirtæki skila“, sagði Finnbjörn og lagði áherslu á að launafólk gerði sér grein fyrir nauðsyn þess að skapa fyrirtækjum svigrúm til að byggja sig upp og stækka og með því móti skapa ný störf fyrir fólkið í landinu.

Finnbjörn lýsti þar næst óánægju sinni með að ekkert hafi bólað á þeim skattalækkunum sem stjórnaflokkarnir höfðu boðað fyrir síðustu kosningar.

Það eina sem ég hef heyrt frá forsætisráðherra um skattalækkanir var þegar hann lýsti á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins fyrrir skemmstu að skattar fyrirtækja megi ekki fara yfir 15%,“ sagði Finnbjörn sem krafðist þess að ríkisstjórnin stæði við stóru orðin og lækkaði skatta á launafólk.

Finnbörn ræddi því næst um þær breytingar sem orðið hafa á vinnumarkaðnum hér á landi með tilkomu erlends vinnuafls sem hefur fjölgað verulega á undanförnum árum.

„Íslenskir stjórnmálamenn hafa því miður látið undir höfuð leggjast að tryggja að lögum og reglum sem gilt hafa hér um áratugaskeið og ætlað er að tryggja réttarstöðu launafólks og virðingu fyrir starfsréttindum, sé óhikað og af festu framfylgt gagnvart þeim erlendu fyrirtækjum sem hingað koma og starfsfólki þess. Opinberar stofnanir eru vanbúnar fjárhagslega, þær skortir viðhlýtandi lagaúrræði og síðast en ekki síst þá skortir þær skýra pólitíska leiðsögn um það hvernig þeim ber að takast á við þau nýju og að mörgu leyti erfiðu verkefni sem eru samfara aukinni opnun íslensks vinnumarkaðar“, sagði Finnbjörn

Hann lagði áherslu á að verkalýðshreyfingin yrði að vera í farabroddi við mótun atvinnustefnustefnu til framtíðar hér á landi. Jafnframt lagði hann áherslu á í ræðu sinni að mótuð yrði heildstæð menntastefna til framtíðar

„Ég tel það augljóst mál að við verðum að fara að hugsa menntun í iðnaði uppá nýtt. Fólki fer fækkandi sem sækir nám í hefðbundnum iðnaðarstörfum. Markaðurinn fyllir uppí þá endurnýjunþörf sem við getum ekki fyllt í með starfsmönnum án fagréttinda. Í iðnaði starfar mikill fjöldi mjög hæfra manna sem eiga heimtingu á námi við sitt hæfi.

Við eigum að líta á þessa nýju áskorun um skemmra nám í iðnaði sem tækifæri fyrir okkur að víkka þá trekt að ná inn hæfu fólki sem vill mennta sig til iðnaðarstarfa. Sjálfsmynd fólks breytist, það ílengist í greinunum og það á heimtingu á betri launa, sagði Finnbjörn.

Að lokum sagði Finnbjörn. „Við stöndum á krossgötum. Við erum alltaf að koma af og til að krossgötum það er að segja ef við færumst áfram. Ef við vitum hvert við viljum fara veljum við göturnar sjálf. Gerum við það ekki er allt eins gott að standa við einhver gatnamótin og láta umferðna líða hjá. Þá er líka mikið að gerast, en bara hjá öðrum. Síðan kemur að því að við erum fyrir umferðinni við gatnamótin og þá erum við bara í fjarlægð. Það er ekki okkar stíll og því tökum við málin í okkar hendur og ráðum för.“

________________________________________


Ræða Grétars Þorsteinssonar, forseta ASÍ, 

á 4. þingi Samiðnar 07.05.2004

 

Ágætu félagar

Ég vil byrja á að óska ykkur til hamingju með þetta fjórða þing Samiðnar og óska því velfarnaðar í störfum sínum. Það er alltaf notalegt að fá að fylgjast með á sínum gamla heimavelli.

Á dagskrá eru mikilvæg mál sem brenna á okkur og verkalýðshreyfingunni í heild. Ég vil þar nefna sérstaklega umræðuna um alþjóðavæðingu og áhrif hennar á þróun íslenska vinnumarkaðarins. Viðfangsefnið er þarft og nauðsynlegt fyrir okkur að ræða það á okkar vettvangi. Þess vegna fagna ég þessu frumkvæði.

Annað – sem tengist þessu sannarlega – er spurningin um starfsmenntamál. Það hefur ítrekað komið upp í samskiptum við útlend verktakafyrirtæki sem eru hér í stórum verkefnum og hafa viljað gera aðrar kröfur til réttinda og menntunar en hér hafa tíðkast. Þetta er ekki annað en félagsleg undirboð og ein af óæskilegustu birtingarmyndum alþjóðavæðingarinnar.

Ég er þeirrar skoðunar að í starfsmenntun liggi stærstu sóknarfæri okkar til bættra kjara í framtíðinni. Við þurfum til dæmis að skilgreina betur hvaða form við viljum sjá í menntunarmálunum hjá þeim hópum sem ekki eru með hefðbundin sveinspróf. Það þarf að vera valkostur að taka iðnmenntun í áföngum – eins og þegar eru dæmi um. Þetta er eitt af því sem þarf að skoða og er þekkt í umræðunni hér.

Þetta er mál sem við þurfum að einbeita okkur að því að ná utan um – ekki aðeins að því er snertir menntunina sjálfa og innihald námsins, heldur og ekki síður félagslega.

Þó svo að við gerum allt sem hægt er til að auka og bæta menntun, þá þurfum við að komast hjá því lenda í þeirri gryfju að félagarnir, einstaklingarnir, verði bitbein félaga. Við þurfum að ná betur utan um mörkin og hvaða viðmið ráða því hvenær einstaklingar tilheyra okkar félögum og hvenær öðrum.

Það er mikilvægt að þetta sé gert í sem mestri sátt og samvinnu félaga.

Eitt af viðfangsefnunum á þessu þingi er að fjalla um starfshætti. Þar hafa orðið nokkur tíðindi frá síðasta þingi, því nýtt félag og sameining félaga telst alltaf til tíðinda.

Á undanförnum árum hafa mörg verkalýðsfélög sameinast. Sameiningar hafa bæði verið landfræðilegar og sameiningar sem eru byggðar á öðrum forsendum. Á þessum vettvangi var rætt talsvert um sameiningu félaga og farið í viðræður sem skiluðu tillögum sem fóru síðan í allsherjaratkvæðagreiðslu í viðkomandi félögum. Tillögurnar voru samþykktar í félögunum, að einu undanskildu.

Afraksturinn varð síðan nýtt félag, Félag iðn- og tæknigreina og ástæða til að óska því velfarnaðar í starfi í framtíðinni. Ég er þeirrar skoðunar, að almennt séu stærri einingar burðugri og líklegri til afreka en smáar einingar.

Það er þó ekki formið sem skiptir öllu máli – heldur innihaldið. Þess vegna er það starfið inni í félögunum og samskiptin á milli þeirra sem skipta mestu máli. Viðfangsefnið er alltaf það sama – að menn nái að stilla saman strengina til að vinna hagsmunum félaganna gagn.

Eins og flestum er í fersku minni vorum við að ljúka ítarlegri tillögugerð í velferðarmálum fyrir rúmu ári síðan. Fyrir alþingiskosningar kynntum við þessar tillögur og allir stjórnmálaflokkar kváðust meira og minna sammála tillögunum.

Þess vegna vorum við hóflega bjartsýn um að mörg góð verkefni úr tillögusafni okkar yrðu að veruleika eftir kosningarnar.

Í stjórnarsáttmálanum mátti síðan finna áform og fyrirheit um sitthvað á þeim nótum sem við höfðum lagt til. Það voru því mikil vonbrigði, þegar fjárlög litu dagsins ljós, því í þeim var að finna ýmislegt sem stefndi í þveröfuga átt. Nefna má niðurskurð í heilbrigðiskerfinu í því sambandi, niðurskurð sem ekki sér fyrir endann á.

Það voru jafnframt vonbrigði þegar útspil ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga leit dagsins ljós. Þó svo nokkur áfangi hafi náðst í afmörkuðum málum, svo sem atvinnuleysis-bæturnar og fyrirheit um heildarendurskoðun á atvinnuleysistryggingakerfinu, þá var útspilið rýrt. Meira um það síðar.

Það var aldrei ætlunin að láta staðar numið við velferðartillögurnar sem við kynntum fyrir rúmu ári. Við litum alltaf á það sem hluta af stærra máli. Síðasti ársfundur Alþýðusambandsins markaði síðan þá stefnu með formlegum hætti, að skoða ætti efnahagsmál, atvinnumál og félagsmál í samhengi, líkt og gert er annars staðar í Evrópu.

Velferðartillögurnar voru innlegg í þetta. Kjarasamningarnir – sem ég held að allir geti verið sammála um að ógna ekki efnhagslegum stöðugleika – leggja hinn efnahagslega grunn. Það er þó alveg ljóst, að ef markmið þeirra eiga að nást – og ef þeir eiga að geta gengið eftir – þá verða hin atriðin að fylgja með.

Þess vegna setti ársfundurinn okkur það fyrir að hefja heildarskoðun á atvinnumálunum og móta nýjar tillögur í þeim efnum. Á því verkefni eru margir fletir og mörg viðfangsefni sem tengjast.

Í fyrsta lagi þurfum við að átta okkur á því að þó ef til vill sé bjartara framundan í atvinnumálum á allra næstu árum en undanfarin misseri, þá er jafnöruggt að það sem liggur fyrir eru tímabundin verkefni. Ég er þá að tala um stórverkefnin í virkjunarmálum og byggingu stóriðju fyrir austan. Ég get þó ekki látið hjá líða að nefna þá staðreynd, að þær spár sem menn voru með á sínum tíma um þróun atvinnuleysis vegna þessara verkefna hafa ekki gengið eftir nema að hluta. Í dag eru enn um 5000 einstaklingar atvinnulausir.

Eftir að stóru verkefnunum sem ég minntist á lýkur, er nokkuð ljóst að við blasir samdráttur í atvinnumálum, verði ekkert að gert. Nú er rétti tíminn til að velta þessum hlutum fyrir sér. Með því móti einu er von til að okkur takist að verða undir það búin þegar þar að kemur.

Í öðru lagi þurfum við að leggja mikla áherslu á að við heildarendurskoðun atvinnuleysistryggingakerfisins verði kannaðir möguleikar á að tengja bætur við fyrri tekjur. Það vita allir, að framtíðarmöguleikar og vonir verða að engu á fáum mánuðum hjá þeim sem missa vinnuna, því það stendur enginn undir skuldbindingum, til dæmis í húsnæðismálum, með atvinnleysisbótunum einum.

Í þriðja lagi verðum við að fara í gegnum mikla umræðu og vinnu í tengslum við málefni útlendinga. Það er staðreynd sem ekki verður móti mælt, að um þrjú og hálft prósent af þeim sem búa á Íslandi í dag eru útlendingar. Það er jafnframt staðreynd, að langstærstur hluti þeirra kemur til að vinna. Við höfum sofið á verðinum í þessu sambandi á undanförnum árum. Þá er ég ekki einungis að tala um okkur í verkalýðshreyfingunni, heldur fyrst og fremst ríkið og stofnanir þess.

Þó svo fjölgunin hafi verið umtalsverð síðastliðinn áratug, var það samt ekki fyrr en þegar framkvæmdir hófust við Kárahnjúka sem ljóst varð að hér væri alvarlegt vandamál á ferð.

Nú bið ég ykkur félagar góðir að taka ekki orð mín þannig að ég sé mótfallinn því að útlendingar setjist að á Íslandi. Ég hlýt að fagna því að fólk telji eftirsóknarvert að setjast hér að og starfa með okkur.

Vandamálið erum við – við Íslendingar og okkar kerfi. Við höfum engan veginn verið í stakk búin til að taka á móti þeim fjölda útlendinga sem hingað hefur komið.

Opinbera eftirlitskerfið hefur brugðist, með þeim afleiðingum að útlend fyrirtæki hafa gengið á lagið og brotið á þessu fólki margvísleg réttindi sem íslensk verkalýðshreyfing hefur náð fram með áralangri baráttu.

Við vitum það vel, að verði það látið viðgangast að afsláttur sé gefinn af þessum réttindum, þá er þess skammt að bíða að ráðist verði að okkar réttindum og kjörum líka.

Það er því óhætt að slá því föstu að málefni útlendinga verða ágengi í starfi okkar á næstu misserum. Við þurfum að tryggja að opinberar eftirlitsstofnanir virki og geri það sem þeim ber og tryggja þannig að réttur útlendra félaga okkar sé ekki fótum troðinn.

Við þurfum jafnframt að þrýsta á um að aðrar stofnanir samfélagsins, skólarnir og stoðkerfið taki þannig á móti þessu fólki að það geti aðlagast samfélaginu og um leið miðlað okkur af sinni reynslu og menningu.

Það er til marks um hvað við stöndum okkur illa í þessu efni, að það er ætlast til þess að útlendingar sem hingað koma taki 150 klukkustunda nám í íslensku. Gott og vel.

Vandinn er hins vegar sá, að það er ekki boðið upp á 150 klukkustunda nám í íslensku sem hentar þessum hópi, að minnsta kosti ekki á vegum opinberra aðila sem hljóta að eiga að sinna þessu. Það viðamesta sem er gert í þessu sambandi, er á vegum nokkurra verkalýðsfélaga, sem hafa þar með axlað ábyrgð sem aðrir ættu að bera.

Við skulum gera það sem í okkar valdi stendur til að bæta úr þessu ástandi, þannig að við getum haldið því fram með réttu að við Íslendingar tökum vel á móti útlendingum.

Félagar,

Við þurfum ekki að kvíða verkefnaskorti – hvorki á þessu þingi né í starfi okkar á næstu misserum. Kjarasamningar eru að baki hjá flestum og það er hollt að fara yfir það heiðarlega og opinskátt hvernig þeir gengu fyrir sig, hvað gekk vel og hvað fór ef til vill öðru vísi en við hefðum kosið.

Reynslan af síðustu kjarasamningur segir mér að ástandið í hreyfingu okkar að það sem mestu máli skiptir. Ég sagði áðan að útspil ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamningana hafi verið rýrt. Ég fer ekkert í grafgötur með það að við hefðum átt að ná meiri árangri. Mér finnst skipta miklu máli að við förum opinskátt yfir ástæðurnar og veltum því fyrir okkur hvað við hefðum getað gert öðru vísi.

Við höfum nú allgott svigrúm næstu misserin til að leggja mat á þetta og reyna að ná utan um viðfangsefnið. Ég get ekki neitað því að ég er þeirrar skoðunar að reynslan af aðdragandanum að útspili ríkisstjórnarinnar og hvernig á því var haldið á okkar vettvangi sýni að við eigum allmargt ólært.

Félagar,

Þing eins og það sem við erum nú að hefja eru afar mikilvæg fyrir alla málefnavinnu og ekki síður fyrir samstöðuna. Áður en ég lýk máli mínu, vil ég ítreka þær óskir mínar til ykkar og þessa þings, að það megi gagnast hagsmunum okkar vel

– en einnig félagar –

hagsmunum og samstöðu félagsmanna verkalýðshreyfingarinnar í heild.

________________________________________

 

Erindi Gissurar Péturssonar, forstjóra Vinnumálastofnunar á 4. þingi Samiðnar

10.05.2004

 

Þingforseti, ágætu þingfulltrúar.

 

I. Skilgreining alþjóðavæðingu og íslenskur vinnumarkaður

Með „alþjóðavæðingunni“ ætla ég að verið sé að vísa til mikillar og vaxandi aukningar í alþjóðaviðskiptum og aukins hreyfanleika fjármagns og mikils vaxtar alþjóðlegra fjárfestinga, einkum í A-Evrópu og þróunarríkjunum. Það er verið að vísa til aukins hreyfanleika fólks og vinnuafls milli landa og heimsálfa og forsendur þessarar þróunar eru aukið frjálsræði í viðskiptum á alþjóðavísu. Það hefur í seinni tíð verið lögð áhersla á lækkun tolla og afnáms tæknilegra viðskiptahindrana milli landa og mikil hvatning til alþjóðlegrar fjárfestingar og afnám reglna og hindrana á fjármálamarkaði. Tækniþróunin, auknar samgöngur og fjarskipti og lækkun kostnaðar hafa auðveldað alþjóðavæðinguna og gert hana mögulega á fleiri sviðum verslunar með vöru og þjónustu. Um þetta virðist vera almenn samstaða meðal ríkja heims og það er verkefni margra alþjóðastofnana og hagsmunasamtaka að vinna að þessu markmiði.

En þó svo að um þetta markmið sé samstaða þá er ekki víst að svo sé um þær leiðir sem unnt er að fara.

Nefna mætti þrjá leiðir sem uppi eru um þessar mundir:

Í fyrsta lagi leið frjálshyggjunnar þ.e. að markaðurinn fái að ráða og að litið er á allar hindranir á markaðsfrelsi sem óæskilega þröskulda sem beri að fjarlægja eins og kostur er.

Í öðru lagi leið hinnar samfélagslegu ábyrgðar þ.e. að alþjóðavæðingin eigi að byggja á siðferðilegum og pólitískum grunni um sanngirni, lýðræði, mannréttindi og aukinn jöfnuð og viðhalda megi ákveðnum takmörkunum til að svo geti orðið.

Þriðja leiðin er svo eins og einhvern hefur e.t.v. rennt í grun einhver millileið af þessu tvennu þ.e. blanda af viðskiptafrelsi og verndarstefna. Frelsi með reglum.

Það hefur sýnt sig að alþjóðavæðingin hefur ólíkar birtingarmyndir og það er ekkert nema eðlilegt við það að menn staldri við og hugleiði hvert hún er að leiða okkur. Áhrif hennar hafa kallað fram ótta eða áhyggjur í ólíkum hornum heimsbyggðarinnar enda lítur hver sínum augum á silfrið eins og þar stendur. Í iðnríkjunum hafa menn áhyggjur af því að samkeppni frá þróunarríkjum muni leiða til atvinnuleysis og kjaraskerðingar lágtekjuhópa. Í þróunarríkjunum óttast menn að viðskiptafrelsið leiði til fækkunar starfa og aukins ójöfnuðar innan þeirra.

Það fer auðvitað ekkert framhjá okkur sem að vinnumarkaðsmálum starfa að þar hefur búið um sig ótti við að alþjóðavæðingin muni leiða til almennrar skerðingar á kjörum og starfsskilyrðum á vinnumarkaði og samdráttar í velferðarkerfinu vegna þess að ríki fari að keppa á grundvelli lækkunar launakostnaðar og skatta á fyrirtæki og eignamenn. Í bland við þetta kemur svo óttinn við að pólitískt vald flytjist frá lýðkjörnum stjórnmálamönnum til stórfyrirtækja og er nú ekki frá því að maður hafi heyrst minnst á slík sjónarmið í hinni pólitísku umræðu síðust dagar hérlendis.

II. Þróunin hérlendis

 

Undanfarin ár hefur erlendum ríkisborgurum á Íslandi fjölgað verulega. Fjölgunin var einkum áberandi frá 1996 til 2001 enda eru sveiflur í fjölda þeirra sem koma til Íslands með erlent ríkisfang í meginatriðum tengdar sveiflum í umsvifum í efnahagslífinu. Frá 1996 til 2003 hefur fjöldi þeirra sem hafa erlent ríkisfang tvöfaldast, þannig voru þeir 5.148 árið 1996 en 10.324 árið 2003. Fram til 1996 hafði fólki með erlent ríkisfang fjölgað mun hægar og raunar sveiflast nokkuð til milli ára í takt við þróun efnahagsmála. Þannig voru 3.318 með erlent ríkisfang á Íslandi árið 1981, þannig að á þessu 15 ára tímabili frá 1981 – 1996, fjölgaði erlendum ríkisborgurum um nálægt 1.800 manns í heildina, eða ríflega 100 manns á ári að jafnaði.

Skýringu á auknum fjölda er að leita m.a. í aukinni þörf íslensks efnahagslífs fyrir vinnuafl á síðari hluta 10. áratugarins í kjölfar mjög aukinna umsvifa í efnahagslífinu.

Hvaðan koma erlendir ríkisborgarar og hvar setjast þeir að?

Fram á miðjan síðasta áratug komu flestir erlendir ríkisborgarar frá vestanverðri Evrópu, einkum Norðurlöndunum og svo þeim ríkjum sem mynduðu Evrópusambandið fyrir síðustu helgi. Þannig voru 42% allra erlendra ríkisborgara frá Norðurlöndunum árið 1981 og var hlutfallið 31% 10 árum síðar. Árið 1981 voru 24% erlendra ríkisborgara frá þeim löndum sem nú mynda Evrópusambandið, að Norðurlöndunum frátöldum, og var hlutfallið svipað 1991, en síðan þá hefur fjölgað mjög erlendum ríkisborgurum annars staðar frá, einkum frá þeim Evrópulöndum sem bættust við Evrópusambandið nýverið og eru Pólverjar þar fjölmennastir.

Árið 2002 voru erlendir ríkisborgarar hér á landi með norrænt ríkisfang aðeins um 16% erlendra ríkisborgara og 18% frá öðrum ríkjum Evrópusambandsins. Megin fjölgun erlendra ríkisborgara er að finna meðal fólks frá fyrrum Austur Evrópu og svo frá Asíu. Þannig voru erlendir ríkisborgarar frá Asíu 1.756 í lok árs 2002, eða um 17% allra erlendra ríkisborgara, samanborið við 119 árið 1981, eða innan við 4%.

Tæplega 60% erlendra ríkisborgara voru búsettir á höfuðborgarsvæðinu í árslok 1999, samanborið við um 66% þjóðarinnar. Að öðru leyti er dreifing um landið í samræmi við íbúafjölda að Vestfjörðum undanskildum, en þar voru um 8% erlendra ríkisborgara búsettir árið 1999 en aðeins um 4% þjóðarinnar.

Atvinnuþátttaka og atvinnuleysi erlendra ríkisborgara

Þar sem atvinnuleyfi er í flestum tilfellum forsenda þess að útlendingar utan hins evrópska efnahagssvæðis flytjist hingað til lands má reikna með að stærstur hluti þess hóps erlendra ríkisborgara sé á vinnumarkaði. Þeir sem eru á tímabundnum leyfum eiga eðli máls samkvæmt ekki rétt á atvinnuleysisbótum heldur ber þeim að flytjast til síns heimalands missi þeir vinnuna. Um þá sem verið hafa hér á landi í 3 ár eða lengur og hafa fengið óbundið atvinnuleyfi gilda þó sömu reglur og um íbúa evrópska efnahagssvæðisins. Aðrir eru hér á ýmsum forsendum, en gera má ráð fyrir að atvinnuþátttaka þeirra sé að minnsta kosti jafnmikil og meðal íslenskra ríkisborgara þó engar mælingar séu fyrirliggjandi þar um.

Þann 1. des. 2003 voru alls 8.738 íbúar á aldrinum 16-74 ára með erlent ríkisfang búsettir á Íslandi. Atvinnuþátttaka fólks á þessum aldri er um 83% og ef gengið er út frá þeirri tölu voru um 7.250 erlendir ríkisborgarar á vinnumarkaði á síðustu mánuðum ársins 2003.

Í lok nóvember 2003 voru 220 erlendir ríkisborgarar á atvinnuleysisskrá, sem miðað við ofangreindar forsendur þýðir um 3% atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara, eða sama hlutfall og meðal landsmanna allra.

Ári fyrr, eða í lok árs 2002, var atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara einnig svipað og landsmanna allra, eða 2,7% á móti 2,8% landsmanna. Heildarfjöldi erlendra ríkisborgara var þá svipaður og í lok árs 2003 og voru þá 197 erlendir ríkisborgarar á atvinnuleysisskrá.

Atvinnuleysi erlendra ríkisborgara er einkum að finna á höfuðborgarsvæðinu en ég tel að þróun þess sé ekkert til þess að hafa sértakar áhyggjur af umfram þróun atvinnuleysis almennt.

Ekki eru til upplýsingar um í hvaða atvinnugreinar eða í hvers konar störf útlendingar sækja sem koma af evrópska efnahagssvæðinu. Hins vegar er skráð til hvers konar starfa atvinnuleyfi eru veitt, en ekki þó greint eftir atvinnugreinum. Undanfarin ár hafa flest útgefin atvinnuleyfi verið vegna starfa í fiskvinnslu, þó hlutfallið hafi minnkaði síðustu ár. Á síðasta ári voru þannig aðeins 12% nýrra atvinnuleyfa veitt vegna fiskvinnslustarfa. Þetta er þó hátt hlutfall ef miðað er við að aðeins rúm 3% landsmanna starfa við fiskvinnslu. Um 20% atvinnuleyfa voru vegna starfa í iðnaði af ýmsu tagi, en 10% landsmanna starfa við iðnað.

Útgefin atvinnuleyfi vegna starfa við umönnun og heimilishjálp, ræstingar og uppvask, og matreiðslu eða framreiðslu hefur fækkað mikið samfara versnandi efnahagsástandi. Umhugsunarefni er líka hversu mikið af erlendu vinnuafli hefur verið flutt inn til að manna störf í þessum greinum á sl. árum.

Atvinnuleyfi vegna starfa í byggingariðnaði, sem voru mjög áberandi á árunum 2000 og 2001, fækkaði mjög 2002. Nokkur aukning var aftur 2003 en einkum er þar um að ræða sérhæft starfsfólk við Kárahnjúkavirkjun.

III.

 

Erlent fyrirkomulag – atvinnuleyfi á einn stað – nálægð í tíma. Ekki bundið við vinnustaðinn

Nokkuð um það rætt einfalda kerfið sem hér er við líði – Útlendingastofnun/ Vinnumálstofnun.

Tekið undir það – vinnumarkaðstenging? – umsögn stéttarfélaganna mun falla niður.

IV.

Talsvert hefur verið rætt um það að okkar infrastúktúr og opinbera eftirlitskerfi hafi ekki verið tilbúið undir hinar miklu framkvæmdir sem nú eiga sér stað á Austurlandi og þessa gagnrýni megum við hjá hinu opinbera kerfi alveg taka til okkar. Við höfðum ekki uppi neinn sérstakan viðbúnað og erum ansi mikið að bregðast við eftir á. Ég hef hins vegar áður nefnt það í spjalli við félaga mína hér í þessum samtökum að það sé nauðsynlegt að hafa það í huga að á opinberar stofnanir eins og þá sem ég stjórna eru lagðar þrjár meginskyldur í rekstri: Í fyrsta lagi má ekki vera neitt fitulag utan á þeim þær eiga ekki að liggja á ónýttum fjármunum, í öðru lagi eiga þær að vinna faglega og fara eftir stífustu reglum stjórnsýslulaga; og í þriðja lagi eiga þær að vera vel búnar undir óvænt ástand. Það hljóta allir að sjá að þessar kröfur ganga hver í sína átt en við þetta þurfum við að búa við.

Maður getur nú gert mistök sagði abbadísin í Kirkjubæjarklaustri þegar hún hafði óvart skellt nærbrókinni af ábótanum í Þykkvabæ á höfuð sér til að skýla sér fyrir sandrokinu austan af Síðu – og ég held að það væri fulldigurbarkalegt að viðurkenna það ekki að allskonar mistök hafi átt sér stað við eftirlit og framkvæmd og alla umsýslu þeirra laga sem snerta virkjunarframkvæmdirnar eystra.

Raunar hefur margt komið okkur öllum í opna skjöldu bæði opinberum aðilum sem hagsmunasamtökum á vinnumarkaði – sem hefur valdið miklum vonbrigðum en óneitanlega lærdómsríkt.

Síðustu mánuði hefur mikil vinna í félagsmálaráðuneytinu og Vinnumálastofnun verið lögð í að skrifa reglugerð með lögunum um atvinnurétti útlendinga og hún liggur nú fyrir í drögum. Að því er ég best veit var hún send út í gær til umsagnar ýmissa hagsmunaaðila. Þar segir í c. lið 9.gr. sem fjallar um tímabundið atvinnuleyfi að umsókn skuli fylgja staðfesting hlutaðeigandi stjórnvalds hér á landi á starfsréttindum útlendings sem fyrirhugað er að ráð til landsins í starf sem krefst formlegra starfsréttinda. Jafnframt segir: Í undantekningartilvikum þar sem ekki verður sýnt fram á með formlegri staðfestingu að útlendingur búi yfir þeirri kunnáttu sem starfsréttindin byggja á er heimilt að víkja frá kröfunni um að staðfesting hlutaðeigandi stjórnvald á starfsréttindum liggi fyrir. Í slíku tilviki er heimilt að gefa útlendingi kost á að sanna hæfni sína með þeim hætti sem hlutaðeigandi innlent stjórnvald telur fullnægjandi eftir að hann er kominn til landsins með skilyrðum sem sett eru af Vinnumálastofnun.

Þetta eru nokkuð skýrar og fortakslausar reglur og ættu ekki að vefjast fyrir neinum. Mér segir þó svo hugur að svo kunni að fara og að áfram komi fram aðstæður sem kalli á matskenndar ákvarðanir og þá ríður á að menn hafi samstarfs og samningsvilja. Ég bind miklar vonir við samkomulag ASÍ og samtaka atvinnulífsins um útlendinga á íslenskum vinnumarkaði frá 7. mars sl. vegna þess að við eigum áfram að halda okkur við þá íslensku hefð að útkljá ágreiningsmál á vinnumarkaði með samningum ekki lögþvingunum.

Ábyrgð á framkvæmd iðnaðarlaganna er á hendi iðnaðaráðuneytisins og þau lög bjóða upp á samningslausnir eins og þið þekkið, milli stéttarfélags og vinnuveitanda við aðstæður þar ágreiningur getur verið um hvort viðkomandi vinna eða verkefni falli undir löggildar iðngreinar. Ég vil ekki fara sérstaklega út í það vegna þess að þetta er ekki á okkar höndum. Ég get aðeins sagt að við munum vera á stífari gormum en við höfum verið til þessa í ljósi þeirra skýru verklagsreglna sem í hinni nýju reglugerð okkar er að finna.

V.

Framtíðin er björt í íslensku efnahagslífi ef marka má nýjustu þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins og ekki sér fyrir endann á nýju hagsvaxtarskeiði sem hófst í fyrra am.k. næstu 5-6 árin. Guð láti gott á vita. Það sem er þó staðreynd er að gífurlegur innflutningur á erlendu vinnuafli er framundan vegna þeirra miklu framkvæmda sem standa yfir og eru fyrirhugaðar. Allt utanumhald með því þarf að vera miklu traustara ef vel á að fara. Við verðum að hugsa fram í tímann ekki bara bregðast við áreiti eins og því miður hefur verið staðreynd síðustu mánaða.

Vinnumálastofnun er nú að fara í mikla upplýsingaöflun og vinnumarkaðsrannsókn sem felst í því að greina framkvæmdaáform, mannaflaþörf greint niður á tíma, svæði, starfsgreinar og fleira. . Við verðum að geta séð þetta fyrir bæði til að bregðast við í vinnumiðlun og vinnumarkaðsúrræðum og einnig til að geta afgreitt þau þær atvinnuleyfisumsóknir sem munu berast vegna stóriðjuframkvæmdanna bæði austanlanda og líklega í einhverjum mæli vestanlands, í einhvers konar pökkum eða kvótum. Til að geta gert þetta þurfum við að búa yfir áreiðanlegri upplýsingum um þróun vinnumarkaðarins en við höfum í dag.

Að svo mæltu lík ég hér máli mínu en óska áframhaldandi góðs samstarfs við Samiðn og félög þess. Ég dreg ekkert undan í því að það er mikilvægt að við stöndum saman um það velferðakerfi sem við höfum skapað hér á landi og eigum ekkert að gefa eftir í vinnuöryggi og öðrum þeim þáttum sem tryggja vellíðan á vinnustað. Verkalýðshreyfingin má ekki fá það á tilfinninguna að stjórnvöld eða opinberar stofnanir hafi gengið alþjóðavæðingunni á vald í neikvæðum skilningi. Það sem hér gildir eins og svo oft áður er að reyna að leiða sig áfram á hinum vandrataða meðalveg.

 

________________________________________

 

Erindi Sam Hägglund, framkvæmdastjóra Norræna byggingamannasambandsins (NBTF),

 á 4. þingi Samiðnar 10.05.2004

 

Hið norræna fyrirkomulag og starfsmenntun

Ég vil byrja á að þakka fyrir að hafa verið boðið að ávarpa þingið. Þetta er í þriðja sinn sem ég heimsæki Ísland og í fyrsta sinn sem ég kem til Akureyrar. Allt frá því að ég var 10 ára og las sögu Jules Verne um ferðina til miðju jarðar hefur mig langað að fara á Snæfellsjökul, en þangað hef ég enn ekki komist, þó að ég sé búinn að koma þrisvar til Íslands.

Sú staðhæfing að aðstæðum Norðurlanda svipi svo mikið til hvors annars innbyrðis að hægt sé að tala um sérstakt „norrænt fyrirkomulag“ á sér langa sögu. Á 15. öld kom kortagerðarmaður frá Feneyjum til Norðurlanda og ferðaðist um þau – hann var reyndar einnig á Íslandi – og benti á þegar hann snéri aftur til Feneyja að „Norðurlandabúar yrðu að vera mjög iðjusamir til að lifa af í því kalda loftslagi sem þeir byggju við“. Það er augljóst að loftslagið ræður miklu, þó svo að ég hafi lært það eftir að ég byrjaði að starfa hjá NBTF að það er oftast hlýrra á Íslandi en í Svíþjóð, að minnsta kosti níu mánuði ársins.

Fyrir fimmtán árum skrifaði ég rannsóknarskýrslu um stöðu byggingaiðngreina á Norðurlöndum og í Evrópu. Ein af lokaniðurstöðum þessarar könnunar var að Norðurlönd eru á margan hátt mjög frábrugðin öðrum hlutum Evrópu. Í fyrsta lagi vegna þess að byggingaiðngreinar á Norðurlöndum hafa hærri stöðu en aðrar iðngreinar. Annars staðar í Evrópu er þessu þver öfugt farið. Í öðru lagi eru laun byggingamanna að meðal tali hærri en annarra iðnaðarmanna. Ég veit að þessu var þannig farið á Íslandi fyrir þremur árum. Í þriðja lagi að slysatíðni í byggingaiðnaði var 2 – 3 sinnum lægri en annars staðar í Evrópu.

Ástæðan er að hluta til vegna þess að staða samtaka iðnaðarmanna er sterkari á Norðurlöndum og að hluta til vegna þess að hlutur fast ráðins vinnuafls er meiri á Norðurlöndum, þ.e.a.s. erlent vinnuafl, tímabundnar ráðningar og einstaklingsfyrirtæki/gerviverktaka tíðkast í mun minna mæli hjá okkur. Það er þetta síðast nefnda sem við erum að vísa til þegar við staðhæfum að norrænt vinnuafl, séð í evrópsku samhengi, er vel menntað og fært. Ekki að starfsmenntunin sjálf í byggingaiðnaði sé svo frábrugðin þessari menntun í Evrópu, en að hlutfall fagmenntunar úti á vinnustöðunum sé mun meira hjá okkur en í mið og suður Evrópu. Sú staðreynd að erlendir verkamenn hafa verið fáir og að svo nefndir einstaklingsverktakar (gerviverktakar) einnig, hefur orðið til að forða okkur frá verstu agnúunum í tengslum við misnotkun á vinnuafli. Fyrir bara tíu árum var 60 af hundraði allra sem störfuðu á breskum byggingavinnumarkaði einstaklingsverktakar/gerviverktakar, en um leið unnu þessir menn aðeins fyrir einn verkkaupa og voru því í raun í vinnu hjá honum. Síðan hefur ástandið heldur batnað á Bretlandi vegna nýrrar lagasetningar.

En þó svo að aðstæður á Norðurlöndum séu mjög svipuð er einnig um mikinn mun að ræða milli landanna. Í Svíþjóð, Noregi og Finnlandi er iðnmenntun í starfsgreinum byggingaiðnaðar hluti af sama menntunarkerfi og önnur almenn menntun. Menntunin fer aðallega fram í skólum og samræming á landsvísu er tryggð með því að menntamálayfirvöld gefa út námsskrár og ákveða inntak námsins og sér um menntun kennaranna. Í Danmörku og á Íslandi er lögð ríkari áhersla á lærlinga í fyrirtækjunum. Eins og mér hefur skilist þá hafðið þið breytt fyrirkomulaginu hér hjá ykkur fyrir þremur árum og þar með aukið hlut lærlingsmenntunar úti í fyrirtækjunum.

Áhugi ESB á iðnmenntun tengist fyrst og fremst flæði vinnuaflsins milli landa. Hugmyndin er að mismunandi módel í viðkomandi löndum á sviði iðnmenntunar komi ekki í veg fyrir frjálst flæði vinnuaflsins. Fyrir 20 árum var meiningin að samræma iðnmenntunina innan ESB, að gera hana alls staðar eins. En þetta reyndist allt of erfitt mál, það er aðeins á sviði einstakra starfsgreina á háskólastigi sem menn eru að reyna þessa samræmingu ennþá. Þess í stað hafa menn einbeitt sér að því að kortleggja menntunina og bera hana saman. Til þess að sinna þessu verkefni var sérstök stofnun sett á laggirnar sem ber skammstöfunina CEDEFOP. Samanburðurinn átti að þjóna ákveðnum tilgangi, nefnilega að kanna hvort menntunin væri sambærileg og hvort unnt væri að viðurkenna námið milli landanna á þeim grundvelli.

Við erum komin nokkuð áleiðis í þessum efnum á Norðurlöndum varðandi samanburðin á iðnnáminu milli landanna. Á vettvangi raftækninnar er nú þegar um að ræða heilstætt fyrirkomulag um öll Norðurlönd og á nokkrum öðrum sviðum iðngreina í byggingaiðnaði er um að ræða gagnkvæma samninga milli tveggja eða fleiri landa á Norðurlöndum. Innan NBTF hefur okkur verið falið að reyna að fjölga svona milliríkjasamningum svo að þeir nái til sem flestra iðngreina í byggingaiðnaði og ná til allra Norðurlanda. Við búum við mismunandi hefðir á Norðurlöndum sem gerir það að verkum að iðnmenntunin er mismunandi, en við erum nægilega lík hvert öðru á þessu sviði að við ættum að geta viðurkennt menntun hvers annars og þau próf sem menn hafa tekið, svo að raða megi mönnum í launaflokka samkvæmt kjarasamningum.

Iðnmenntunin er jafnframt mjög mikilvægt mál innan ESB núna þegar sambandið og frjálsi vinnumarkaðurinn hefur stækkað. Það sem við verðum að passa upp á er að þetta skapi ekki félagslegar undirboðanir, þ.e.a.s. þrýsti kjörum manna niður þegar fólk flytur til okkar og vinnur langt undir þeim kjörum sem kveðið er á um í okkar kjarasamningum. Norðurlönd hafa valið mismunandi leiðir til að taka á þessum vanda. Finnland hefur nýlega staðfest aðlögunarreglur og býr jafnframt við fyrirkomulag sem kveður á um að kjarasamningar gilda sem lög um lágmarkslaun á vinnumarkaði. Þessu til viðbótar hafa menn nýlega hert á lagasetningunum sem gerir menn brotlega fyrir lögum ef þeir brjóta gegn almennum reglum kjarasamninganna og greiða mönnum lægri laun eða láta þá búa við lakari kjör en sem kveðið er á um í kjarasamningum. Þetta verður bannað og brot gegn þessu leiða til refsinga eins og til dæmis að hagnaður viðkomandi fyrirtækis er gerður upptækur. Í Finnlandi eru menn mjög fastir fyrir þegar þeir taka á svona málum. Í Danmörku hafa menn samið um aðlögunarfyrirkomulag þvert á allar flokkalínur þar sem þess er krafist að menn séu ráðnir í fullt starf og farið sé að kjarasamningum til að menn geti fengið atvinnuleifi. Þegar vinnu lýkur fellur landvistarleifið sjálfkrafa úr gildi og einstaklingurinn verður að hverfa úr landi, sem er nokkuð ámælisvert fyrirkomulag. Í Noregi hafa menn undanfarin ár getað gert kjarasamningana að lágmarksreglum, en menn hafa ekki nýtt sér þessi lög enn sem komið er. Nú ætla menn hins vegar að nýta sér þau vegna stækkunar ESB, meðal annars í byggingaiðnaði. Í Svíþjóð hafa menn um langan tíma rætt ýmsar aðlögunarleiðir og ríkisstjórnin lagði fram tillögur sem nýlega voru því miður felldar á sænska þinginu. Hvað ykkur varðar hér á Íslandi er mér kunnugt um að þið hafið sett tveggja ára aðlögunarákvæði og setjið áfram skilyrði um atvinnuleifi.

Okkar skoðun innan NBTF er að frjálst flæði vinnuafls er gott og nauðsynlegt fyrirkomulag, býður í ríkum mæli upp á möguleika frekar en hættur. Starfsmenn í byggingaiðnaði hafa alltaf verið færanlegir, milli sveitar og borgar, milli landshluta innan sama lands og milli landa. Það hefur legið í eðli starfsins að vera hreyfanlegur. En fylgjast verður vel með grundvallarákvæðunum á bak við staðsetningartilskipunina svonefndu, þ.e.a.s. að vinnureglum sé fylgt og megi ekki vera lakari en þau sem gilda í viðkomandi landi þar sem vinnan fer fram. Í þessu efni hafa hin ýmsu lönd farið mismunandi leiðir til að tryggja þessi grundvallaratriði staðsetningartilskipunarinnar. Það er mikilvægt að ekki sé unnt að fara í kringum þessi ákvæði, t.d. með tilkomu starfsmannaleiga og ráðningarfyrirtækja sem eru staðsett í einu landi og nota vinnuafl frá öðru landi og senda það til starfa í þriðja landi. Slíkt hefur komið fyrir. Annar leikur sem leikinn er er að kalla starfsmennina verktaka eða jafnvel meðeigendur. Í þessu tilliti er í raun hægt að vísa í dóma frá Evrópudómstólnum sem banna einstökum löndum að vera með reglur sem gera fyrirtækjum kleyft að taka af starfsmönnum réttindi einungis á grundvelli þess að þeir séu formlega verktakar eða að hlutatil eigendur fyrirtækis. Ef einstaklingur vinnur verk fyrir annan aðila og fær fyrir það greiðslu, þá ber að líta á þetta sem ráðningarfyrirkomulag með öllum tilheyrandi réttindum. Þetta er dæmi um að við getum við ákveðnar aðstæður haft gagn af ákvörðunum ESB.

Þar sem ég er núna að ræða um ESB get ég ekki látið hjá líða að ræða annað mál sem nú er á döfinni innan ESB og sem við óttumst að geti skapað ákveðna hættu og gengur þvert gegn þeim árangri sem við höfum náð á mörgum öðrum sviðum innan ESB, það eru drög að þjónustutilskipun. Við verðum að harma að þið hér á Íslandi getið ekki orðið okkur að liði í þessu efni og hjálpað okkur að beita pólitískum þrýstingi til að breyta inntaki þessarar tilskipunar, þar sem þið eruð aðeins aðilar að EES. Hins vegar munu þessar reglur einnig ná til ykkar þegar þær á endanum verða gefnar út.

Eins og málið lítur út í dag eru þessi drög alfarið óásættanleg. Í stað þeirra ákvæða sem er að finna í staðsetningartilskipuninni um að reglur viðkomandi lands eigi að gilda sem viðmiðun um kaup og kjör, er í þjónustutilskipuninni gengið út frá þeim kjörum sem gilda í heimalandi fyrirtækisins. Þetta getur orðið til þess að fyrirtæki kjósi að fara eftir hagstæðustu reglum út frá þeirra sjónarmiði, skrá fyrirtækið í slíku landi en verði með starfsemi síðan í öðrum aðildarlöndum ESB, án annarar skildu við starfsmennina en þær sem kveðið er á um að skuli gilda um launafólk í skrásetningarlandi fyrirtækisins, þ.e. þar sem póstkassi fyrirtækisins er staðsettur. Vissulega er gerð undanþága vegna ákvæða staðsetningartilskipunarinnar, en um leið mun þjónustutilskipunin í raun gera viðtökulandinu ókleyft að hafa eftirlit með því hvort fyrirtækið fari að viðkomandi reglum um kjör starfsmanna. Viðtökulandið mun ekki geta haft eftirlit með því hver starfsmannakjörin eru í reynd, heldur aðeins með því hver þau eiga að vera samkvæmt þeim reglum sem gilda í heimalandi fyrirtækisins. Tilskipunin mun einnig banna viðtökulandinu að hafa eftirlit með því hvort fólk frá þriðja landi utan ESB er löglega í landinu. Þetta fyrirkomulag mundi innleiða kerfi þar sem starfsmannaleigum yrði gert kleyft að stunda útleigu á vinnuafli frá þriðja landi utan ESB án vinnu eða landvistarleifis í upprunalandinu. Viðtökulandinu er auk þess meinað að hafa eftirlit með þeim búnaði sem notaður er, þ.e. með vinnuumhverfinu. Menn mega ekki heldur krefjast að fyrirtækið tryggi starfsmennina eða koma í veg fyrir að verktakar starfi.

Þessar tillögur, ef þær ná fram að ganga, munu í framtíðinni leiða í lög margvíslegar aðferðir til félagslegra undirboða og koma á fót verslun með réttindi launafólks. Öll viðleitni til að bæta kjör launafólks innan ESB væri í uppnámi. Af hálfu NBTF beitum við um þessar mundir ýmsum aðferðum til að hafa áhrif á þessar tillögur og við gerum okkur vonir um stuðning stjórnvalda á öllum Norðurlöndum í þessu máli.

Þetta mál hefur einnig mikið gildi fyrir ykkur hér á Íslandi sem núna berjist harðri baráttu fyrir því að trúnaðarmenn hafi lögbundinn rétt til að fá upplýsingar um þau raunverulegu kjör sem erlendir starfsmenn búa við. Þetta er mjög mikilvægt tæki í ykkar höndum til að geta haft möguleika á að hafa eftirlit með því að fyrirtækin fari að lögum um lágmarkslaun, það er, virði þá kjarasamninga sem gerðir hafa verið.

Ég óska ykkur alls velfarnaðar í þeirri baráttu og til hamingju með þær ákvarðanir sem þið takið á þessu þingi.

Takk fyrir.

 

________________________________________