Samtök norrænna byggingarmanna

Barist gegn útbreiðslu óhefðbundinna ráðningarforma

 

Það hefur eflaust ekki farið framhjá neinum að ráðningarkjör á vinnumarkaði hafa verið að breytast hröðum skrefum. Hin hefðbundna ráðning launamanns hjá atvinnurekanda með þeim skyldum og réttindum sem henni fylgja hefur verið á undanhaldi fyrir ýmsum afbrigðum af verktöku, verkefnaráðningu og svo framvegis. Þetta er ekki séríslenskt vandamál því sömu þróunar verður vart víðast hvar í Evrópu og eflaust um heim allan.

Á vettvangi norrænu byggingarmannasamtakanna, NBTF, hafa óhefðbundin ráðningarform verið til umræðu og á næstunni má vænta þess að samtökin beiti sér markvisst að því að styrkja réttarstöðu félagsmanna sinna við ráðningar. Guðmundur Ómar Guðmundsson formaður Félags byggingamanna í Eyjafirði er fulltrúi íslenskra byggingarmanna í nefnd hjá NTBF sem hefur fjallað um óhefðbundin ráðningarform.

 

Félagslegur afsláttur

 

„Þetta er fjölbreytt fyrirbæri og tekur til ýmiss konar verktakasamninga sem koma í stað hins hefðbundna sambands launamanns og atvinnurekanda. Þetta er oft kallað gerviverktaka eða launamannaverktaka og felst í því að menn eru ráðnir til starfa á sömu forsendum og launamenn nema hvað þeir njóta ekki sömu réttinda, svo sem til orlofs, launa í veikindum og uppsagnarréttar, auk þess sem þeir þurfa sjálfir að standa skil á greiðslum í lífeyrissjóð. Oft eru menn á slíkum samningum að vinna innan um venjulega launamenn þannig að réttarstaðan er misjöfn þótt atvinnurekandinn sé sá sami. Mikil hætta er á að þetta leiði til þess sem kallast á ensku „social dumping“ sem væri hægt að nefna „félagslegan afslátt“ á réttindum sem lög og kjarasamningar tryggja launafólki.

Bæði hér og í öðrum Evrópulöndum gætir þess æ meira að fyrirtæki leigi starfsmenn milli landa og þá er oft reynt að spila á mismunandi reglur og lög um kaup og kjör og önnur réttindi launamanna. Nýlegt íslenskt dæmi er af portúgölskum starfsmönnum sem fyrirtækið Stjörnublikk flutti hingað til lands og ekki er ljóst hvort njóta einu sinni lágmarkslauna. Hér á landi eru annars vegar til lágmarkslaun sem samið er um í heildarkjarasamningi Samiðnar og hins vegar markaðslaun sem samið er um í vinnustaðasamningum og eru að jafnaði 30–50% hærri en lágmarkslaunin. Lögin kveða hins vegar eingöngu á um að greidd skuli lágmarkslaun svo þarna getur orðið mikill munur. Við þetta bætist að skattareglur eru oft óljósar og einnig reglur um greiðslur í lífeyrissjóð. Þess eru dæmi að fyrirtæki hirði bæði skattgreiðslur og lífeyrissjóðsframlög erlendra starfsmanna,“ segir Guðmundur Ómar.

Hann bætir því þó við að vissulega sé þetta mismunandi eftir fyrirtækjum. Mörg þeirra flytji inn útlendinga og ráði þá samkvæmt eðlilegum samningum en inn á milli eru þess dæmi að mörg lagaákvæði séu brotin á starfsmönnum. Þegar slíkt gerist getur það skapað mikið misræmi í samkeppnisstöðu fyrirtækja, sem er að sjálfsögðu óviðunandi.

 

Upplýsing skiptir höfuðmáli

 

Guðmundur Ómar segir að erfitt sé að fylgjast með því hvort atvinnurekendur brjóta rétt á erlendum starfsmönnum.

„Þetta á sérstaklega við um byggingariðnaðinn. Vinnustaðirnir eru færanlegir, verkefnin tímabundin og starfsmenn fluttir á milli vinnustaða. Það koma oft uppsveiflur í greininni og þá þurfa hlutirnir að ganga hratt. Í slíkum tilvikum getur verið bæði rétt og jákvætt að flytja inn starfsmenn til að mæta sveiflunum og við erum ekki á móti því, svo fremi atvinnurekendur fari að reglum. Við erum ekki á móti því að útlendingar séu ráðnir þegar skortur er á starfsmönnum en við viljum ekki láta brjóta rétt á þeim. Með því móti erum við líka að leggja okkar af mörkum til þess að tryggja samkeppni milli fyrirtækja í greininni.“

Á vettvangi norrænu samtakanna er nú verið að undirbúa samræmdar aðgerðir til að reyna að sporna gegn því að menn spili á mismunandi samninga og lög eftir löndum. Nefndin sem Guðmundur Ómar situr í er að leggja síðustu hönd á tillögur sem lagðar verða fyrir stjórn norrænu samtakanna í nóvembermánuði. Hvað eru menn að ræða um?

„Tillögur nefndarinnar verða þær helstar að auka upplýsingamiðlun milli landa. Það þarf að skilgreina réttindin í hverju landi og koma upplýsingum um þau til annarra landa þannig að þeir sem ætla að starfa í öðru landi þekki muninn sem er á kjörunum og hvaða reglur eru í gildi. Menn þurfa líka að vita á hverju þeir eiga að gæta sín. Einnig þarf að huga að því hvernig tekið er á móti erlendum starfsmönnum svo hægt sé að koma í veg fyrir að þeir séu misnotaðir.

Í nefndinni var rætt um möguleikann á því að koma upp svörtum lista yfir fyrirtæki sem ekki standa sig en frá því var horfið. Þess í stað er nú rætt um að setja upp lista yfir fyrirtæki sem    standa sig vel að þessu leyti og hvetja menn sem fara á milli landa að athuga hvort það fyrirtæki sem þeir ætla að ráða sig hjá sé á listanum. Ef svo er ekki eru þeir hvattir til að hafa samband við stéttarfélögin á viðkomandi stað.

Svo er líka nauðsynlegt að stéttarfélögin fylgist vel með því sem gerist á vinnumarkaðnum því það eru stöðugt að skjóta upp kollinum ný afbrigði af ráðningarsamningum og ráðningarformum sem oft eru hugsuð til að fara í kringum lög og kjarasamninga,“ segir Guðmundur Ómar Guðmundsson