Iðnnám er hornreka í menntakerfinu

Niðurstöður tveggja viðamikilla rannsókna valda áhyggjum

 

Iðnnám á Íslandi á undir högg að sækja og þykir óæðra bóknámi. Þetta má lesa út úr tveimur viðamiklum könnunum sem komu út á fyrri hluta þessa árs.

 

Í könnun Félagsvísindastofnunar um ungt fólk og framhaldsskólann, sem kom út í febrúar, kemur fram að sex af hundraði þeirra sem fæddust árið 1975 höfðu lokið iðnnámi við 24 ára aldur og fimm af hundraði réttindaprófi eða svonefndu hæfnisprófi verkgreina. Næstum helmingur þessa árgangs hafði hins vegar lokið stúdentsprófi á sama aldri en nánast jafn stór hópur hafði ekki lokið framhaldsskóla.

Meginmarkmið með rannsókn Félagsvísindastofnunar var að fá heildarmynd af námsferli og námsgengi ungs fólks og tengslum sálfræðiþátta við námsárangur og námsval í framhaldsskóla. Þar sem rannsóknin náði til heils árgangs gefur hún miklar upplýsingar um menntun ungs fólks að grunnskóla loknum. Hún er um margt sambærileg við rannsókn sem gerð var fyrir nokkrum árum á námsferli fólks sem fæddist árið 1969 og sýnir að enn færri nemendur sem tóku þátt í þessari seinni rannsókn völdu verknám í framhaldsskólum en þeir sem tóku þátt í fyrri rannsókninni.

Gallup sá um hina könnunina fyrir Fræðsluráð málmiðnaðarins, Samtök iðnaðarins,  Starfsgreinasambandið / Landsmennt, Flóabandalagið – Starfsafl, Félag járniðnaðarmanna og Starfsgreinaráð í málm-, véltækni- og framleiðslugreinum. Þar var sjónum beint að endur- og símenntun í starfsgreinum þessara félaga. Skýrslan er kölluð URF, sem stendur fyrir „undirstaða réttleg fundin“, en það er fengið úr Lilju Eysteins munks, kvæðinu sem allir Íslendingar vildu kveðið hafa. Tilgangur könnunarinnar var að fá niðurstöður sem leggja má til grundvallar við endurskipulagningu alls náms og endurmenntunar fyrir málmiðnað.

Viðtöl voru tekin við 59 starfsmenn í 19 helstu málmiðnaðarfyrirtækjum landsins og farið í vettvangskönnun í 20 fyrirtækjum.

 

Starfs- og iðnnám á undir högg að sækja

 

Næstum helmingur árgangsins sem fæddist árið 1975 hafði lokið stúdentsprófi við 24 ára aldur en nánast jafnstór hópur hafði ekki lokið framhaldsskóla. Aðeins sex prósent árgangsins höfðu lokið iðnnámi og fimm prósent réttindaprófi eða hæfnisprófi verkgreina.

 

Þetta er niðurstaða rannsóknar Jóns Torfa Jónassonar pófessors og Kristjönu Stellu Blöndal, aðstoðarforstöðumanns Félagsvísindastofnunar, á námsgengi ungs fólks í framhaldsskóla sem fætt er 1975 og afstöðu þess til náms. Rannsóknin nær til allra nemenda sem fæddust árið 1975 og voru búsettir á Íslandi 1. desember árið 1990, samkvæmt þjóðskrá, alls 4180 einstaklinga.

Hliðstæð rannsókn var gerð 1992 á námsgengi árgangsins 1969. Þessi nýja rannsókn leiðir í ljós að dregið hefur úr sókn í starfsnám. Hún leiðir einnig í ljós að mun hærra hlutfall kvenna en karla úr 1975-árgangnum hefur lokið stúdentsprófi, en algengara er að karlar hafi lokið verknámi, iðnnámi eða öðrum verkgreinum. Kynbundinn munur á námsstöðu minnkar þó til muna þegar tillit er tekið til einkunna á samræmdu prófi við lok grunnskóla. Líkur á því að piltar og stúlkur ljúki stúdentsprófi eru jafnmiklar meðal þeirra sem útskrifuðust úr framhaldsskóla og fengu fimm eða hærra á samræmdu prófi í íslensku. Athyglisvert er hins vegar að meðal þeirra sem fengu lægra en fimm útskrifaðist mun lægra hlutfall kvenna, en þær voru þó talsvert færri í þeim hópi. Það er einnig eftirtektarvert að hvorki karlar né konur sem stóðu sig best á samræmdu prófi í íslensku völdu verknám.

Því betur sem fólki gekk í samræmdum grunnskólaprófum í íslensku og stærðfræði er líklegra að það hafi lokið stúdentsprófi við 24 ára aldur. Þessi tengsl finnast hins vegar ekki meðal þeirra sem hafa lokið verknámi; einkunn á samræmdu grunnskólaprófi segir ekki fyrir hve líklegt er að fólk hafi lokið verknámi 24 ára nema að því leyti að þau virðast síður leggja fyrir sig verknám sem gekk hvað best í grunnskóla.

 

Breytilegt eftir búsetu

 

Nemendur búsettir á höfuðborgarsvæðinu eru líklegri til þess að ljúka stúdentsprófi en nemendur utan borgarinnar, og síðarnefndi hópurinn lýkur síður námi. Þessi búsetumunur minnkar mikið þegar tekið hefur verið tillit til einkunna á samræmdu prófunum. Af einstökum landsvæðum skera Vestfirðir sig úr en þar er mun algengara en annars staðar að fólk hafi ekki lokið framhaldsskóla við 24 ára aldurinn.

Það er einnig athyglisverð niðurstaða að meðal þeirra sem fengu sjö eða hærra í íslensku á grunnskólaprófi hefur þrefalt hærra hlutfall fólks sem lauk grunnskóla utan höfuðborgarsvæðisins en í Reykjavík og nágrenni útskrifast úr verknámsgreinum. En þetta snýst alveg við meðal þeirra sem fengu minna en þrjá og voru búsettir á höfuðborgarsvæðinu, flestir þeirra fóru í verknám.

Rétt um helmingur þátttakenda sem voru í vinnu þegar rannsóknin fór fram taldi að menntun þeirra gagnaðist vel í núverandi starfi. Mun fleiri þeirra sem höfðu lokið verknámi, eða 75 prósent,  voru á þessari skoðun, sem hlýtur að teljast þeirri menntaleið nokkuð til hagsbóta. Um 60 prósent þeirra sem höfðu lokið stúdentsprófi töldu að sú menntun nýttist þeim vel í starfi og 42 prósent þeirra sem útskrifuðust ekki en sá hópur hefur að vísu ekki langa menntun að baki.

 

Foreldrar hvetja til stúdentsprófs

 

Hvatning foreldra virðist ráða miklu um það hvort nemendur stefna á stúdentspróf eða fara í verknám. Aðeins helmingur þeirra sem tóku þátt í rannsókninni sagðist hafa verið sammála foreldrum sínum um að stefna á stúdentspróf, um einn af hverjum sex telur foreldra sína hafa verið áhugasamari um þetta próf en þeir voru sjálfir.

Skýrsluhöfundar segja að erfitt sé að ráða í svörin við þessari spurningu og telja að ugglaust sé það oftúlkun að halda að þetta unga fólk hefði ekki valið stúdentsleiðina ef ekki hefði komið til áeggjan foreldranna. „Þó má vel vera að margir hefðu valið aðra leið. Á hinn bóginn er athyglisvert að ámóta stór hópur hefur tekið stúdentspróf án þess að fá til þess fullan stuðning (þótt ekki megi álykta að þeir hafi náð þessum áfanga í andstöðu við afstöðu foreldra),“ segir í skýrslunni. Fjórðungur þeirra sem luku verknámi valdi hins vegar verkgreinar þrátt fyrir aðrar áherslur foreldranna og skýrsluhöfundar telja hugsanlegt að tæpur þriðjungur þeirra sem luku verknámi hefði einmitt valið stúdentsleiðina ef þeir hefðu haft til þess stuðning foreldranna.

Síðan segir í skýrslunni: „Niðurstöður eru ekki síst áhugaverðar hjá þeim hópi sem ekki hefur útskrifast úr framhaldsskóla. Vera má að hluti ástæðunnar fyrir því að viðkomandi hefur ekki lokið námi sé ágreiningur á milli hans og foreldra um hvaða leið skuli valin. Því er slegið fram hér sem nokkuð bíræfinni túlkun að í um þriðjungi tilvika vilji viðkomandi velja sér einhvers konar verknám, en foreldrar haldi fram stúdentsleiðinni og í um fjórðungi tilvika sé þessu öfugt farið. Fyrir vikið verði ekkert úr. Hér er örugglega tekið nokkuð djúpt í árinni en þótt svo sé þá er nokkuð líklegt að í talsvert mörgum tilvikum sé þessu einmitt svo farið.“

Og ekki eru það heldur góðar fréttir að nærri 30 prósent hópsins hættu í framhaldsskóla án þess að ljúka prófi. Mikilvægustu ástæðurnar eru námsleiði en fjórðungur aðspurðra taldi sig ekki þurfa á framhaldsnámi að halda, tæplega helmingi leiddist námið en aðstæður heima fyrir eða peningavandræði réðu miklu hjá þriðjungi hópsins. „Ekki er því ljóst hvernig framhaldsskólinn gæti brugðist við þessu brottfalli, nema hvað varðar námsleiða og hugsanlega það viðhorf að fjórðungur telur ekkert nám henta sér,“ segir í skýrslunni.

Rannsóknin byggist á upplýsingum um námsferil fólks sem fæddist árið 1975, frá öllum hefðbundnum framhaldsskólum á Íslandi og ýmsum opinberum sérskólum, til dæmis Garðyrkjuskóla ríkisins og Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri. Upplýsingarnar voru síðan samræmdar gögnum frá Hagstofu Íslands um námsferil þessa hóps. Jafnframt var stuðst við upplýsingar um námsárangur þessara nemenda á samræmdum prófum í 10. bekk. Til að öðlast enn fyllri mynd af námsferli árgangsins var annars vegar gerð símakönnun og hins vegar póstkönnun. Símakönnunin beindist einkum að ástæðum fyrir námsvali og brottfalli úr framhaldsskóla. Í póstkönnuninni var spurt um áhugasvið, trú á eigin hæfni og sjálfsálit.

 

Jón Torfi Jónasson prófessor:

Ástæða til að kanna hug nemenda til starfsnáms

 

Að mati Jóns Torfa Jónassonar prófessors er ástæða til að staldra við þann hluta Námsferilsathugunarinnar þar sem koma fram vísbendingar um mikinn áhuga í nemendahópnum á margvíslegum verklegum þáttum, einnig hjá þeim sem velja sér bóknám.

 

Niðurstaða hans er að starfsnámskerfið laði fólk ekki til starfsnáms og hann ráðleggur þeim sem skipuleggja þann hluta menntakerfisins að skoða betur hug nemenda.

Jón Torfi telur einnig mikilvægt að huga að því sem fram kemur í könnuninni, að námsframvinda er ólík í bóknámi og starfsnámi, og útskriftarmunstrið gerólíkt. Af öðrum gögnum er vitað að hlutfall útskrifta úr iðnnámi eykst þegar frá líður. Af fólki í 1975-árgangnum sem útskrifaðist með stúdentspróf á tímabilinu 1991–99 tóku 60 prósent lokapróf árið 1995 og um 80 prósent á árunum 1995 og 96. Útskriftirnar dreifast öðruvísi í iðnnáminu. Fjórum árum eftir að grunnskóla lýkur hafa aðeins innan við tíu prósent þeirra sem ljúka iðnnámi útskrifast og útskriftir iðnnema á árunum 1991–99 dreifðust býsna jafnt á árin 1996–99.

– Nú segja flestir: Þetta vitum við, og við vitum meira að segja að meðalaldur í sveinsprófi er nálægt 27 árum. En ramminn um skólastarf þessara tveggja hópa er gjörólíkur. Eftir átta ár í framhaldsskóla hafa rétt rúmlega 45 prósent árgangs lokið stúdentsprófi, rúmlega fimm prósent hafa lokið sveinsprófi eða burtfararprófi úr iðnskóla og önnur fimm prósent öðru verklegu námi sem er oft eins til þriggja ára nám, segir Jón Torfi við Samiðnarblaðið.

Í könnuninni var spurt um áhugasvið unga fólksins og hve vel það treystir sér til þess að vinna tiltekin mál. Þar kemur í ljós að verkefni sem tengjast verknámi eða atvinnurekstri raðast hátt þótt í mörgum tilfellum sé talsverður munur á milli pilta og stúlkna. Annars vegar var spurt hvort fólki líkaði vel eða illa við tiltekin verkefni og hins vegar hve vel fólk treysti sér til þess að vinna tiltekin verk.

– Það er ljóst af svörunum að fólki líkar vel við fjölmörg störf á sviði hefðbundinnar starfsmenntunar og svipað er uppi á teningnum þegar spurt er um sjálfstraust fólks til ákveðinna verka, sem speglar að vissu marki hve vel fólk er tilbúið til þess að glíma við viðfangsefnin, segir Jón Torfi.

Meðferð rafmagnstækja er í efsta sæti hjá piltunum en stúlkurnar setja í efsta sæti hæfileika sinn til þess að fá fólk til að treysta sér. Af því trausti að dæma sem fólk segist bera til sjálfs sín til að vinna ólík verk segir Jón Torfi að ekkert bendi til annars en að það treysti sér vel til þess að vinna margvísleg verkleg störf. Hann telur því ljóst af þessum gögnum að fólk sé ekki frábitið störfum sem starfsmenntagreinar undirbúa fólk fyrir, þvert á móti sýni þau að mjög stórum hópi þess unga fólks sem hér um ræðir líki vel við verklega menntun.

– Lítil aðsókn í starfsnám speglar því alls enga neikvæðni í garð þeirra verkefna sem þar er fengist við. Skýringin er ekki heldur sú að fólk hafi ekki áhuga á námi yfirleitt því meirihluti þeirra sem hafa engu námi lokið hefur hug á að ljúka námi síðar og hefur áhuga á verklegum greinum. En vel að merkja, margir þeirra sem hættu námi töldu það hafa verið rétta ákvörðun þótt þeir vildu gjarnan taka upp þráðinn síðar.

Skýringar á frekar lítilli aðsókn og hægri framvindu í starfsnámi eru ugglaust flóknar og ábyggilega óskynsamlegt að leita að einni skýringu fyrir allan hópinn. Það er til dæmis líklegt að mörgum ungmennum finnist skynsamlegt að ljúka stúdentsnámi þótt þau hafi ekki endilega brennandi áhuga á því. Það er einnig sennilegt samkvæmt þessum gögnum að margt ungt fólk geti vel hugsað sér verklegt nám þótt þær námsbrautir sem standa til boða séu ekki endilega spennandi. Fjölmörgum unglingum þykir að því er virðist góður kostur að taka sér hlé frá námi og skoða hug sinn ef ekkert nám höfðar til þeirra, að minnsta kosti þegar atvinnuástand er eins gott og það hefur verið undanfarin ár.

Atvinnulífið kallar fólk til starfa en starfsnámskerfið laðar fólk ekki til námsins og fá merki eru um að verið sé að snúa þróuninni við. Jafnframt tekur háskólakerfið stakkaskiptum og virðist beina ungu fólki í bóknámsfarveg framhaldsskólans, jafnvel þeim sem vilja snúa sér að hagnýtum starfsundirbúningi.

Þeir sem skipuleggja starfsnám ættu að skoða betur hug nemenda, hvað ræður þeirri ferð, á hvaða forsendum þeir taka ákvarðanir sínar og hvers konar skipulag kæmi til móts við þann metnað sem þeir leggja í meiri menntun, segir Jón Torfi Jónasson.

 

 

Viðbrögð forystumanna í Samiðn:

Áhersla á jákvæðu þættina

 

Örn Friðriksson, formaður Félags járniðnaðarmanna, segir að sér finnist einkum tvennt áhugavert í niðurstöðu þessarar könnunar.

 

Annars vegar að álíka margir nemendur í efsta bekk grunnskóla segja að þeim líki vel við verklegar greinar og bóklegar, hins vegar að mun fleiri af þeim sem fóru í verknám telja að menntunin hafi komið sér vel í starfi, segir Örn.

Hann segir að þetta komi nokkuð á óvart miðað við þá niðurstöðu könnunarinnar að langflestir þeirra sem spurðir voru fóru í bóknám, aðeins lítið brot þeirra fór í iðnnám.

– Mér finnst mikilvægt að leggja áherslu á þessa jákvæðu þætti, ég hefði einmitt haldið að viðhorfið til verklega námsins væri neikvæðara en þarna kemur fram. En við verðum hins vegar að velta því fyrir okkur hvers vegna færri fara í verklegu greinarnar þrátt fyrir þetta. Þáttur í þessu getur verið sá að foreldrar hvetji börn sín til þess að fara frekar í bóknám, en það þarf að finna þetta út og greina betur hvers vegna bóklegu greinarnar verða fremur fyrir valinu. Það er hins vegar ljóst að andinn er fyrir hendi, segir Örn Friðriksson.

 

Kynna betur kosti iðnnáms

 

Forsvarsmenn Bíliðnafélagsins/Félags blikksmiða eru sammála um að ef menn hlú ekki betur að iðnnámi almennt en gert hefur verið verði það áfram annars flokks í hugum nemenda.

– Almennt þarf að kynna kennurum í grunnskólum betur þá kosti sem iðnnám hefur að bjóða, einnig foreldrum grunnskólabarna, og það þarf að kynna betur þann möguleika að nemendur geti tekið stúdentspróf samhliða verknámi, segir Hilmar Harðarson, formaður félagsins, við Samiðnarblaðið.

Hann bendir á að þegar Borgarholtsskóli tók til starfa hafi bíliðnagreinarnar fengið ágætis upplyftingu og að bráðnauðsynlegt sé að hlúð verði að þeirri deild vegna örra framfara í þessum greinum, sem séu orðnar að hátæknigreinum. Hann telur einnig mikilvægt að nemendum á landsbyggðinni sé gert kleift að ljúka stórum hluta af grunnnámi iðngreina í heimabyggð en ljúka verklega náminu í kjarnaskóla.

– En verklegt nám er of dýrt til þess að hagkvæmt sé að byggja það upp á fleiri en einum stað. Best er að vel sé staðið að einum kjarnaskóla og það er nauðsynlegt að koma einnig upp slíkum skólum í málmiðnaðargreinunum, segir Hilmar.

Bíliðnagreinarnar eru hins vegar vel settar hvað varðar endurmenntun. Bíliðnafélagið/ Félag blikksmiða og Bílgreinasambandið hafa hlúð vel að Fræðslumiðstöð bílgreina á Gylfaflöt 19 í Reykjavík. Þar geta félagsmenn bætt við þekkingu sína utan venjulegs vinnutíma og vonast er til að fljótlega verði gengið frá samkomulagi um að meistaranám verði tekið inn í endurmenntunina.

– Við erum því ágætlega vel settir, en það má ekki sofna á verðinum, stöðug endurnýjun og uppbygging þarf að vera í síbreytilegum hátæknigreinum. Lagnamiðstöðin er góð viðbót við símenntun blikksmiða og verið er að skipuleggja námskeið fyrir grunn- og endurmenntun sem fara fljótlega af stað. En þar verður einnig að vera stöðug endurnýjun vegna sífelldra tækninýjunga, segir Hilmar Harðarson.

 

Áhyggjur af miklu brottfalli

 

– Það er áhyggjuefni að iðn- og verknámsgsreinar skuli ekki halda í við hlutfallslega fjölgun á vinnumarkaði. Bóknámsgreinarnar taka hana en nemendum í hefðbundnu iðngreinunum hefur beinlínis fækkað. Við verðum að bregðast við þessu, segir Finnbogi Hermannsson, formaður Trésmiðafélags Reykjavíkur.

Hann telur að huga verði að grunnskólunum, þar séu verkmenntagreinar á undanhaldi og því líklega lítið að marka þau svör elstu nemenda í grunnskóla að þeim líki þær betur en bóklegu greinarnar – þeir þekki þær einfaldlega varla nema af afspurn.

– Þarna eru allir undir sömu sökina seldir, foreldrar, kennarar og stjórnvöld, allir hvetja börnin fremur til bóknáms. Það þarf að huga að kennsluaðferðum og opna fleiri leiðir inn í iðnnám, segir Finnbogi.

Hann telur einnig að ástæða sé til þess að samfélagið í heild hafi áhyggjur af því háa brottfalli nemenda úr skóla sem við stöndum frammi fyrir, óviðunandi sé að nærri helmingur þeirra sem ljúka grunnskólanámi hætti námi í framhaldsskólum og 35 prósent vegna peningavandræða.

        Við þurfum að velta alvarlega fyrir okkur ástæðum þessa brottfalls en gera okkur jafnframt grein fyrir því að enda þótt í skýrslunni sé miðað við að þeir sem hafa ekki snúið aftur til náms við 24 ára aldur hafi hætt námi hefja allmargir iðnnám eftir það, jafnvel allt fram á fimmtugsaldur. En þar sem flestir eru þá komnir með fjölskyldu er það ákaflega erfitt og það er mjög nauðsynlegt að þetta fólk fái fjárhagsaðstoð til að geta lokið námi, segir Finnbogi Hermannsson.

 

 

Fordómar fyrir verkmenntun?

        ábyrgð grunnskólakennara á námsvali nemenda

 

Harpa Rut Hilmarsdóttir, verkefnisstjóri ungliðastarfs hjá Samiðn,

Skrifar

 

Þegar nemendur ljúka grunnskóla hafa þeir í fyrsta skipti raunverulegt val um nám. Þá velur hver og einn sér nám í samræmi við hugmyndir um framtíð sína og áhugasvið. Nemarnir hafa fjölbreytt val en valið snýst meðal annars um hvort velja skuli verknám eða bóklegt nám.

Nú er komið vor og nemendur tíunda bekkjar væntanlega farnir að huga að því hvað þeir taka sér fyrir hendur næsta vetur. Þá skiptir miklu máli að geta aflað sér góðra og umfram allt hlutlausra upplýsinga um það námsval sem þeir hafa.

Samkvæmt opinberum tölum hefur hlutfall verkmenntanema af brautskráðum framhaldsskólanemum farið lækkandi undanfarin ár. Þetta er athyglisvert í ljósi þess að eftirspurn eftir iðnaðarmönnum hefur verið mikil undanfarin ár á Íslandi og menntamálaráðherra hefur ítrekað gefið í skyn að auka skuli veg verkmenntunar.

Við hjá Samiðn, sambandi iðnfélaga, höfum leitað skýringa á þessu hjá verkmenntanemum. Í hópi þeirra kemur meðal annars fram það sjónarmið að grunnskólakennarar séu haldnir fordómum í garð iðnmenntunar sem koma fram í því að kennararnir letja góða nemendur til að fara í verknám. Verkmenntanemar segja að þeir hefji framhaldsskólanám með bóknámi vegna þess að grunnskólakennarar réðu þeim frá því að fara í verknám þrátt fyrir einlægan vilja þeirra.

Sem verkefnisstjóri ungliðastarfs hjá Samiðn vil ég hvetja nemendur sem nú eru að útskrifast úr grunnskóla að skoða vel námsframboðið hjá verkmenntaskólum landsins.

Verkmenntun er góður kostur sem býður fjölbreytta náms- og starfsmöguleika. Eftir fjögurra ára verknám er nemi kominn með starfsréttindi og getur hafið störf á vinnumarkaði. Nú gefst verkmenntanemum kostur á að taka stúdentspróf með því að bæta við sig námseiningum ef hugurinn stendur til þess. Einnig eru fjölbreyttir möguleikar á framhaldsnámi að lokinni útskrift úr verkmenntaskóla bæði hérlendis og erlendis. Í því sambandi má nefna nám í tækniskólum og háskólum í framhaldi af því.

Meirihluti grunnskólanema velur bóknám til stúdentsprófs að loknum grunnskóla. Til að taka ákvörðun um að fara í annars konar nám þarf neminn að skera sig úr fjöldanum. Því hvílir mikil ábyrgð á herðum grunnskólakennara og þeir þurfa að geta gefið nemendum sínum hlutlausar og góðar upplýsingar um þá möguleika sem verkmenntunin veitir. Vil ég því hvetja grunnskólakennara til að kynna sér vel starfsemi og námsframboð verkmenntaskólanna og til að styðja nemendur við ákvörðunina að velja verknám ekki síður en bóknám. Upplýsingar má meðal annars finna á vefsetrinu www.idan.is.

 

 

Undirstaða réttleg fundin

 

Skýrsla Gallups um símenntun í málm-, véltækni- og framleiðslugreinum

 

Iðnmenntun er almennt talin vera annars flokks menntun og sett skör lægra en bókleg menntun. Þetta viðhorf heftir framgang iðn- og verkmenntaskóla og er til þess fallið að skerða hlut iðnaðarins í íslensku atvinnulífi.

 

Þetta er skoðun mjög margra starfsmanna málmiðnaðarfyrirtækja sem starfsmenn Gallups töluðu við vegna URF-könnunarinnar. Sumir þeirra tóku jafnvel svo sterkt til orða að erfitt væri að fá gott námsfólk í iðnnám, sér í lagi í málmiðnaði sem þeir töldu vera lægst settan í menntapíramídanum.

„Almennt töldu menn að þarna væri helsti Akkilesarhæll greinarinnar. Margir voru kallaðir til ábyrgðar en flest spjót beindust að stefnu í menntamálum og skammsýni yfirvalda, sem hefðu hyglað bóknámi vegna þess að það væri ekki eins dýrt í rekstri og verknám,“ segir í URF-skýrslunni.

Eldri menn, sem eru ekki í tengslum við skólana, eru yfirleitt jákvæðir í umsögnum sínum um þá og flestir höfðu jákvæðara viðhorf til litlu skólanna utan Reykjavíkur, þar sem þeim var frekar fyrirgefið að geta ekki fylgst með nýjungum eða orðið við kröfum um fjölbreytt námsframboð, sökum aðstöðuleysis. Vélskólinn nýtur yfirleitt velvilja og hollustu fyrrverandi nemenda en þótt margir viðmælendur hafi verið jákvæðir gagnvart skólunum sem þeir stunduðu nám í voru þeir meira eða minna sammála um að skólakerfið væri ekki nógu vel búið undir að takast á við nýjungar og framfarir í málmiðnaði.

Það var Borgarholtsskóli sem sætti mestri gagnrýni og almennt töldu menn að hann hefði ekki staðið undir væntingum sem gerðar hefðu verið til hans sem kjarnaskóla í málmiðngreinum.

Sumir viðmælenda töldu að sem allra stærstur hluti iðnnámsins ætti að fara fram í skólum en allflestir voru á því að það yrði aldrei gott nema hluti þess færi fram á vinnustöðum, að því tilskildu að þar færi fram markviss kennsla. Það viðhorf kom fram að vinnustaðanámi yrði trúlega best borgið ef nemar lærðu í fleiri en einu fyrirtæki, þannig fengju þeir fjölbreytt nám og reynslu. En flestir töldu vinnustaðanámi vera ábótavant þar sem sjaldnast gæfist tóm til að kenna nemendum og flestir þyrftu að læra af mistökum, sem gætu reynst dýr þegar upp væri staðið.

Einnig var bent á að margir vinnustaðir væru það einhæfir að nemar hefðu ekki tækifæri til að læra það sem þeir þurfa að kunna fyrir sveinspróf á vinnustað, fengju ekki þá þjálfun sem nauðsynlegt væri, og þyrftu flestir að undirbúa sig sérstaklega fyrir prófið. Meistarakerfið var gagnrýnt og sumir töldu það löngu úrelt. Aðrir sögðu að það sannaði að kerfið væri gengið sér til húðar að nánast engir meistarar væru lengur útskrifaðir í greininni.

 

Ófaglærðir afskiptir og stjórnendur áhugalausir

 

Nokkuð bar á því að ófaglærðum starfsmönnum fyndust þeir vera settir til hliðar og að þeir fengju ekki tækifæri til að sækja starfsmenntun en væru þó falin sérhæfð og vandasöm störf. Margir viðmælenda töldu vera þörf á styttra réttindanámi eða verknámi sem gæti styrkt ýmsa verklagna starfsmenn sem ættu í erfiðleikum með bóknám.

Í viðtölum við stjórnendur fyrirtækjanna kom hins vegar fram að þeir eru áhugalitlir um sí- og endurmenntun starfsmanna. Sum hinna stærri nýsköpunarfyrirtækja voru þó að vinna að stefnumótun í starfsmannamálum og endur- og símenntun. En hvergi fékkst skrifleg eða opinber stefna um þessi menntunarmál og þegar á heildina er litið virðast vera lítil tengsl milli orðs og æðis.

„Flestir þeir sem talað var við eru sammála því að menn verði að fylgjast með og bæta sífellt við þekkingu og kunnáttu til þess að úreldast ekki í starfi og til að halda uppi gæðum og standast kröfur markaðarins. Á hinn bóginn koma fram margvíslegar afsakanir og/eða ástæður fyrir því að menn stunda ekki endurmenntun. Helstu ástæðurnar eru tíma- og fjárskortur, lítil hvatning og lítill áhugi á námskeiðum, bæði stjórnenda og starfsmanna, tíma- og staðsetning námskeiða og ófullnægjandi framboð námskeiða,“ segir í URF-skýrslunni.

Sérstakur spurningalisti var lagður fyrir ófaglærða starfsmenn og aðstoðarmenn þar sem spurt var um menntun þeirra og þátttöku í námskeiðum eða áhuga á því. Listinn var lagður fyrir í fjórum fyrirtækjum og 34 starfsmenn svöruðu en nokkuð var um að menn neituðu að svara. Flestir þeirra sem svöruðu eru karlar og hafa flestir litla eða enga framhaldsmenntun. Meðalaldur þeirra var um 34 ár og meðalstarfsaldur sjö ár.

Af þessum 34 höfðu tólf lokið gagnfræðaprófi, fjórir starfsmenntun og einn stúdentsprófi. Fjórir höfðu hafið nám eftir grunnskóla án þess að ljúka því og tveir höfðu ekki lokið grunnskóla. Hinir 11 höfðu lokið grunnskólaprófi og látið þar við sitja.

Einungis fimm af þessum 34 höfðu farið á starfs- eða endurmenntunarnámskeið á árinu en tólf sögðu að þeir hefðu farið ef þeir hefðu fengið styrk til þess. Hópurinn var nokkuð sammála um að starfsmenntun skipti máli; 25 voru á þeirri skoðun en níu töldu að hún skipti þá litlu máli.

 

Lítill hluti hópsins aflar sér fagþekkingar:

l einn sagðist lesa tækni- eða fagtímarit vikulega og þrír mánaðarlega, aðrir sjaldnar eða aldrei,

l tveir nota Internetið daglega, einn vikulega og einn mánaðarlega, aðrir sjaldnar eða aldrei,

l einn fer á bókasafn daglega, einn vikulega og einn mánaðarlega, aðrir sjaldnar eða aldrei,

l einn sagðist fara mánaðarlega á sýningar eða kynningar, aðrir sjaldnar eða aldrei,

l einn sagðist fara á námskeið vikulega, einn mánaðarlega, aðrir sjaldnar eða aldrei.

 

Gagnaöflun fór fram með eftirfarandi aðferðum:

 

l Djúpviðtöl við 59 starfsmenn í 19 málmiðnaðar-

   fyrirtækjum

l Vettvangsathugun í 20 fyrirtækjum

l Spurningalistar lagðir fyrir 34 ófaglærða aðstoðarmenn

   í 4 stórum málmiðnaðarfyrirtækjum

l Rýnihópar með alls 25 þátttakendum

l Skrifleg gögn frá aðstandendum verkefnisins

l Gögn um fyrirtæki á vefnum og/eða á vettvangi

 

Rætt var við:

41 málmiðnaðarmann

5 ófaglærða og/eða aðstoðarmenn

8 verk- og/eða tæknifræðinga

5 með aðra menntun en menntun í málmiðnaði

Samtals 59 starfsmenn

 

 

Undirstaða réttlig fundin:

 

Stjórnendur fyrirtækja þurfa að huga betur að endurmenntun starfsmanna

 

Niðurstöður URF-könnunarinnar verða lagðar fyrir þá sem stóðu fyrir verkefninu og stefnt er á að þeir komi með beinar tillögur um námskeið með skilgreind markmið fyrir starfsmenn í málmiðnaðinum.

 

– Við höldum áfram að hamra á því að menn verði að læra af þessu. Ef þeir átta sig ekki á því drögumst við aftur úr, segir Gylfi Einarsson, starfsmaður Fræðsluráðs málmiðnaðarins og verkefnisstjóri URF-könnunarinnar.

Þessi könnun á upphaf sitt í framhaldsskólalögunum frá 1996 þar sem aðilum vinnumarkaðarins var falið að taka þátt í skipulagi á námsframboði starfsmenntaskólanna og starfsgreinaráðum falið það mikla hlutverk að skilgreina þekkingarþörf sinna greina.

– Þetta var ákaflega göfugt hlutverk en nánast ómögulegt í framkvæmd fyrir starfsgreinaráð sem kemur saman einu sinni í mánuði og á auk þess að afgreiða alls konar mál frá ráðuneytinu. Við veltum vöngum yfir því hvernig löggjafinn gat ætlast til þess að hægt væri að gera þetta svona og það var ekki fyrr en tveir öflugir sjóðir, Landsmennt og Starfsafl, komu til skjalanna að eitthvað gat farið að gerast, segir Gylfi við Samiðnarblaðið.

Aðaltilgangurinn með URF-könnuninni var að fá mynd af því hvaða þekkingu menn teldu að vantaði í fyrirtækin og hugmyndir manna um hvað á skorti komu mjög greinilega fram í svonefndum djúpviðtölum. Það sem hinir faglærðu nefndu er allt mjög fagbundið en áberandi var hjá hinum ófaglærðu að þeim þykja þeir vera settir til hliðar í endurmenntun, en gegna þó margir mikilvægum störfum.

– Dæmi var nefnt um þá sem búa skip undir málningu og mála þau. Það er ekki fjarri lagi að málning á meðal-togara kosti tvær milljónir króna og því hlýtur að vera mikilvægt að vinnubrögð séu góð. Hver dagur sem togararnir eru frá veiðum er dýr og ending málningarinnar hlýtur að ráðast af réttum vinnubrögðum. Samt er þessum mönnum ekkert kennt, segir Gylfi.

Sjónir manna beindust mjög að skólakerfinu og áberandi var hávær gagnrýni á Borgarholtsskóla. Margir sögðust sjá eftir málmiðnaðardeildinni í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og ekki skilja hvers vegna þessu var steypt saman. Ein afleiðingin er sú að nánast engir Breiðhyltingar sækja í þetta nám nú.

– En af hverju líta menn svona mikið á framhaldsskólann? Á hann að búa til sérfræðinga eða undirbúa frekara nám? Reynslan sýnir að eftir að menn hafa verið í framhaldsskólanum og tekið sveinspróf finnst þeim þeir vera búnir. Þetta skýrist enn betur þegar litið er á sjónarmið stjórnenda fyrirtækjanna, þeir gleymdu sér gjörsamlega í umræðunni um framhaldsskólana og fannst þeir meira og minna afleitir.

Hins vegar eru þeir sjálfir ekki áhugasamir um sí- og endurmenntun og endurspeglast það í aðsókn að námskeiðum hjá Fræðsluráði málmiðnaðarins. Ekkert þeirra 20 fyrirtækja sem tóku þátt í könnuninni gerir markvissa endurmenntunaráætlun fyrir starfsmenn. Oft er litið á námskeið sem einhvers konar bónus fyrir starfsmenn fremur en að það sé hluti af starfsmannaþróun og þekkingarlegri uppbyggingu fyrirtækjanna. Og stjórnendur hafa samkvæmt könnuninni ekki margt að segja um sína eigin þekkingarþörf, vilja varla tala um hana þótt undantekningar séu frá því. Þetta kom raunar ekki sérlega á óvart og við sjáum að það þarf að vinna sérstaklega í þessu, segir Gylfi Einarsson.

 

Tengist þekking aðeins tölvum?

 

Ráðamenn þjóðarinnar tala stundum um þekkingarfyrirtæki og upp á síðkastið hefur „þekkingarþorp“ í Vatnsmýrinni verið í tísku. Þegar prófessor við Háskóla Íslands var spurður í útvarpi í vor hvers konar fyrirtæki þetta væru nefndi hann tölvu- og upplýsingatækni og fleira í þá veru. Gylfi Einarsson sagðist hafa staldrað við þessi orð.

– Ég nefndi þetta á málþingi Samtaka iðnaðarins í vor og sagðist hafa farið að velta því fyrir mér hvaða fyrirtæki það væru sem ekki notuðu þekkingu við starfsemi sína! Ég vísaði til kenningar Peters nokkurs Senges, sem starfar við Tækniháskólann í Massachusetts. Hann hefur sagt að uppbygging þekkingar eða lærdómur sé kjarni mannlegrar tilveru og svonefnd þekkingarfyrirtæki séu þau fyrirtæki sem stöðugt leitast við að skapa sína eigin framtíð. Senge vill tala um „skapandi þekkingu“ sem greini þekkingarfyrirtæki frá öðrum fyrirtækjum í grundvallaratriðum.

Gylfi segist vilja skoða innihald iðnnáms í þessu ljósi. Hann vill jafnframt leggja áherslu á gæði menntunar. Raunar segir hann að í framhaldsskólalögunum frá 1996 sé ákvæði um gæðakröfur í skólakerfinu en sér virðist sem mörgum sé uppsigað við gæðahugtakið, ekki síst skólamönnum, og menntamálaráðuneytið hafi ekki gengið hart eftir því að þessi lagaskylda sé uppfyllt.

– „Neytendur“ er grundvallarhugtak í allri gæðaumfjöllun. En hverjir eru „neytendur“ iðnmenntakerfisins? Það eru nemendur og fyrirtækin sem taka við þeim og gera þá að starfsmönnum sínum. Því eiga fyrirtækin að segja til um hinar endanlegu kröfur sem gera á til árangurs í iðnmenntaskólunum, segir Gylfi.

Og hvaða fyrirtæki eru þess umkomin að setja fram kröfur um færni og þekkingu nemenda? Það eru þekkingarfyrirtækin, fyrirtækin sem gera sér grein fyrir því að þekking í nútíð og framtíð er grundvöllur samkeppnishæfni þeirra, bestu fyrirtækin okkar. Þetta eru fyrirtækin sem stöðugt leitast við að auka getu sína til að skapa sér sína eigin framtíð, segir Gylfi Einarsson hjá Fræðsluráði málmiðnaðarins.