Höfum séð það svartara

 segir Sigfús Eysteinsson, formaður Iðnsveinafélags Suðurnesja, um atvinnuástandið á Suðurnesjum í kjölfar uppsagna á Keflavíkurflugvelli

 

Atvinnumál á Suðurnesjum voru töluvert til umræðu á síðustu mánuðum nýliðins árs. Ástæðan eru fyrst og fremst uppsagnir starfsmanna hjá bandaríska hernum sem tilkynntar voru í tvígang í haust. Fyrst var sagt upp 90 manns en þær uppsagnir síðan dregnar til baka eftir að bent hafði verið á að þær samræmdust ekki lögum um hópuppsagnir. Í lok nóvember hafði formsatriðum verið fullnægt og fengu þá 102 starfsmenn uppsagnarbréf sem miðuðust við 1. desember.

Alls starfa um 900 manns hjá Bandaríkjaher á Keflavíkurflugvelli en þeim fækkar niður í 800 þegar uppsagnirnar taka gildi. Ástæðan fyrir þessum uppsögnum er sú að fjárveitingar til flotastöðvarinnar voru skornar verulega niður fyrir bandaríska fjárlagaárið sem er frá 1. október 2003 til septemberloka 2004. Margir hafa viljað tengja þetta við áform Bandaríkjastjórnar um að flytja flugsveitina á vellinum í burtu og draga verulega úr varnarviðbúnaði.

Í umræðum sem urðu á alþingi eftir að uppsagnirnar voru tilkynntar lagði Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra og aðrir stjórnarþingmenn áherslu á að engin tengsl væru þar á milli, uppsagnirnar ættu sér eingöngu rætur í minnkandi fjárveitingum til flotastöðvarinnar sem aftur stöfuðu af bágri stöðu ríkisfjármála í Bandaríkjunum og miklum kostnaði við stríðsreksturinn í Írak og Afganistan.

Við sama tækifæri kom fram að í lok nóvembers var 341 maður á atvinnuleysisskrá á Suðurnesjum svo það er verið að tala um þriðjungsaukningu á einu bretti. Þingmenn spáðu sumir að þessar uppsagnir leiddu til keðjuverkunar sem gæti endað með því að á vormánuðum yrði atvinnuleysið komið í 6–700 manns. Stjórnarliðar töldu þetta mikla bölsýni og bentu á að ýmislegt væri að gerast í atvinnumálum svæðisins sem til framfara horfði.

 

Engin ákvörðun um frekari fækkun

 

Samiðnarblaðinu lék forvitni á að vita hvernig þessi þróun liti út frá bæjardyrum Iðnsveinafélags Suðurnesja. Sigfús Eysteinsson formaður félagsins var því spurður hvort þessar uppsagnir snertu iðnaðarmenn á Suðurnesjum.

„Atvinnuástandið hjá félagsmönnum okkar hefur verið mjög gott á undanförnum árum, bæði málmiðnaðar- og byggingarmönnum. Á síðustu tveimur árum hefur þróunin hins vegar verið sú að það hefur sigið á ógæfuhliðina í málmiðnaði en byggingariðnaðurinn hefur sótt í sig veðrið. Á Keflavíkurflugvelli hefur dregið úr nýbyggingum en viðhaldsverkefnum fjölgað. Svo gerist það í haust að varnarliðið tilkynnir þessar uppsagnir en af hundrað manns sem sagt var upp voru átta félagsmenn okkar.

Þetta hefur sín áhrif en alls vinna rúmlega 100 félagsmenn okkar hjá varnarliðinu, eða um það bil sjötti hluti félagsmanna. Auk þess vinnur stór hópur hjá Íslenskum aðalverktökum og Keflavíkurverktökum sem hafa verið atkvæðamiklir innan varnargirðingar. Þar hefur verið nóg að gera og næg verkefni út þetta ár svo ég á ekki von á neinum uppsögnum þar.“

Nú urðu miklar umræður í kjölfar þess að Bandaríkjamenn tilkynntu um áform sín um að flytja flugsveitina burt. Óttist þið ekki að til frekari uppsagna komi?

„Jú, maður hefur það á tilfinningunni, ekki síst vegna fjölmiðlaumfjöllunarinnar, en við höfum ekki séð neitt sem bendir til þess að frekari uppsagna sé að vænta á næstunni. Uppsagnirnar í haust og breytingar á varnarmálunum eru tvö aðskilin mál og það liggur ekkert fyrir um frekari fækkun starfsmanna hjá varnarliðinu.“

 

Ýmislegt í bígerð

 

En hvernig er staðan í atvinnumálum Suðurnesja ef litið er framhjá Keflavíkurflugvelli? Það hefur verið rætt mikið um minnkandi kvóta og samdrátt í sjávarútvegi, en hvernig er staðan hjá iðnaðarmönnum?

„Eins og ég nefndi áðan er hún góð hjá byggingarmönnum en síðustu tvö ár hafa verið daufari hjá málmiðnaðarmönnum. Þar kemur meðal annars til að eitt af stærstu fyrirtækjunum, Skipasmíðastöð Njarðvíkur, hefur átt í miklum erfiðleikum svo við höfum áhyggjur af stöðunni í málmiðnaði. En það hefur nánast ekkert atvinnuleysi verið hjá okkur.“

Hvernig eru horfurnar?

„Við bindum miklar vonir við stálpípuverksmiðjuna sem á að rísa í Helguvík en það skýrist þó væntanlega ekki fyrr en upp úr miðju ári hvort af henni verður. Síðan er að hefjast uppbygging á nýju orkuveri hjá Hitaveitu Suðurnesja og einnig stendur til að byggja við flugstöðina á Keflavíkurflugvelli. Þetta er það sem við bindum mestar vonir við. Þessi verk verða boðin út og við vitum ekki hverjir fá þau. Hugsanlega verða það fyrirtæki utan svæðisins sem koma með sína menn en þetta ætti samt að hafa góð áhrif á atvinnuástandið.“

Við þetta má bæta að í umræðunum á alþingi voru nefnd til sögunnar ýmis önnur verkefni sem væntanlega geta haft jákvæð áhrif á atvinnuástandið, tvöföldun Reykjanesbrautar, lagning Suðurstrandarvegar, auk þess sem Flugleiðir stefndu að því að auka umsvif sín og fjölga starfsfólki. Lokaspurningin til Sigfúsar var því hvort hann væri bjartsýnn á framtíðina.

„Já, ég er hóflega bjartsýnn. Við höfum oft séð það svartara en núna, til dæmis fyrir tíu árum. Ég á ekki von á öðru en að við rífum okkur upp úr þessu. Það mundi auðvelda okkur leikinn ef fjölmiðlarnir fjölluðu um ástandið með heldur jákvæðari hætti en þeir hafa gert, umfjöllum þeirra hefur heldur orðið til að auka á þunglyndið. En við erum ákveðnir í að halda áfram að berjast og ef menn bera gæfu til að snúa bökum saman, ríkisvaldið, sveitarstjórnir og verkalýðsfélög, og taka í sameiningu á atvinnumálum Suðrunesja þá held ég að það sé ekki miklu að kvíða,“ segir Sigfús Eysteinsson.