1. Framangreind verkalýðsfélög og landssambönd ráða sameiginlega fulltrúa, sem gegni störfum yfirtrúnaðarmanns starfsmanna á hverju virkjunarsvæði gagnvart verktökum og Landsvirkjun. Ráðning þessa fulltrúa fari fram í samráði við Landsvirkjun.
Verkalýðsfélögin og viðkomandi landssambönd greiði laun þessa manns og taki þau mið af starfskjörum á vinnustað. Sömu launagreiðendur standi viðkomandi verkalýðsfélagi skil á launatengdum gjöldum hans vegna. Að öðru leyti skulu ákvæði aðalsamnings gilda um launakjör yfirtrúnaðarmanns.
2. Landsvirkjun leggur yfirtrúnaðarmanni til fullnægjandi starfsaðstöðu, þ.e. skrifstofuherbergi með nauðsynlegum húsgögnum, síma og tölvu með nettengingu (samanber ákvæði í samningi um trúnaðarmenn).
Landsvirkjun leggi yfirtrúnaðarmanni til herbergi með sér inngangi eða litla íbúð þannig að störf hans á hvaða tíma sólarhrings sem er valdi ekki ónæði.
3. Vegna kostnaðar af starfi yfirtrúnaðarmanns, greiði Landsvirkjun mánaðarlega skv. reikningi þann kostnað sem af starfskjörum hans leiðir. Um þetta skal gert nánara samkomulag.
4. Yfirtrúnaðarmaður skal gegna störfum í samræmi við gildandi venjur og lög um störf trúnaðarmanna. Vinna og viðverutími hans við virkjanir skal vera sá sami og almennur vinnutími annarra starfsmanna, þó skal yfirtrúnaðarmaður ætíð vera til staðar til trúnaðarmannsstarfa við upphaf og lok hvers vinnutímabils nema sérstakar ástæður, sem Landsvirkjun fellst á, hamli. Yfirtrúnaðarmaður skal ætíð tilkynna fjarvistir sínar frá vinnustað til Landsvirkjunar. Þurfi yfirtrúnaðarmaður ekki að nota fullan starfstíma vegna trúnaðarmannsstarfsins skulu samningsaðilar og hann í sameiningu ákveða honum verkefni, sem samræmist starfi hans sem yfirtrúnaðarmaður starfsmanna á vinnusvæðinu. Vinna umfram fastan vinnutíma skal fara eftir samkomulagi við Landsvirkjun.
5. Samninganefnd verkalýðsfélaganna og viðkomandi landssambanda fer með umboð gagnvart Landsvirkjun varðandi þetta „samkomulag“.
6. Ekki er talin ástæða til að ráða yfirtrúnaðarmann nema á þeim árstíma sem a.m.k. 200 starfsmenn verði á virkjunarsvæðinu. Ætla skal trúnaðarmanni hæfilegan tíma til undirbúnings starfsins.
7. Fyrir 1. apríl ár hvert skal gert samkomulag um framkvæmd þessa samkomulags.